12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hvers vegna er tillaga hæstv. ríkisstj. um að skipa þriggja manna sérfræðinganefnd til að kanna óeðlilega viðskiptahætti í samskiptum Útvegsbanka og Hafskips, hvers vegna er hún fráleit? Og enn fráleitara að Hæstiréttur tilnefni í þessa nefnd?

Í fyrsta lagi. Framkvæmdavaldið getur ekki rannsakað sjálft sig. Það væri í sjálfu sér að bjóða upp á „hagsmunaárekstur.“

Í öðru lagi. Leiði rannsókn skiptaráðanda á gjaldþroti Hafskips til málaferla er hætt við að mörg þeirra mála lendi að lokum fyrir Hæstarétti. Þess vegna er það út í hött að Hæstiréttur gerist „pólitísk skúringartuska“ framkvæmdavaldsins í þessu máli - svo notuð séu orð eins bankastjóra Útvegsbankans af öðru tilefni.

Hvernig í ósköpunum gæti Hæstiréttur þá verið óhlutdrægur æðsti dómari í þessum málum ef og þegar til hans verður leitað á seinni stigum málsins?

Rökin fyrir því að Alþingi skipi þessa rannsóknarnefnd - en hvorki framkvæmdavaldið né Hæstiréttur - eru mörg og þau vega þungt:

Það kemur í hlut Alþingis að jafna tapi Útvegsbankans - hvort heldur það verður 10 eða 20 þús. kr. á fjölskyldu - niður á þjóðina, hvort heldur hæstv. fjmrh. vill viðurkenna það eða ekki. Þetta getur Alþingi sóma síns vegna ekki gert án þess að komast til botns í því áður hverjir bera ábyrgð á Útvegsbankaskattinum. Það er Alþingi sem á að gæta hagsmuna almennings, skattgreiðenda, í þessu máli. Það kemur í hlut Alþingis að taka ákvarðanir um hvað þurfi að gera, t.d. með lagasetningu, til að koma í veg fyrir að aðrir ríkisbankar fari sömu leiðina, sbr. ummæli hæstv. iðnrh. um það efni. Rannsóknarnefnd á vegum Alþingis væri því til staðfestingar því að Alþingi hefur eftirlitshlutverki að gegna með störfum framkvæmdavaldsins. Framkvæmdavaldið getur hvorki veitt sjálfu sér aðhald né rannsakað sjálft sig. Framkvæmdavaldið hefur ekki fjárveitingavald. Það getur því ekki án atbeina Alþingis gert neinar ráðstafanir til að rétta við fjárhag Útvegsbankans. Það er aðeins á valdi Alþingis sem fer með fjárveitingavaldið.

Upplýst er að Útvegsbankinn er kominn í gjörgæslu hjá Seðlabanka; að Útvegsbankinn mun að óbreyttu ekki standast ákvæði nýrra laga um viðskiptabanka, sem taka gildi um áramót; að ákvörðun um að leggja bankann niður, sameina hann öðrum ríkisbönkum eða einkabönkum, er í höndum Alþingis. Þessar ákvarðanir verða ekki teknar án atbeina Alþingis.

Það er skammt til áramóta. Rannsókn skiptaráðanda á gjaldþroti Hafskips hf. kemur þessu máli ekki við. Auk þess verður henni ekki lokið fyrr en um aldamótin 2000, sbr. fordæmi um slík mál.

Ákvarðanir um framtíð Útvegsbankans þola hins vegar enga bið. Þær ákvarðanir verður allar að leggja fyrir Alþingi. Það væri ósæmilegt ef Alþingi léti bjóða sér að taka slíkar ákvarðanir blindandi, án undanfarandi rannsóknar á því hverjir bera ábyrgð á óförum Útvegsbankans og Útvegsbankaskattinum sem nú kemur í hlut þjóðarinnar að greiða.

Tilgangurinn með starfi rannsóknarnefndar á vegum Alþingis, skv. þessari tillögu, er að koma í veg fyrir að svona atburðir endurtaki sig. Það verður ekki gert nema fyrir liggi hver ber ábyrgð á óförum Útvegsbankans. Hvers vegna var ekki gripið í taumana fyrr en eftir að skaðinn var skeður? Hver var hlutur viðskiptaráðherra? Leyndu Útvegsbankinn og Seðlabankinn hann réttum upplýsingum? Hver var hlutur formanns stjórnar Seðlabankans? - Hann er yfirmaður bankaeftirlitsins og um leið var hann einn af bankastjórum Útvegsbankans. - Hver var hlutur bankaeftirlits, bankastjórnar Útvegsbankans og hins þingkjörna bankaráðs sem bundið er bankaleynd? Allt eru þetta framkvæmdavaldsaðilar. Hvernig dettur mönnum í hug að framkvæmdavaldið geti rannsakað sjálft sig, svo að mark sé á tekið?

Í Morgunblaðinu í dag er frá því skýrt að lögregluþjónn, sem gaf fanga á kjaftinn, var látinn víkja úr starfi skv. úrskurði lögreglustjóra meðan rannsókn færi fram. Ég spyr, herra forseti: Þegar þjóðinni er gefið á 'ann, á þá umboðsaðili þjóðarinnar, Alþingi, að víkja, en þeir sem gefa þjóðinni á 'ann, að framkvæma rannsókn á sjálfum sér? Þarf ég að endurtaka það: Hæstiréttur Íslands á að vera yfir það hafinn að vera „pólitísk skúringartuska“ framkvæmdavaldsins. Þess vegna eru tillögur ríkisstj. ósamboðnar virðingu Alþingis. Þess vegna ber Alþingi að sjá sóma sinn í því að samþykkja þessa tillögu.

Tillagan, sem hér liggur fyrir, snýst um rannsókn á ábyrgð framkvæmdavaldsins á hruni Útvegsbankans og, eins og sagt hefur verið, hún þolir ekki bið.

Hún snýst líka um yfirtöku Eimskips á eignum Hafskips; hvort fyrirliggjandi tilboð Eimskips tryggi nægilega vel hagsmuni Útvegsbankans - og þar með skattgreiðenda; samkeppni í millilandaflutningum framvegis og þar með að einokun Eimskips kalli ekki yfir þjóðina nýjan aukaskatt í formi hækkaðra farmgjalda og hækkaðs vöruverðs; og hún snýst um atvinnuöryggi fyrrverandi starfsmanna Hafskips.

Komist Eimskipafélagið upp með að einoka alla hafnaraðstöðu í Reykjavík kann það að útiloka að menn bindist samtökum um stofnun nýs skipafélags í samkeppni við Eimskip. En atvinnumöguleikar fyrrverandi starfsfólks Hafskips geta verið undir því komnir.

Ég bið menn um að rugla ekki saman þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og tillögu þeirra Alþýðubandalagsmanna. Tillaga Alþýðubandalagsmanna snýst um rannsókn á Hafskipi hf. sem þegar er í rannsókn skiptaráðanda; hún snýst líka um rannsókn á öðrum fyrirtækjum, innlendum og erlendum; og um tengsl forustumanna Sjálfstfl. og Hafskips hf. Sú tillaga á að fara fram í „Watergate-stíl“ - e.t.v. í sjónvarpi. Það kann að vera álitamál hvort sú tillaga er fremur um rannsókn eða um ofsókn. En sú tillaga er bara ekki hér á dagskrá. Við ræðum hana síðar.

Herra forseti. Ég endurtek: Rannsóknarnefnd á vegum ríkisstjórnar og ráðherra býður enn upp á „hagsmunaárekstur“.

Hæstv. iðnrh. hefur legið undir ámæli hér á Alþingi fyrir að hafa gert sig sekan um slíkan hagsmunaárekstur sem stjórnarformaður banka og skipafélags samtímis. Þeir sem leiddu hann í þá freistni á sínum tíma, stjórnarliðar fyrrv. ríkisstj., eiga þar líka sína sök. En því hefur aldrei verið haldið fram hér á Alþingi að hæstv. iðnrh. hafi þar með gert sig sekan um lögbrot eða „refsivert athæfi“.

Hagsmunaárekstur þykir nægilega alvarlegt mál með öðrum þjóðum til þess að settar séu stjórnsýslureglur til að koma í veg fyrir að hann eigi sér stað. Hér á landi er engum slíkum lögum til að dreifa. Þetta er því ekki spurning um lögbrot. Það er þess vegna ekki í verkahring saksóknara ríkisins að kveða upp salomonsdóm um rétt eða rangt, um pólitískt siðgæði eða siðleysi. Um þennan þátt málsins má einfaldlega segja: Það er löglegt en kannske siðlaust. En krafan um að einstakir aðilar framkvæmdavaldsins víki sæti meðan rannsókn málsins fer fram fær að sjálfsögðu margfaldan þunga ef rannsóknarnefndin á að vera skipuð af framkvæmdavaldinu sjálfu.

Þá er það ekki lengur spurning um að hæstv. iðnrh. víki sæti, eins og Samband ungra framsóknarmanna hefur gert kröfu um og hæstv. forsrh. reyndar ýjaði að í útvarpsfréttum s.l. föstudag, þann 6. desember, en þá sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Hann [forsrh.] telur á hinn bóginn að skiptaráðandi muni t.d. ekki rannsaka þær dylgjur sem bornar hafa verið á Albert Guðmundsson vegna hlutdeildar hans í málinu. Steingrímur segir að hann muni ekki una því að ráðherra í sínu ráðuneyti sé borinn slíkum sökum og því þurfi að fara fram rannsókn sem hreinsi Albert Guðmundsson af þessum ásökunum.“

Saksóknari ríkisins framkvæmir ekki slíka rannsókn og hún fer ekki fram hjá skiptaráðanda heldur, hæstv. forsrh. Krafan um það að menn víki sæti á alls ekki aðeins við um hæstv. iðnrh. Hún á ekki síður við um fyrrv. viðskrh. og hlut hans í málinu; um formann bankastjórnar Seðlabankans, sem áður gegndi starfi bankastjóra Útvegsbankans og getur því ekki rannsakað sjálfan sig; um bankastjórn Útvegsbankans og um hið þingkjörna bankaráð. Þá er það sjálfsögð krafa að allir þessir aðilar víki úr starfi meðan hin þingkjörna rannsóknarnefnd lýkur starfi sínu. Það er nefnilega laukrétt hjá hæstv. forsrh.: Menn eiga að vera jafnir fyrir lögum. Það á eitt og hið sama yfir alla að ganga. Það er og á að vera grundvallarregla í réttarríki að enginn sé sakfelldur fyrir fram. Það á líka að vera almenn regla að handhafar framkvæmdavalds, sem orðið hafa á mistök í starfi og varðar almannahag, víki sæti meðan eftirlitsaðili framkvæmdavaldsins lýkur rannsókn málsins. Það þarf að vera hafið yfir allan efa að handhafar framkvæmdavaldsins geti ekki með nokkru móti haft áhrif á niðurstöður rannsóknarinnar. Þess vegna er eðlilegt að Alþingi afturkalli umboð sitt til bankaráðs Útvegsbankans.

Ég minni á Alþýðubankamálið 1975. Þá var brugðið hart við og bankastjórnin sett af, en Seðlabankinn yfirtók rekstur bankans. Það var gert með þeim rökum að endurreisa þyrfti traust bankans. Á það síður við nú?

Herra forseti. Afleiðingar þessa máls eru afdrifaríkar og varða allan almenning í landinu. Traust almennings á ríkisbönkum hefur beðið hnekki. Lánstraust okkar erlendis kann að hafa beðið hnekki. Skattgreiðendur hafa orðið fyrir miklum skaða. Hundruð manna hafa misst atvinnu sína. Á því er hætta að Eimskipafélagið endurheimti einokun á flutningum til og frá landinu sem getur þýtt nýjan aukaskatt á þjóðina í formi hærra vöruverðs.

Það kemur til kasta Alþingis á næstu dögum að taka ákvarðanir um líf eða dauða Útvegsbankans, hvort leggja eigi hann niður eða sameina öðrum. Það kemur til kasta Alþingis að draga réttan lærdóm af óförum. Það getum við því aðeins gert að Alþingi eigi þess kost að rannsaka þau mistök framkvæmdavaldsins sem hér hafa átt sér stað. Eigum við að auka sjálfstæði bankaeftirlitsins? Eigum við að afnema ríkisábyrgð bankanna? Eigum við að reka alþm. út úr bankaráðum - eins og Alþýðuflokkurinn fyrir sitt leyti hefur fyrir löngu gert? Þurfum við að breyta lögum um viðskiptabanka, sem taka eiga gildi um áramót, í veigamiklum atriðum?

BJ hefur gert tillögu um að viðskiptaráðherra skipi í bankaráð. Mín skoðun er sú að það væri að fara úr öskunni í eldinn. Nær væri að stíga skrefið til fulls og taka ákvörðun um að leggja ríkisbankana niður í núverandi mynd og gera þá að almenningshlutafélögum og láta á það reyna hvort þingmeirihluti er hér fyrir því.

Herra forseti. Um það er ekki lengur deilt að gjaldþrot Hafskips hf. og hrun Útvegsbankans kalla á rannsókn. Það er forsenda þess að Alþingi geti dregið rökrétta lærdóma af mistökum framkvæmdavaldsins. Spurningin er bara hvernig.

Í mínum huga vega þungt þau orð Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi leiðtoga Sjálfstfl. og eins virtasta lögfræðings þjóðarinnar fyrr og síðar, orð sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði til hér áðan og ég fer með orðrétt, með leyfi forseta:

„Almenningur á heimtingu á því, að hér sé gengið alveg milli bols og höfuðs á spillingu, ef um spillingu er að ræða, og ef um ósannan söguburð er að ræða, þá eiga þeir, sem fyrir röngum sökum eru hafðir, einnig rétt á því að vera hreinsaðir.“

Þessi orð mælti hinn virti leiðtogi um leið og hann fagnaði skipan rannsóknarnefndar á vegum þingsins til þess að rannsaka okurlánastarfsemi árið 1956.

Á sínum tíma mátti heita að orð Bjarna Benediktssonar væru lög í Sjálfstfl. Hvað hefur breyst? Er nú Snorrabúð stekkur?