12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það var rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að sú ræða sem hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., flutti var merkileg fyrir margra hluta sakir. M.a. kom fram í þeirri ræðu að það hefði verið Framsfl. sem gerði tillögu eða kröfu um það að Hæstiréttur veldi þá þrjá menn sem ríkisstj. ætlar að láta rannsaka viðskiptaþætti Hafskipsmálsins. Það er vissulega þakkarvert að samskiptamál ríkisstjórnarflokkanna um þetta efnisatriði skuli upplýsast með þessum hætti hér, einkum og sér í lagi þegar ýmsir talsmenn Sjálfstfl. í þessari umræðu hafa viljað eigna sér eða gera mikið úr þessu atriði.

Ég vildi óska eftir því við hv. þm. Pál Pétursson eða fulltrúa Sjálfstfl. í þessari umræðu að þeir upplýsi á sama hátt hver var tillaga Sjálfstfl. í ríkisstj. um hvernig með málið yrði farið. Það hefur komið fram áður á opinberum vettvangi að hæstv. viðskrh. vildi láta skiptaráðandann einan duga og ekkert annað. Var það sú tillaga sem Sjálfstfl. flutti í ríkisstj.? Var það Framsfl. sem fékk Sjálfstfl. til þess að fara inn á þessa leið, sem lýst er í frv. sem lagt hefur verið fram hér á hv. Alþingi í dag, eða gerðist það með einhverjum öðrum hætti? Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til þess að biðja talsmenn Sjálfstfl. eða hv. þm. Pál Pétursson að gera skýra grein fyrir því hver tillaga Sjálfstfl. var fyrst þetta var tillaga Framsfl., eða hafði hann enga tillögu í málinu?