12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ungir og gamlir, konur og karlar.

Ég kann ekki við það hér í þessum umræðum eða í fyrri umfjöllun Hafskipsmálsins á Alþingi, eða í fjölmiðlum, þegar látið er í það skína að þetta mikla gjaldþrot, orsakir þess og afleiðingar, snerti menn með mismunandi hætti eftir því hvaða lífsskoðun eða stjórnmálaskoðun þeir hafa. Þetta gjaldþrot og aðdragandi þess er eingöngu viðskiptalegs eðlis. Siglingar á alheimsmarkaði eru áhættusamur atvinnurekstur, m.a.s. mjög áhættusamur - ekki síst á síðustu árum - eins og menn geta fengið sannar spurnir af, t.d. í Noregi eða Svíþjóð, þar sem mörg skipafélög hafa staðið höllum fæti eða jafnvel orðið gjaldþrota, eins og við fengum fréttir af í dag. Gleggsta dæmið er kannske japanska skipafélagið Sanko, eitt stærsta skipafélag í heimi, en það lagði upp laupana fyrr á þessu ári.

Þessi ummæli mín mega ekki skiljast svo að ég sé á einn eða annan hátt að bera í bætifláka fyrir gjaldþrot Hafskips. Enginn skilji orð mín svo. Þvert á móti tel ég að eitt hið allra fyrsta, sem skiptarétturinn hljóti að taka til meðferðar, sé einmitt þetta atriði, hvers vegna stjórnendur Hafskips gáfu ekki bú sitt upp til gjaldþrotaskipta fyrr, eða um leið og þeir sáu fram á að þeir myndu ekki að fullu geta staðið í skilum við lánardrottna sína. En sú skylda er ótvíræð samkvæmt gjaldþrotalögum. Því miður höfum við um það önnur dæmi, líka á þessu ári, að þessi skylda sé ekki virt. Gjaldþrot Hafskips er það stórt í sniðum að ég vil leyfa mér að vona að það geti orðið öðrum lærdómur og áminning í þessum efnum.

Kjarni málsins er sá nú að skaðinn er orðinn og aðalatriðið að kanna til hlítar hvernig á honum stendur og hvort hér sé um víðtækari meinsemd í fjármálalífi okkar að ræða en við höfum áður gert okkur grein fyrir. Og leiðir maður þá ósjálfrátt hugann að okurmálinu svonefnda og þeirri fjármálaspillingu sem því er tengt.

Það getur auðvitað ekki komið neinum á óvart þótt þessi mál bæði komi til umræðu hér í sölum Alþingis. Í kringum þau hafa spunnist margs konar sögusagnir um refsivert athæfi og spillingu, og eins og þjóðinni er kunnugt, hafa nöfn einstakra manna og fyrirtækja verið nefnd í því sambandi. Það hefur m.a.s. verið fullyrt í fjölmiðlum og endurtekið hér í sölum Alþingis að inn í Hafskipsmálið blandist undanskot á fé og að reikningar fyrirtækisins hafi vitandi vits gefið ranga mynd af raunverulegri rekstrar- og eignarstöðu. Að minni hyggju hlýtur þetta atriði að koma til sérstakrar athugunar fyrir skiptarétti og vil ég í því sambandi vekja athygli á 4. tölul. 88. gr. gjaldþrotalaga, en þar segir:

„Telji skiptaráðandi, að þrotamaður eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi, skal hann tilkynna það ríkissaksóknara, sem kveður á um rannsókn málsins. Sú rannsókn skal fara fram að hætti opinberra mála.“

Enn afdráttarlausari er skylda bústjóra í þessum efnum.

Þegar það er jafnframt haft í huga að skiptafundir eru öllum opnir og að kröfuhafar og hluthafar hafa málfrelsi og tillögurétt á dómþingi fæ ég ekki betur séð en undandráttarlaus rannsókn á málefnum Hafskips eigi að vera eins trygg og hægt er af löggjafans hálfu.

Og þó svo að þetta liggi fyrir leyfir Ólafur Ragnar Grímsson sér gegn betri vitund að halda því fram að Sjálfstfl. vilji koma í veg fyrir opna rannsókn í málinu öllu, einmitt þegar fyrir liggur að rannsóknin verður í heyranda hljóði og öllum opin. Hvernig getur Jón Baldvin Hannibalsson gefið í skyn og síendurtekið að rannsóknin sé á vegum framkvæmdavaldsins, þegar hann veit að hún er í höndum dómstólanna, ef hann ber virðingu fyrir sjálfum sér og sínum orðum?

Ég hef orðið var við og það hefur heyrst í þessum umræðum að ýmsir halda að svonefnd bankaleynd kunni að geta torveldað rannsókn Hafskipsmálsins. Þetta er mikill misskilningur. Skiptarétturinn hefur alla reikninga og skjöl Hafskips í sínum höndum og fyrir því eru bæði gamlir og nýir dómsúrskurðir að bönkum sé skylt að gefa allar upplýsingar um leið og grunur hefur vaknað um sviksamlegt athæfi.

Eins og meðferð Matthíasar Bjarnasonar á Hafskipsmálinu ber með sér sættir Sjálfstfl. sig ekki við annað en að öll viðskipti Útvegsbankans við Hafskip verði könnuð ofan í kjölinn. Líka það hvort bankinn hafi vísvitandi blekkt viðskrh. og þar með Alþingi, eins og Guðmundur Einarsson ýjaði að hér áðan. Ég er sammála stjórnarandstöðunni um að til þess að eyða tortryggni og kveða niður sögusagnir og rógburð sé nauðsynlegt að þessi rannsókn sé í höndum hlutlauss og óvilhalls aðila sem er óháður framkvæmdavaldinu.

Auðvitað er sú skoðun gild, og hefur við ákveðin rök að styðjast, að slík rannsókn sé í höndum þingsins eins og hér er tillaga um. Gallinn er bara sá að slík þingmannanefnd verður í úrvinnslu gagna að treysta á aðra, ráða til sín sérfræðinga til að vinna verkið og reynslan sýnir að slíkar nefndir hafa reynst þungar í vöfum og tímafrekar. Einmitt af þeim ástæðum, til að flýta rannsókninni og fá staðreyndirnar á borðið sem fyrst, hafa stjórnarflokkarnir orðið ásáttir um aðra lausn, þá að Hæstiréttur skipi þrjá menn til að kanna viðskipti Útvegsbankans og Hafskips, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Jafnframt hefur Albert Guðmundsson skrifað ríkissaksóknara bréf þar sem hann biður um réttarrannsókn á starfi sínu sem formaður bankaráðs Útvegsbankans með tilliti til Hafskips. Það sýnir að hann telur málstað sinn slíkan að hann verði sterkastur með því að allt liggi hreint fyrir í málinu. Ég veitti því athygli að Jóhanna Sigurðardóttir taldi í sínu máli að hann hefði þar farið rétt að og til fyrirmyndar.

Stjórnarandstaðan - og þó einkum Ólafur Ragnar Grímsson - hefur reynt að gera Sjálfstfl. tortryggilegan vegna þess að ekki sé rétt að sami maður gegni samtímis þessum tveim trúnaðarstörfum, að vera formaður bankaráðs og formaður stjórnar eins stærsta viðskiptafyrirtækis bankans. Ef við göngum út frá að þessi gagnrýni sé réttmæt liggur næst fyrir að spyrja hverjir beri ábyrgðina. Hverjir báðu Albert Guðmundsson að taka að sér þetta trúnaðarstarf? Og þá kemur í ljós að það var Ólafur Ragnar Grímsson sjálfur og sú ríkisstjórn sem hann studdi, ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, og Tómas Árnason, Framsóknarflokki, skipaði Albert í starfið. Á herðum þessara manna hvílir ábyrgðin og undan henni geta þeir ekki skotist. Hafi þeir gert rangt dugir ekki að kenna öðrum um. Í þessum efnum sem öðrum er við sjálfan sig að sakast.

Nú er það að vísu rétt að Albert Guðmundsson skýrði þingflokki Sjálfstfl. frá þessari niðurstöðu. En hann var ekki í bankaráði Útvegsbankans með tilstyrk þingflokksins, heldur valinn af þeim sjálfstæðismönnum, sem ríkisstjórnina studdu, þó svo að Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið að gefa annað í skyn hér áðan og gegn betri vitund, eins og oft endranær.

Þetta er nauðsynlegt að fram komi um leið og ég ítreka að ég tel að Albert Guðmundsson hafi brugðist rétt við og einarðlega þegar hann bað um réttarrannsókn á störfum sínum í bankaráði Útvegsbankans. Það sýnir að hann telur sig saklausan af þeim dylgjum og ásökunum sem á hann hafa verið bornar og renna yfirlýsingar bankastjóra Útvegsbankans frá þessum tíma stoðum undir að Albert fari þar með rétt mál.

Það er einn þáttur í þessu máli sem óhjákvæmilegt er að gera sérstök skil. Það eru linnulausar tilraunir stjórnmálamanna í öðrum flokkum til að sverta Sjálfstæðisflokkinn með Hafskipsmálinu. Þannig segir í grg. með þáltill. þm. Alþb.: „Vitað er að margir forustumenn Sjálfstfl., á Alþingi, í ríkisstjórn, í flokksfélögum, fulltrúaráðum og kjördæmasamböndum, hafa gegnt trúnaðar- og ábyrgðarstörfum á vegum Hafskips og vekur það margvíslegar spurningar um hugsanlega misnotkun á pólitískri aðstöðu.“ Í ræðu sinni hér áðan nafngreindi Ólafur Ragnar Grímsson einstaka menn í þessu sambandi.

Nú er ég ekki málafylgjumaður sömu gerðar og Ólafur Ragnar Grímsson og reyni ekki að réttlæta orð mín og athafnir með því að tilgangurinn helgi meðalið, enda er uppistaðan í mínum málflutningi hvorki dylgjur né hálfsagðar sögur. En í þessu sambandi er samt óhugsandi annað en að rifja upp að ýmis fyrirtæki hér á landi hafa átt í rekstrarörðugleikum og hafa opinberir sjóðir tapað fé sem ekki verður mælt í milljónum eða tugum milljóna, heldur hundruðum milljóna. Það skyldi þó aldrei vera að einhver sem þar kemur við sögu sé í flokksfélagi, í fulltrúaráði, í kjördæmasambandi eða jafnvel í framboði fyrir Alþb.?

Ég man ekki betur en Eimskipafélag Íslands hafi löngum verið kallað óskabarn íhaldsins hér í þingsölum af Ólafi Ragnari Grímssyni og hans nótum. En eins og menn vita var Hafskip stofnað því til höfuðs. Og menn muna að Valur Arnþórsson, forstjóri KEA og stjórnarformaður SÍS, hefur mjög varað við því að Eimskipafélagið fái nú einokunaraðstöðu og má hann gerst vita hvað hægt er að gera þegar menn komast í slíka aðstöðu.

En því vek ég athygli á þessu að ógerningur er að taka mark á mönnum eða málflutningi sem heldur því fram annan daginn að Sjálfstfl. hafi viljað efla Eimskipafélagið með óeðlilegum hætti til að knésetja Hafskip, en hinn að Sjálfstfl. og Hafskip sé eitt og hið sama - allt eftir því hvaðan vindurinn blæs. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfan dauðan og ómerkan.

Góðir hlustendur. Saga Sjálfstfl. sýnir að hann hefur jafnan krafist þess að löggjöf og réttargæsla sé með þeim hætti að stuðli að eðlilegum viðskiptaháttum og heilbrigðu mannlífi. Við viljum að allir séu jafnir fyrir lögunum og við viljum að menn séu ábyrgir fyrir gerðum sínum og athöfnum. Það er vegna þessarar grundvallarlífsskoðunar sjálfstæðismanna sem Sjálfstfl. hefur ævinlega verið harðastur allra flokka í kröfunni um að réttlætið gangi fram og sannleikurinn komi í ljós hver sem í hlut á.

Sú leið sem við höfum valið til að upplýsa alla þætti Hafskipsmálsins, við sjálfstæðismenn, var valin vegna þess að við trúum því að hún sé fljótvirkust og líklegust til að sannleikurinn komi í ljós, til að hreinsa andrúmsloftið og eyða þeim sögusögnum sem ganga ljósum logum. Þessi krafa um tafarlausa rannsókn, sem taki til allra þátta Hafskipsmálsins, er borin fram undir okkar gamla kjörorði, og það skulu vera síðustu orð mín hér í kvöld: Gjör rétt, þol ei órétt.