13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

1. mál, fjárlög 1986

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki í lokin á þessari umræðu fjalla almennt um það sem fram hefur komið í henni. Ég vil hins vegar vegna þeirra atriða sem hv. síðasti ræðumaður drap á segja örfá orð.

Fyrsta atriðið sem hv. þm. nefndi var um háskólakennslu á Akureyri og yfirlýsingar sem um það mál hafa fallið. Ég get greint frá því að mál þetta nýtur velvilja stjórnvalda og að ég ætla einnig Háskóla Íslands. Sérstök nefnd hefur starfað og er að starfi um málefni Háskóla Íslands og þetta mál hefur komið til umræðu þar. Ég hef engan heyrt halda því fram í fullri alvöru að meiningin sé að stofna nýjan háskóla á Akureyri heldur hitt að á Akureyri fari fram háskólakennsla á vegum Háskóla Íslands. Undir þeim kringumstæðum er eðlilegt og sjálfsagt að Háskóli Íslands móti um það tillögur á hvern máta þessari kennslu verði fyrir komið og geri grein fyrir því hvaða kostnaður fylgi því að taka hana upp. Þessi atriði, sem eru nauðsynlegur undanfari þessa máls, liggja enn ekki fyrir þannig að enn er ekkert um það fjallað í fjvn. hvort eða að hve miklu leyti þetta mál verði tekið til greina nú við afgreiðslu þessara fjárlaga.

Um annað atriðið sem hv. þm. spurði um og varðar varnarmálaskrifstofu hef ég ekki á reiðum höndum skýringar á því máli umfram þær sem fram koma á grg. fjárlagafrv.

Þriðja atriðið sem hv. þm. nefndi var aðstoð við þróunarlöndin á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og nefndi sérstaklega liðinn Matvæla- og neyðaraðstoð skv. nánari ákvörðun ríkisstj. Það er rétt að í þeim tillögum sem meiri hl. fjvn. hefur flutt er tillaga þess efnis að tilfærslur á þessum lið lækki um 7 millj. kr. Þessi tillaga er flutt samkvæmt tilmælum ríkisstj. Ég man ekki með vissu án þess að gæta að því hvaða fé var til þessa fjárlagaliðar á fjárlögum yfirstandandi árs en ég minnist þess að undir sambærilegan lið var færð aukafjárveiting sem ákveðin var fyrir u.þ.b. ári síðan varðandi Eþíópíu sem ég hygg að hafi verið 2-3 millj. kr.

Hv. þm. var býsna stórorður í sinni ræðu. Ég ætla ekki að feta í fótspor hans. Hann minnti á það að hv. Alþingi hefði s.l. vor afgreitt hér þál. um að ná því markmiði að aðstoð Íslands við þróunarlöndin yrði að nokkrum árum liðnum 0,7% af þjóðarframleiðslu eða sem svaraði miðað við áætlanir um þjóðarframleiðslu á næsta ári um 700 millj. kr. Hv. þm. rifjaði það upp að allir þm. hefðu greitt þessari till. atkvæði sitt. Ég var þá hér ekki staddur. Hefði ég verið hér staddur hefði ég greitt atkvæði gegn þessari till.

Ég vil aðeins minna á það að hv. alþingismenn bæði nú og stundum fyrr eru furðu liprir við að greiða atkvæði með hinum og þessum málum sem kosta útgjöld ríkissjóðs án þess að gera sér nokkra grein fyrir því og án þess að finna því nokkurn stað á hvern máta verði staðið undir öllum þeim útgjöldum. Ég minni á það að þál. eru ekki æðri lögum frá Alþingi og það er í mörgum greinum, mjög mörgum greinum, sem Alþingi stendur ekki við þau lög sem það sjálft hefur afgreitt. Það fer ekki sjálft að lögum sem það hefur afgreitt með því að leggja til fé til þess að við þau verði staðið - hvað þá um ályktanir Alþingis.

Ég læt þetta aðeins fylgja til þess að greina frá því að þó að hv. þm. hafi um þessi efni stór orð, og um virðingu Alþingis, eru mýmörg dæmi fyrir því að Alþingi hefur þá misboðið virðingu sinni á þann hátt að standa ekki við fjárframlög í samræmi við lög sem afgreidd hafa verið og í samræmi við ályktanir sem afgreiddar hafa verið. Þetta er ekkert sérstakt dæmi um það efni. Þetta er aðeins eitt af mörgum.

Og svo aðeins að lokum: Fáar þjóðir munu taka erlend lán til þess að veita þróunaraðstoð.