14.12.1985
Neðri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nokkuð gengið á tíma þann sem við ætluðum okkur til fundahalda á Alþingi í dag, m.a. vegna óþægðar stjórnarliða í atkvæðagreiðslum. Ég mun því stytta mjög mál mitt við þessa umræðu um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Kröfluvirkjun. Ég vil þó geta þess við 1. umr. að ég hef ýmsar athugasemdir við frv. og efni þess og við þann kaupsamning sem meiningin er að fullgilda með frv. þessu.

Ég tel að ýmsum spurningum sé ósvarað og þó ég hafi lesið þær umræður sem urðu um mál þetta í Ed. hafa þær ekki skýrt fyrir mér ýmsa hluti sem ég tel að þurfi að liggja fyrir áður en mál þetta er afgreitt.

Þetta veit að því í fyrsta lagi hvers vegna menn telja nú nauðsynlegt að þessi breyting fari fram og hverjir hafa eftir henni óskað, hvers vegna knúið sé á um þessa breytingu enda þótt það liggi fyrir í nál. samkvæmt upplýsingum úr iðnn. Ed. að hvorugur meginaðili málsins, þ. e. kaupandi eða seljandi, hafi óskað eftir því að þessi breyting ætti sér stað.

Í öðru lagi tel ég nauðsynlegt að fá skýrari svör um kaupverð þessara eigna allra og um þann útreikning sem þar hefur átt sér stað og hvers vegna verð virkjunarinnar er svo lágt sem raun ber vitni miðað við þær miklu eignir sem þarna eru og þann tiltölulega litla tilkostnað sem þarf til að koma virkjuninni í full afköst og enn fremur með hliðsjón af þeirri litlu áhættu sem kaupandi, þ.e. Landsvirkjun, ætlar sér að taka þrátt fyrir yfirtöku eignanna, en í samningnum eru skýr ákvæði um að ríkissjóður mun eftir sem áður bera langmesta ábyrgð og taka mesta áhættu ef eitthvert tjón verður á mannvirkjum á þessum stað. Kaupandinn undanþiggur sig því ábyrgð. Þá væri eðlilegt að mínu mati að reikna þær eignir út með öðrum hætti en gert er.

Í þriðja lagi held ég að óhjákvæmilegt sé að menn fái svör yfirvalda orkumála í landinu um hvaða framtíð menn ætla þessari virkjun í orkukerfinu. Þegar hún skiptir um eigendur með þessum hætti er að mínu viti algerlega nauðsynlegt að það liggi fyrir hvað yfirvöld orkumála ætla sér og hvað hinn nýi eigandi ætlar sér með þetta mannvirki. Það skiptir máli bæði í sambandi við rekstur orkukerfisins í heild og byggðarlagið þar sem virkjunin er sem á mikilla hagsmuna að gæta.

Þá væri einnig eðlilegt að ræða í tengslum við þetta frv. ofurlítið um framtíð Rafmagnsveitna ríkisins sem öllum má ljóst vera að er að verða með nokkuð sérkennilegum hætti, þessa orkudreifingarfyrirtækis sem nú er að verða án nokkurrar verulegrar framleiðslugetu sjálft, er þar af leiðandi fyrst og fremst kaupandi orku og dreifandi orku og situr uppi með þau landsvæði sem erfiðust eru til þjónustu en nýtur á hinn bóginn á engan hátt hagkvæmni af því að selja raforku til þeirra þéttbýlissvæða þar sem orkudreifingin er auðveldust og hagkvæmni þeirrar orkusölu mest. Það gefur því auga leið, herra forseti, að hlutverk Rafmagnsveitna ríkisins verður erfiðara með hverju árinu sem líður og hverri þeirri breytingu sem gengur í þessa átt.

Þetta eru þeir meginefnisþættir sem ég tel óhjákvæmilegt að við ræðum áður en frv. verður afgreitt og hefði svo sem verið eðlilegt að eiga um þetta nokkrar umræður við 1. umr. Vegna þess knappa tíma sem við höfum geri ég hins vegar ekki kröfu til þess að þessum atriðum verði svarað eða þau útskýrð við þessa umræðu, en vænti þess að við höfum meiri tíma til að ræða þetta mál þegar það kemur til 2. umr. og frá hv. iðnn.