16.12.1985
Efri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég veit að það er skammur tími til stefnu, en það er ekki oft sem 4. þm. Reykn., af eðlilegum ástæðum, tefur tímann með því að stíga hér í ræðustól. Ég vona því að það verði litið á þá töf með umburðarlyndi að þessu sinni.

Ég ætla ekki að tefja umræðuna með því að fjalla efnislega um þetta frv. eða einstök atriði þess og enn síður ætla ég að fara að ræða við hv. 8. þm. Reykv. um stefnuskrá Sjálfstfl. þó það sé vissulega alltaf ánægjulegt þegar hana ber á góma hér í þingsölum. En það hefur komið fram í máli frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Norðurl. v., að margir þættir eru skertir í þessu frv. sem menn hefðu viljað gera betur við. Er það ekki gert með glöðu geði nú fremur en endranær þegar illa árar. Þetta þekkja hv. þingdeildarmenn sem nú eru í stjórnarandstöðu en hafa áður setið í ríkisstjórnum og jafnvel þurft að standa í sporum fjmrh. Það þarf því miður oft að gera fleira en gott þykir.

En ástæðan til þess að ég tek hér til máls eru orð hv. 5. landsk. þm. sem hann lét falla um fóðurverksmiðjurnar. Þær bar hér á góma af eðlilegum ástæðum þar sem þeirra er getið í framhaldsnefndaráliti meiri hl. fjh.- og viðskn. Ég vildi aðeins taka undir orð hv. 5. landsk. þm. og lýsa þeirri skoðun minni, sem kom fram hjá honum og ég hef reyndar oft áður lýst hér á hv. Alþingi, að það er í raun og veru sjálfsagt að hætta rekstri fóðurverksmiðjanna. Bændur sjálfir, einstaklingar eða samtök þeirra, eru fullfærir um að reka slíkar verksmiðjur. Það er vitað mál þeirra sem vilja vita að einstaklingar, sem reka fóðurverksmiðjur hér í landi, eiga ójafnan leik í samkeppni við ríkisreknu verksmiðjurnar því að þær fá hallareksturinn greiddan af skattpeningum sem hinir að sjálfsögðu fá ekki.

Það eru miklar fóðurbirgðir óseldar í landinu. Ríkisverksmiðjurnar ákveða verðið og hafa það lægra en raunhæft er. Þetta bakar einstaklingunum mikla erfiðleika. Það er ekkert við því að segja að ríkið stuðli að eðlilegri uppbyggingu slíkra fyrirtækja í hinum ýmsu byggðarlögum með því að koma þeim á fót ef rekstrargrundvöllur er fyrir hendi og nauðsyn krefur. En síðan á að eftirláta heimamönnum eða einstaklingum að sinna slíkum rekstri. Ég treysti því að það komi til þess að núverandi ríkisstj. leggi fram frv. um að þessar verksmiðjur verði seldar heimamönnum eða öðrum sem áhuga hafa á að reka slíkar verksmiðjur.