14.12.1985
Neðri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

177. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var mikið að hv. 2. þm. Reykv. fékk málið í þessu Hafskipsmáli. Hann kvartar undan því áðan að umræðan sé knöpp núna. Var ekki átta tíma umræða utan dagskrár um málið á Alþingi á dögunum? Tók hann þá til máls? Mér er ekki kunnugt um það. Fékk hann að tala fyrir hönd síns flokks í útvarpsumræðunum um daginn? Ég heyrði það a.m.k. ekki á öldum ljósvakans. Hann hefur þá talað eftir að skrúfað var fyrir viðtækin. En svo þegar þessi till. kemst á dagskrá og ræðutíminn er átta mínútur fær maðurinn allt í einu málið og í þetta skipti til að svara hv. varaþm. Ólafi Ragnari Grímssyni í stað þess að nota tækifærið og tímann þegar hv. þm. var hér inni til að svara þeim athugasemdum og upplýsingum sem komu fram hjá honum. Þessi vinnubrögð hv. 2. þm. Reykv. eru honum til lítils sóma og ber að harma að hann skuli ekki maður að meiru í þessu efni og reyna að standa fyrir máli sínu gagnvart þeim sem einkum hafa flutt þetta mál að undanförnu með miklum myndarbrag eins og hv. 7. þm. Reykv., varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson, gerði á sínum tíma.

Ég vil í sambandi við umræður sem nú fara fram segja að ég er undrandi á þeirri lítilþægni sem fram kemur hjá hv. 5. þm. Reykv. varðandi það að sætta sig við skiptaráðandann sem úrslitaaðila í þessu máli. Hann segir: 1. tölul. er skiptaráðandi, 2. tölul. er skiptaráðandi og þess vegna á Alþingi ekkert að skipta sér af þessum hlutum. Það er furðulegt að heyra þetta frá þm. sem hlýtur að þekkja til réttarkerfisins eins og það hefur unnið á liðnum árum og er nærtækast í þessu sambandi að minna á Friðriks Jörgensens málið sem mér er ekki kunnugt um að sé lokið enn. Auðvitað verður að hafa miklu hraðari tök á þessu máli en skiptaráðandinn getur nokkurn tíma gert. Það er út í hött og kostulegt þegar hv. 5. þm. Reykv., formaður Alþfl., vísar á skiptaráðandann með þeim hætti sem hann gerði áðan.

Ég verð einnig að segja að ég tel að 3. tölul. í till. Alþb. varðandi rannsókn á afskiptum einstakra stjórnmálamanna í þessum efnum eigi betur við í dag en jafnvel þegar till. var flutt, sérstaklega eftir að ríkissaksóknari hefur neitað að fjalla um þau sérstöku mál sem snúa að hæstv. iðnrh. Það er út af fyrir sig rétt, sem fram hefur komið, að hann hefur ekki verið borinn í þessu máli, svo að ég muni, ásökunum um lögbrot. Hins vegar hefur komið fram hjá hæstv. iðnrh. sjálfum að hann telur nauðsynlegt að gengið verði rösklega fram í því að fá allar upplýsingar um hans afskipti af þessu máli til að legið geti fyrir með hverjum hætti þau afskipti hafa verið. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar og er sammála hæstv. iðnrh. um það, eins og kom fram þegar hv. þm. Jón Baldvin hóf umræður um þetta fyrir nokkru, að það er honum nauðsynlegt hvað sem sem öllu öðru líður að rannsókn þess þáttar sem að honum snýr verði sérstaklega flýtt þó svo að ríkissaksóknari hafi hafnað því.

Ég lít ekki á niðurstöðu ríkissaksóknara sem hundahreinsun, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði áðan. Það er alger fjarstæða að líta þannig á hlutina. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. saksóknari ríkisins sinnti slíkum verkum sérstaklega, jafnvel ekki þegar í hlut á hæstv. iðnrh. (FrS: Það hlýtur þú að vita manna best.) Ég gæti þekkt til eins og annars í þeim efnum, hv. þm., þó að ég þekki verr til innanborðs í Hafskipi en hv. þm. gerir örugglega.

Varðandi 4. tölul., sem snertir skuldastöðu helstu stórfyrirtækja við bankana, er það mál sem ríkisstj. sjálf hefur tekið ákvörðun um að kannað verði sérstaklega. Hér er verið að hnykkja á því, má segja lýsa stuðningi við afstöðu ríkisstj. og ákvörðun hæstv. viðskrh. í þeim efnum. Ég tel þess vegna að till. Alþb. eins og hún liggur fyrir geti í alla staði átt rétt á sér.

Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni að till. Alþfl. o.fl. getur vel rúmast innan till. Alþb. Þess vegna má segja að það væri kannske eðlilegasta málsmeðferðin í þessu að hv. þm. Alþfl. o.fl. drægju sína till. til baka vegna þess að fyrir liggur og til umræðu er yfirgripsmeiri till. og er á dagskrá. En ég er ekki að fara fram á það. Ég held að nauðsynlegt sé að þessar till. fái allar eðlilega þinglega meðferð á næstu dögum og auðvitað væri æskilegast að niðurstöður lægju fyrir þegar næstu daga.

Vafalaust er einhver missmíð á till. Alþb. og ég sé bersýnilega eina missmíð á till. Það er að hvergi skuli vera vikið að þætti Seðlabankans varðandi þetta mál. Ég er satt að segja mjög undrandi á því hvað hv. þm. hafa í raun og veru sleppt Seðlabankanum í umræðum um þessi mál þegar fram kemur í grein eftir Jóhannes Nordal bankastjóra Seðlabankans í Morgunblaðinu í dag að honum var kunnugt um vanda Hafskips og Útvegsbankans strax í júnímánuði, snemma, en lætur ríkisstj. ekki vita, ekki viðskrh. og ekki heldur hið þingkjörna bankaráð. Ég held þess vegna að það ætti að kanna og rannsaka hlut Jóhannesar Nordals og bankastjóra Seðlabankans í þessu máli alveg sérstaklega. Málið liggur ekki þannig að þeir séu eins og hvítskúraðir englar í þessu máli. Það er alveg bersýnilegt að þeir bera fulla ábyrgð. Ég held að það væri ástæða til að gera kröfu til að þeirra þáttur væri kannaður mjög rækilega þó ekki væri nema vegna þess að bankastjórinn Jóhannes Nordal hefur fylgst með þessu máli alveg frá upphafi. En Hafskipsmálið og Útvegsbankamálið er ekki nýtt á borðum ríkisstjórna og Alþingis nú. Það hefur einlægt verið að koma upp aftur og aftur á undanförnum árum.

Mín niðurstaða af þessari umræðu allri er fyrst og fremst ein. Hún er sú að það á að leggja Útvegsbankann niður. Útvegsbankinn ræður ekki við sín verkefni eins og hann er. Það þarf að sameina Útvegsbankann öðrum bönkum. Það er aðalatriðið í málinu. Mér finnst sérkennilegt ef ríkisstj. notar ekki stöðuna núna til að knýja fram uppgjör á stöðu Útvegsbankans í bankakerfinu og jafnframt það að hann verði sameinaður öðrum bönkum.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að sameina hann ríkisbönkum. Aðrir eru þeirrar skoðunar að það eigi að sameina hann að einhverju leyti einkabönkum. Ég teldi að það væri myndugasta viðbragð Alþingis í framhaldi af þessum umræðum öllum að taka ákvörðun um að setja af stað sameiningu á þessum bönkum, hefja vinnu þar að lútandi sem færi fram á næstu mánuðum þannig að t.d. í lok ársins 1986 lægi fyrir hvernig farið verður með Útvegsbankann áfram. Það er ábyrgðarleysi að láta Útvegsbankann hanga í lausu lofti miklu lengur eins og hann hefur orðið að gera vegna þess að menn hafa ekki fengist til að taka á þessu máli. M.a. hafa Búnaðarbankamenn ýmsir, sem sitja ekki langt frá mér, aldrei mátt heyra nefnt að það væri tekið á skipulagsmálum bankanna og þannig þverskallast við og neitað að horfast í augu við veruleikann í þessum málum. Það hefur lengi legið fyrir að skipulagsmál bankanna eru tóm vitleysa. Bankakerfið er allt of dýrt. Almenningur býr við öryggisleysi í þessum efnum meðan bankakerfið er svona skipulagt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara yfir einstök atriði í ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar. Það var eitt og annað sem kom þar fram. Ég held að menn eigi að sameinast um að koma þessum málum til nefndar. Það var þess vegna sem við Alþýðubandalagsmenn lögðum áherslu á að málið yrði tekið fyrir. Við vildum að það fengi þinglega meðferð. Ólafur Ragnar Grímsson var ekkert að flýja frá því að ræða um málið við einn eða neinn, eins og ég veit að hv. þm. sem hér eru viðstaddir vita.

Ég vil að lokum, herra forseti, segja: Það sem er ljótast að mínu mati í því máli sem snýr að Hafskipum eru þær upplýsingar sem fram hafa komið um að einstakir eigendur fyrirtækisins forði sínum eignum undan uppgjörinu og skilji skuldirnar eftir hjá þjóðinni. Ef einhvern tíma hefur átt við að nota orðið „siðleysi“ úr þessum ræðustól ætti það við við slíkar kringumstæður. Það held ég að hv. þm. geti allir verið sammála um.