16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ef til vill er ekki ástæða til þess að fjalla um þetta frv. í löngu máli. Það er staðreynd að við höfum gerðan samning fyrir framan okkur. Eins og svo oft áður má segja að okkur alþm. sé - hvað á ég að segja - stillt upp við vegg. Það er ekki um annað að ræða í raun en að samþykkja það sem hér stendur eða hafna samningnum eins og hann er. Það kemur fram í frv. að undirritunardagur var 11. nóvember. Ef samningurinn öðlast ekki lagagildi innan þriggja mánaða getur hvor viðsemjenda um sig óskað eftir því að hann falli niður og þar með hefur hann ekkert gildi.

Hér er um að ræða samning varðandi nokkra þætti, þ.e. gert er ráð fyrir nýrri tilhögun á framkvæmd þeirra reglna sem fjalla um mat á hráefniskostnaði álbræðslunnar og verðlagningu afurða með tilliti til skatts. Það er í raun ný skilgreining á heimsmarkaðsverði á áli. Kostnaðarverð ÍSALs á súráli verður metið til skatts eftir vöruskiptahlutfalli milli súráls og áls. Kostnaðarverð ÍSALs á rafskautum verður ákveðið til skatts samkvæmt samningsbundnu verði á milli Alusuisse og ÍSALs á viðkomandi ári með þeim fyrirvara þó að verð sé ekki hærra en verð í viðskiptum Alusuisse, þ.e. sölu á rafskautum, við þriðja aðila á sama árinu.

Enn fremur hefur verið samið um nýjar reglur varðandi fyrningar á fastafjármunum ÍSALs og í tengslum við breytingu á þeim reglum mun eigið fé ÍSALs vera aukið um 40 millj. dollara.

Það kemur fram að lágmarksframleiðslugjaldið mun ekki hækka, hefur ekki hækkað í þessari samningagjörð, verður áfram 20 dollarar á hvert tonn, en eins og kunnugt er og margoft hefur komið fram við umfjöllun þessa máls hefur raungildi þessarar fjárhæðar rýrnað allverulega.

Það er út af fyrir sig hægt að viðurkenna að það sé til bóta hvað varðar þennan samning að hugsanlegum ágreiningsefnum hefur fækkað með tilliti til skattlagningar. Ég vil ekki neita því að breyttar reikningsskilareglur gefi réttari mynd af raunverulegri afkomu félagsins. Ég vil heldur ekki neita því að þegar fram í sækir muni samningurinn hugsanlega gefa okkur meiri arð, meiri skatttekjur. Og hvað varðar skattstigana þá er þar líklega um nokkra einföldun að ræða.

Ég sagði áðan að þessi samningur væri staðreynd. Það verður annaðhvort að samþykkja hann eða synja honum. Ég held að það sé alveg ljóst af þeim samningi, sem hér liggur fyrir, að um hefur verið að ræða, eins og oft áður, erfiðan viðsemjanda. Ég vil ekki gera lítið úr okkar samningamönnum og því starfi sem þeir hafa unnið.

Ég minnist umræðunnar um rafmagnssamninginn á sínum tíma. Því var haldið fram af aðilum að þar hefði verið um eins konar nauðungarsamning að ræða. Ég var þá á öndverðri skoðun við þá aðila sem því héldu fram og er það raunar enn og tel, þegar litið er til baka - ég tala nú ekki um þegar litið er til þess ástands sem er um þessar mundir á orkumarkaðnum, olíuverð fer hríðlækkandi og þar með orkuverð í heiminum - að það hafi í raun alls ekki mátt seinna vera að við sömdum um raforkuverðið.

Í því sambandi, án þess að ég ætli að fara að ræða þá samninga sem eru löngu afstaðnir, samningana um rafmagnsverðið, liggur fyrir að meðalorkuverð til áliðnaðar í Evrópu er 12,2 mill meðan lágmarksverð samkvæmt samningunum, og það verð sem raunar gildir nú vegna álbræðslunnar í Straumsvík, er 12,5 mill.

Staðan í áliðnaðinum í dag er þannig að verðið er í mikilli og djúpri lægð. Meðalverðið er núna líklega um 45 sent á pund. Mér er sagt af aðilum sem til eiga að þekkja að þessi krappi öldudalur hafi komið mjög óvænt. Það hafi alls ekki verið spáð fyrir um þessa miklu breytingu.

Ég hef stundum varað við því að við gerðum of lítið úr ýmsum ákvæðum þeirra samninga sem við gerum við erlenda aðila, ekki síst þegar um getur verið að ræða álitamál í þeim samningum. Í þessu efni á ekki síst við um endurskoðunarákvæði samninga. Ég held að það sé nánast skylda okkar, ekki síst til þess að búa okkur undir hugsanleg átök síðari tíma, að túlka ákvæði, ekki síst endurskoðunarákvæði samninga, fremur okkur í hag en viðsemjenda okkar. Ég held fyrir mitt leyti að við búum okkur betri vígstöðu með slíkri túlkun. Eigi að síður verða menn að líta á þessi mál af raunsæi.

En þessi samningur er síður en svo algóður. Ég verð að játa að þegar farið var af stað til þessarar samningagerðar hélt ég satt að segja að menn mundu leggja allt kapp á að semja við aðila um eins konar veltuskatt. Með því móti hefðum við að sjálfsögðu miklu síður þurft að hafa áhyggjur af ýmsum ágreiningsefnum sem þrátt fyrir þennan samning sitja eftir. Ég geri fremur ráð fyrir því að samningamenn hafi leitað eftir því að slíkri skipan yrði komið á í samningagerðinni en ekki tekist.

Varðandi samninginn sjálfan eru það auðvitað mikil vonbrigði að ekki skyldi takast að hækka grunnframleiðslugjaldið. Með tilliti til þeirrar verðrýrnunar sem orðið hefur á umræddu grunnframleiðslugjaldi held ég að forsendur hljóti að hafa verið nægar til þess að endurskoða það með tilliti til þess að hækka gjaldið.

Hæstv. iðnrh. vék að því í sinni ræðu hvaða atriði kæmu til endurskoðunar samkvæmt þessum samningi á fimm ára fresti. Mér fannst það ekki koma nægilega skýrt fram í hans máli hvort ákvæðin um grunngjaldið koma til endurskoðunar á umræddum fimm ára fresti. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort svo sé.

Að öllu samanlögðu tel ég, þrátt fyrir allt, að hér hafi verið um varnarbaráttu að ræða. Við höfum ekki sótt neitt í hendur aðilum. Ég vil taka það skýrt fram að það er mitt mat að við höfum alls ekki stigið skrefið aftur á bak. En hæstv. iðnrh. taldi í sínu máli að nú væri lokið löngu gerningaveðri. Reyndar voru það ekki hans orð. Ég ítreka að við höfum ekki unnið endanlegan sigur, ef ég má svo að orði komast. Þessi mál hljóta framvegis að verða til endurskoðunar. Við hljótum í hvert sinn að reyna að sækja okkar rétt eftir því sem mögulegt er.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, m.a. vegna þess að ég á þess kost að fjalla áfram um málið í iðnn.