13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

1. mál, fjárlög 1986

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka meðnm. fyrir gott samstarf og þá sér í lagi formanni nefndarinnar fyrir gott og þolinmótt samstarf. Einnig vil ég þakka ritara nefndarinnar og starfsfólki Hagsýslustofnunar fyrir einkanlega gott samstarf.

Á síðastliðnu ári ákváðu fulltrúar minni hl. fjvn. að lýsa því yfir að þeir teldu að fresta ætti afgreiðslu fjárlaga. Einnig lýstu þeir sig reiðubúna til þess að leggja í það vinnu með meiri hl. fjvn. að endurskoða þær ákvarðanir sem fólust í þeirri afgreiðslu fjárlaga sem ríkisstjórnarflokkarnir stóðu að.

Fulltrúar minni hl. töldu sig ekki geta staðið að fjárlagafrv. sem boðaði yfir 743 millj. kr. halla. Við töldum að leita ætti nýrra leiða. Ef ekki næðist fram sparnaður þá með tekjuöflun til þess að niðurstaða fjárlaga væri á þann veg að rekstrarafkoma ríkissjóðs væri betur tryggð og meiri gætni sýnd gagnvart skuldasöfnun. Þessari tillögu minni hl. fjvn. var hafnað.

Í ár blasir við að halli ríkissjóðs á þessu ári verður ekki rúmlega 700 millj. kr. heldur 2500-2700 millj. kr., eins og komið hefur fram hjá ræðumönnum sem talað hafa á undan mér. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir þjóð sem er sokkin upp fyrir mitti í skuldasúpunni. Þetta eru alvarleg tíðindi þegar við stefnum í mesta aflaár í sögu landsins. Aukinn halli á ríkissjóði leiðir til aukinnar erlendrar lántöku, en yfirlýst stefna ríkisvaldsins er að sporna gegn erlendri skuldasöfnun.

Hvað segir í frv. á bls. 300, með leyfi hæstv. forseta: „Yfirlýst stefna stjórnvalda er að sporna gegn erlendri skuldasöfnun með því að takmarka erlendar lántökur við afborganir af eldri lánum. Í þessu felst að engu er fórnað af nútíðargæðum með innlendum sparnaði til að greiða niður útgjöld fyrri ára. Hins vegar verður ekki komist hjá því að standa undir vöxtum af uppsafnaða skuldavandanum. Til að mynda eru nettóvaxtagreiðslur til útlanda áætlaðar 6000 millj. kr. á árinu 1986, en það jafngildir 4,9% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins. Vaxtakjör og heildarvaxtagreiðslur af erlendum skuldum ákvarða því í veigamiklu tilliti hvað þjóðfélagið þarf að leggja til hliðar hverju sinni og er ekki til skiptanna.“

Í fjárlagafrv. segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárlagafrv. það sem nú er lagt fram einkennist af áframhaldandi viðleitni ríkisstj. til þess að draga úr þenslu í þjóðarbúskapnum og sporna þar með gegn viðskiptahalla og verðbólgu, ná jafnvægi í fjármálum ríkisins og hamla gegn vexti opinberra umsvifa.

Þótt verulegur árangur hafi náðst í efnahagsmálum á undanförnum tveimur árum, ekki síst í baráttu við verðbólgu, skortir þó enn nokkuð á til þess að nægjanlegur stöðugleiki sé í hagkerfinu og varanlegt jafnvægi hafi náðst. Verðbólga er meiri en í viðskipta- og samkeppnislöndum Íslendinga og viðskiptahalli og þar með erlendar lántökur meiri en við verður unað til frambúðar. Mjög náið samhengi er á milli þessara þátta efnahagslífsins og hins opinbera búskapar. Þess vegna skiptir meginmáli að stjórn ríkisfjármála sé með þeim hætti að hún styðji við bakið á viðleitni stjórnvalda í glímunni við þau vandamál sem hér hafa verið nefnd.“

Þetta eru vissulega góð áform. En hefur þeim verið fylgt eftir af stjórnvöldum? Það er langt frá því að erlendri skuldasöfnun sé haldið innan skynsamlegra marka. Erlend skuldasöfnun er sífellt að aukast.

Í kafla í grg. frv. um erlendar lántökur og greiðslujöfnuð árið 1985 er áætlað að inn komin erlend lán til lengri tíma en eins árs muni nema 7825 millj. kr. á áætluðu meðalgengi ársins á móti 7196 millj. kr. samkvæmt lánsfjárlögum. Afborganir af löngum lánum á árinu eru aftur á móti áætlaðar 4,5 milljarðar og er aukningin því 3325 millj. kr. eða 7% af áætluðum útflutningstekjum - eða 3% af áætlaðri landsframleiðslu.

Enn fremur segir að áformaðar erlendar lántökur á árinu 1986 nemi 7936 millj. kr., og afborganir af löngum lánum eru áætlaðar 5870 millj. kr. Skuldir gagnvart útlöndum aukast því um 2066 millj. kr. Þessi aukning jafngildir 4% af áætluðum útflutningstekjum og um 1,7% af áætlaðri landsframleiðslu. Viðskiptahalli á árinu 1986 er í þjóðhagsspá talinn geta orðið um 4,3 milljarðar. Því þarf nettó innstreymi á öðrum liðum fjármagnsjafnaðar af löngum lántökum að nema 2234 millj. kr. til þess að jafna viðskiptahallann án þess að rýra gjaldeyrisstöðuna.

Samkvæmt áætlun er einnig áætlað að skammtímalán aukist um 4300 millj. kr. á árinu 1985 og verði alls 13 milljarðar í árslok. Erlendar skammtímaskuldir verða því um 12% af vergri landsframleiðslu á árinu 1985 en voru 8,3% 1984. Og svo skulum við halda áfram að ræða um að við séum að lækka uppsöfnun á erlendum skuldum.

Enn fremur er bent á í grg. með þessu frv. að skuldavandinn, sem oftast hefur verið túlkaður í formi langra erlendra lána, verði ekki leystur án markvissrar umfjöllunar um skammtímalántökur þjóðarinnar. Það er oft svo að skammtímalánum er breytt í löng erlend lán. Þess vegna verður að taka allar þessar upphæðir inn í myndina þegar rætt er um erlenda skuldasöfnun.

Öflugasta hagstjórnartæki hverrar ríkisstjórnar eru fjárlög, enda endurspegla þau stefnu og áherslur ríkisstjórnarinnar. Það frv. sem hér liggur fyrir ber þess glögg merki að ríkisstj. hefur gefist upp á þeim áformum sínum að draga úr ríkisforsjá í atvinnufyrirtækjum. Aftur á móti dregur ríkisstj. úr framlagi til uppbyggingar á sviði heilsugæslu, sjúkrahúsa, skóla, hafnarframkvæmda og fleiri verkefna.

Vextir af erlendum lánum, eins og ég sagði hér áðan, nema um 6000 millj. kr. Það er um 1 milljarði hærri upphæð en fer til fræðslu- og menningarmála á vegum menntmrn. á árinu 1986. Ríkisstj. hefur ekki reynt að bregðast við þessum síaukna vanda þrátt fyrir fögur fyrirheit. Það gengur ekki lengur að láta reka á reiðanum og láta börn þessa lands taka við þeim vandamálum sem ríkisstjórnir skilja eftir sig hver á fætur annarri. Tap þjóðarinnar vegna Kröfluvirkjunar nemur nú yfir 2000 millj. kr. og fellur beint á ríkissjóð. Auk þess er orðin tímaspurning hvenær ríkissjóður þarf að taka yfir skuldir Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, sem nema yfir 3000 millj. kr. Ofan á þetta bætist svo Hafskipsævintýrið sem mikið hefur verið rætt um á undanförnum dögum.

Mörg fleiri dæmi má nefna sem ég ætla ekki að telja upp. Einnig má minna á margar þær framkvæmdir sem standa nú hálfbyggðar, ónýttar, en safna á sig vaxtakostnaði, en koma engum að gagni. Við höfum Þjóðarbókhlöðu sem dæmi og við höfum Blönduvirkjun sem dæmi. Það er því nægilegt fyrir þjóðina að fá í jólagjöf hverja holskefluna á fætur annarri á sama tíma og laun eru svo naum að fólk hefur tæplega ofan í sig eða á. Vert er að líta á fleiri liði í frv.

Auknar erlendar lántökur eru aðeins frestun á hækkun skatta, nema þeim sé varið til arðbærra fjárfestinga. Við megum því búast við auknum skattaálögum á næstu árum án þess að eiga von í að erlend lán lækki. Það er því kominn tími til að hæstv. ríkisstj. reyni að draga sem mest saman í ríkisbúskapnum, hætti afskiptum af fyrirtækjum sem með öðrum hætti ættu að standa undir sér sjálf. Þar vil ég nefna t.d. Ríkismat sjávarafurða sem er stofnun sem ætti að vera rekin af þeim sem eiga hagsmuna að gæta. Í því frv. sem við ræðum um er áætlað að 65 millj. 458 þús. kr. renni til Ríkismats sjávarafurða, en það er álíka há upphæð og fer til uppbyggingar á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum um allt land á næsta ári ef frá eru talin þau sjúkrahús sem eru á föstum fjárlögum.

Styrkur til Skipaútgerðar ríkisins er áætlaður 103,5 millj. kr. á sama tíma og 120 millj. kr. er varið til uppbyggingar í grunnskólum um allt land.

Í frv. er gert ráð fyrir 600 millj. kr. til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi. Þessi uppsafnaði söluskattur rennur til útgerðarinnar og var fundinn upp til að sætta útgerðina við lágt fiskverð. En nú er svo komið að fiskvinnslan telur sig þurfa 1 milljarð til þess að endar nái saman í fiskvinnslunni. Í dagblaði mátti sjá í dag að í undirbúningi væri lenging lána fiskvinnslunnar til þess að fiskvinnslufyrirtæki fari ekki á hausinn.

Við förum alltaf sama hringinn. Það eru gerðar ráðstafanir til þess að bjarga útgerðinni og eftir smátíma kemur fiskvinnslan og segir: Það þarf að bjarga okkur líka.

En á hverju lifum við í þessu landi? Jú, við lifum á sjávarútvegi. Við erum að tala um þær greinar sem bera þjóðfélagið að mestu leyti uppi. 75% af okkar útflutningstekjum koma úr sjávarútvegi. Það hlýtur því að vera umhugsunarefni ef undirstöðuatvinnugreinar geta ekki staðið undir sér. Hvernig á þá þjóðfélagið að geta staðið undir sér?

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir hæstv. sjútvrh. um álit hans á tillögum fisk- vinnslunnar og hvað væri mögulegt til úrbóta. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vandi fiskvinnslunnar er mikill og það sem hún þarf á að halda er í fyrsta lagi meiri tekjur, minni tilkostnaður og bætt greiðslufjárstaða. Hvað varðar aukningu tekna hefur markaðsverð hækkað lítillega að undanförnu, en það áfall sem við höfum orðið fyrir með lækkun dollarans hefur valdið henni miklum vandræðum. Í þessu efni eru engin góð ráð í augsýn. Það hefur verið mörkuð ákveðin gengisstefna fyrir þetta ár og gengisstefna næsta árs hlýtur meðal annars að ráðast af því hvernig til tekst í kjarasamningum um áramótin.“

En hvað verður grundvöllur að gengisfellingu? Jú, það eru kjarasamningar. Það er ekki staða fiskvinnslunnar eða útgerðarinnar, heldur eru það kjarasamningarnir. Það hefur hingað til verið - og verður eflaust hér eftir - notað sem átylla til þess að fella gengið að launafólk fer fram á aukinn kaupmátt.

En eru það launin sem eru að sliga fiskvinnslufyrirtækin? Áfram segir í sama viðtali, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað varðar minni tilkostnað hefur einkum verið talað um misgengi sem verið hefur á milli dollars og SDR og viðkemur afurðalánum meðal annars sem fiskvinnslan telur hafa kostað sig 300-400 millj. kr. Ríkisstj. hefur falið Seðlabankanum úttekt á þessu máli og að skila tillögum um hugsanlegar bætur vegna þessa og aðgerðir til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur. Fulltrúar fiskvinnslunnar báðu einnig um það að uppsafnaður söluskattur gengi beint til fiskvinnslunnar. Því verður að svara neitandi vegna þess að ráð er gert fyrir því að hann gangi til Aflatryggingasjóðs á næsta ári. Um það hefur mönnum verið kunnugt, enda er vart séð að það breyti miklu að þetta renni beint til fiskvinnslunnar, því það mundi væntanlega koma fram í meiri fiskverðskröfum henni til handa.“

Nei, það eru ekki launahækkanir sem eru að sliga fiskvinnslufyrirtækin heldur er það dollarinn sem hefur staðið í stað. En ekki er langt síðan dollarinn steig mjög hratt, og þá voru það útgerðarfyrirtækin sem voru að sligast vegna erlendrar skuldasöfnunar. Það er því vandrataður meðalvegurinn í þessum efnum. En á endanum eru það alltaf kaupkröfurnar sem bornar eru fyrir þeim aðgerðum sem þarf að gera í þessu þjóðfélagi. Fiskvinnslan gerir líka kröfu til þess að fá uppsafnaðan söluskatt endurgreiddan. En það er mjög erfitt að setja 600 millj. á tvo staði í einu. Það kemur fram í þessu viðtali við hæstv. sjútvrh. að hann telur að á næsta ári muni þetta renna til útgerðarinnar.

En hvað um áætlanir til næstu þriggja ára sem fylgja hér með fjárlagafrv.? Þar er gert ráð fyrir að uppsafnaður söluskattur í sjávarútvegi lækki niður í 400 millj. kr. 1987 og 200 millj. kr. 1988. En ef virðisaukaskattur verður tekinn upp, eins og hæstv. ríkisstj. hefur látið liggja að, bregðast þessar áætlanir því að með því að taka upp virðisaukaskatt safnast ekki upp söluskattur í sjávarútvegi því að hann verður endurgreiddur þegar varan er seld úr landi.

Hvað er til ráða? Jú, það verður að staldra við og stokka spilin upp á nýtt. Það verður að stöðva skuldasöfnun ríkisins og síaukinn fjármagnskostnað. Til þess að leggja grunn að slíkri uppstokkun verður að taka fjárlagafrv. upp að nýju. Það verður að taka fjárlagafrv. upp til rækilegrar endurskoðunar, en til þess er of skammur tími til næstu áramóta.

Því leggur minni hl. fjvn. til að Alþingi fresti afgreiðslu frv. að sinni og feli fjvn. að taka frv. til gagngerðrar endurskoðunar með því markmiði að afgreidd verði hallalaus fjárlög fyrir árið 1986 og taki fyrir næsta mál á dagskrá.

Verði ekki orðið við þessari tillögu minni hl. fjvn. megum við búast við því að við stöndum í sömu sporunum og nú á næsta ári, en þá verður bara vandinn enn þá meiri. Hallinn í ár upp á 2500 millj. kr., viðskiptahalli sem er áætlað að verði um 5 milljarðar um þessi áramót, slíkur vandi framlengist fram á næsta ár. Og ef marka má reynslu þessa árs verður hallinn á fjárlögunum 1986 margfalt meiri en áætlað er í frv.

Ríkisstj. hefur að undanförnu til skiptis boðað niðurskurð og afboðað skattahækkanir eða afboðað niðurskurð og boðað skattahækkanir. Til þess að þetta frv. sem liggur fyrir sé með raunverulegum tölum, miðað við verðlag nú í desember, þarf að hækka það til samræmis við verðlag um 5-6% auk þess sem við það þarf að bæta áætluðum hækkunum á verðlagi næsta árs.

En frammi fyrir hverju standa húsbyggjendur? Þeir standa frammi fyrir því í dag að margir hverjir missa ofan af sér hús eða íbúðir. Meira að segja gamalt fólk, sem selt hefur fjögurra herbergja íbúð, stendur í stökustu vandræðum þegar það hefur keypt aftur tveggja herbergja íbúð til að búa í. Þetta gengur ekki öllu lengur. Það gengur ekki að fólk, þrátt fyrir mikla vinnu sem það leggur á sig, sjái ekki fram úr svartnættinu. Þetta fólk á það ekki skilið.

Ég ætla að nefna eitt lítið dæmi úr veruleikanum. Ég nefni dæmi um hjón sem eru 70 ára gömul. Þau sömdu um kaup á 61 m2 íbúð í sambýlishúsi. Þessi hjón áttu á sama tíma íbúð sem var 90 m2 og telst fullnægjandi í alla staði, en þau ákváðu að minnka við sig. Þau þurftu ekki á svona stórri íbúð að halda og ákváðu að kaupa sér tveggja herbergja íbúð. En hvað kemur á daginn? Ekkert hik var á þeim við samninginn, enda leit dæmið þannig út. Kaupverðið á minni íbúðinni var 1800 þúsund í september 1984. Söluverð eignarinnar sem þau áttu fyrir var 2,1 millj. kr. Skilmálar samningsins voru þeir að mánaðargreiðslur voru 72 þús. kr. á mánuði allan byggingartímann sem átti að taka tvö ár. Strax eftir fyrsta árið var komin í ljós skekkja hjá hinum bjartsýnu kaupendum. Kaupverðið á minni íbúðinni nam 2450 þús. kr. í september 1985. Söluverð eldri íbúðarinnar og þeirrar stærri nam 2400 þús. kr. Samkvæmt skilmálum um vísitölugrunn voru mánaðargreiðslurnar komnar upp í 105 800 kr. á mánuði. Í stað þess að eiga 300 þús. kr., sem var mismunur á söluverði eldri íbúðarinnar og kaupverði litlu hagkvæmu íbúðarinnar, var staðan nú í september mínus 50 þús. kr., auk þess sem mánaðargreiðslur höfðu þyngst verulega. Til viðbótar virðist ljóst að endanlegt kaupverð hinnar ákjósanlegu eignar verður 3300 þús. kr. þegar gömlu hjónin geta flutt þangað inn í september n.k.

Við erum alltaf að tala um eða oftast nær að tala um ungt fólk sem kemur ekki yfir sig þaki. En ég er að taka dæmi úr raunveruleikanum af gömlu fólki sem eignast hefur íbúð, ekki á verðbólgutímanum, hefur ekki grætt á verðbólgunni, heldur er bara venjulegt fólk sem með aðhaldi í fjármálum hefur eignast sitt húsnæði og ég er að tala um dæmi í Reykjavík. Væri þetta dæmi tekið þannig að þetta gamla fólk hefði selt sína íbúð úti á landi og keypt sér tveggja herbergja íbúð í Reykjavík væri það enn þá svartara.

En hvað boðar ríkisstj. í húsnæðismálum? Hvar eru þessar skattahækkanir sem lagðar voru á á s.l. ári til þess að mæta vanda húsbyggjenda og húskaupenda? Hvað varð um þessar 600 millj. sem voru lagðar á? Það getur vel verið að það eigi eftir að koma fram tillögur um að verja þeim til þess að bjarga einhverju í þessum málum. Það þýðir ekkert að tala alltaf um fiskvinnslufyrirtækin sem tapa 3-400 millj. á gengismun. Það er líka fólk hér á landi sem tapar á mismun á kauptaxta og lánskjaravísitölu.

En hvað um þessi gömlu hjón? Jú, þau sitja í skuldasúpunni sem þau hafa ekki haft nokkur áhrif á. Þetta á líka við um margt annað í þjóðfélaginu. Það á við um fyrirtæki. Þetta á við um ríkisbúskapinn. Fjármagnskostnaður er að sigla okkur í strand. Ef ekkert verður að gert endum við á einu allsherjaruppboði. En hver á þá að borga brúsann?

Þegar frv. til fjárlaga er til 2. umr. er vert að velta því fyrir sér hvort um er að ræða fjárlög sem á einhvern hátt eru tímamarkandi fjárlög. Ekki vegna þess að hér sé um að ræða nýja ríkisstjórn sem er að leggja fram sitt fyrsta frv. til fjárlaga heldur vegna þess að nýr fjármálaráðherra hefur tekið sæti í hæstv. ríkisstj. og ætla mætti að hann gæti markað nýjar áherslur við útdeilingu ríkisfjármagns. Ekkert hefur borið á slíku. Ekki er dregið úr styrkjum til landbúnaðar sem nema í frv. yfir 1800 millj. kr. Þar af eru 780 millj. til uppbóta á landbúnaðarafurðir og 600 millj. til útflutningsbóta. Þessi upphæð er hér um bil sú sama og upphæð sem ríkissjóður fær af öllum nettótekjuskatti einstaklinga á árinu 1986 ef miðað er við þær tölur sem standa í frv. Það má ætla að tekjuskatturinn verði 400 millj. kr. hærri vegna þess að ríkisstj. hefur ákveðið að taka til baka boðaða lækkun á tekjuskatti.

Það er tími til kominn að snúa við blaðinu. Það er tími til kominn að stokka spilin, breyta um áherslur, draga úr ríkisútgjöldum þar sem verið er að styrkja rekstur sem á að standa undir sér sjálfur og veita fjármagni til þeirra sem þurfa á fjármagni að halda. Það gengur ekki að ár eftir ár þurfi að styrkja t.d. Ríkisskip. Ég nefndi áðan 103 millj. kr. og hvað kom á daginn fyrir örfáum dögum? Þá heyrði ég að við þyrftum jafnvel að styrkja Drang, sem siglir nú í Suðurhöfum á næsta ári, um 15 millj. kr. Þetta eru skattpeningar landsmanna. Þetta eru þeir peningar sem ríkisstj. á að bera ábyrgð á að fari til arðbærra fjárfestinga. Öðruvísi fer þetta land á hausinn, algjörlega.

Ég vil ítreka að ef við stöldrum ekki við núna stöndum við frammi fyrir enn meiri vanda á næsta ári. Ef stjórnarsinnar vilja ekki þiggja vinnuframlag stjórnarandstöðunnar við það að reyna að finna leið út úr þessum vanda verður hún alfarið að bera ábyrgð á þessu sjálf.