13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

1. mál, fjárlög 1986

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ekki mörg orð í viðbót. Ég ætla aðeins að skýra nánar um hvað ég spurði og hvers vegna ég spurði í sambandi við fjárveitingarnar til þróunaraðstoðar. Reyndar hafði ég ekki áttað mig á því að rausn ríkisstj. birtist með jafnskýrum hætti því að ég hygg að ég hafi fengið á mitt borð hér í hv. þingi fyrir einum til tveimur dögum síðan brtt. við þennan margnefnda lið, Matvæla- og neyðaraðstoð, sem var miklum mun lægri, þ.e. þar var minni breyting á ferðinni en ég sé að prentuð er í nýjustu útgáfunni. Það skiptir svo sem ekki öllu máli, en alla vega er þarna um verulega lækkun að ræða og ég verð að segja alveg eins og er að óskaplega var hæstv. ríkisstj. óheppin með nafngiftir að þetta skyldi þurfa að verða liðurinn Matvæla- og neyðaraðstoð skv. sérstakri ákvörðun ríkisstj. Mér finnst þetta varla getað orðið öllu neyðarlegra að það skyldi endilega þurfa að vera þessi matvæla- og neyðaraðstoð sem hún sá ástæðu til að skera sérstaklega niður.

En ég held, hv. þm. Pálmi Jónsson, að það sé ekki alveg jafneinfaldur hlutur á ferðinni í sambandi við þessa þáltill. og siðferðislega séð sé hér um svolítið öðruvísi spurningu að ræða en við stöndum stundum frammi fyrir þegar við ræðum það að auðvitað sýnir hv. Alþingi í sjálfu sér ekki nóga virðingu oft og tíðum þegar það stendur ekki við samþykkta og gerða hluti. Hér er nefnilega um ákveðna stefnumörkun að ræða sem birtist í því að menn náðu saman um það að auka þessa fjárveitingu í áföngum, jöfnum áföngum á ákveðnu tímabili, og það liggur auðvitað á borðinu, hv. þm., að ef menn brjóta hana nú, ef menn standa ekki við hana þegar reynir á það í fyrsta sinn, eru auðvitað miklu, miklu meiri líkur til þess að menn geri það ekki heldur næst og ekki heldur þar næst. Þá verður þessi upphæð ekki hækkuð á einu bretti á einu ári, kannske á sjöunda og síðasta árinu, úr 0,1% og upp í 0,7%. Það gerist einfaldlega ekki þannig í fjárlagadæminu, það vitum við öll, þannig að þetta er ákvörðunin um það hvort við ætlum að reyna frá upphafi að standa við þetta eða ekki og ég er svo sannfærður um að ef þetta verður brotið nú er þessi samstaða sem náðist ónýt. Hún er fyrir bí, og við stöndum ekkert endilega betur að vígi eftir sjö ár.

Þessi þróunaraðstoð sem hefur verið mér svo lengi sem ég hef fylgst með þessum málum mikill þyrnir í augum, þessi skömm, þessi niðurlæging þessarar ríku þjóðar, Íslendinga, sem eru í hópi mestu velmegunarríkja heimsins. Um það verður ekki deilt þó þeirri velmegun sé kannske ekki réttilega skipt. Við höfum verið innan við 0,1% af því 1% sem í raun er talið eðlilegt og velmegandi ríki skuldbundu sig til að verja til þróunaraðstoðar, þar af talið eðlilegt að hlutur ríkisins væri 0,7% og hlutur annarra aðila í þjóðfélaginu 0,3%. Þetta hlutfall var árið 1974 0,03% , síðan rokkaði það á bilinu 0,03-0,05% til ársins 1979. Þá var þó hafist handa um að hækka þetta hlutfall lítillega og það var komið í 0,13% árið 1983 og hafði þá hækkað þarna um rúman helming, rúmlega 100%, og hefðu menn haldið því marki áfram hefði þetta kannske þokast upp á við. Í þál. segir aftarlega í grg. - og ég ætla að lesa það til þess að það vefjist alls ekkert fyrir hv. þm. og formanni fjvn., Pálma Jónssyni, hvers vegna það er auðvitað afdrifaríkt og afgerandi að menn svari því strax hér og nú við þessa afgreiðslu fjárlaga hvort þeir ætla að standa við þessa stefnumörkun - með leyfi forseta:

„Að því er varðar tilhögun þeirrar aukningar opinberra fjárframlaga til þróunarsamvinnu, sem hér er fjallað um, hefur einkum verið rætt um tvær aðferðir. Annars vegar að aukningin verði látin nema jafnri fjárhæð ár hvert á umræddu sjö ára tímabili, þ.e. um 77,4 millj. kr. árlega á föstu verðlagi miðað við óbreytta þjóðarframleiðslu. Hins vegar kemur til greina hækkun um jafnt hlutfall árlega sem þá þyrfti að vera 341/2-35% hækkun ár hvert fram til 1992. Síðari aðferðin felur í sér að hækkunin næmi lægri fjárhæðum fyrstu árin, þ.e. um 27 millj. kr. árið 1986 og rúmlega 36 millj. kr. árið 1987, miðað við núverandi áætlaða þjóðarframleiðslu og fast verðlag, en upphæðirnar færu hækkandi að krónutölu ár frá ári. Ef um alvarlegan samdrátt þjóðarframleiðslu yrði að ræða einhvern tíma á umræddu tímabili væri eðlilegt að taka tillit til þess.“

Það er sem sagt alveg ljóst að hvor reikniaðferðin sem notuð er stenst þetta markmið ekki. Þó við tækjum þann kostinn að auka þetta um jafnt hlutfall á hverju ári þessi sjö ár þannig að greiðslubyrðin þyngdist minna framan af tímabilinu og þeim mun meira og mest síðasta árið gengi það ekki heldur upp. Við stæðum heldur ekki við það. Og menn verða að átta sig á því að sjálf tillagan bindur hendur þingsins í þessum efnum. Það skal vera reglubundin aukning framlaga. Þetta er ekki aukning. Þetta verður sennilega þegar upp verður staðið lækkun, raunlækkun á framkvæmdagildi eða greiðslugildi þessarar upphæðar.

Já, hv. 1. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, það getur vel verið að ég hafi verið stórorður. Ég tók satt best að segja lítið eftir því. Og ég held að ég hafi ekki verið of stórorður. Ég leyfi mér að fullyrða það. Ég sé a.m.k. ekki eftir einu einasta orði sem ég sagði áðan. Og ég gæti haft þennan lestur miklu lengri og mjög átakanlegan.

Ég ætla að reyna að bregða upp einni mynd fyrir augunum á hv. þm. sem hér eru enn þá, eins og ég segi gjarnan, herra forseti. Og hún er sú mynd sem kom í lok fréttatíma sjónvarpsins fyrir nokkrum dögum síðan. Það er ekki víst að önnum kafnir fjvn.-menn hafi náð að sjá þann fréttatíma, en þar var brugðið upp vel gerðri fréttamynd í lokin upp á einar 5 mínútur eða svo í sýningartíma þar sem voru sýnd sveltandi, deyjandi börn, glorhungruð, vannærð börn með útblásinn vatnsmaga, deyjandi í fanginu á mæðrum sínum út um allan heim. Þetta var inniegg í söfnun til þessara bágstöddu aðila sem hjálparstofnanir hér í landinu eru að hrinda af stað, og ég er alveg viss um að íslenska þjóðin bregst vel við. Hún hefur gert það árlega með vaxandi framlögum í gegnum þessi samtök og það er gott. Þannig sýna menn vilja sinn í verki. En hæstv. ríkisstj. og hv. Alþingi hefur hundsað þennan vilja þjóðarinnar, sem birst hefur árlega í auknum framlögum í gegnum þessar stofnanir, með því að leggja ekki sitt af mörkum á móti, því það er ósköp einfaldlega þannig að gert er ráð fyrir því að þessir aðilar hjálpist að við að ná þessu marki. Mér sýnist líta nokkuð vænlega út með það og ef stjórnvöld, fjárveitingavaldið, stæði við sinn hluta samningsins mundu þessi samtök í landinu vera komin með sitt hlutfall í það sem þeim er ætlað á réttum tíma. Mér sýnist það fara nokkuð nærri að Rauði kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar og aðrir aðilar sem að slíkum söfnunum standa mundu sjá fyrir sínum hlut, enda vel til þess trúandi.

En það erum við hér í löggjafarsamkundunni, sem förum með fjárveitingavaldið, sem ár eftir ár höfum ekki treyst okkur til þess að reyna að þoka þessu eitthvað upp og standa við þær skuldbindingar sem Íslendingar gerðu fyrir áratugum síðan á alþjóðavettvangi þar sem þeir vilja teljast menn með mönnum. Hæstv. utanrrh. er úti í Brussel eða hefur verið það, herra forseti. Hann vill teljast maður með mönnum í þeim klúbbi. Hann er orðinn heiðursforseti þar. Ég sé ekki eftir því. Það er ágætt að maðurinn sé vel metinn þar sem hann vill halda sig. Það er gott og á vissan hátt eykur það sjálfsagt hróður íslensku þjóðarinnar í einhverra augum. En ég hefði frekar viljað að upphefð okkar í þessum efnum kæmi héðan í gegnum það að hv. Alþingi Íslendinga léti ekki skömmina standa upp á sig ár eftir ár og áratug eftir áratug í þessum efnum. Mér er lítils virði sú upphefð sem hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson kann að fá í þessum klúbbi NATO og í Brussel og hann má vera kallaður heiðursforseti fyrir mér og það getur vel verið að hann berji það í gegnum þingið til að standa undir hégómlegri metorðagirnd sinni á þessum vettvangi að koma upp hermálafulltrúa úti í Brussel. En það er mér lítils virði ef sú fjárveiting er tekin frá munninum á sveltandi börnum, og þeir svöruðu því ekki höfðingjarnir áðan hvar fjvn. hefði fundið þau börn sem væru búin að fá nógan mat, þá sjúklinga sem væru læknaðir, þá flóttamenn í Pakistan undan Rússum. Vill íhaldið ekki hjálpa þeim? Það er næsta verkefni Íslendinga. Það er næsta verkefni að hjálpa flóttamönnunum í Pakistan. Mér hefur virst það fólk hafa nokkra samúð íhaldsins. Það á ekki að hjálpa því. Ég er til í það. Ég skal leggja á skatta til þess að hjálpa þessu fólki. (ÓÞÞ: Senda þeim byssur?) Ég skal taka erlend lán frá einhverjum öðrum verkefnum til þess að kaupa mat, lyf og föt ofan í og utan á þetta fólk. (ÓÞÞ: En skotvopn?) Ég vildi óska þess að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson færi út úr þingsalnum og sendi mér ekki þetta flírubros. Hann hefur nóg af öndum til að éta. En það hafa ekki börnin úti í heimi. (Gripið fram í.)

Ég get átt orðastað, herra forseti, við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson um þessi mál ef hann svo kýs. Hann getur komið hér í ræðustól og talað hug sinn allan, vel mettur af öndum, um neyðina og örbirgðina í heiminum og um reisn Framsfl. í þessum efnum. Það má hann mín vegna gera. Hvar var hv. þm. þegar Alþingi samþykkti einróma þær tvær þál., sem ég hef vitnað til, um að auka aðstoð Íslendinga til þróunarmála og um stefnuna í afvopnunarmálum? Greiddi hann ekki atkvæði með þessum tveimur þál.? Ég man ekki betur. Ég ætla að vona að hv. þm. lesi þessar þál. úr því að þær eru farnar að ryðga svona í kollinum á þeim og minnið er ekki betra en þetta. Ég skora á hvern einasta þm. að lesa þessar tvær þál. og bera þær saman við þetta frv. til fjárlaga og ég veit ekki hvernig þeirra hugsanagangur fer, hvernig það gengur fyrir sig í kollinum á þeim ef þeir fá þetta allt til að samrýmast. Það gerir það ekki í mínum huga.

Herra forseti. Mönnum finnst kannske broslegt að ég skuli tala um þessi mál af miklum tilfinningahita og hálfkomast við þegar ég ræði þessi mál. Það má hver sem er brosa að því. Það er allt í lagi. Menn mega gera grín að því og kalla fram í. En ég tel ekki verra að ég vikni kannske svolítið þegar ég ræði þessi mál en að einn hæstv. ráðherra, sem talaði hér fyrir tveim kvöldum, þættist gera það af svipuðum ástæðum. Það mega allir vita mjög vel að mér eru þessi mál mikið tilfinninga- og hitamál og hafa verið það lengi og ég hef átt ákaflega erfitt með að sætta mig við það að hlutur okkar Íslendinga sé svona bágur í þessum efnum. Það er kannske vegna þess að ég hef ferðast dálítið um heiminn og ég hef komið í þá heimshluta þar sem neyðin og örbirgðin er mjög sár og aðkallandi. Ég gerði það strax ungur maður, 18 ára gamall, og það hafði á mig mikil áhrif og hefur mótað mína lífsskoðun á margan hátt æ síðan. Ég gerði mínum flokksbræðrum og flokkssystkinum grein fyrir því þegar ég kom á þann vettvang að ég mundi berjast fyrir þessu máli alla tíð og þetta væri eitt af þeim málum sem skiptu mig hvað mestu máli. Og ég sagði frá því í þingflokknum strax í fyrsta sinn þegar ég kom á þann vettvang að ég mundi flytja brtt. við fjárlögin ef þessi ákveðni liður, þróunaraðstoð Íslendinga, yrði ekki hækkaður. Ég hef staðið við það síðan og mun gera það. Svo lengi sem þetta hlutfall kemst ekki á sinn stað mun ég gera það. Og þetta er ekki gúmmítékki frá Albert Guðmundssyni eða öðrum slíkum mönnum. Við þetta skal staðið. Sannið þið mín orð.

Ég vona að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson biðji svo um orðið og tali hug sinn allan í þessum efnum.