16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

108. mál, Jarðboranir hf.

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Jarðboranir hf. eins og það birtist á þskj. 118.

Frv. þetta hefur verið rætt allítarlega í Ed. Þá hefur frv. verið til umfjöllunar í fjh.- og viðskn. þeirrar deildar og var afgreitt samhljóða í nefndinni. Í samhljóða áliti frá nefndinni segir svo m.a.:

„Nefndin hefur rætt málið og leitað álits fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Rannsóknaráðs ríkisins. Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt með þeim fyrirvara að öll sveitarfélög njóti sambærilegra kjara í viðskiptum við þessa nýju stofnun, Jarðboranir hf.“

Í tilefni af fyrirvaranum í nál. um sambærileg kjör er rétt að vekja sérstaka athygli á 5. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn hlutafélagsins skal setja gjaldskrá fyrir þjónustu þá sem fyrirtækið innir af hendi. Gjaldskrá fyrirtækisins skal ákveðin þannig að tekjur af starfseminni standi undir rekstrarkostnaði, fjármagnskostnaði og skili eigendunum eðlilegum arði af hlutafé.

Starfa skal sérstök samráðsnefnd skipuð tveimur fulltrúum frá félaginu og tveimur fulltrúum tilnefndum af Sambandi ísl. hitaveitna. Verkefni nefndarinnar er að vera vettvangur samráðs milli Jarðborana hf. og hitaveitna í landinu um fjárhagsleg og tæknileg málefni, svo og almenn samskipti við hitaveitur í landinu.“

Í skýringum við 5. gr. frv. segir m.a.:

„Í greininni er lagt til að stjórn félagsins setji gjaldskrá fyrir þjónustu þá er félagið innir af hendi. Er þetta gert m.a. til að tryggja ákveðið jafnrétti notenda til þjónustu hjá fyrirtækinu. Þá er lagt til að starfandi verði við félagið sérstök samráðsnefnd stjórnar félagsins og Sambands ísl. hitaveitna.“

Samkvæmt þessu er ótvírætt að öll viðskipti verði samkvæmt gjaldskrá og með því er jafnrétti til þjónustu tryggt. Í þessu sambandi vil ég leggja áherslu á það sem fram kemur í frv. um kauprétt sveitarfélaga á hlutabréfum ríkisins í félaginu. Ég mun sem iðnrh. beita mér fyrir að slík sala fari fram.

Aðalatriði málsins er að stofnað er nýtt félag um jarðboranir með aukinni þátttöku Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg greiðir verulegt framlag til fyrirtækisins og verður fyrirtækið eftir félagsstofnun sterkt og öflugt hlutafélag. Hlutafélagsstofnunin er og viðskiptalega hagstæð eins og er rakið í grg. Jafnframt er sveitarfélögunum tryggður aukinn réttur til áhrifa á gang mála hjá fyrirtækinu. Er það skynsamleg skipan mála, sérstaklega þegar haft er í huga að helstu viðskiptafyrirtæki Jarðborana eru sveitarfélög og veitufyrirtæki þeirra.

Nokkuð var á það deilt við meðferð í Ed. að samningar tækju gildi miðað við 1. júní 1985. Hafa ber í huga að hið nýja félag verður ekki stofnað fyrr en lög þessi hafa verið samþykkt. Hins vegar mun uppgjör milli stofnenda þá fara fram svo sem stofnun hlutafélagsins hefði farið fram 1. júní. Er þetta gert m.a. vegna þess að að viðsemjandi ríkisins, Reykjavíkurborg, gerði ákveðnar ráðstafanir í júní s.l. er miðuðust við að af stofnun slíks félags yrði. M.a. lét Hitaveita Reykjavíkur jarðbor ríkisins. Jötun, bora að Nesjavöllum í stað þess að láta gufuborinn Dofra, sem er að 50% í hennar eigu, bora. Hefði félagsstofnun ekki komið til hefði Reykjavík látið sinn bor njóta viðskiptanna. Lögin eru því ekki beint afturvirk þó að uppgjör miðist við tiltekinn dag.

Mál þetta hefur dregist allmikið, þ.e. frá því s.l. vor. Nú er hins vegar nauðsynlegt að afgreiða málið þannig að ganga megi frá stofnun félagsins í upphafi nýs árs. Öllum má vera ljóst að starfræksla öflugs jarðborunarfyrirtækis er nauðsynleg forsenda áframhaldandi nýtingar jarðhita sem er og verður okkur mjög dýrmæt auðlind.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.