14.12.1985
Neðri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

177. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nokkur orð í tilefni af því sem gerst hefur í umræðunum.

Í fyrsta lagi: Varðandi það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, skrifari, sagði liggur fyrir að í þingnefnd er hægt að vinna í slíkum tilfellum með ýmsum hætti. Það má nefna fordæmi frá hv. utanrmn. sem fékk til meðferðar á síðasta þingi fjöldann allan af tillögum sem vörðuðu utanríkis- og afvopnunarmál og lagði fram undir lok þingsins eina sameiginlega till. þar sem öll sjónarmið höfðu varið sameinuð og náðst hafði samstaða um tiltekna málsmeðferð og tiltekna tillögu. Slíkt er auðvitað hægt og er hluti af þinglegum störfum að sameina sjónarmið þegar þess er kostur.

Það má benda á að fyrir utan þessar tillögur liggja fyrir beiðnir um skýrslur, eins og hér hefur komið fram, og frv. frá ríkisstj. Það er eðlilegt að þessi þingmál séu öll til meðferðar og skoðunar í einu. Þess vegna svara ég þegar í stað hv. 5. þm. Reykv. Það væri óeðlilegt að fara að kalla aftur tillögur á þessu stigi málsins, hvort sem heldur væri till. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flm. að eða aðrar. Hitt er miklu eðlilegra og þinglegra að þær gangi til nefndar og fari þar til umfjöllunar.

Það má gera, ef menn vilja eyða tímanum við þessa umræðu, orðalagsathugasemdir við einstakar tillögur. Það er ekki nema sjálfsagt. En slíkar voru athugasemdir Ólafs Þ. Þórðarsonar og ber að skoða sem slíkar.

Ég vil segja, eins og hv. 3. þm. Reykv. gerði reyndar, að 3. liður till. á þskj. 200 er enn nauðsynlegri en ella eftir þær lyktir sem orðið hafa á málskoti hæstv, iðnrh. til ríkissaksóknara. Það er ekki þannig að mínu viti að hæstv. iðnrh. hafi verið hvítskúraður, eða hvaða orð sem menn vilja nota í því sambandi. Ef ég má, með leyfi forseta, vitna í svarbréf ríkissaksóknara segir þar:

„Að gefnu tilefni vegna orðalags í fyrrgreindu bréfi yðar [þar er vitnað til bréfs iðnrh. til ríkissaksóknara] er rétt að taka fram að það getur aldrei verið aðaltilgangur með opinberri rannsókn að hreinsa eða hvítþvo menn af ásökunum eða orðrómi um refsiverða háttsemi.“

Það held ég að svari því best hvers vegna ríkissaksóknari svarar málskoti iðnrh. eins og raun ber vitni. Það segir einnig í 4. tölul. svarbréfsins:

„Á þessu stigi máls, þegar rannsókn skiptaréttar er varla byrjuð, er eigi fyrir hendi sá rökstuddi grunur að unnt sé að hefjast handa um sakamálsrannsókn út af ætlaðri refsiverðri háttsemi vegna fyrrgreindra starfa yðar.“

Málið er ósköp einfaldlega ekki á því stigi að ríkissaksóknari taki það í sínar hendur og fyrirskipi sakamálsrannsókn. Þetta ætti öllum að vera ljóst. Þess vegna er enn brýn þörf á því að þáttur hæstv. iðnrh., sem og þeirra manna annarra sem málinu tengjast, verði rannsakaður og kannaður, og ég veit að hæstv. iðnrh. er þess manna mest fýsandi sjálfur því að hann hefur manna mest lýst því yfir að það sé óþolandi að sitja undir slíkum ásökunum og ég skil það vel.

Það er einnig ljóst að mál allra þessara manna verður að kanna samhliða og í einu því að annað væri, fyrir utan allt annað, brot á jafnréttisreglunni eins og ríkissaksóknari hefur bent á.

Ég vil segja einnig vegna þeirra ummæla hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar um hvernig flutning þessara till. bar að að þær eru ósköp einfaldlega fram komnar um mjög svipað leyti. Slíkt gerist iðulega á hv. Alþingi. Er ekkert óvenjulegt að tillögur um svipuð mál komi fram um svipað leyti, gjarnan að gefnu tilefni, og það gerðist í þessu tilfelli.

Það má einnig benda á í lokin að 4. liður till. okkar þm. fjögurra á þskj. 200 gerir þá till. alla miklu víðtækari og rannsóknina alla sem þar er ætlað að inna af hendi þar sem er úttekt á stöðu þessara mála í heild sinni í ríkisbönkunum.

Það gefst e.t.v. ekki tími til að svara hv. 2. þm. Reykv., en ég vil þó segja að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er farinn úr landi, það ég best veit, til að sinna aðkallandi skyldustörfum á alþjóðavettvangi, sem hann hefur tekið að sér, og enn fremur er mættur til starfa eins og allir mega sjá hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Menn gera varla athugasemdir við að hann taki þingsæti sitt þegar hann er kominn heim og tilbúinn að hefja störf - eða átti ég að skilja hv. 2. þm. Reykv. þannig? Það hefði verið nokkuð sérkennilegt.

Það er ekki rétt að Alþb. sé á móti einkarekstrinum í landinu. Þvert á móti er það svo að við höfum í vaxandi mæti þurft að gerast talsmenn einkaframtaksins vegna þess að íhaldið er svo ónýtt við að standa við bakið á einkaframtakinu og er að koma slíku óorði á þá tegund atvinnurekstrar að við þurfum að koma þar alveg sérstaklega til hjálpar, t.d. í smærri atvinnurekstri eins og við höfum bent á og gert ályktanir um. Það er hins vegar þannig að ýmiss konar starfsemi í þessu þjóðfélagi er með þeim hætti, með því umfangi og þeirrar gerðar að við teljum eðlilegt að opinberir aðilar hafi þar hönd í bagga eða hafi þann rekstur með höndum. Þar með taldar eru Flugleiðir. Það fyrirtæki er mjög stórt í jafnþýðingarmiklum þætti og flugsamgöngur til og frá landinu eru. Það er mín skoðun að ríkisvaldið eigi að vera með hönd í rekstrinum þar.

Það var nokkuð sérkennilegt sem skeði á hv. Alþingi fyrir ekki löngu. Rétt eftir að ríkið var búið að selja hlut sinn í þessu fyrirtæki kom upp kjaradeila í fyrirtækinu. Hvað skeði þá? Ríkisstj. nauðgaði í gegn frv. með atbrigðum og lét skrifa undir það vegna þess að þjóðarheill krafðist, að sögn ráðherranna, að flugsamgöngur stöðvuðust ekki. Þá þótti mönnum allt í lagi að grípa inn í. Þá var hægt að færa rök fyrir því að ríkið ætti að vera með hendurnar í þessu máli. Þá var það allt. í lagi. En rétt áður var búið að selja hlut ríkisins.

Þetta gengur einfaldlega ekki upp, hv. þm. Friðrik Sophusson. Auðvitað er það þannig að þegar eitt fyrirtæki hefur nánast einokunarrétt skiptir það almannahag svo miklu máli að eðlilegt er að ríkisvaldið sé þar inni í eða aðrir opinberir aðilar. Þess vegna get ég sagt það feimnislaust að ég tel að Flugleiðir ættu helst að vera í opinberri eigu eða a.m.k. að verulegu leyti reknar með íhlutun opinberra aðila. En það kemur kannske ekki beint inn í þetta mál og þó tengist þetta allt saman.

Ég held ég hafi þá svarað helstu athugasemdum sem hér hafa verið gerðar og þakka að sjálfsögðu málefnalegar umræður sem alltaf verða þegar þessi mál ber á góma.