12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Segja má að borið sé í bakkafullan lækinn að taka til við enn í kvöld hér á Alþingi að ræða Hafskipsmálið. Með þessum orðum er ég ekki á nokkurn máta að draga úr mikilvægi málsins. Það er hið alvarlegasta, bæði fyrir einstaklinga sem missa atvinnuna, fyrir Útvegsbankann og skuldheimtumenn alla og fyrir þjóðarbúið í heild. Það er einnig ákaflega alvarlegt ef þetta gjaldþrot verður til þess að flutningar til og frá landinu komast nálægt á eina hendi.

Hins vegar hefur margt verið sagt og skrifað nú þegar sem betur væri ósagt og margir bornir sökum, m.a. í skjóli þinghelgi, án þess að sekt væri sönnuð. Auk þess er málið nú komið í ákveðinn farveg og mikilvægast að rannsókn þess geti farið fram án hindrunar.

Þegar um gjaldþrotamál er að ræða tekur skiptaráðandi við allri meðferð máls samkvæmt lögum. Honum ber í fyrsta lagi að kanna allt það í rekstri fyrirtækisins sem getur hafa haft áhrif á þrotabúið og greiðslugetu þess. Er í því sambandi um að ræða hvers konar ráðstöfun fjármagns og skuldbindingar sem stjórnendur fyrirtækisins hafa gert á undanförnum árum. Það nær að sjálfsögðu m.a. til allra viðskipta fyrirtækisins við Útvegsbankann. Einnig er skiptaráðanda skylt að kanna hvern þann þátt sem telja má að saknæmur geti talist og vísa slíkum málum án tafar til saksóknara ríkisins til meðferðar.

Til þessa vandasama starfs hafa valist ungir og dugmiklir menn. Ég hef rætt um meðferð málsins við skiptaráðanda og ég er sannfærður um að þeir munu taka rösklega til hendi og vinna fljótt og vel þótt malið sé umfangsmikið.

Til þess að auðvelda störf skiptaráðanda hefur dómsmrh. jafnframt lagt fram hér á Alþingi frv. til l. sem heimilar skiptaráðanda að krefjast hverra þeirra upplýsinga sem hann telur nauðsynlegar án þess að milliganga rannsóknarlögreglu ríkisins þurfi til að koma, eins og lög gera nú ráð fyrir í ýmsum tilfellum. Þrátt fyrir þetta er ekki ólíklegt að skiptaráðandi telji sér ekki skylt eða rétt að athuga einhverja þætti þessa máls sem ekki hafa áhrif á þrotabúið eða geta beint talist saknæmir. Þó getur verið um atriði að ræða sem nauðsynlegt er að upplýsa. Ég lagði því til við ríkisstj. fimmtudaginn 5. þ.m. að ríkisstj. gæfi út yfirlýsingu um að hún mundi sjá til þess að allir þættir í viðskiptum Útvegsbankans og Hafskips verði upplýstir. Í því skyni lagði ég jafnframt til að skipaðir yrðu þrír sérfróðir menn til þess að fylgjast með og vinna með skiptaráðanda að máli þessu.

Í samræmi við þetta hefur viðskrh. nú lagt fram hér á Alþingi frv. til 1. þar sem Hæstarétti Íslands er falið að tilnefna umrædda rannsóknarnefnd. Í þessu frv. er einnig ákvæði sem heimilar nefndinni aðgang að öllum þeim upplýsingum, munnlegum og skriflegum, sem hún kann að telja þörf á að fá frá Útvegsbanka Íslands. Með því er bankaleynd aflétt í þessu máli.

Jóhanna Sigurðardóttir taldi í ræðu sinni áðan vafasamt að fela Hæstarétti að tilnefna menn þessa og kynni það að valda Hæstarétti vandræðum ef málin, sem mjög líklegt er, koma seinna til hans kasta. Þetta tel ég óþarfa áhyggjur. Hæstiréttur er á engan máta bundinn af þeim mönnum sem hann kann að tilnefna í þessa nefnd. Ljóst er jafnframt að þessir menn verða áreiðanlega ekki menn sem nátengdir eru Hæstarétti á nokkurn máta.

Nú er hér til umræðu að Alþingi sjálft kjósi rannsóknarnefnd. Því hefur jafnframt verið lýst yfir í umræðum hér á Alþingi að slík rannsóknarnefnd eigi að vinna fyrir opnum tjöldum. Á það leggur Ólafur Ragnar Grímsson mjög mikla áherslu. Jóhanna Sigurðardóttir segir hins vegar að nefnd sú sem hún og fleiri leggja til að kosin verði eigi ekki að vinna þannig.

Ég skal viðurkenna að mér þykir till. Jóhönnu Sigurðardóttur ólíkt geðfelldari en till. þeirra Alþýðubandalagsmanna sem virðist í fljótu bragði fyrst og fremst vera sýning ein. Ég hef hins vegar ákaflega litla trú á því að jafnvel sjö manna nefnd alþingismanna geti unnið fyrir lokuðum dyrum. Ég er nokkurn veginn viss um að sú rannsókn yrði a.m.k. hálfopin.

Ég er mótfallinn kosningu slíkrar nefndar. Ég tel það óþarft. Á sama máli eru allir þm. Framsfl. að einum undanteknum, Ólafi Þ. Þórðarsyni, sem er meðflm. að till. Jóhönnu Sigurðardóttur. Málið er í réttum farvegi hjá dómstólum og engin ástæða er til þess að vefengja þeirra meðferð á málinu, a.m.k. ekki í upphafi málsmeðferðar. Auk þess hefur ríkisstj. gert þær ráðstafanir sem ég hef þegar lýst og eiga að tryggja að málið verði að öllu leyti upplýst. Enn ein nefnd muni aðeins flækja málið og af rannsókn á hugsanlegu afbrotamáli fyrir opnum eða hálfopnum tjöldum gæti leitt mjög alvarlegt slys.

Ólafur Ragnar Grímsson heldur því fram að í raunverulegu réttarríki, eins og hann orðaði það áðan, sé sjálfsagt að slík rannsókn fari fram fyrir opnum tjöldum. Þetta er mikill misskilningur. Ég kannast ekki við neitt réttarríki þar sem rannsókn á afbrotamálum fer þannig fram. Með því móti væri verið að veita hugsanlegum sakborningum aðgang að upplýsingum sem fram kunna að nást frá vitnum. Þannig væri slíkum mönnum gefin eins konar viðvörun um það sem fram undan er í rannsókn málsins. Ég kannast t.d. ekki við það að rannsóknarlögregla ríkisins starfi þannig eða nokkrum hafi yfirleitt dottið það í hug.

Ólafur Ragnar Grímsson gat þess hér áðan að á Bandaríkjaþingi tíðkast mjög að kjósa rannsóknarnefndir og taldi hann það bera vitni um mikið lýðræði þar í landi. Ekki skal ég draga úr áliti þm. á miklu lýðræði í Bandaríkjunum. Hins vegar hygg ég að margir muni ósammála um það að þetta sé merki um meira lýðræði þar í landi en annars staðar ríkir. A.m.k. bera fjölmargir Bandaríkjamenn enn kinnroða út af störfum einnar slíkrar frægrar nefndar sem kennd var við McCarthy öldungadeildarþingmann og tók sér fyrir hendur að rannsaka það sem kallað var and-amerísk starfsemi. Fjölmargir virtir mennta- og vísindamenn og fleiri voru af þeirri nefnd bókstaflega sviptir mannorði og áttu sér margir hverjir ekki uppreisn þótt saklausir reyndust. Á Ólafur Ragnar Grímsson við að slík nefnd verði sett á fót hér? Gæti hann kannske hugsað sér að vera formaður þeirrar nefndar?

Ég segi því enn að slík opin eða hálfopin rannsóknarnefnd gæti hindrað mikilvæg störf skiptaráðanda og orðið að stóru slysi. Aðalatriðið er nú að veita skiptaráðanda frið til að starfa en fylgjast hins vegar vandlega með því að allir þættir málsins verði upplýstir. Það er ríkisstj. ákveðin að gera og hefur, eins og ég hef sagt, þegar gert ráðstafanir til að svo verði.

Raunar hef ég ekki mikið meira um þetta svonefnda Hafskipsmál að segja að svo komnu máli. Ég hef ekki áhuga á því að velta mér upp úr alls konar gróusögum sem sumir virðast mjög njóta. Við skulum halda í heiðri hið fornkveðna að enginn er sekur fyrr en sekt er sönnuð. Hins vegar er mikilvægt að rannsóknin gangi vel og fljótt og þeir sem sekir sannast verði dregnir til ábyrgðar.

Þetta mál vekur hins vegar til umhugsunar grundvallarþætti í íslenskum þjóðarbúskap. Í fyrsta lagi vil ég leyfa mér að vona að mönnum sé orðið ljóst að hið íslenska bankakerfi er allt of veikt, svo sundrað sem það er. Þegar árið 1973 lagði bankamálanefnd eindregið til að bönkum yrði fækkað með sameiningu og þeir einnig efldir. Um það hefur ekki náðst samstaða. Hjá þessu verður ekki komist lengur. Tillögur nýrrar bankamálanefndar liggja nú fyrir. Þær eru að vísu enn að ýmsu leyti óunnar. Um þær þarf að fjalla nánar á næstu vikum og á því ári sem í hönd fer er óhjákvæmilegt að framkvæma hagræðingu í bankakerfinu.

Ég hef oft lýst þeirri skoðun minni að sameina beri ríkisbankana alla. Mér er ljóst að ef sú yrði raunin þarf að flytja ýmis verkefni frá þeim til einkabanka sem einnig þarf að sameina. Í þessu eru að sjálfsögðu ýmsar millileiðir eins og t.d. sameining Útvegsbanka og Búnaðarbanka og til hagræðingar mætti til bráðabirgða setja sameiginlega stjórn yfir slíkan banka og Landsbanka Íslands. Mikilvægast er að stefna verði mörkuð og ákveðin stór skref þegar tekin þótt lokamarki verði ekki náð í fyrsta áfanga.

Um það er mikið talað að fleiri fyrirtæki eigi í fjárhagserfiðleikum. Ég efa það ekki. Í þessu landi höfum við Íslendingar allt frá stríðsárum búið við mjög óeðlilegt ástand í peningamálum. Fróðlegt er að skoða þá sögu.

Þótt þjóðarframleiðslan hafi aukist hér á landi mjög mikið að meðaltali á ári hverju, og jafnvel meira en í flestum öðrum löndum, þekki ég ekkert land sem hefur orðið að búa við þær gífurlegu sveiflur í þjóðarframleiðslunni sem við Íslendingar höfum orðið að þola. Frá stríðsárum ber hæst þrjú tímabil með u.þ.b. 15 ára millibili, þegar fiskafli hrundi og þjóðarframleiðslan féll verulega. Auk þess eru smærri sveiflur, einnig vegna aflabrests, viðskiptakjara o.s.frv. Það er umhugsunarvert að nánast í öllum slíkum tilfellum brúum við Íslendingar bilið með því að taka erlend lán og fella gengið. Slíkt getur að sjálfsögðu komið til greina í einstökum tilfellum en staðreyndin er sú að hjá okkur Íslendingum fara erlendar skuldir jafnt og þétt vaxandi, þegar yfir tímabilið allt er litið frá 1945 til 1983, og sömuleiðis verðbólgan. Á þessu tímabili mestöllu borgaði sig að taka lán, eins og sagt er, því að vextir voru neikvæðir. Menn skeyttu því þá heldur ekki þótt erlent fé væri tekið að láni og lánað út með neikvæðum vöxtum. Það fjármagn sem brann upp í verðbólgunni var gjarnan bætt með erlendri lántöku.

Að sjálfsögðu hefur mjög margt gott verið gert fyrir þetta erlenda fé. Uppbygging hefur verið mikil og við hefðum aldrei náð okkar miklu þjóðartekjum án mikillar fjárfestingar. Þetta er því ekki að öllu leyti illt. Því verður hins vegar alls ekki neitað að mjög mikið hefur verið um óarðbæra og vafasama fjárfestingu og e.t.v. er Hafskipsmálið eitt dæmi um það. Hverjum manni má vera ljóst að á þessari braut verður ekki lengur gengið. Erlendar skuldir verða ekki enn auknar og verðbólga verður að nást niður í svipað og hún er í okkar viðskiptalöndum. Við Íslendingar verðum að hætta að lifa á neikvæðum vöxtum og erlendri lántöku en byggja í þess stað á innlendum sparnaði og til þess verða vextir að vera jákvæðir.

Það er jafnframt einkennandi fyrir íslenskt atvinnulíf að eigið fjármagn er ákaflega lítið og í mörgum tilfellum ekkert. Svo hefur lengi verið, t.d. hjá því fyrirtæki sem er til umræðu hér í kvöld. Hagkvæmara var að taka lán en að leggja eigið fé í rekstur eða fjárfestingu yfirleitt. Þetta getur alls ekki gengið lengur þegar vextir eru orðnir jákvæðir og lánsfé auk þess u.þ.b. helmingur erlent og því háð gengisbreytingum og erlendum raunvöxtum. Mér kemur satt að segja alls ekki á óvart þótt mörg fyrirtæki með ekkert eigið fé, eða mjög lítið, lendi í erfiðleikum, þegar þau nú þurfa að greiða raunvexti af skuldum sínum. Ef reksturinn er ekki því arðbærari þola slík fyrirtæki engin áföll eða erfiðleika. Þetta eru hins vegar umbreytingar sem við Íslendingar verðum að ganga í gegnum. Þær verða ekki þrautalausar en eru óhjákvæmilegar. Stjórnvöld hafa og munu hins vegar leggja sig fram um að aðstoða þá sem erfiðast eiga með að aðlagast þessum breytingum sem mikilvægastar eru fyrir þjóðarbúskapinn. Ég á við aðila eins og húsbyggjendur og undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Ég segi hins vegar að til mikils er að vinna. Ég er mjög bjartsýnn á framtíð þessarar þjóðar. Ég er sannfærður um að möguleikarnir eru hér langtum meiri en við höfum í raun gert okkur grein fyrir. Með nýrri tækni má stórkostlega auka afköstin og bæta afkomuna og nýjar greinar atvinnulífs eru á næsta leiti.

Nýlega gengu á fund minn fulltrúar fjölmargra norskra fyrirtækja sem við fiskeldi eru riðin. Þeir héldu því fram að vel athuguðu máli, eins og þeir sögðu, að við Íslendingar gætum framleitt lax og annan eldisfisk fyrir langtum lægra verð en Norðmenn. Þeir fullyrtu að aðstæður hér á landi væru sérstakar vegna heita vatnsins og þess hve vatnið og sjórinn er hreinn. Þeir fullyrtu jafnframt að markaðurinn væri nánast óþrjótandi. Ef vel tekst til getur þessi grein ein, fiskeldið, orðið á fáum árum jafnmikilvæg og þorskveiðarnar eru nú.

Ég er einnig mjög bjartsýnn á framtíð ýmiss konar hátækniiðnaðar, nýrra búgreina og hins hefðbundna sjávarútvegs. Í raun sýnist mér að þessi þjóð með sín miklu náttúruauðæfi og mannkosti muni eiga glæsilega framtíð ef okkur tekst að koma efnahagsmálum þjóðarinnar á réttan kjöl. Það verður að takast. Án þess eru þetta skýjaborgir einar, en það getur ekki orðið þrautalaust. - Góða nótt.