14.12.1985
Neðri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

177. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. í Nd. um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka viðskipti Hafskips hf. og Útvegsbanka Íslands svo og samningatilboð um yfirtöku eigna Hafskips hf. (Íslenska skipafélagsins hf.)

Nei. Nú bið ég forseta forláts. Mér varð það á að lesa höfuðið á vitlausu þskj. (ÓÞÞ: Nei.) Jú. (ÓÞÞ: Skjalið er ekki vitlaust.) Á röngu þskj. - Ég er að mæla fyrir 177. máli, hv. skrifari, en hafði til að bera saman við það með mér annað dagskrármál svipaðs eðlis sem nýverið hefur verið mælt fyrir hér í deildinni. (Forseti: Ég bið hv. þdm. að hafa hljóð á meðan talað er.) Ég vil taka það skýrt fram að þetta er 177. mál á þskj. 200 og það er till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka viðskipti Hafskips hf. og Útvegsbanka Íslands. Þetta eru nokkuð svipuð þskj. þannig að ég áttaði mig ekki fyrr en komið var aftarlega í tillögugreinina að ég var að lesa upp af öðru þskj. en meiningin var. - Enn fremur á að rannsaka samkvæmt tillgr.: öll viðskipti Hafskips við innlend og erlend fyrirtæki og viðskipti annarra skuldugra stórfyrirtækja við ríkisbankana þrjá.

Flm. að þessari till. eru ásamt mér hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, Guðrún Helgadóttir og Geir Gunnarsson.

Tillgr. sjálf hljóðar svo, með leyfi forseta:

"Nd. Alþingis ályktar að kjósa sjö manna rannsóknarnefnd skv. ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Verkefni rannsóknarinnar séu:

1. Að rannsaka öll viðskipti Hafskips hf. við Útvegsbanka Íslands á s.l. 10 árum, þar á meðal dagsetningar, upphæðir og veð lána og umfjöllun bankans um þau, eftirlit með rekstri og bókhaldi fyrirtækisins og sannleiksgildi þeirra skýrslna sem Hafskip hf. lét Útvegsbankanum í té.

2. Að rannsaka öll viðskipti Hafskips hf. við innlend og erlend fyrirtæki í því skyni m.a. að sannreyna upplýsingar um að fjármunir hafi verið fluttir út úr fyrirtækinu og til annarra fyrirtækja í eigu stjórnenda Hafskips, kanna staðhæfingar um að blekkingum og fölsunum hafi verið beitt í bókhaldi Hafskips og kanna einnig öll önnur atriði sem snerta viðskipti og reikningshald Hafskips.

3. Að rannsaka öll afskipti ráðherra, alþm. og annarra forustumanna í stjórnmálum, svo sem fyrrum starfsmanna fulltrúaráða og formanna flokksfélaga og kjördæmissambanda, af málefnum Hafskips á liðnum árum í því skyni að leiða í ljós hvort sannar eru ásakanir um að fyrirtækið hafi á beinan eða óbeinan hátt notið velvildar og fyrirgreiðslu pólitískra áhrifaaðila.

4. Að rannsaka skuldastöðu helstu stórfyrirtækja sem meiri háttar lán hafa fengið frá ríkisbönkunum þremur og skal í þeirri athugun tekið mið af: a. sérstakri aukningu lána til einstakra fyrirtækja á s.l. tveimur árum og veðum þeirra lána; b. skuldastöðu þeirra 10 fyrirtækja sem skuldugust eru við hvern ríkisbankanna, alls 30 fyrirtæki; c. ábendingar frá bankaeftirlitinu um hvaða fyrirtæki beri að athuga sérstaklega.

Rannsóknarnefndin skal einnig kanna aðra þætti þessara mála eftir því sem henni þykir ástæða til og nauðsynlegt reynist.

Í samræmi við 39. gr. stjórnarskrárinnar skal rannsóknarnefndin hafa í störfum sínum fullan rétt til allra upplýsinga frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum eftir því sem nauðsynlegt reynist. Fundir rannsóknarnefndarinnar skulu haldnir í heyranda hljóði.

Rannsóknarnefndin skal hafa heimild til að ráða í sína þjónustu sérfræðinga, svo sem lögfræðinga, rekstrarfræðinga og bókhaldsfræðinga, eftir því sem nauðsynlegt reynist og skal kostnaður við störf nefndarinnar greiðast úr ríkissjóði.

Rannsóknarnefndin skal mánaðarlega skila Alþingi bráðabirgðaskýrslum um störf sín og lokaskýrslu eigi síðar en innan fjögurra mánaða frá samþykkt þessarar ályktunar.

Kjósi Ed. sams konar rannsóknarnefnd skulu nefndirnar vinna saman að athugun þessara mála.“

Herra forseti. Hér er lagt til að skipa rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. 39. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er stutt og laggóð og með leyfi forseta hljóðar hún svo:

„Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmönnum til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Þingdeildin getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Það er sem sagt á grundvelli ákvæða þessarar greinar sem till. þessi er flutt og lagt til að nefndin fái víðtækt vald til að afla gagna og kanna öll þau atriði sem málinu tengjast.

Verkefni nefndarinnar er sömuleiðis mjög víðtækt. Það er óþarfi, herra forseti, að hafa mörg orð um þetta mál efnislega, svo mikla umræðu hefur það hlotið á hv. Alþingi. Síðustu daga hafa sífellt fleiri þættir þessa umfangsmikla máls verið að koma fram í dagsljósið. Það liggur fyrir að hér er um eitt stærsta ef ekki stærsta gjaldþrotamál í sögu íslenska lýðveldisins að ræða og viðkomandi banki, Útvegsbanki Íslands, hefur tapað gífurlegum fjármunum eða virðist munu tapa gífurlegum fjármunum. Eigandi þess banka er, eins og allir vita, almenningur í landinu. Það kemur þá til kasta almennings að bera þetta tjón með einum eða öðrum hætti.

Það hefur ýmislegt borist í fjölmiðla um þá menn sem þessu máli tengjast fyrst og fremst í sambandi við rekstur fyrirtækisins og afskipti af því. Er algerlega óhjákvæmilegt að þeir hlutir verði kannaðir ofan í kjölinn og hið sanna lagt á borðið. Þess vegna varð það niðurstaða þingflokks Alþb. að nauðsynlegt væri að Alþingi notaði sér í þessu tilfelli ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka alla þætti þessa máls mjög ítarlega. Sú rannsókn verði með þeim hætti að almenningur í landinu hafi enga ástæðu til að tortryggja að öllu sé til haga haldið og allt kannað sem máli skiptir. Það er alveg óhjákvæmilegt að fullur trúnaður ríki milli almennings í landinu og þeirra aðila sem rannsókn málsins stýra. Við teljum að slíkur trúnaður verði best tryggður með því að æðsta valdastofnun þjóðarinnar, Alþingi sjálft, taki rannsókn málsins í sínar hendur.

Hliðstæð tillaga hefur verið lögð fram í Ed. og mundu nefndir sem kosnar yrðu samkvæmt þessum tveimur tillögum í hv. deildum þingsins þá starfa saman samkvæmt tillögunum.

Þessi till. er einnig flutt til að firra hæstv. ríkisstj. allri tortryggni í þessu máli, til að bjóða hæstv. ríkisstj. samstarf um rannsókn málsins. Það kemur nokkuð á óvart ef hæstv, ríkisstj. vill ekki nýta sér þessi ákvæði stjórnarskrárinnar og þessa heimild þingskapa til að skipa slíka nefnd þegar jafnveigamikið mál er á ferðinni.

Fleiri mál, sem tengjast þessu viðamikla máli, eru í meðferð þingsins. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að koma þessu máli áleiðis til nefndar, herra forseti, þannig að hægt sé að hafa yfirsýn yfir allan þann tillöguflutning. Einnig hafa verið lagðar fram beiðnir um skýrslur sem tengjast afmörkuðum þáttum eða hlutum þessa máls.

Herra forseti. Ég ætla tímans vegna ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð. Eins og ég segi hefur málið sjálft verið ítarlega rætt á þinginu undanfarna daga, bæði utan og innan dagskrár, og efnisþættir þess ættu að vera mönnum nokkuð kunnir. Sú málsmeðferð, sem hér er lögð til, er einnig einföld í sjálfu sér. Þetta er um skipan nefndar skv. þessari grein stjórnarskrárinnar. Fordæmi eru fyrir slíku þó að þau séu að vísu ekki mörg í íslensku þingsögunni á seinni árum a.m.k. En þetta er rannsóknarvenja sem er altíð í ýmsum nálægum löndum og gjarnan notuð þegar stórmál eru á ferðinni og mætti nefna dæmi þess.

Það liggur einnig fyrir nú, sem fram kom í gær, að ríkissaksóknari hefur hafnað þeirri beiðni hæstv. núv. iðnrh. Alberts Guðmundssonar að fram fari sérstök rannsókn á þætti hans í þessu máli. Færir ríkissaksóknari fyrir því ýmis rök að það sé ekki eðlileg málsmeðferð að taka einn einstakling sem málinu tengist út úr og rannsaka þátt hans sérstaklega. Það sé í raun ógerlegt. Auk þess liggi ekki þær forsendur fyrir í málinu sem séu nauðsynlegar til þess að slík opinber lögreglurannsókn eða dómsrannsókn af hálfu ríkissaksóknara fari fram.

„Á þessu stigi máls“, segir ríkissaksóknari, með leyfi forseta, í svarbréfi til iðnrh., „þegar rannsókn skiptaréttar er varla byrjuð, er eigi fyrir hendi sá rökstuddi grunur að unnt sé að hefjast handa um sakamálsrannsókn út af ætlaðri refsiverðri háttsemi vegna fyrrgreindra starfa yðar.“

Svo er auðvitað um allt þetta mál. Það liggja ekki fyrir slíkar forsendur á þessu stigi málsins. Þess vegna þarf rannsókn að fara fram.

Málið er hjá skiptarétti, eins og menn vita, en við teljum að sú málsmeðferð sé ónóg. Þar verða fyrst og fremst rannsakaðir þeir þættir sem lúta að uppgjöri búsins og þeim liðum öðrum sem beint tengjast því, en þetta mál er auðvitað víðtækara og snýst um meira en meint refsiverð afbrot. Við teljum að það sé best komið í höndunum á slíkri þingkjörinni nefnd að rannsaka alla þætti málsins og hafa yfirsýn yfir rannsókn þess.

Sú þriggja manna nefnd sem hæstv. ríkisstj. hyggst beita sér fyrir að kosin verði eða skipuð verði til að rannsaka þetta mál er að okkar mati einnig of takmörkuð og ónóg rannsóknaraðferð til þess að það megi þjóna því markmiði að draga alla þætti málsins fram í dagsljósið og víðtækt umboð nefndar sem kjörin væri á þinginu samkvæmt þessari þáltill. hefði yfirburði í þeim efnum.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki þessa framsöguræðu lengri með tilliti til aðstæðna og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allshn. deildarinnar.