12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Páll Pétursson:

Herra forseti. Varðandi spurningar hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar get ég upplýst að hæstv. forsrh. bar fram tillögu um rannsókn á ríkisstjórnarfundi. Hún var studd og samþykkt af viðstöddum ráðherrum, m.a. formanni Sjálfstfl., Þorsteini Pálssyni. Viðskrh. lagði hins vegar til samkvæmt blaðafregnum að skiptaráðanda yrði einum falin meðferð málsins. Niðurstaðan var sem sagt þessi að tillaga forsrh. varð ofan á.

Ég er vanbúinn að svara flestum af hinum dramatísku spurningum hv. þm. Halldórs Blöndals. Ég veit þetta ekki. Þetta er ekki mín deild. Ég fæ ekki fregnir af kaffibaunamáli ellegar þessu endurtryggingamáli og hv. þm. fer í geitahús að leita ullar að spyrja mig um það og ætti hann að leita einhvers staðar annars staðar fyrir sér. Hvað varðar tengsl SÍS við Framsfl. eru þau nokkuð losaraleg að mínum dómi. Framsóknarmenn vilja samvinnuhreyfingunni vel. Sumir forustumenn samvinnuhreyfingarinnar eru framsóknarmenn. Ég hef engar auglýsingar talið í NT, hvorki frá kaupfélögum né SÍS. Hins vegar veit ég ekki betur en auglýsingastjóri Sambandsins sé formaður hverfafélags sjálfstæðismanna í Breiðholts- og Fellahverfi.