16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

151. mál, geislavarnir

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er flutt til þess að gera sjálfstæða starfsemi Geislavarna. Geislavarnir ríkisins hafa raunar verið starfræktar um alllangt skeið. Með lögum um Hollustuvernd ríkisins var þessi starfsemi gerð að deild í þeirri stofnun, en sannleikurinn er sá að starfsemi Geislavarna er um margt annars eðlis og annars konar en önnur starfsemi á vegum Hollustuverndar. T.d. eru rannsóknir þær, sem fram fara, annars konar og því ekki um neina samnýtingu á rannsóknarstofum að ræða að því er varðar þessa starfsemi annars vegar og svo hins vegar t.d. matvælaeftirlit og ýmislegt fleira, bakteríurannsóknir o.fl. sem þarf í sambandi við hollustuvernd að öðru leyti. Það er því ekki nein sérstök hagkvæmni í því að hafa þessa starfsemi undir stjórn Hollustuverndar ríkisins. Hér er í raun og veru ekki um nýja starfsemi að ræða heldur einungis um það að ræða að gera hana sjálfstæða.

Hv. Nd. gerði þá breytingu á frv. frá því sem það var þegar það var fyrst lagt fram að nefndin þar taldi rétt að setja stofnuninni stjórn. Ég hafði haft í huga að það væri minnstur kostnaður að vera ekki að setja stjórn eða auka starfsemina á neinn hátt eða búa til neitt bákn. Það stóð aldrei til. En ég held að það ætti ekki að þurfa að vera um neitt bákn að ræða þótt þrír menn væru í stjórn sem stöku sinnum væru kallaðir saman. A.m.k. er okkur sagt það og það var álit nefndarinnar í Nd. Ég vildi skýra hv. deild frá þessari breytingu sem gerð var frá því er frv. var lagt fram.

Að öðru leyti er ekki um neina sérstaka grundvallarbreytingu í þessu máli að ræða. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.