14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði einmitt að vekja athygli á því sama, að í gær var gert samkomulag á fundi þingflokksformanna og forseta um að leitast skyldi við, að óskum þm. m.a., að ljúka þessum fundi eigi miklu síðar en klukkan 1. Þess vegna kemur mér það ákaflega mikið á óvart að fulltrúi BJ, hv. þm. Stefán Benediktsson, skuli hafa séð sig knúinn til þess að tala ekki um þetta afmarkaða mál, sem er skipun rannsóknarnefndar til að athuga viðskipti ákveðinna aðila, heldur flytja almenna ræðu um bankamál og bankakerfi þjóðarinnar. Það gengur þvert á það samkomulag sem gert var í gær.