16.12.1985
Efri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Í sambandi við frv. til lánsfjárlaga eins og það liggur nú fyrir breytt eftir 2. umr. vildi ég til að byrja með taka fram nokkur atriði sem mér finnst standa hæst.

Í fyrsta lagi nefni ég heildarupphæð lántökunnar, þar af sérstaklega þá erlendu sem á að verða 7,4 milljarðar. Það sem er mjög áberandi þar er að lánastofnunum og atvinnufyrirtækjum er vísað nánast algjörlega á erlendan lánamarkað þar sem opinberir aðilar og húsbyggingarsjóðir, þ.e. ríkissjóður, telja að ríkissjóður einn eigi að hafa aðgang að þessum innlenda lánamarkaði.

Í samhengi við þetta langaði mig til að benda á það líka að við erum í raun og veru að fjalla um seinustu alvörulánsfjárlög þessarar ríkisstj. Þessi ríkisstj. á e.t.v. eftir að sitja rúmt ár enn. En þó að hún gangi frá fjárlögum og lánsfjárlögum f.yrir næstu áramót munu þau lög verða að því leyti mjög ólík þessum að henni mun ekki ætlað að framkvæma þau nema í mesta lagi að hálfu leyti. Hún skrifar því þar að vissu leyti upp á lög sem kemur til kasta annarra að framkvæma. Þess vegna væri ekki úr vegi að horfa eilítið yfir farinn veg.

Með leyfi virðulegs forseta vildi ég fá að lesa upp úr plaggi sem heitir „Kosningayfirlýsing Sjálfstfl. við alþingiskosningarnar 23. apríl 1983“ og skoða yfirlýsingar þar eilítið í ljósi þess sem við erum að fjalla um hér núna, bæði í lánsfjárlögum og fjárlögum. Í upphafi þessarar yfirlýsingar undir yfirskriftinni „Frá upplausn til ábyrgðar“ stendur neðarlega, eftir að búið er að gagnrýna þá stjórnarstefnu sem við bjuggum þá við:

„Sjálfstfl. hefur sérstöðu í íslenskum stjórnmálum. Sem ávallt áður sækir hann fram í krafti frjálslyndis, einstaklingsfrelsis og þjóðlegrar umbótastefnu. Í upphafi sjöunda áratugarins beitti hann sér fyrir því að leysa atvinnulíf landsmanna úr fjötrum millifærslukerfis, hafta og miðstýringar. Þá fór í hönd eitt mesta framfaratímabil þjóðarinnar. Nú er aftur svo komið að nauðsynlegt er að hefja endurreisn efnahags og atvinnulífs en stemma stigu við því upplausnarástandi sem nú ríkir. Íslenska þjóðin verður að taka nýja stefnu. stefnu ábyrgðar í stað upplausnar, stefnu sem treystir atvinnu landsmanna með því að leysa atvinnulífið undan ofstjórn ríkisvaldsins og miðar að því að auka framleiðslu og bæta afkomu heimilanna, stefnu sem leysir úr læðingi atorku og hugvit einstaklinga og leiðir til nýrra átaka í atvinnuuppbyggingu og hagsældar fyrir þjóðina.“

Nú höfum við lifað þrjú ár við þennan kost, þ.e. þessa leið, frá upplausn til ábyrgðar. Ekki hefði það átt að draga úr stefnufestunni að þetta er gert í félagi við þann framboðsaðila sem bauð sig fram undir slagorðunum „Festa, sókn og framtíð“. En hvernig hefur tekist til? Á 2. síðu þessarar yfirlýsingar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Útgjöld séu ekki umfram afrakstur þjóðarbúsins. Erlendar skuldir aukist ekki og langtímalánum sé aðeins varið til arðsamrar fjárfestingar. Fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé tryggt á ný og efnahagslegu jafnvægi náð.“

Við stöndum frammi fyrir því í dag að þegar við höldum á íslensku krónunni í höndunum vitum við að meiri hluti þess krónupenings er ekki íslenskur heldur erlendur og að efnahagslegt jafnvægi er alls ekki fyrir hendi á meðan ekki standa íslensk verðmæti að baki þessarar krónu.

Hvað viðkemur því að langtímalánum sé aðeins varið til arðsamra fjárfestinga nægir að benda hér á þriðju seinustu málsgr. í framhaldsnefndaráliti um frv. til lánsfjárlaga fyrir 1986 og 6. lið brtt. meiri hl. við frv. til lánsfjárlaga á þskj. 271 þar sem lagt er til að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs sé heimilt að ábyrgjast lán með sjálfskuldarábyrgð sem endurlánað verði vegna sölu fimm fiskiskipa sem voru smíðuð innanlands á árunum 1982-1985. Enn fremur sé ríkissjóði heimilt að yfirtaka hluta fjármagnskostnaðar af lánum sem skipasmíðastöðvar hafa tekið með ríkisábyrgð vegna smíði skipanna til að greiða fyrir sölu þeirra. Ráðherra ákveður nánar framkvæmd þessarar lagagreinar með reglugerð.

Hérna er verið að fjalla um eitt af mjög mörgum verkefnum í tíð þessarar ríkisstj. sem alls ekki er hægt að flokka undir arðsamar fjárfestingar. Þær eru ekki arðsamari en það að ríkissjóði er gert að yfirtaka hluta fjármagnskostnaðarins af þeim lánum sem skipasmíðastöðvarnar tóku til að fjármagna smíði skipanna. Öðruvísi væri ekki hægt að selja þessi skip.

Í 2. lið kosningayfirlýsingar Sjálfstfl. stendur: „Ríkið gangi á undan með því að draga úr eyðslu sinni og skattheimtu.“

Það hefur nýverið gerst að þessi ríkisstj. undir forustu núv. fjmrh. afturkallaði áform sín um að aflétta skattaálögum af landsmönnum.

Í 3. lið yfirlýsingar Sjálfstfl. stendur:

„Árangurinn í baráttu gegn verðbólgu er forsenda þess að full atvinna haldist, að sparnaður aukist og jafnvægi náist í efnahagsmálum. Með minnkandi verðbólgu geta vextir orðið jákvæðir en farið þó lækkandi og stuðlað að hjöðnun verðbólgu gagnstætt því sem nú er.“

Staðreynd er að verðbólgan er of mikil. Staðreynd er að þegar þessi ríkisstj. tók við var verðbólgan mjög mikil. Staðreynd er að þessi ríkisstj. lamdi verðbólguna niður um nokkurra mánaða skeið með aðgerðum sínum. Staðreynd er að verðbólgan hefur aukist æ meir síðan og er nú þegar orðin of mikil. Áhrif hennar gera það að verkum þegar hún er orðin 40-50% að allar hugleiðingar manna og áætlanir í sambandi við fjárfestingar hljóta að fara úr böndum. Staðreynd er að þar sem þessi ríkisstj. gerði verðbólguna fyrst að engu hlýtur hún að bera ábyrgð á því verðbólgustigi sem við búum við núna. Það er ekki hægt að kenna einhverjum öðrum um það.

Í 4. lið yfirlýsingar Sjálfstfl., „Frá upplausn til ábyrgðar“, stendur: „Skráning gengis sé miðuð við stöðu atvinnuvega og jafnvægi í milliríkjaviðskiptum.“ Það má minna á nýframkomnar kröfur aðila í sjávarútvegi um gengisfellingu.

Í 5. lið yfirlýsingar Sjálfstfl. stendur: „Til að tryggja atvinnu fyrir alla og bæta lífskjör verði atvinnuvegum sköpuð þau starfsskilyrði að þeir geti staðið á eigin fótum og framleiðsla aukist.“ Það má minna á raðsmíðaverkefnið.

Einnig segir: „Góð afkoma fyrirtækja er forsenda fyrir því að hér rísi ný arðbær atvinnustarfsemi.“ Staðreynd er að sjávarútvegur, undurstöðuatvinnugrein okkar, sú atvinnugrein sem stendur undir allri þeirri gjaldeyrisöflun sem gerir okkur kleift að búa hér á landi, er eins og ómálga barn, stutt á allar hliðar af ríkinu. Því er meira að segja haldið fram að þessi atvinnugrein fái ekki þrifist öðruvísi en með þessari miklu hjálp og aðstoð ríkisvaldsins.

Nú er ég ekki að tala um að sjávarútvegur hér á landi sé styrktur. Við vitum að hann er það ekki. Aftur á móti er hann eins og ómálga barn þannig að hann hefur ekkert svigrúm til eigin ákvarðana. Allar ákvarðanir eru teknar af opinberum aðilum. Ástandið er þannig að fyrirtækin í sjávarútvegi, sama hvort þar er um að ræða útgerðarfyrirtæki eða fiskvinnslu, trúa því orðið statt og stöðugt sjálf að þau geti ekki komist af án þessara ströngu og miklu afskipta ríkisvaldsins af afkomu þeirra.

Eins er fyrir komið hinni stóru atvinnugreininni sem við lifum á, þ.e. landbúnaðinum. Hann þrífst ekki heldur öðruvísi en með þeim gífurlega miklu ríkisafskiptum sem öllum eru kunn. Útflutningsuppbætur, sem búið er að lofa um árabil eða jafnvel áratugaskeið að verði lækkaðar eða afnumdar, eru aldrei meiri en nú.

Smávonarglæta er reyndar á himni þar sem um er að ræða nýjar atvinnugreinar hér á landi. Þær snúa þó aðallega að því að nýta á einhvern hátt hugvit Íslendinga á sviði tölvutækni eða þá í fiskeldi. Við sjáum það og munum sjá það á næstu mánuðum að ríkisvaldið er þegar komið á fulla ferð að reyna á einhvern hátt að verða aðili að þessum nýju atvinnugreinum. Ef framtíð þeirra lofar jafngóðu og framtíð sjávarútvegs og landbúnaðar biður maður fyrir þessum atvinnugreinum, að þeim megi einhvern veginn takast að komast undan afskiptasemi ríkisvaldsins. Það er þeirra eina von.

Í 6. lið yfirlýsingar Sjálfstfl., „Frá upplausn til ábyrgðar“, segir: „Aðilar vinnumarkaðarins komi sér sjálfir saman um kaup og kjör er samræmist getu atvinnuveganna. Nauðsyn ber til að finna nýjar leiðir að því markmiði og mun Sjálfstfl. stuðla að því að skapa skilyrði fyrir slíku samkomulagi.“

Afskipti ríkisvaldsins af samningagerð eru okkur kunn s.l. tvö ár. Núna heyrir maður ekki betur en að menn séu að koma sér saman um það í öllum áttum að mynda einhvers konar allsherjarnefnd ríkisvalds og aðila samningsgerða, þ.e. vinnuveitenda og launþega, sem semji um kaup og kjör í landinu með þeim hætti að ríkisvaldið taki endanlega og algera ábyrgð á því hver kjör einstakra þegna eru. Þetta heitir á máli Sjálfstfl. „þjóðarsátt“ og í tungutaki Alþb. heitir þetta „lífskjarasamningur“.

Enn fremur er talað um að eðlilegt verðlag í landinu verði tryggt með frjálsri verðmyndun þar sem samkeppni er næg. Ég veit ekki almennilega hvernig átti að skilja þessa grein í þessum loforðalista. Aftur á móti veit maður að eðlileg verðmyndun getur ekki átt sér stað með jafnmiklum ríkisafskiptum og fram koma í þessum lánsfjárlögum því að þegar ríkisvaldið er búið að binda svo mikið af þeim peningum sem hér eru í umferð með þeim hætti sem gert er með þessum lánsfjárlögum, þegar hún einokar peningaveltu í landinu með þeim hætti sem þar kemur fram, eru auðvitað ekki sköpuð skilyrði til frjálsrar verðmyndunar. Það er ógerningur.

Enn fremur segir að „við byggingu orkuverka sé þess gætt að samræmi sé á milli markaðsöflunar fyrir orku og virkjunarframkvæmda“. Offramleiðsla á orku, offjárfesting í orkuvirkjunum hefur verið gagnrýnt mjög mikið á þessu þingi alveg frá því að það hófst. Enn þá skal samt sem áður haldið áfram á þeirri braut. Að vísu hefur verið dregið úr þeim lánsheimildum sem farið var fram á í upphafi en enn þá er samt sem áður gert ráð fyrir því að teknar séu að láni til framkvæmda á vegum Landsvirkjunar a.m.k. 500 millj. kr. og heimildarákvæði til viðbótar um 200 millj. Samanlagt gætu því framlög eða lánsheimildir, sem nýta má þarna, orðið allt að 700 millj. kr.

Eins og fram hefur komið stend ég að brtt. við 3. gr. þar sem lagt er til að 2. málsgr. hennar falli niður, þ.e. heimildarákvæði um 200 millj. kr. lántöku vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík.

9. liður í loforðalista Sjálfstfl. fyrir seinustu kosningar er kannske hvað napurlegastur þegar hann er lesinn í dag:

„Eign fyrir alla er og verður meginmarkmið Sjálfstfl.“, segir þar. „Því verði einstaklingum gert kleift að eignast íbúðir með viðráðanlegum kjörum.“

Þetta hljómar trúlega í eyrum þess fólks, sem nú á í erfiðleikum við að halda þakinu yfir höfðinu á sér, sem mjög napurt háð. A.m.k. trúi ég því ekki að kjósendur Sjálfstfl. í síðustu kosningum hafi skilið það þannig að viðráðanleg kjör til að eignast íbúðir væru að þær yrðu seldar á nauðungaruppboðum.

Eina atriðið, sem lofar góðu í þessum loforðalista Sjálfstfl. frá síðustu kosningum, er 10. og seinasta atriðið. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir sem taka efnahagslegar ákvarðanir beri á þeim ábyrgð hvort sem í hlut eiga hagsmunasamtök, fyrirtæki, einstaklingar eða stjórnvöld.“

Það er á þetta seinasta orð, þ.e. stjórnvöld, sem ég legg áherslu því að ég tel að í því felist að Sjálfstfl. lýsi því yfir þegar þessi lög hafa verið samþykkt að honum hafi ekki tekist ætlunarverk sitt, þ.e. að leiða þessa þjóð frá upplausn til ábyrgðar, heldur hafi vopnin snúist í höndunum á honum þar sem þjóðin hefur verið leidd á þessum tveimur árum til upplausnar frá þeirri ábyrgð sem henni var lofað fyrir kosningar og þar með séu alls engar forsendur fyrir því að þessi flokkur sitji í stjórn öllu lengur.