14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég held að sé sérstök ástæða til að vekja athygli á nú þegar þetta mál, viðskipti Hafskips hf. og Útvegsbankans og rannsókn á þeim samskiptum og viðskiptum, kemur til umræðu hér í hv. Ed. og enn einu sinni á hinu háa Alþingi.

Það eru í fyrsta lagi þau sinnaskipti sem átt hafa sér stað hjá hæstv. viðskrh. sem fyrir aðeins fáeinum dögum taldi ekki nokkra ástæðu til að beita sér fyrir sérstakri rannsókn á þessu máli, því væri fullborgið í höndum skiptaráðenda. Nú hefur þar orðið hugarfarsbreyting. Því ber að fagna þó efnislega sé ég ekki sammála því fyrirkomulagi sem lagt er til að verði á rannsókninni.

Í öðru lagi er vert að vekja sérstaka athygli á og undirstrika í þessum umræðum að ef ekki hefði komið til sú staðreynd að stjórnarandstaðan hefur vakið athygli á þessu, það gerði formaður Alþfl. í umræðum utan dagskrár, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, og það hafa fleiri gert, - ef stjórnarandstaðan hefði ekki svo rækilega sem raun ber vitni vakið athygli á málinu, bent á ýmislegt sem athugunar þarf, hefði frv. ríkisstj. sennilega aldrei komið til.

Nú skal ég taka það fram að ég er ekki fyllilega sammála með hverjum hætti sumir hv. þm. hafa vakið athygli á þessu máli. Nefni ég þar sérstaklega til sögunnar hv. varaþm. Ólaf Ragnar Grímsson. Ég hygg að í málflutningi sínum hafi hann gerst offari. Ég hygg að það sé eðlilegri, heiðarlegri og ítarlegri rannsókn þessa máls ekki til framdráttar hvernig sá hv. þm. hagaði sínum málflutningi. Ég held þvert á móti, að það hafi kannske orðið til þess að snúa málinu í höndum hans vegna þess að hann setti sig í dómarasæti, hve stór orð og gífuryrði og fullyrðingar hann viðhafði. Þetta er miður vegna þess að hér er á ferðinni mjög alvarlegt mál. Hér er á ferðinni eitt stærsta gjaldþrotamál sem orðið hefur í íslensku þjóðfélagi. Þjóðin á heimtingu á því að þetta mál verði skýrt. Þeir sem liggja undir grun um ólögmætt atferli í sambandi við þetta mál eiga heimtingu á því að vera hreinsaðir, séu þeir saklausir, og þjóðin á heimtingu á því að þeir verði sakfelldir séu þeir sekir. En dóma í þessu máli á ekki að kveða upp í ræðustól á Alþingi. Það er annarra verk. Það á hins vegar að benda á hér og undirstrika það sem menn telja að úrskeiðis hafi farið, það sem menn telja að þurfi að rannsaka og fylgja því fast eftir að rannsókn fari fram. Þetta vildi ég að kæmi fram í upphafi míns máls.

Annars hefur málið verið ítarlega rætt í sölum þings, en það verður sjálfsagt seint fullrætt. Margt er óljóst. Næstum á hverjum degi, við hverja nýja umfjöllun fjölmiðla, vakna nýjar spurningar. Þar er mörgu haldið fram og kannske ekki allt stutt sterkum rökum. Engu að síður eru leidd rök að býsna mörgu sem einkennilegt hlýtur að teljast, að ekki sé meira sagt. Allt þarf þetta rannsóknar við.

Síðastliðið vor eða í sumarbyrjun, þá er þingi var í þann veg að ljúka, komu þessi mál til umræðu m.a. í tengslum við frv. til laga um viðskiptabanka. Þá hafði einn af fjölmiðlunum, vikuritið Helgarpóstur, vakið athygli á þessu máli með býsna áhrifaríkum hætti og haft þar um stór orð. Forsvarsmenn félagsins hótuðu þá málsókn, lýstu ummæli Helgarpóstsins röng, gott ef rógur var ekki nefndur í sömu andránni, og fullyrtu að ekkert af þessu ætti við rök að styðjast. Ég skal játa að ég hafði tilhneigingu til að trúa þessum mönnum á þeim tíma. Ég hafði ekki sérstaka ástæðu til að treysta Helgarpóstinum sem heimild, einkum og sér í lagi í ljósi þess að vikum og mánuðum saman hafði það blað flutt „fréttir“ af fundum útvarpsráðs í sínum slúðurdálkum sem mikið eru lesnir geri ég ráð fyrir. Þessar „fréttir“ voru bull og þvættingur sem áttu ekki við nein rök að styðjast og útvarpsráðsmenn hlógu gjarnan að þegar þeir komu saman til fundar á föstudögum, daginn eftir útkomudag Helgarpóstsins. Þarna voru hlutir gripnir úr lausu lofti, tilhæfulausar fullyrðingar og mönnum eignuð ummæli og athugasemdir sem þeir höfðu aldrei látið sér um munn fara. Það var m.a. af þessari ástæðu sem ég treysti skrifum Helgarpóstsins ekki og játa að ég trúði þeim mönnum betur sem fullyrtu að mál Hafskips væru í bærilegu lagi og þetta væru ósannindi. Nú hefur sem sagt komið á daginn að Helgarpósturinn hafði verulega mikið til síns máls. Ég vil ekki segja að hann hafi haft rétt fyrir sér um alla hluti, það dettur mér ekki í hug, en hann hafði alla vega mikið til síns máls. Þó að Helgarpósturinn virðist hafa afar ótrausta heimildarmenn um það sem gerist í útvarpsráði virðist hann hafa haft traustari heimildir í þessu tilviki.

Það er alveg ljóst að það hlýtur að vera krafa þjóðarinnar að þetta mál verði grandskoðað þannig að sannleikurinn fái að koma í ljós að svo miklu leyti sem slíkt er unnt.

Ég hef ýmsar athugasemdir að gera við það frv. sem hér liggur fyrir. Það hefur verið gerð till. um að vísa því til fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að e.t.v. væri öllu eðlilegra að þetta mál færi til hv. allshn. Það er ekki vegna þess að ég vantreysti formanni hv. fjh.- og viðskn. til að fjalla um þetta mál með eðlilegum og skynsamlegum hætti. Það geri ég alls ekki. Mér sýnist bara að eðli máls samkvæmt eigi þetta mál fremur heima í allshn. deildarinnar.

Þar sem ég á sæti í báðum þeim nefndum sem kemur til greina að hafi með höndum umfjöllun málsins á síðara stigi ætla ég ekki að gerast svo ýkja langorður hér, en ég bendi á, eins og komið hefur fram af hálfu Alþfl. um þetta mál nú þegar, að það hlýtur að teljast óeðlilegt að Hæstiréttur taki að sér að skipa nefnd til að kanna þetta mál á þessu stigi þegar margt bendir vissulega til að málið hljóti að koma til kasta Hæstaréttar á seinna stigi málsins. Það er ekki eðlilegt að þarna myndist neins konar tengsl á milli. Hæstiréttur á ekki að hafa nein afskipti af þessu máli fyrr en þá, þegar og e.t.v. að málið verður tekið til dóms og flutt í Hæstarétti. Þetta er eðlilegt og rökrétt. Það er hins vegar í hæsta máta órökrétt og óeðlilegt að Hæstiréttur hafi afskipti af þessu máli á rannsóknarstiginu. Það á ekki með neinum hætti að blanda saman rannsókn og hugsanlegri dómsuppkvaðningu í máli sem þessu. Það er fullkomlega óeðlilegt.

Mér fyndist að þessu frv. til laga ætti að breyta í þá veru að rannsóknarnefndin yrði skipuð alþm. Ég geri þá ekki ráð fyrir að tillögur stjórnarandstöðunnar, sem hér liggja fyrir til umræðu í báðum deildum þings um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, nái fram að ganga. Mér þykir fullvíst að stjórnin muni beita sínu meirihlutavaldi til að fella till. Þess vegna er eðlilegt að íhuga að flytja brtt. við þetta frv. til að koma því í skynsamlegri farveg. Ég tek undir það, sem Ragnar Arnalds hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að auðvitað er ámælisvert að ríkisstj. skuli ekki leita samstarfs um þetta mál við stjórnarandstöðuna. Ég vona að það sé ekki fullreynt í því efni og að samkomulag kunni að geta tekist á meðan á meðferð málsins stendur á Alþingi.

Í öðru lagi mætti líka hugsa sér að þm. störfuðu með þeirri nefnd sem hér um ræðir. Ef ríkisstj. og stuðningsmenn hennar halda fast við að blanda Hæstarétti inn í þetta mál þegar á rannsóknarstiginu held ég að sé alveg nauðsynlegt að þm. starfi með þessari nefnd til að gera starfssvið hennar víðara, til þess að fleiri spurningar vakni. Það er alveg augljóst að ef fimm eða sex þm. starfa með þessari nefnd muni vakna fleiri spurningar en þeir þrír menn vekja sem tilnefndir eru til rannsóknar málsins.

Hér er ætlunin á eftir að ræða aðra till. um sama mál eins og hefur verið frá greint. Mér þótti það sérkennilegt að hv. 3. þm. Norðurl. v. varði nokkru af tíma sínum í umfjöllun þessa máls til að útskýra efni þeirrar till. Hún er á dagskrá á eftir og ég hugsa að 1. flm. þess máls sé alveg fullfær um að skýra það hér. (RA: Ég var að bera það saman.) (SkA: Þakka þér fyrir gullhamrana.) Já, þetta er traust á hv. 4. þm. Vesturl. Ég treysti honum alveg til að skýra það mál til hlítar og sé ekki hvaða ástæðu hv. 3. þm. Norðurl. v. sá til að taka það mál til sérstakrar umfjöllunar undir öðrum dagskrárlið.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Almenningur á skilyrðislausa kröfu og skilyrðislausan rétt á því að hjúp leyndar og myrkurs verði svipt af þessu máli, þar verði skoðað í skúmaskotin sem áreiðanlega eru mörg þó ekki sé nema helmingurinn af því sannur sem sagt hefur verið í blöðum. Ég hygg að sú opna rannsókn sem nauðsynlegt er að fari fram verði best tryggð með því að gera hana með töluvert öðrum hætti en þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég skal að vísu ekki vanmeta þau sinnaskipti sem orðið hafa hjá ríkisstj., að hún skuli vilja láta rannsaka málið núna sem ekki var vilji til fyrir skömmu, en ég felli mig ekki við þá aðferð sem gert er ráð fyrir í frv.

Virðulegi forseti. Þar sem ríkir samkomulag um að hafa þennan laugardagsfund deildarinnar fremur í styttra lagi og þar sem þetta mál er þegar ítarlega rætt á þinginu sé ég ekki brýna ástæðu til að lengja mitt mál meira en orðið er. Ég tel mig hafa gert grein fyrir sjónarmiðum mínum til málsins og þeim atriðum sem ég tel að breyta þurfi í því frv. sem hér er til umræðu.