13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

1. mál, fjárlög 1986

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka formanni fjvn. og varaformanni og öðrum nefndarmönnum fyrir gott samstarf á liðnum vikum. Enn fremur starfsmanni nefndarinnar og starfsfólki Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Þetta fólk hefur tekist á við erfiða stöðu og óvenju knappan ramma sem hefur gert það að verkum að störf nefndarinnar hafa verið með harla óvenjulegum hætti og samstarf raunar minna en áður.

Svo sem fram kemur í áliti minni hl. fjvn. á þskj. 255 ber minni hlutinn, skipaður fulltrúum allra þingflokka stjórnarandstöðunnar, fram tillögu til rökstuddrar dagskrár um það að afgreiðslu fjárlaga verði frestað og fjvn. falið að taka frv. til gagngerðrar endurskoðunar.

Í rökréttu samhengi við þá tillögu flytur Kvennalistinn engar brtt. við fjárlagafrv. við þessa umræðu. Það er að okkar mati fullkomlega óraunsætt og ábyrgðarlaust að afgreiða frv. í þeirri mynd sem það nú liggur fyrir með tilliti til þeirra staðreynda sem við blasa og staðfestar hafa verið af Þjóðhagsstofnun. En segja má að fréttirnar sem fulltrúar Þjóðhagsstofnunar báru inn á síðasta fund sinn með fjvn. hafi kristallast í eftirfarandi þversögn. Vaxandi og batnandi sjávarafli, minnkandi og versnandi þjóðarhagur. Er nema von að hvarfli að mönnum að eitthvað sé bogið við stjórn lands og þjóðar?

Í nál. minni hl. er bent á að halli ríkissjóðs í ár stefni í 2000-2500 millj. kr. sem er allt að 1800 millj. kr. meiri halli en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga í ár og raunar hafa heyrst hærri tölur, eins og kom fram í grein í Morgunblaðinu í gær, þar sem talað var um 2700 millj. kr. halla.

Minni hl. fjvn. varaði mjög eindregið við samþykkt núgildandi fjárlaga og lýsti sig reiðubúinn til samvinnu við endurskoðun fjárlagagerðarinnar. Meiri hl. tók ekki mark á aðvörunum okkar þá og má e.t.v. með nokkrum sanni segja að sú afstaða meiri hl. hafi verið mannleg og afsakanleg við þær aðstæður sem þá ríktu.

Útkoma ríkissjóðs sjálfs við árslok 1984 var mun betri en útlit var fyrir í byrjun þess árs enda þótt sá bati ætti rætur að rekja til mun meiri innflutnings en spáð hafði verið og þar með stóraukins viðskiptahalla og í þjóðhagsspá fyrir árið 1985 gætti nokkurrar bjartsýni um að botni væri nú náð í hagsveiflunni, eins og það var orðað. Við 2. umr. um fjárlög þessa árs lét ég enn í ljós efasemdir um að sú bjartsýni styddist við raunhæfar forsendur, en meiri hl. tók þeirri bjartsýni fegins hendi. Nú blasir við allt önnur mynd og því engin afsökun fyrir því að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár með þeim hætti sem meiri hl. hyggst gera, engin afsökun fyrir því að hundsa aðvaranir minni hl. Slíkt er fullkomið ábyrgðarleysi.

Hrikaleg staða ríkissjóðs nú og fyrirsjáanlegur áframhaldandi halli á næsta ári er bein ávísun á verðbólgu og aukningu erlendra skulda sem þegar eru að sliga þjóðina. Vandi ríkissjóðs hefur farið sívaxandi allt þetta ár án þess að ríkisstj. sæi ástæðu til að grípa til nokkurra aðgerða sem líklegar eru til að skila árangri. Hæstv. ríkisstj. hefur sóað orku sinni í smásmugulegar deilur um fáfengileg atriði og valdatafl. Andvaraleysi hennar og ábyrgðarleysi í þessum efnum á eftir að reynast þjóðinni dýrkeypt.

Undanfarna daga og vikur hefur staðið yfir hávær umræða um viðskipti Hafskips hf. og Útvegsbankans. Í því máli öllu er fyrst og fremst spurt um ábyrgð. Menn eru ásakaðir harðlega fyrir andvara- og ábyrgðarleysi sem hafi spillt og eyðilagt afkomuöryggi fjölda heimila og muni kosta þjóðina stórfé. Það eru þó litlar upphæðir miðað við þær tölur sem hér er um að ræða. Hér er það spurning um andvara- og ábyrgðarleysi ríkisstj. og meiri hluta Alþingis.

Alþingi verður að spyrna við fótum og hamla gegn síaukinni skuldasöfnun á vegum ríkisins. Fjármagnskostnaður er sá þáttur ríkisbúskaparins sem fyrst og fremst er að sliga hann. Hann fer sífellt vaxandi og mun gera það á næstu árum. Á næsta ári er áætlað nettóútstreymi á samanlögðum afborgunum og vöxtum um 3,5 milljarðar kr. Árið 1987 er reiknað með að nettóútstreymið nemi alls tæpum 5 milljörðum og litlu minna árið 1988. Það er því lítil ástæða til bjartsýni um bætta stöðu ríkissjóðs nema ærlega verði tekið til hendi.

Við slíkar aðstæður eru tilburðir ríkisstj. furðulegir, nánast aumkunarverðir. sem dæmi má nefna tillögur fjmrn. um niðurskurð á launa- og rekstrarliðum ráðuneyta. Þeim niðurskurði á að ná með því að endurráða ekki í stöður sem losna, ráða ekki í afleysingar o.s.frv. Skyldu menn ekki kannast við þessi ráð? Ætli menn hafi ekki heyrt þau fyrr? Þetta eru nákvæmlega sömu ráðin og beita átti fyrir tveimur árum við niðurskurð á launaliðum ráðuneyta og stofnana. Menn muna hvernig það gekk eftir. Vísa ég til orða hv. 5. þm. Reykn. áðan sem rakti það ítarlega og studdi með tölulegum upplýsingum.

Í annan stað á að draga úr ferða- og risnukostnaði. Það er nokkuð sem Kvennalistinn hefur æ ofan í æ bent á, en við slíku verður að sporna með markvissum hætti, og enn hafa engar fréttir borist af því hvernig framkvæmdinni skuli hagað.

Þá er fyrirhugaður niðurskurður á sjúkratryggingum sem enginn veit hvernig á að ná fram og enginn hefur heldur trú á að náist. Engar tillögur hafa heldur sést um það hvernig Lánasjóður íslenskra námsmanna á að treina þær fjárveitingar sem honum eru ætlaðar. Svona er það með alla þessa liði, allt galopið og ófrágengið. Enda eru ekki nokkur líkindi til að þessi niðurskurðarmarkmið náist og Kvennalistinn fagnar því að sjálfsögðu, því að burtséð frá því að menn verða að vita hvað þeir eru að gera og útfæra tillögur sínar er hér um kolrangar áherslur að ræða, kolranga forgangsröðun, eins og Kvennalistinn hefur margsinnis bent á.

Kvennalistinn hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að endurskoða þær aðferðir sem beitt er við fjárlagagerðina. Einkenni hennar eru einkum þau að allt frv. er byggt upp á kostnaðartegundum en sáralítið er um að fé sé veitt til ákveðinna verkefna og slíkar fjárveitingar endurskoðaðar reglulega. Þá er áberandi að svo til eingöngu er miðað við fyrri ár þegar beiðnir eru endurskoðaðar, en þessi tvö atriði eru dæmigerð einkenni hefðbundinnar áætlanagerðar. Menn eru ekki á eitt sáttir um ágæti hennar, og við Kvennalistakonur höfum t.d. haldið því fram að meira þyrfti að gera að því að endurskoða fastar fjárveitingar og helst allan fjárlagagrunninn reglulega. Nú er það svo að þegar ákvörðuð eru framlög til stofnana og ráðuneyta er vitanlega reynt að taka tillit til óska og þarfa viðkomandi en þar sem reynslan sýnir að umbeðnar fjárveitingar eru yfirleitt alltaf skornar niður eru mestar líkur á að stjórnendur stofnana biðji alltaf um hæstu tölur sem þorandi er að nefna og verji síðan beiðnir sínar með oddi og egg. Þetta hefur einnig það í för með sér að stofnunum er beinlínis refsað fyrir sparnað þar eð þær fá ekki að ráðstafa þeim upphæðum sem þeim tekst að spara og fá svipaða framreiknun næsta ár og sú stofnun sem eyddi um efni fram. Þessi aðferð hefur það í för með sér að fjárveitingar eru hreint ekki alltaf í samræmi við brýnustu þörf og ráðstöfun skattfjár því ekki með hagkvæmasta hætti.

Fjárveitingar eru byggðar á gömlum grunni sem sjaldan er endurskoðaður en aðhaldið fyrst og fremst bundið við ný verkefni og nýjar mannaráðningar. En það síðarnefnda er í raun illviðráðanlegt einmitt vegna þess hvernig fjárlagagerðinni er háttað. Þessi einkenni hafa komið mjög skýrt fram nú síðustu árin. Ekki má þó láta hjá líða að minna á hve lögbundin föst framlög eru stór hluti fjárlagadæmisins eða í kringum 70% sem vitanlega setur þröngar, afar þröngar skorður.

Og allir kannast við þau ráð sem gripið er til á hverju ári með takmörkunum á þessum lögbundnu framlögum. Þann lið er brýn nauðsyn að taka til gaumgæfilegrar endurskoðunar. En auk þess hlýtur að verða að endurskoða þörfina fyrir ýmsar stofnanir á vegum ríkisins, umfang þeirra og tilverurétt yfirleitt. Ég nefni varnarmálaskrifstofuna, Búnaðarfélagið, veiðistjóra, Veiðimálaskrifstofuna, Fiskifélagið, Ríkismatið, Bifreiðaeftirlitið, Fasteignamatið. Þetta er ekki tæmandi listi og getur ekki verið tæmandi. Slíkar stofnanir eiga að vera í stöðugri endurskoðun.

Herra forseti. Það vantar ekki að ríkisstj. hefur boðað nauðsyn aðhalds allt frá upphafi. Kvennalistinn hefur tekið undir það og bent á leiðir sem sumpart hafa verið farnar og er það vel. Ég minni á niðurskurð til virkjanaframkvæmda sem við höfum margsinnis lagt til og er nú loks framkvæmdur að nokkru. Aðrar sparnaðaraðgerðir ríkisstj. hafa miðast við það fyrst og fremst að skera niður framlög til verklegra framkvæmda, til byggingar skóla og dagvistarheimila, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, hafna og flugvalla. Svo langt er nú gengið í því frv. sem er til umræðu að ekki verður við unað. Tillögur um skiptingu framkvæmdaliða eru því að þessu sinni fluttar af meiri hl. fjvn. eingöngu en ekki nefndinni allri eins og verið hefur. Niðurskurður af þessu tagi er óviðunandi með öllu og hefur í för með sér sívaxandi mismunun og erfiðleika um land allt. 400 millj. kr. til viðbótar við þessa liði væri viðunandi og Kvennalistinn er sannarlega tilbúinn til að breyta forgangsröðun verkefna í samræmi við þá niðurstöðu.

Eins og ég tók fram í upphafi flytur Kvennalistinn engar brtt. við fjárlagafrv. við þessa umræðu enda teljum við nauðsynlegt að fresta afgreiðslu þess og reyna að koma því í raunhæfari búning. Það verður þó að segjast eins og er að lítil von er til þess að meiri hl. taki rökum og því má búast við 3. umr. og afgreiðslu fjárlaga fyrir jólaleyfi eins og venja er. Við þá umræðu munum við freista þess að ná fram lagfæringum á einhverjum liðum sem að okkar mati hafa orðið svo illa úti að óþolandi sé. Ég mun ekki nefna neina liði núna. Það bíður síns tíma.

Herra forseti. Það dæmi sem hér liggur á borðinu gengur ekki upp. Afkoma og lífskjör landsmanna ráðast m.a. af ríkisrekstrinum og það er ábyrgðarleysi að takast ekki á við vandann á afgerandi hátt. Að öðrum kosti stefnir allt í áframhaldandi halla og aukinn halla og auknar erlendar lántökur. Í þeim efnum er nóg að gert og löngu tímabært að snúa af þeirri óheillabraut.