16.12.1985
Efri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. er búinn að fjalla allítarlega um þetta. Honum eru þessi mál ekki allsendis ókunnug sem fyrrverandi fjmrh. og hann þekkir sjálfsagt ýmis þau brögð sem beitt er, eins og að búa til nýjar tölur, henda þær á lofti nánast, eins og gert er um fjáröflun til húsnæðismála. Ég veit að hv. þm. Ragnari Arnalds eru þessar aðferðir ekki ókunnar með öllu. Þær eru ekki nýjar, en þær eru ekkert betri fyrir það.

Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur fjallað um þetta mál á milli umræðnanna. Það er alveg ljóst að með þeirri málsmeðferð sem viðhöfð er, þegar búið er að tengja fjárlögin og lánsfjárlög með þeim hætti sem nú er og frv. eru afgreidd samtímis, er fullkomlega óeðlilegt að um þetta sé fjallað í tveim aðskildum nefndum. Það eru mjög slæm vinnubrögð. Ég er ekkert að álasa hæstv. fjmrh. fyrir það sérstaklega. Ég bendi bara á að þessu verður að breyta vegna þess að á hvorugum staðnum hafa menn þá yfirsýn og þá tengingu þessara tveggja mála sem er óhjákvæmileg og nauðsynleg. Ég held að við hv. þm. verðum að huga að því að breyta þessu og ég held að á ýmsan hátt þurfi að horfa nánar á verkaskiptingu fjh.- og viðskn. annars vegar og hins vegar fjvn. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt. Þetta vildi ég láta koma hér fram strax í upphafi máls míns sem ábendingu um það sem betur má fara.

Efnislega er það um þetta frv. að segja að það gerir ráð fyrir auknum lántökum sem nemur 15-1600 millj. kr. Það gengur auðvitað þvert á stefnu ríkisstj., yfirlýsta, um að auka ekki erlendar lántökur. Og hver ráðherrann á fætur öðrum, af þeim sem forustu hafa, hefur lagt áherslu á, einkanlega forsrh. og fjmrh., að við gætum ekki haldið lengra á þeirri braut að auka erlendar skuldir umfram það sem við þurfum að greiða þegar og erum skuldbundin til að greiða í afborganir og vexti. En það er engu að síður gert. Og bent hefur verið á að líklegt sé að erlendar lántökur muni aukast enn meira en þær tölur sem ég hef nefnt. Við erum á sömu braut og ýmsar grannþjóðir okkar, t.d. Danir og margir fleiri raunar, að við fjármögnum greiðsluhallann og innflutninginn með erlendum lántökum og lifum þannig um efni fram. Á þetta hafa þm. Alþfl. á Alþingi bent árum saman og sagt að hér yrði að spyrna við fótum, en það hefur ekki verið gert.

Ein leið sem rétt er að benda á og ég hygg að hafi kannske ekki verið skoðuð til hlítar er sú að gera ýmsum opinberum stofnunum sem tekið hafa lán að greiða þau nokkru hraðar en ráð hefur verið fyrir gert. Ég hygg að þetta hafi verið gert t.d. varðandi Póst- og símamálastofnun. Ég tel alls ekki útilokað að einhverjar fleiri stofnanir gætu gert þetta því auðvitað er brýnast fyrir okkur að létta af þessari skuldabyrði. En viðurkennt skal að það er hægara um að tala en í að komast.

Ég mun ekki við þessa umræðu flytja af hálfu Alþfl. brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1986. Þegar þetta frv. kemur til umfjöllunar í Nd. hlýtur tillögugerðin óhjákvæmilega að mótast af því sem við leggjum til að verði breytt í fjárlögum þannig að brtt. munu koma fram þegar ljósara verður hvernig fjárlög verða afgreidd. Þá munu brtt. Alþfl. koma fram í Nd.

Vikið hefur verið að ýmsum atriðum sem hv. 4. þm. Norðurl. v., frsm. meiri hl. nefndarinnar, gerði grein fyrir í sínu máli. Hann vék m.a., og það gerði síðasti hv. ræðumaður einnig, að fyrirtæki sem Vallhólmur heitir og ríkið á 3/4 hlutafjár í og nefndin vildi ekkert hafa með að gera á þessu stigi máls. Nú hefur það verið stefna þessarar hæstv. ríkisstj. að losa ríkið úr alls konar rekstri sem það hefur verið aðili að. Ég nefni þörungavinnslu. Ýmislegt fleira má taka til, Landssmiðjuna o.fl., þar sem ríkissjóður hefur hætt rekstraraðild. Er að sumu leyti ekki nema gott um það að segja. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. fjmrh.: Er þess ekki að vænta að frá ríkisstj. komi frv. um að ríkissjóður hætti þátttöku í þessari graskögglaframleiðslu? Mér finnst það gefa auga leið. Ég sé ekki hvers vegna ríkissjóður á að vera að standa í þessari framleiðslu sem eignaraðili. Ég sé ekki nokkrar ástæður til þess. Ef þessi fyrirtæki geta ekki borið sig, þá það. Það kom fram till. um að selja hluta ríkisins í Sementsverksmiðju ríkisins í fyrra og var fylgt mjög hart eftir af hálfu hæstv. þáverandi iðnrh. þó mér sé ekki kunnugt um hvort menn hafi snýtt rauðu eður ei eftir þá snerru. En það mætti spyrja sem svo með t.d. Áburðarverksmiðjuna: Væri ekki ástæða til í fyrsta lagi að selja jafnmikið í henni og stjórnarsinnar hugsuðu sér að selja úr Sementsverksmiðju ríkisins eða, sem e.t.v. væri þó enn þá betra, að selja fyrirtækið allt eða gera það að hlutafélagi? Gallinn er bara sá á gjöf Njarðar að þar vill enginn kaupa. Það er sennilega höfuðmálið að þó að væri framboð verður engin eftirspurn vegna þess að það er búið að koma rekstri þess fyrirtækis þannig að hann er alfarið fármagnaður af amerískum bönkum. Fyrirtækið hefur ekkert eigið rekstrarfé vegna þess að það hefur selt framleiðslu sína undir kostnaðarverði og lánað með lánskjörum sem hafa verið, að ég hygg, verulega betri en á almennum lánamarkaði. En þetta var önnur saga. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. svari því hvort þess sé ekki að vænta að ríkið afsali sér með sölu eignarhlut í þeim graskögglaverksmiðjum sem það á aðild að.

Það hefur verið vikið hér að málefnum Kvikmyndasjóðs t.d. Ég hef fulla samúð með því máli. Hins vegar verð ég að viðurkenna að það snertir mig ekki á sama hátt og t.d. Framkvæmdasjóður fatlaðra. Þó Kvikmyndasjóður sé skorinn niður í hörðu ári og hörðum árum finnst mér það ekki tiltökumál. Hitt finnst mér hins vegar tiltökumál, niðurskurðurinn á Framkvæmdasjóði fatlaðra.

Hér hefur einnig verið minnst á Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég hjó eftir því í fréttum um helgina, gott ef ekki var í gærkveldi eða í gærdag, að þar var frá því sagt að fjárþörf Lánasjóðs ísl. námsmanna yrði um 1900 millj. kr. á næsta ári. Í fjárlagafrv. munu honum ætlaðar, ef ég fer rétt með og vitna þá til eftir minni, með lántökum í kringum 1100 millj. kr. eða á tólfta hundrað milljóna. Ekki skal ég draga úr því og legg áherslu á að veruleg lánastarfsemi af þessu tagi er auðvitað forsenda þess að hér ríki nokkurt jafnræði þegnanna með að stunda framhaldsnám. Ég undirstrika að það er meginatriði og það á að vera. Hins vegar gefur ekki auga leið, og það vil ég líka leggja áherslu á, að það eigi að verða við öllum ýtrustu kröfum í þessum efnum. Auðvitað hefur íslenskur almenningur tekið á sig mikla kjaraskerðingu, margháttaða kjaraskerðingu. Auðvitað verða námsmenn að sitja við sama borð í þeim efnum og una nokkurri kjaraskerðingu þegar illa árar í þjóðfélaginu.

Ég hef líka efasemdir um að það rekstrarskipulag sem er við lýði nú á Lánasjóði ísl. námsmanna sé endilega hið besta. Sem umboðsmaður tveggja námsmanna, sem eru við nám erlendis, hef ég þurft að hafa nokkur skipti við þessa stofnun. Ekki skal dregið úr velvilja þeirra sem þar starfa en óneitanlega sýnist manni að þarna gæti ýmislegt betur farið og oftlega hefur sú hugmynd að mér flögrað hvort ekki væri einfaldara og ódýrara að fela ríkisbönkunum að annast þessa afgreiðslu t.d. eða bankakerfinu yfirleitt.

Auðvitað koma ýmsar aðrar leiðir til greina, en ef menn hugsa til hlutfallanna í fjárlögunum eru 1900 millj., sem Lánasjóður ísl. námsmanna telur sig þurfa, býsna hátt hlutfall af heildarniðurstöðutölum fjárlaga. Ég legg áherslu á að lánakerfi á borð við þetta verður að vera til og það verður að stuðla að því að efnahagur foreldra og námsmanna ráði ekki alfarið því hverjir geta stundað framhaldsnám, en það er ekki þar með sagt að reglurnar núna séu þær bestu sem hægt er að hugsa sér. Mér finnst það t.d. rangt hvað snertir námsmenn sem leggja hart að sér við sumarvinnu, og aðstæður þeirra eru auðvitað ólíkar og með ýmsum hætti, að dugnaði þeirra og kappi við vinnu sé svarað á haustdögum með því að segja: Þú vannst svo mikið í sumar að þú færð ekkert lán í haust. Ég hef efasemdir um að þetta sé rétt. Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé rétt stefna vegna þess að eins og þetta er núna hvetur það námsmenn beinlínis til að afla sér lítilla tekna yfir sumarið. Það held ég að sé í eðli sínu rangt og þurfi að endurskoða.

Ég mun, virðulegi forseti, og við þm. Alþfl. hér, greiða atkvæði gegn 1. gr. þessa frv. Við munum síðan væntanlega sitja hjá við atkvæðagreiðslu um flestar aðrar greinar, en greiða aðkvæði með brtt. um framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra vegna þess að það mál hefur nokkra sérstöðu.

Ég tek undir það, sem komið hefur fram hjá ýmsum öðrum ræðumönnum, að þetta frv. til lánsfjárlaga er um ýmislegt kannske nokkuð fjarri veruleikanum og ekki er ósennilegt að við eigum eftir að fá það aftur til umfjöllunar hér í þessari hv. deild eftir að þm. í Nd. hafa um það farið höndum. En af okkar hálfu verða ekki fluttar brtt. á þessu stigi máls, eins og ég hef áður gert grein fyrir í mínu máli.

Á þskj. 276 er brtt. frá Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur o.fl. hv. þm. um að síðari málsl. 3. gr. falli brott. Ég mun greiða atkvæði gegn þeirri brtt. vegna þess að hún er heldur óskynsamleg að mínu mati. Við vitum að fyrir er í raforkukerfinu veruleg umframorka. Við vitum líka, þó lítið sé að gerast og lítil hreyfing í stóriðjumálum, að sá kostur sem liggur beinast við er að stækka álverið í Straumsvík. Hvað svo sem menn segja um orkusamninginn er þetta sá kostur sem liggur beinast við. Mér finnst fjarstæða að útiloka þennan möguleika og mun greiða atkvæði gegn brtt. á þskj. 276 vegna þess að hún er óskynsamleg.

Afstaða Kvennalistans er sú að sá flokkur er andvígur stóriðju. Þess vegna er þetta eðlileg afstaða og skiljanleg. Alþb. er andvígt stóriðju þegar það er í stjórnarandstöðu og út frá því er afstaða þm. þess líka skiljanleg. En við þm. Alþfl. á Alþingi höfum reynt að vera sjálfum okkur samkvæmir og greiða atkvæði og taka afstöðu samkvæmt því, burtséð frá því hvort flokkurinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Frá fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ragnari Arnalds, kom fram gagnrýni á framkvæmdir í orkugeiranum. Það er kannske undarlegt þegar litið er til baka til þeirrar orkuveislu sem iðnrh. Alþb. efndi til á sínum tíma og menn eru hreint ekki búnir að jafna sig eftir. Það var veisla með þeim hætti að þjóðin mun lengi súpa seyðið af. Þess vegna finnst mér það koma úr hörðustu átt þegar hann heldur uppi gagnrýni af því tagi sem hann gerði áðan. En það er svo sem bara í góðu samræmi við málflutning Alþb. í þessum málum að hafa eina skoðun innan stjórnar og aðra utan og staðfestist það enn einu sinni við þessa umræðu.