23.10.1985
Neðri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun reyna að virða tilmæli virðulegs forseta um að taka ekki mikið af matartíma manna, en af því að grunur minn er sá að einhvers staðar í hliðarsölum sé hæstv. samgrh. ætla ég að beina til hans orðum mínum. Ég var ekki alveg sáttur við ýmislegt í hans ræðu hér áðan. Mér fannst satt best að segja lýsingar hæstv. ráðherra á aðdraganda deilunnar heldur loðmullulegar. Ég vildi einnig biðja hann um skýringar á ákveðnum hlutum sem fylgja með í athugasemdum við frv. þetta. Þannig segir t.d. í 1. línu athugasemdanna að ríkissáttasemjari hafi nú um hríð - hvaða hríð er það sem þar er átt við, herra forseti? - fjallað um vinnudeilu milli Flugleiða hf. og Flugfreyjufélags Íslands. Svo kemur í 2. línu: „Hann hefur haldið nokkra árangurslausa fundi...“ Er hægt að fá hjá hæstv. ráðherra svolítið nánari útlistun á þessu, hvernig aðdragandi deilunnar hefur verið og hvert hefur verið framlag ríkissáttasemjara? Þó væri enn þá fróðlegra að fá eitthvað um það hvernig fyrirtækið sem hér á í hlut, þ.e. Flugleiðir, hefur staðið að sínum hluta málsins, hvernig þær hafa nýtt þann tíma sem þessi kjaradeila hefur verið uppi. Það er nefnilega nauðsynlegt, herra forseti, að við hv. alþm. séum inni í staðreyndum málsins hvað þetta varðar ef til þess er ætlast að við afgreiðum hér frv. til 1. með þessum hætti.

Það er, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, í raun og veru verið að takast á um ákveðin grundvallaratriði, þ.e. í hvaða mæli, hvenær og hvernig hv. Alþingi á að skipta sér af kjaradeilum yfirleitt. Það má út af fyrir sig segja að þá skipti ekki öllu máli hvaða kaupkröfur eru þar uppi, hvaða prósentur, hvort það er vaktaálag eða eitthvað annað. Ákveðnar grundvallarreglur hljóta að gilda þegar löggjafinn grípur inn í vinnudeilur ef hann gerir það þá yfirleitt.

Það er út af fyrir sig umhugsunarefni, herra forseti, að hér á nú í hlut hæstv. samgrh. sem er flokksbundinn í Sjálfstfl. Sá flokkur hefur löngum kennt sig við þá stefnu að það skuli vera aðilar vinnumarkaðarins sem semji sjálfir um kaup og kjör. Þeir taka jafnvel stundum svo til orða að ríkisvaldið eigi ekki að vera að þvælast fyrir samningagerð í þjóðfélaginu. Nú skýtur skökku við þegar hæstv. samgrh. á fyrsta degi þessa verkfalls leggur fram frv. með þessum hætti. Það hljóta að þurfa að liggja fyrir gildar ástæður til þess að Alþingi grípi inn í kjaradeilur með þessum hætti, en ég er að því leyti ósammála hv. síðasta ræðumanni að ég tel að ef það á annað borð gerist þurfi menn að íhuga vandlega málsatvik þeirrar kjaradeilu. Það hlýtur að vera vegna þess að um alvarlegt mál er að ræða. Mér finnst satt best að segja, það lítur þannig út fyrir mér, herra forseti, að það hafi verið, með leyfi forseta, heldur þungur rassinn á hæstv. samgrh. í þessari deilu. Það hafi lítið af því heyrst að verið væri að koma á sáttum og hann væri að reyna að leggja því lið sitt. En síðan lýsir hann því fjálglega í ræðu hversu mikið sé í húfi í þessari deilu, hversu afdrifaríkt það sé nú, vegna þess m.a. að við búum á eyju, og síðan kom langur kafli um það í ræðu hæstv. ráðherra hvaða afleiðingar það hefði fyrir eina þjóð að búa á eyju.

Ég vil út af fyrir sig taka undir þá gagnrýni sem hér hefur verið fram sett, herra forseti, á þátt fjölmiðla í þessari deilu. Það er nokkuð sérkennilegt, raunar mátti skilja það á orðum hæstv. samgrh. að hann hafi eiginlega verið knúinn til þess, rekinn til þess vegna þrálátra spurninga fjölmiðla að grípa til lagasetningar í deilunni. En það er út af fyrir sig ekki til að greiða götu þessa máls á Alþingi þegar fram eru lagðar villandi ef ekki beinlínis rangar upplýsingar um eðli málsins. Ég held að það kalli enn frekar á það að sú nefnd, væntanlega hv. samgn. Nd., sem fær þetta mál til umfjöllunar hér á eftir, kynni sér sjálf ítarlega málsatvik deilunnar. Það er ekki hægt að mynda sér skoðun með eðlilegum hætti á málsatvikum miðað við þá villandi umfjöllun sem þetta mál hefur fengið í fjölmiðlum.

Ég vil því að lokum spyrja virðulegan forseta: Hverjar eru hugmyndir hans um framhald fundarins, hversu langt kvöldmatarhlé mun okkur þm. gefast og hvað verður þá skilið eftir til nefndarstarfanna ef meiningin er á annað borð að halda þessu máli fram hér í kvöld frekar en orðið er?