14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég skal virða tilmæli virðulegs forseta og það samkomulag sem gert hefur verið um umræður í dag. Ég hef mikið um þetta mál að segja, en ég læt það kyrrt liggja nú.

Ég vil aðeins ítreka af minni hálfu, af því að ég er að vissu leyti utan í þessu máli, orða það ekki sterkar en það, að fyrir hönd Útvegsbankans legg ég á það mikla áherslu að sú rannsókn, sem framkvæmd verði, verði sem ítarlegust.

Ég vil mótmæla því, sem sagt var áðan af hv. síðasta ræðumanni, að hún næði ekki til nema viss árafjölda. Mætti ég, virðulegur forseti, vitna í næstsíðustu málsgr. á bls. 2 í athugasemdunum með frv. Þar stendur: „Ekki hefur þótt fært að fastsetja við ákveðinn árafjölda það tímabil sem rannsóknin skal ná yfir, enda liggur ekki fyrir nú hvenær verulega tók að halla undan fæti í rekstri skipafélagsins né heldur með hvaða hætti og á hvaða tíma skuldaaukning varð við Útvegsbankann sem nú hefur leitt til mikils fyrirsjáanlegs tjóns hans við gjaldþrot félagsins. Miðað er við að nefndarmenn meti sjálfir lengd þess tímabils sem mestu skiptir í þessu máli.“

Ég vek athygli á að Hafskip hefur starfað í rúmlega 27 ár og það hafa því miður oft og iðulega verið rengingar í því fyrirtæki og það staðið á brauðfótum. Ég ætla því ekki að draga úr því að það verði helst rannsakaður allur tíminn í þessu máli og vil ekki hlusta á dylgjur um að það sé verið að draga úr því að það þurfi að rannsaka. Ég óska þess og tek undir það sem kemur fram í frv. að þetta verði rannsakað sem best og ítarlegast.

Að öðru leyti langaði mig til að ræða sérstaklega við hv. þm. Stefán Benediktsson um aðgerðarleysi bankaráða og annað slíkt, en ég sleppi því af virðingu við deildina. Það er búið að biðja um stuttar umræður.