16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um lagagildi fjórða viðauka við aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. eins og það kemur fram á þskj. 148.

Frv. þetta hefur fengið ítarlega umfjöllun í Nd. og fram hafa komið ítarleg nál um málið. Ég mun því aðeins víkja mjög stuttlega að helstu efnisatriðum.

Í upphafi er rétt að rifja upp helstu markmið þessarar endurskoðunar á aðalsamningi.

Í b-lið 1. tölul. 2. gr. bráðabirgðasamnings frá 23. sept. 1983 samþykktu aðilar að taka upp samningsviðræður um ákvæði aðalsamningsins varðandi ákvörðun á framleiðslugjaldi ÍSALs í því skyni að gera þau skýrari og betur aðlögunarhæf að ríkjandi efnahagsástandi í heiminum og til að stuðla að því að komast megi hjá deilum í framtíðinni er spillt geti góðri sambúð milli aðila.

Meginreglan um stöðu ÍSALs í skattalegu tilliti hefur ávallt verið sú að meta eigi öll viðskipti félagsins eftir þeim mælikvarða er gildi um viðskipti óháðra aðila, þ.e. „arm's length“ milli aðila í seilingarfjarlægð. Í samræmi við þetta hefur það verið annað aðalatriði samningsins, sem nú liggur fyrir, að tryggja eðlilega framkvæmd þessarar meginreglu með því að gjaldaliðir allir og tekjuliðir séu sem næst eðlilegu heimsmarkaðsverði á hverjum tíma. Verður vikið nánar að einstökum liðum hér á eftir í þessu sambandi.

Hitt aðalatriðið er að tryggja eðlilega skattabyrði í fyrirtækinu miðað við þá afkomu sem þannig er metin. Í samningnum hefur þetta verið gert með því að halda núverandi veltuskatti óbreyttum, þ.e. lágmarksgjaldi á tonn, en hafa skattlagninguna að öðru leyti samkvæmt tilteknum skattstiga á nettótekjur auk þess sem settar eru nýjar reglur um fyrningu og endurmat eigna.

Tekjuskattsstigi sá, sem samið er um, er á bilinu 35-55% eftir hagnaði á hverju ári. Hér hefði komið til greina að nota eina tekjuskattsprósentu eins og nú er um íslensk fyrirtæki þar sem hún er nú 51%. Hins vegar er tvennt til um ÍSAL er skýrir þetta frávik frá umræddri prósentu:

1. Í gildandi aðalsamningi eru tekjuskattsmörkin 35-55% af hagnaði og því núverandi samningsréttur ÍSALs sem hafa varð til hliðsjónar.

2. ÍSAL hefur ekki yfirfæranlegt tap og því má vænta að í góðæri verði skattstiginn nýttur til fulls.

Skal nú vikið stuttlega að helstu efnisatriðum:

1. Um verðlagningu rafskauta.

Í samningnum er reynt að skilgreina betur en áður armslengdarverð á aðföngum á áli og er það gert fyrirfram til fimm ára í senn. Þannig verða áhrif ríkisstj. á mat á armslengdarverði aukin.

Hvað upplýsingar um verð á rafskautum varðar skv. málsgr. 27.04, c-lið, er aðeins um að ræða aðferð við að láta tilteknar upplýsingar í té. Ákvæðin um almenna, árlega endurskoðun í málsgr. 29.05 eru óbreytt og takmarkast ekki. Vísað er á bug staðreyndum um að hér sé um eftirgjöf að ræða.

2. Um seilingarviðskipti og greiðslukjör.

Í umræðunni hefur verið vikið að þeirri breytingu sem gerð var í fyrra á orðalagi greinar 2.03, c-lið, í aðstoðarsamningi varðandi útvegun hráefna og því haldið fram að breytingin skerði rétt okkar í skattalegu tilliti. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Ákvæðið í aðstoðarsamningnum var sett til leiðbeiningar við þann samanburð sem gera þyrfti í þessu sambandi en átti ekki að hafa neina úrslitaþýðingu.

3. Um súrálsverð.

Í sambandi við verðlagningu á súráli er rétt að minna á að markaður fyrir súrál er mjög viðkvæmur og birgðahald á súráli er vandkvæðum bundið. Þá er offramleiðsla á súráli. Hægt er að fá einstaka farma fyrir mjög lágt verð, þ.e. jafnvirði um 100 dollara á tonn. Það verð getur þó ekki verið leiðbeinandi um verðlagningu á súráli í samningum til lengri tíma þar eð framleiðslukostnaður er mun hærri en þetta verð, jafnvel í hagkvæmustu verksmiðjum. Hlutfallið 1:8 verður að teljast eðlilegt og viðunandi eins og rakið er í grg. með frv.

4. Fastagjaldið, þ.e. 20 dollarar á tonn.

Deilt hefur verið á það að fastagjaldið er óbreytt. Ekki náðist fram breyting á fastagjaldinu, t.d. með því að tengja það álverði eða verðtryggja það, þrátt fyrir ítrekaðar tillögur af Íslands hálfu.

Næsta heildarendurskoðun á skattakaflanum, þar með talin fjárhæð fastagjalds, fer fram miðað við 1. okt. 1994. Upplýst var í 1. umr. að 20 bandaríkjadollarar árið 1975 jafngiltu 11,45 bandaríkjadollurum reiknað samkvæmt heildarvísitölu í Bandaríkjunum. Taka ber tillit til þess að álverð hefur ekki hækkað í takt við heildarvísitölu í Bandaríkjunum.

5. Um gengismál.

Gengisákvæðin í viðaukanum eru í aðalatriðum þessi: Hallastærðir í rekstrarreikningi eru færðar til tekna eða gjalda mánaðarlega eða á meðalgengi ársins. Er það í samræmi við það sem raunverulega gerist. Fjárhæðir í rekstrarreikningi eru færðar á árslokagengi, enda á efnahagsreikningur að gefa rétta mynd af stöðu fyrirtækisins í árslok. Þetta eru eðlilegar reglur sem rétt þótti að taka inn í samning milli aðila þannig að ekki yrðu um þetta deilur.

6. Um reikningsskil ÍSALs.

Samkvæmt samningnum verða afskriftir á næstu árum reiknaðar af áætluðu matsverði í erlendri mynt miðað við 1. jan. 1985, en það var 89 millj. dollarar á þeim degi. Þessi stofn færist til gjalda á tíu árum miðað við meðalgengi hvers árs. Í raun er því verið að afskrifa eignirnar í erlendri mynt en umbreytt í krónur í reikningsskilum fyrirtækisins og í skattalegu tilliti. Þar sem afskriftir eru reiknaðar með þessum hætti og rekstrarreikningur til skatts í raun í erlendri mynt þarf ekki að taka tillit til þess gengismunar sem fyrirtækið verður fyrir gagnvart íslensku krónunni, hvorki af skuldum eða veltufjármunum. Með þessum hætti er eytt áhrifum innlendrar verðbólgu á reikningsskil fyrirtækisins og niðurstaðan er langtum skýrari mynd af afkomu og efnahag þess.

7. Um árlega endurskoðun reikninga ÍSALs.

Með samningsbreytingu þeirri, sem gerð var á aðalsamningnum 5. nóv. 1984, var lögfest árleg óháð endurskoðun á ársreikningum ÍSALs af hálfu ríkisstjórnarinnar. Endurskoðun var heimil fyrir þann tíma en kröfu varð að gera þar um árlega. Að öðru leyti er ákvæði þetta óbreytt í þessum viðauka. Leggja verður ríka áherslu á þýðingu þessa ákvæðis sem nú er í málsgr. 29.05.

8. Um hækkaðan skattstofn ÍSALs.

Við mat á samningnum verður að leggja ríka áherslu á þá hækkun á skattstofninum sjálfum sem leiðir af hinum endurbættu reikningsskilaaðferðum. Sérfræðingar ráðuneytisins hafa lagt fyrir iðnn. Nd. útreikninga sem sýna að hækkun skatttekna á árinu 1984 hefði numið um 8,7 millj. dala, þ.e. vegna lækkunar á vaxtakostnaði afskrifta samkvæmt hinum nýja samningi. Áætluð hækkun skattstofns vegna ársins 1985 nemur 6,5 millj. dala. Líklega verður þessi munur minni þegar frá líður en sýnir þó ótvírætt ávinninginn af þessum samningi.

9. Skattar fari hækkandi.

Við meðferð málsins í Nd. var því haldið fram að fullyrðing í frv. þess efnis að skattar gætu ekki hækkað væri villandi og slegið var upp í blöðum að þetta væri rangt. Sérfræðingar ráðuneytisins hafa við meðferð málsins í iðnn. deildarinnar rökstutt þessa fullyrðingu. Samkvæmt útreikningum mun nýja skattakerfið skilað betri tekjum ef álverð fer yfir 60 bandaríkjasent á pund. Þá hafa verið lagðar fram spár um álverð sem gera ráð fyrir að álverð muni verða nokkru hærra en þetta, þ.e. á bilinu 60-80 sent á pund, á næstu tíu árum ef undanskilið er eitt ár þegar spáð er kreppu í áliðnaði. Þetta voru bestu fáanlegar upplýsingar og út frá þessum athugunum var gengið þótt spár um hærra álverð lægju einnig fyrir.

10. Ekki voru sérstök rök fyrir því að réttmætt væri að krefjast nú aukinna skatta af ÍSAL nema í tengslum við aukinn hagnað. Með samningnum er lagður grundvöllur að bættri afkomu ÍSALs og tryggður aukinn skattur eftir því sem afkoma fyrirtækisins batnar.

Loks er rétt að árétta að hinar endurskoðuðu reglur um framleiðslugjaldið taka aðeins til núverandi álbræðslu. Um stækkun álvers og hugsanlegan samning þar að lútandi verður ekki rætt nánar hér. Þó er alveg ljóst að samkomulag um málefni fyrri tíðar er nauðsynlegur grundvöllur þess að unnt sé að fjalla með ábyrgum hætti um stækkun álversins. Nauðsynlegt er því að hraða afgreiðslu máls þessa, sem felur í sér lokalausn þeirra mála sem á dagskrá hafa verið varðandi núverandi álbræðslu skv. bráðabirgðasamningi frá 23. sept. 1983, þannig að hefja megi viðræður um stækkun álversins á nýju ári með hreint borð.

Rétt er og að minna á að von okkar um aukinn ávinning af álbræðslunni hlýtur að vera tengd stækkun hennar og varðar það jafnt aukna orkusölu, aukna atvinnu, auknar skatttekjur sem og almennan þjóðhagslegan ávinning af starfseminni.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir helstu atriði í frv. því sem hér er mælt fyrir. Ég vil leggja áherslu á að með samningsgerð þessari er lokið alllöngu tímabili deilna milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse. Tekist hefur að semja um óháða utanaðkomandi mælikvarða á innanfélagsviðskipti Alusuisse við ÍSAL þannig að komast má hjá kostnaðarsömum deilum um það mál.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á áhrif þeirrar aukningar á eigið fé sem fram fer í tengslum við hina nýju samninga. Langtímaskuldir ÍSALs 31. des 1984 námu um 100 millj. bandaríkjadala. Breyting skulda í eigið fé að jafngildi 40 millj. bandaríkjadollara bætir því verulega eiginfjárstöðu fyrirtækisins og hefur í för með sér mikinn vaxtasparnað í rekstri.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að gera það að tillögu minni að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.