16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

170. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald. Með þessu frv. er lagt til að vörugjaldið verði framlengt um eitt ár eða til ársloka 1986. Þetta frv. er, svo sem hið fyrra sem rætt hefur verið á þessum fundi, flutt vegna þeirra ákvarðana að fresta tollkerfis- og vörugjaldsbreytingum.

Það er gert ráð fyrir að innheimta sérstaks tímabundins vörugjalds haldist óbreytt á næsta ári eins og innheimta ýmissa annarra óbeinna skatta, t.a.m. aðflutningsgjalds. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að tekjur vegna innheimtu sérstaks vörugjalds verði tæpar 1900 millj kr. á árinu 1986, en samkvæmt tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1985 var innheimtan áætluð 1580 millj. kr.

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á þeim vöruflokkum sem vörugjaldið er nú lagt á og verður gjaldið eftir sem áður lagt á í tveimur gjaldflokkum.

Ég tel ekki þörf að fara frekari orðum um efni þessa frv. Það hefur áður verið framlengt um eitt ár í senn. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.