13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

1. mál, fjárlög 1986

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er harla auðvelt verk að leika jólasvein í pontunni og boða gjafir út um allan heim og vera örlátur á annarra fé og íslenskrar þjóðar. Hins vegar er það svo að jafnvel í umræðu um þessi mál er það höfuðatriði að nota skynsemina en fara hóflega með tilfinningarnar.

Ég hygg að hver og einn sem sest niður og skoðar það vandamál sem var til umræðu geri sér grein fyrir því að það verður ekki leyst með upphrópunum úr ræðustóli, hvort sem menn hafa á því mikinn áhuga eða ekki. Ég hygg líka að hv. 4. þm. Norðurl. e. geri sér grein fyrir því að harka íslenska ríkisins við að innheimta skatta er á því stigi að það gerist af og til að húsnæði er boðið upp af fólki og óvíst hvort staða þess sé neitt sérstaklega góð á eftir.

Við erum ekki að tala um það í þessari umræðu að við höfum fullar hendur fjár. Við erum að ræða um þá staðreynd að íslenska þjóðin skuldar það mikið erlendis að það er ekki á það bætandi.

Það er ákaflega auðvelt að boða það að við munum halda áfram að hækka þessa hlutdeild. Það er ákaflega auðvelt. En við höfum ekki neinn gróða Svía af vopnaframleiðslunni til þess að moka inn í þennan þátt. Hv. þm. ætti e.t.v. að kanna hvort Svíar verja meira fjármagni til vanþróaðra landa en gróðinn er af vopnaframleiðslunni sem þeir standa fyrir. Það væri umhugsunarefni. Það skyldi þó ekki vera að það væri um slétt viðskipti að ræða þegar upp er staðið.

Ég hygg að þó hv. þm. telji sér það til manngildis að vikna yfir þessum hlutum í ræðustól breyti það minnstu í hinni járnhörðu glímu við þessi vandamál, og það breytir engu varðandi það að vel má vera að hægt sé að skjóta hér ýmsum hlutum út í loftið sem hann telur að hitti mig illa í þeim efnum.

Ég hef átt þess kost að vinna í ákveðinni stofnun hér á landi að þróunarmálum, og vissulega væri gaman að geta staðið að því að rétta upp hendina með miklu stærri upphæðum. Það fer ekki á milli mála. En ég vil biðja hv. þm. að hafa hóf á sýndarmennskuumræðum um þennan málaflokk.

Umr. (atkvgr.) frestað.