14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki við 1. umr. þessa frv. að ræða efnislega hinar ýmsu hliðar gjaldþrotamáls Hafskips og viðskipta þess fyrirtækis við Útvegsbanka Íslands. Það hef ég þegar gert í Sþ. fyrir fáeinum dögum og hér ríkir samkomulag um að halda fundartíma hv. deildar innan sæmilegra marka. Ég vísa því til ræðu minnar í Sþ. á þriðjudaginn var um þau efni.

En eins og ég sagði við það tækifæri er það skylda okkar, sem sitjum á hæstv. Alþingi, að sjá til þess að hlutir eins og það mál sem þetta frv. tekur til geti ekki hent sig aftur. Til þess að við getum gegnt þeirri skyldu okkar þurfum við að vita hvernig slík mál geta orðið til. Þess vegna þarf að rannsaka málið ofan í kjölinn.

Það þarf einnig að rannsaka málið vegna þess að almenningur á heimtingu á að vita hvernig sameiginlegir fjármunir landsmanna gátu glatast á þann hátt sem þarna varð og vegna þess að ná verður með lögum yfir hvers kyns vítavert athæfi sem kann að vera að finna í þessu máli, jafnt sem hreinsa menn af ásökunum, þá sem ómaklega kunna að hafa verið þeim bornir. Rannsókn þessa máls er því afar brýn.

Eins og ég hef áður sagt hér á hæstv. Alþingi munum við Kvennalistakonur ekki láta okkar eftir liggja til að knýja á um að sú rannsókn, sem gerð verður á þessu máli, verði marktæk. Það er ég hins vegar hrædd um að sú rannsóknartilhögun sem lögð er til í þessu frv. muni ekki tryggja.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni þá þrjá menn sem annast eiga rannsókn málsins og eftir því sem best verður séð með því móti að þeir ákveði að miklu leyti sjálfir hvað þeir eigi að rannsaka. Ég vísa í því efni til athugasemda við 2. gr. frv., en þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk nefndarinnar er afmarkað í þessari grein. Er það að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum bankans og fyrirtækisins. Í því felst að nefndin skal jafnframt leggja mat á þau atriði sem undir verksvið hennar falla.“

M.ö.o.: það er verið að gefa nefndinni sjálfdæmi um það hvað hún muni rannsaka og hvað ekki.

Þetta finnst mér dálítið einkennilegt í sjálfu sér, að þessum þremenningum skuli vera gefið þetta vald, en það er e.t.v. enn þá einkennilegra með tilliti til þess að Hæstiréttur, sem samkvæmt frv. á að tilnefna mennina, á síðan e.t.v. eftir að taka niðurstöðu þeirra til dómsmeðferðar á síðari stigum málsins. Sem sagt: menn sem Hæstiréttur tilnefnir ákveða að töluverðu leyti til hvað þeir rannsaka og síðan dæmir Hæstiréttur í því sem þeir hafa ákveðið að rannsaka. Þetta finnst mér ekki vera viturleg tilhögun málsins og get ekki séð að hún gangi upp.

Það gengur heldur ekki að leysa rannsókn þessa máls með því móti að rannsóknarnefnd starfi í umboði framkvæmdavaldsins, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., vegna þess að hún er sett á fót, eins og greinilega kemur fram í grg. frv., m.a. til að rannsaka þær ásakanir sem að undanförnu hafa með réttu eða röngu verið bornar á einn af handhöfum framkvæmdavaldsins. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að framkvæmdavaldið rannsaki þannig sjálft sig og það er eitt þeirra atriða sem að mínu viti gerir þetta frv. ófullnægjandi.

En það er fleira en þetta tvennt, sem ég hef þegar nefnt, sem er ófullnægjandi í frv. Það vantar ýmislegt í frv. T.d. kemur ekki fram í lagatextanum hverjum beri að skila niðurstöðum. Það er tekið fram í grg. með frv. að viðskrh. skuli fá þessar niðurstöður, en það er ekki í lagatexta. Bæði er það einkennilegt út af fyrir sig og svo er þarna enn annað sem er athugunar vert. Það er að framkvæmdavaldið skuli ætla að skila sjálfu sér þessari skýrslu og þeim niðurstöðum sem þar kunna að vera. Það er ekki eitt orð um það, hvorki í texta frv. né í grg. með því, að þær niðurstöður sem þessi nefnd kemst að skuli gerðar opinberar. Þetta er stór ágalli á frv. og gerir það að mínu viti endanlega ófullnægjandi.

Það má líka benda á atriði eins og það að engin tímamörk eru í frv. Það kemur að vísu fram í grg. að nefndin skuli hraða störfum, en það eru engin tímamörk. Hún gæti þess vegna verið að störfum í áratugi.

Að öllu samanlögðu tel ég þetta frv. ófullnægjandi eins og það er úr garði gert.

Eins og ég sagði áðan viljum við Kvennalistakonur ekki láta okkar eftir liggja til að fram fari marktæk rannsókn á því stóra máli sem hér er verið að fjalla um og í þeim tilgangi erum við meðflm. að till. Jóhönnu Sigurðardóttur, 173. máli, sem borin er fram í Nd. og sem mælt var fyrir í fyrrakvöld. Það er ótvírætt hlutverk Alþingis að halda uppi eftirliti með ráðstöfun almannafjár og þar með með ríkisbönkunum og þess vegna teljum við sjálfsagt að fela Alþingi það eftirlitshlutverk sem umrædd rannsókn er. Eins og fram kemur í þeirri till. teljum við líka að eðlilegt sé að skila Alþingi niðurstöðum rannsóknarinnar.

Ég vil einnig leyfa mér að segja nú fáein orð umsvipaða till. sem Alþýðubandalagsmenn hafa borið fram, þótt hún sé ekki á dagskrá fyrr en á eftir, því að ég tek undir það með hv. þm. Ragnari Arnalds að þegar verið er að ræða mál sem fram eru komin um hvorki meira né minna en fimm þingmál er ágætt að glöggva sig á þeim með samanburði. Það sem mér finnst athugunarvert við tillögu þeirra Alþýðubandalagsmanna er að lagt er til að rannsókn málsins fari fram fyrir opnum tjöldum. Þá tilhögun mála tel ég fullkomlega fráleita vegna þess að við vitum mætavel að í okkar litla kunningjaþjóðfélagi fengi rannsóknarnefndin alveg örugglega ekki ýmsar veigamiklar upplýsingar við þær aðstæður. Við getum gengið út frá því áður en lagt er af stað. Það fyrirkomulag að rannsaka málið fyrir opnum tjöldum tel ég því fyllilega óraunhæft. Hv. þm. Ragnar Arnalds nefndi í máli sínu áðan að í undantekningartilfellum geti nefndin haldið lokaða fundi. Finnst mér það endanlega kippa stoðunum undan þeirri röksemd að halda fundi nefndarinnar í heyranda hljóði, því að þá er eins gott að nefndin vinni sín störf í ró og næði og í friði og geri síðan almenningi grein fyrir þeim niðurstöðum sem hún kemst að.

Virðulegi forseti. Það liggur mikið við að þetta stærsta gjaldþrotamál í sögu íslenska lýðveldisins, sem þessi þingmál öll fjalla um, verði rannsakað gaumgæfilega. Við liggur trúnaður milli þjóðarinnar og þeirra sem fara með ráðstöfun þess fjár sem hún á sameiginlega. Slíka rannsókn mun þetta frv., sem hér er til umræðu, ekki tryggja að mínu viti, ekki eins og það er hér úr garði gert. En ég lýsi því yfir að ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að gera tillögur um breytingar og sníða vankanta af þessu frv. sem, eins og ég hef áður sagt, eru margir. Ég er tilbúin til að gera það í hv. fjh.og viðskn. ef málið kemur þangað, ella með öðrum hætti.