16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. 10. landsk. þm. Guðrúnar Helgadóttur þar sem hún átelur framsetningu þessa frv. af hálfu ráðuneytisins. Sú framsetning er auðvitað alveg með eindæmum og ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það eða tíunda aftur það sem hv. síðasti ræðumaður talaði um í því sambandi, en vissulega ber að taka það til athugunar af hálfu ráðuneytisins.

Herra forseti. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa gefið veirusjúkdómnum AIDS eða ónæmistæringu þá einkunnargjöf að hann verði mesta hvatning sem heilbrigðisþjónustan fái út alla þessa öld. Þessi sjúkdómur kom fyrst fram árið 1981 og hefur í Bandaríkjunum einum saman höggvið til um 12 þús. manneskja og krafist um 5 þús. mannslífa, auk þess sem talið er að um 1 millj. Bandaríkjamanna hafi smitast.

Þessi faraldur, eins og hann er oft nefndur nú orðið, hefur náð útbreiðslu um flestöll hin vestlægu lönd og er hvarvetna sem hann kemur við talað um miskunnarlausan sjúkdóm. Sagan greinir einnig frá mjög ítarlegri og öflugri rannsókn og tilraunum sem vakið hafa mjög miklar vonir og sem má jafnvel líkja við vísindalegt undur að mörgu leyti. Að því komum við til með að búa í baráttunni við marga aðra sjúkdóma þó svo að enn sem komið er hafi ekki tekist að ráða gátuna miklu um AIDS. Spurningarnar eru enn þá langtum fleiri en svörin sem fengist hafa út úr þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið hingað til og það er takmarkað sem er vitað fyrir víst.

Ástæða þessa sjúkdóms hefur svo sem verið rakin hvarvetna í fjölmiðlum þó að það hafi ekki verið farið nákvæmlega út í það hér. Sjúkdómsvaldurinn er veira sem sérfræðingar kalla HTLV3. Veiran ræðst á og vinnur að niðurrifi ákveðinna mikilvægra frumna í hlutum af ónæmiskerfi líkamans, þ.e. þeirra sem varða hæfileika líkamans til þess að verjast smitun. Það veldur svo aftur því að sá smitaði, sjúklingurinn, verður altekinn alls kyns sjúkdómum eða öllu heldur að hann hefur ekki möguleika á því að verjast smitun - og þá á ég við sjúkdóma sem mannslíkaminn þróar að öðru jöfnu ónæmi gegn. Það eru slíkir venjulegir sjúkdómar sem einstaklingar sýktir af þessari veiru, HTLV3, hafa ekki nokkra einustu möguleika á að verjast. Svo skæð er þessi veira að fæstir þeirra sem smitast hafa lifa lengur en þrjú ár eftir að sjúkdómurinn hefur komið í ljós.

Með leyfi herra forseta langar mig til að fá að lesa aðeins upp úr grein sem birtist í NT fyrir skemmstu. Þessi grein er eftir Guðna Baldursson og mig langar að grípa niður í hana þar sem millifyrirsögnin er: „Annars konar sjúkdómur.“

„Þegar maður smitast af einhverjum þeim sjúkdómi sem fellur undir lögin um varnir gegn kynsjúkdómum fer það saman að það er hagsmunamál hins sýkta að fá lækningu af sjúkdómnum sem fyrst og hagsmunamál annarra að hann hætti að vera smitandi. Þess vegna er það hverjum og einum hvatning að leita læknis ef minnsti grunur vaknar um smitun eða smithættu af kynsjúkdómi.

Smitun af ónæmistæringarveirunni hefur allt öðruvísi afleiðingar á heilsu manns en smitun af „gömlu“ kynsjúkdómunum. Langsamlega flestir sem veiran hefur komist í eru heilir heilsu og kenna sér einskis meins. Þeir eiga þess vegna ekki það erindi til læknis að losna við líkamleg óþægindi eða önnur einkenni af völdum smits. Þeir eiga heldur ekki það erindi til læknis að smitinu verði útrýmt úr líkamanum því að til þess eru engin ráð kunn enn. Tilefni fyrir þann sem verður ekki var neinna sjúkdómseinkenna til að láta lækna ganga úr skugga um hvort veiran hefur komist í hann er þá annað en að leita lækningar. Það sem honum gæti þótt skynsamlegt tilefni er þá það, að hann vill vita hvort hann gæti smitað aðra, hvort honum sé sérstaklega ráðlegt að fara vel með sig líkamlega og andlega svo að veiran nái síður að valda honum sjúkdómi, og síðast en ekki síst hvort honum sé óhætt að anda léttar vegna þess að enn sem komið er hafi veiran ekki komist í hann.“

Herra forseti. Er ráðherrann genginn úr salnum? (Forseti: Nei, nei. Hún er í hliðarsal og hlustar á.) Gott. Hún komst einhvern veginn svo að orði áðan: Þessi lög þarf að setja í þágu þeirra sem ekki hafa sýkst, þeirra sem hafa sýkst og í þágu áhættuhópa. Mig langar sérstaklega til að vita á hvern hátt lögin eiga að bæta úr fyrir þeim sem hafa sýkst, af því að það var sérstaklega tekið til hér, og þegar í ofanálag var kveðið svo fast að orði hjá hæstv. ráðh. að segja sem svo að hún teldi það vera öryggisatriði að lögin yrðu sett vildi ég gjarnan einnig fá að vita á hvern hátt það er meint vegna þess að það kom ekki fram.

Verið getur að mér hafi misheyrst og ég vona að mér hafi misheyrst þegar mér heyrðist að hæstv. ráðh. segði eitthvað á þá leið að þegar smitaður einstaklingur hefði komið til rannsóknar, og þar með fengið þá nafnleynd sem vonandi verður sem mest, yrði viðkomandi spurður að því hvaðan hann teldi sig hafa smitast og þeir sem hann gæfi upp yrðu að sjálfsögðu skráðir. Ég vona að þetta sé misheyrn hjá mér, en svona skildi ég þetta og verð að fá nánari skýringar á því á eftir hjá hæstv. ráðh.

Í framhaldi af þessu langar mig til að vitna aftur í þá grein sem ég vitnaði í áðan eftir Guðna Baldursson og grípa niður þar sem millifyrirsögn er: „Settir í vanda.“

„Sú ráðabreytni að skylda lækna til að tilkynna landlæknisembættinu hverjir það eru sem ónæmistæringarveiran hefur komist í setur allan þennan fjölda manna í mikinn vanda. Langsamlega flestir hafa þeir haft það að leiðarljósi, að enginn sem þá þekkti vissi um þennan þátt í lífi þeirra, og oft líka að enginn sem um hann vissi þekkti þá að öðru leyti. Ef þeir vilja nú láta prófa hvort þeir hafa mótefni gegn veirunni standa þeir frammi fyrir því að ef það finnst fara þeir á skrá sem haldin er hjá opinberu embætti. Þá mun ákaflega mörgum þykja það skynsamlegri kostur, úr því að enga meðferð er að sækja til læknis, að láta ógert að fara í prófun sem leiddi hvort sem er ekki til neins, nema þá þess að nafn þeirra færi á skrá yfir menn sem hafa komist í snertingu við veiruna. Sjálfur getur maður farið vel með sig án sérstakrar hvatningar frá lækni og vegna þess að smithætta er gagnkvæm þarf maður hvort sem er að gæta þess að haga kynmökum sínum á „öruggan hátt“. Það eina sem maður í þessari aðstöðu fer á mis við með því að fara ekki í prófun er léttirinn yfir að vera smitlaus. En vitneskjan um smitleysi getur samkvæmt eðli málsins einungis átt við liðinn tíma svo að ekki virðist sérstaklega rík ástæða til þess að hætta miklu hennar vegna. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga, ef skylt verður að skrá smitaða einstaklinga, að ekki verða öll sund lokuð til þess að gangast undir ónæmistæringarpróf án þess að eiga skráningu á hættu.“

Áfram segir, herra forseti, í þessari grein: „Íslendingar ættu þá að nýta sér að í flestum öðrum löndum hefur verið ákveðið að skrá ekki þá sem veiran finnst í. Auðvelt er fyrir þá, sem vilja fara þannig að, að afla sér upplýsinga um hvert beri að snúa sér.“

Herra forseti. Mér finnst í þessu sambandi mjög mikils virði að það verði ekki farið út í að reyna að koma þessu frv. til laga í gegn. Ég get ekki séð á þessu stigi málsins, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, að það leiði til neins nema kannske þess helst að fólk fari enn betur í felur en hingað til hefur verið, og alls ekki að það leiði til þess að fólk komi til skráningar. Það þarf að leggja upp úr sérstakri fræðslu- og upplýsingastarfsemi í þessu sambandi.

Herra forseti. Er ráðherra farinn úr þingsölum? (Heilbr.- og trmrh.: Rödd þm. hljómar nokkuð skært. Ég heyri það sem fram fer.) Það er gott að vita til þess. Það er nú einhvern veginn svo að þegar verið er að tala við einhvern vill maður gjarnan fá að hafa viðkomandi innan sjónmáls, án þess að það sé endilega skilyrt. (Heilbr.- og trmrh.: Ég hélt að þm. væri að tala við allan þingheim.) Jú, alveg rétt, en þegar ég er sérstaklega að koma með hugmynd til úrbóta í þessum málaflokki, að mínu áliti, finnst mér mjög gott að hafa hæstv. ráðh. innan seilingar.

Ég var þar komin að mér fyndist að það gæti verið réttara og eðlilegra í þessu sambandi að efla alla fræðslu og upplýsingar til áhættuhópanna og þá til þeirra hvers fyrir sig, auðvitað fyrst og fremst almenna fræðslu í framhaldi af þeirri sem nú þegar hefur komið fram en er að vísu mjög takmörkuð. Hún hefur þó skilað árangri í því sambandi að fólk hefur leitað til þess sérfræðingahóps sem er starfandi. En mér finnst að það þurfi að bæta úr mun betur og upplýsa og fræða hvern áhættuhóp sérstaklega fyrir sig. Ég hef í því samandi lagt fram brtt. við fjárlagafrv. þar sem ég legg til að inn komi nýr liður undir heilbrigðisþjónustu og að sérstakt fé verði lagt í það að fyrst rannsóknir og síðan fræðsla og upplýsingar hvers konar verði efldar að mun í þessu sambandi. Ég tel að það hljóti að verða mun áhrifaríkara en að reyna að koma þessu frv. í gegn og get ekki séð að það þjóni neinum tilgangi og þá síst fyrir þá sem eru nú þegar smitaðir. Með því að upplýsa og fræða væru að mínu mati meiri líkur til þess að ná til þeirra sem nú þegar eru smitaðir og ganga um og smita hugsanlega aðra og koma þannig í veg fyrir að smitun verði víðar. Með því að gera þetta með því móti sem er lagt til í þessu frv. finnst mér mest hætta á að fólk komi alls ekki vegna þess að það á yfir höfði sér skráningu, eins og margoft hefur komið fram. Þess vegna teldi ég það vera á allan hátt óskynsamlega að staðið.

Ég vil, herra forseti, í því sambandi vitna aftur í þá grein sem ég er búin að vitna í tvisvar áður eftir Guðna Baldursson, með leyfi herra forseta. Þar kem ég að er milli fyrirsögnin er: „Skynsamlegar leiðir og óskynsamlegar.“

„Það hefur gleymst að gæta að hinum félagslega þætti í því viðfangsefni sem ónæmistæring er fyrir stjórnvöld. Það gengur ekki að horfa fram hjá því að mjög margir af þeim, sem eru í mestri hættu að smitast af veirunni, óttast það jafnvel meira en sjúkdóminn sjálfan að kunnugt verði um kynhegðun þeirra.

Hlutverk heilbrigðisyfirvalda er að laða til samstarfs þá sem kunna að eiga smitun á hættu og þau verða að leggja sig óvenjulega mikið fram vegna þess að hér er um að ræða einstaklinga sem margir eru, af eðlilegum orsökum, afar tortryggnir gagnvart yfirvöldum. Yfirvöld þurfa því að hamra á öllu því góða sem þau ætla að gera fyrir þá sem hér koma við sögu. Þau verða að vinna ötult fræðslu- og upplýsingastarf. Þau verða að tryggja þeim sem reynast smitaðir, áður en á reynir, fyllstu vernd svo að þeir njóti mannréttinda, svo sem varðandi húsnæði og atvinnu.

Læknar þeir sem starfa að vörnum gegn ónæmistæringu verða að fá að vera í aðstöðu til þess að heita hverjum sem til þeirra leitar í því sambandi algerum trúnaði. Trúnaður milli lækna og þeirra sem vilja sinna ónæmistæringarvörnum með því að koma til rannsóknar verður að vera tryggur og gagnkvæmur og honum má ekki spilla með óskynsamlegum lagaákvæðum.

Ef úr verður að smitun af ónæmistæringarveiru falli undir lögin um varnir gegn kynsjúkdómum óbreytt verður Ísland eina landið í veröldinni þar sem skráning smitaðra verður með slíkum hætti sem þar er kveðið á um. Hvergi annars staðar hefur það hvarflað að heilbrigðisyfirvöldum að það væri ráð til þess að stemma stigu við útbreiðslu ónæmistæringarinnar að setja lög um skráningu nafna og um refsingar. Þvert á móti leggja þau áherslu á það að skráning komi ekki til greina, einmitt vegna þess að þau vita að annars yrði svo lítils árangurs að vænta.“

Herra forseti. Í þessu sambandi langar mig að koma aðeins að því þegar talað er um þá áhættuhópa sem helst eru tilgreindir. Þá er talið að um 80% af þeim sem séu í áhættuhópnum séu hommar.

Ég hef ásamt fleiri hv. þm., eins og fram hefur komið í máli hv. 10. landsk. þm. Guðrúnar Helgadóttur, flutt þáltill. um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Þá er einmitt þess að geta þar að efnisatriði þeirrar till. lúta að því að Alþingi lýsi vilja sínum til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki eigi sér ekki stað hér á landi. Þar er einmitt lagt til m.a. að kannaðar verði lagalegar, menningarlegar og félagslegar aðstæður þess fólks og að það verði gerðar tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misréttið gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi. (Forseti: Má ég aðeins trufla hv. þm. í ræðu sinni? Þannig stendur á að hæstv. ráðh. er tímabundinn og hefur óskað eftir fjarvistarleyfi það sem eftir er þessa fundar. Ef hv. þm. vildi gera hlé á ræðu sinni hyggst ég fresta þessari umræðu og verða við óskum fleiri þm. um að ljúka fundi í fyrra lagi af ástæðum sem fólki mun kunnugt um.) Ég mun fallast á það, herra forseti.

Umr. frestað.