14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að umræður í þessari hv. deild virðast ætla að verða málefnalegar, enda er kannske ærið mikið komið af upphrópunum í umræðum um þetta mál. En umræðurnar sem þegar hafa farið fram hér nálgast að við séum farnir að ræða um grundvallarreglur íslenskrar stjórnskipunar, og það er svo sannarlega tímabært að það sé gert og mundi þurfa nokkra klukkutíma til þess að geta rætt það til einhverrar hlítar.

Mér er alveg ljóst að það er eðlileg ósk af hálfu þeirra sem flytja aðra till. svipaðs efnis að þeirra till. komi líka á dagskrá sem fyrst og helst auðvitað strax í dag, en væntanlega verður klukkan farin að nálgast eitt þegar þessari umræðu lýkur. Ég skal reyna að vera eins stuttorður og ég get, en get með engu móti komist hjá að eyða nokkrum mínútum til þessarar umræðu þegar hún er komin inn á það svið sem é nefndi, grundvöll sjálfrar stjórnskipunar lýðveldisins Íslands.

Þá er komið að því að ræða um þrískiptingu valdsins og hvernig hún hafi verið í framkvæmd og hvernig hún skuli vera í framkvæmd í okkar litla lýðveldi. Því miður hefur sú þrískipting valdsins, sem hugsjónamenn fyrri alda og fyrr á þessari öld byggðu allt á í vestrænum lýðræðisríkjum, kannske ekki verið nægilega skýrt aðgreind, þeir þrír þættir stjórnskipunarinnar hafa ekki verið nægilega skýrt aðgreindir, og það kemur glögglega fram einmitt í umræðunum hér og nú að menn rugla þessu töluvert mikið saman sem eðlilegt er þar sem framkvæmdin hefur verið með þeim hætti að erfitt hefur verið að greina á milli. Þá vil ég halda því fram að þetta frv., ef að lögum verður, sé einstætt í réttarsögunni - ég kalla það réttarsögu síðustu áratuga í öllu falli.

Ég held að betur sé um hnútana búið með því að samþykkja þetta frv. en ályktun um rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Slíkar tillögur hafa tvívegis verið samþykktar á síðari áratugum á hinu háa Alþingi, en harla lítið held ég að hafi komið út úr þeim rannsóknum. Það er ekki aðalatriðið, heldur hitt að við viljum þrískiptingu valdsins, við viljum sem mesta aðgreiningu og ég persónulega miklu, miklu meiri aðgreiningu en þá sem er nú í okkar þjóðlífi í framkvæmd.

Þá vík ég að nokkrum atriðum í máli þeirra hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og, eins og ég sagði áðan, rætt málefnalega um þetta mikilvæga atriði, stjórnskipunina sjálfa, þó að þeir nefndu hana ekki beint á nafn, og kem þá að því að menn telja óeðlilegt að Hæstiréttur sé beðinn um að tilnefna menn í rannsóknarnefnd og gera því jafnvel skóna að Hæstiréttur muni þar með verða háður einhverju því sem þessi nefnd gerir. Ef við missum þannig trú á sjálfum Hæstarétti er voðinn vís, að dómarar Hæstaréttar mundu skipta sér af rannsókn manna sem þeir hefðu tilnefnt sem hlutlausa rannsóknaraðila. Þá er réttarfarið hrunið til grunna. Það er því miður hrunið til grunna, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, ef svo fer að Hæstiréttur mundi skipta sér eitthvað af rannsókn þeirra manna sem hann hefði með sérstökum lögum verið beðinn að tilnefna. Allir dómarar Hæstaréttar gera sér fulla grein fyrir því að þeir hafa engan rétt til neinna afskipta og heldur ekki, þó að málið kæmi síðar til Hæstaréttar, að taka nokkurt tillit til þess að Hæstiréttur hafi tilnefnt þessa menn.

Það er nú einu sinni svo að einhverjir verða að tilnefna í embætti. Það er dómsmrh. með atbeina forseta eða öllu heldur forsetinn með atbeina dómsmrh. sem skipar í dómaraembætti. Við höfum borið gæfu til þess þrátt fyrir allt, Íslendingar, að reyna að forðast í lengstu lög að gagnrýna tvær stofnanir, forsetaembættið og Hæstarétt. En hitt atriðið, og það er aðalatriðið, er að við megum ekki einu sinni láta okkur koma það til hugar að Hæstiréttur teldi sig bundinn eða háðan niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar þó að hann skipaði hana. Ef við erum komin á það stig í hugsanagangi um þrískiptingu valdsins og réttar lýðræðisreglur er voðinn vís. Þá höfum við ekkert að leita. Það er einmitt tímabært að huga að þessu.

Þá er komið að hinu atriðinu, hvort rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar mundi verða trúverðugri en þessi óháða nefnd. Við vitum vel að það hefur mjög verið gagnrýnt, og ég er einn í þeirra hópi sem gagnrýnt hafa það, að þm. röðuðu sér í bankaráð ríkisbankanna. Ég tel það óeðlilegt. Einmitt vegna þess að þá var verið að blanda saman löggjafarvaldinu og framkvæmdavaldinu. Það er verið að sniðganga hið þrískipta vald. Ég held að þjóðin mundi ekki hafa sérstaka trú á því að þm., sem menn réttilega gagnrýna fyrir að vera of mikið að vasast í störfum framkvæmdavaldsins, skipuðu sér í þessa nefnd en óháðir menn kæmu þar hvergi nærri. Fólkið mundi ekki telja þm. óháða, því miður, þegar þeir væru komnir í slíka nefnd. Þetta er líka til íhugunar.

Ég er ekki í þessum fáu óundirbúnu orðum mínum að fella einhverja dóma, heldur vekja athygli á því hvar við erum í þessu stödd, og vonandi fáum við tækifæri til þess að ræða þetta miklu ítarlegar og hafa til þess meiri tíma en við höfum í dag.

Að því er varðar það að þessi nefnd hafi sjálf rétt til að ákveða hve lengi hún starfi eða að hún eigi sjálf að leggja mat á hvað undir hennar verksvið fellur er það auðvitað mjög rúmt í löggjöf að slík nefnd fái nánast ótakmarkaðar heimildir. Ég tel það einmitt vísbendingu um að nefndin eigi að rannsaka allt ofan í kjölinn og gefa sér tíma, en auðvitað hraða störfum eins og hún getur og gefa síðan einhverjar bráðabirgðaskýrslur sem yrðu heyrum kunnar.

Förum svolítið niður í ákvæði frv. sem er líka einstætt að því leyti að það er samið nokkurn veginn eins og gert var í gamla daga þegar menn voru að semja lög en ekki einhverjar skýrslur og lögfesta þær. Það er að vísu fjórar greinar, en allar hnitmiðaðar nákvæmlega eins og löggjöf á að vera.

Tökum 1. gr. Það á að rannsaka þessi viðskipti á undanförnum árum og nefndin hefur rétt til að skilgreina nánar hvað „undanfarin ár“ eru mörg. Þau geta verið áratugur eða meir ef því er að skipta. Í því skal nefndin m.a. athuga hvort lánafyrirgreiðsla bankans til fyrirtækisins hafi verið í eðlilegu samræmi við starfsumfang fyrirtækisins, eiginfjárstöðu þess og tryggingar fyrir skuldum. Lengra er naumast hægt að ganga.

Síðan segir að könnun nefndarinnar beinist enn fremur að öðrum viðskiptalegum þáttum málsins sem henni þykja þurfa athugunar við. Hún hefur fullkominn rétt til að rannsaka eitt og allt í þessu máli. Þannig á það að vera. Þetta mál verður að upplýsast alveg niður í kjöl. Um það erum við öll sammála, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds gat sérstaklega um, og það var drengilegt af hans hálfu að lýsa því einmitt yfir að það getur ekki verið að neinn af hv. alþm. Íslendinga sé ekki þeirrar skoðunar að þetta mál, og raunar mörg önnur sem eiga eftir að koma upp, því miður, í svipuðum dúr, verði rannsökuð niður í kjölinn.

Í framhaldi af þessu er ljóst að ég er andvígur þeirri skoðun hv. þm. Ragnars Arnalds að það eigi að koma menn í þessa rannsóknarnefnd úr ýmsum pólitískum hópum. Það á einmitt að sniðganga pólitíska hópa í þessari rannsókn. Það á ekki að hafa þetta pólitíska rannsókn. Það á að hafa þetta réttarrannsókn. Þarna á pólitíkin hvergi nærri að koma. Ég veit að þegar hv. þm. hugsar þetta betur er hann sammála mér um það. Einmitt þarna má pólitík hvergi nærri koma. Þá er þrískipting valdsins farin út í veður og vind og þá byggjum við ekki upp heilbrigt lýðræðisþjóðfélag á Íslandi. Það er ég sannfærður um.

Hitt er svo annað mál að það kann að vera að hyggilegt hefði verið að leita sérstaks samstarfs við stjórnarandstöðuna. Ég skal ekki fordæma það. Við gerum mjög mikið að því. Allar stjórnir hafa gert það, að leita samstarfs við stjórnarandstöðuna. Það hefur kosti. Það er enginn vafi á því. Það felst sáttfýsi í því og kannske er auðveldara að koma málum fram, framgangur verður greiðari o.s.frv. En það hefur líka galla.

Við sem erum í stjórnmálum eigum að gefa fólki í landinu kost á að velja mismunandi sjónarmið og mismunandi skoðanir, bæði einstakir þm. og einkum og sér í lagi þó flokkar. Það er líka hættulegt ef innan veggja hins háa Alþingis er samið um allt og enginn fær að vita hvaða skoðun hver flokkur hefur eða hver einstakur þm. vegna þess að við erum öll eins. Það er ekki fátítt að heyra fólk í landinu segja: Þeir eru allir eins. Hvað á ég að kjósa? Það er líka hætta fyrir lýðræðið ef menn skirrast við að skiptast á skoðunum, deila hart ef því er að skipta, rífast í sölunum, þannig að menn fái utan þessara sala að vita hvar hver stendur og þegar til kosninga kemur eigi fólkið eitthvert val. Þess vegna er líka hættulegt að semja um alla hluti. Kannske hefði verið meiri ástæða til þess að hafa einmitt í þessu máli reynt að ná samstöðu um að fá utanþingsmenn skipaða af Hæstarétti. Við höfum engan annan til að taka þennan bikar frá okkur og ég er sannfærður um að fólkið mun treysta betur þessari nefnd en nefnd skv. 39. gr.

Ég vildi vekja athygli á hvert þessi umræða er að leiða og því fagna ég mjög og ég vona að hún geti haldið áfram á þessum grunni í þessari hv. deild og í þeirri þingnefnd sem málið fær til umfjöllunar.

Mér er ljóst að það getur verið ágreiningsefni hvort málið á að fara til hv. allshn. eða fjh.- og viðskn. Hæstv. ráðh. hefur lagt til að málið fari til fjh.- og viðskn. og hef ég út af fyrir sig ekkert á móti því. Það má kannske rökstyðja það með nafni frv. Það heitir frv. til l. um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips. Hins vegar neita ég því ekki að ég hef töluverða samúð með því sjónarmiði, sem komið hefur hér fram, að málið ætti að fara til hv. allshn. þar sem þetta er í sjálfu sér hluti af dómskerfinu, slík rannsóknarnefnd tilnefnd af Hæstarétti, algerlega óháð bæði framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi. - Algerlega óháð framkvæmdavaldi. Ég bendi sérstaklega á að einhver sagði að framkvæmdavaldið væri þannig að hafa rannsókn og afskipti af sjálfu sér. Ef þeir dómarar sem eru tilkvaddir samkvæmt þessu frv., þeir þrír, hefðu þau sjónarmið að þeir væru hluti löggjafar- eða framkvæmdavaldsins væru þeir óhæfir og ættu ekki að taka það að sér. Þeir eru þarna algerlega óháðir bæði löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi, annars eru þeir ekki hæfir í þetta starf, eru ekki rannsóknardómarar. Þetta er einn liðurinn í því að skilgreina hvað sé hið þrískipta vald.

Ég er líka andvígur því, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að þm. starfi með nefndinni. Um leið og þm. fara að starfa með nefndinni sem þm. er nefndin orðin óhæf og ekki starfi sínu vaxin. Þá er hún ekki lengur rannsóknardómstóll. Þess vegna verðum við að fara aðra hvora leiðina, að skipa rannsóknarnefnd eftir 39. gr. stjórnarskrárinnar eða óháða rannsóknarnefnd, óháða bæði framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi.

En ég ætla ekki að tefja tímann núna. Ég vona að við höfum tækifæri til þess við 2. umr. áð fara lengra ofan í þessi mál og ræða þau með þeim hætti sem hér hefur verið rætt, algerlega málefnalega þó skoðanir séu skiptar.