16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Enn á ný er fjallað um álverið í Straumsvík, það fyrirtæki sem kennt hefur verið við stóriðju og fært hefur miklum fjölda landsmanna atvinnu og þjóðarbúinu mikinn hagnað. Það er alveg ljóst að þegar samningur var í fyrstu gerður var sá samningur mjög vandaður og að mörgu leyti til fyrirmyndar. Hitt er annað að í tímanna rás hefur gildismat orku breyst allverulega og þess vegna kallaði samningurinn á nokkra endurskoðun. Það var hins vegar svo að í tíð Hjörleifs Guttormssonar iðnrh. efndi hann til mikillar galdrabrennu, hvar þeir sem eiga fyrirtækið voru útnefndir sem sérstakir svikarar og (Gripið fram í: Fúlmenni.) - menn sem vildu sérstaklega ganga á hagsmuni Íslendinga. Þar var í fararbroddi þeirra sem gengu í kringum eldinn, galdrabrennuna, Hjörleifur Guttormsson sem lék seiðkarlinn. Ég hef oft haldið því fram að vera manns frá Alþb. í þessu embætti hafi stórskemmt fyrir okkur Íslendingum á margan hátt, gert okkur erfiðara fyrir og átt þátt í því að mál hafi gengið verr en efni stóðu til.

Sá samningur, sem hér liggur fyrir, er staðreynd. Hins vegar má vissulega deila um ýmis efnisatriði hans. Ég held því fram að skattgreiðslur hafi á margan hátt verið gerðar einfaldari og ágreiningsefnum ætti þess vegna að fækka frá því sem verið hefur. Hitt er annað mál að það er mjög hart að lágmarksgjald skuli ekki vera verðtryggt eins og það ætti að vera. Ég vil líka halda því fram, sem er reyndar niðurstaða starfshóps sem við Alþýðuflokksmenn höfum verið með, að skattgreiðslur hækki ekki heldur lækki. Þessi starfshópur okkar hefur mjög gagnrýnt hversu losaraleg samningsgerðin hefur öll verið og útreikningar séu lítt trausts verðir.

Það er og rétt að minnast á það að þeir framsóknarmenn, sem voru reyndar á móti álverinu í upphafi, og það var mjög líkt þeim að vera á móti helstu framfaramálum, sýna þetta viðhorf sitt í nál. sem einkennist af alveg sérstakri fýlu, hvar þeir vantreysta samningamönnum mjög illilega, þeim sem þeir áttu þátt í að tilnefna. Í nál. þeirra segir:

„Hinum almenna rétti ríkisstj. til endurskoðunar á gögnum ÍSALs er í engu hróflað frá fyrri samningum en ekki hefur tekist að gera orðalag endurskoðunarákvæðisins ótvíræðara.

Við samningsgerð sem þessa verður í ýmsum tilfellum að byggja á framtíðarspám þegar meta skal árangur af samningum. Þess ber að geta að raforkuverðsspá ÍSALs, sem iðnn. var kynnt á s.l. ári, hefur ekki staðist.“

Samt segja þessir menn að þeir vilji samþykkja þetta frv. óbreytt.

Þetta eru allt undarlegheit sem skemmtilegt er að virða fyrir sér. Hitt er annað að við sem erum í iðnn. eigum eftir að skoða þetta mál rækilega. Það þarf vissulega skoðunar við og svo verður gert. Ég endurtek að það eru ýmsir kostir við þennan samning - einmitt þeir að ýmislegt er gert einfaldara. En ókostirnir eru þeir að helstu atriðin hafa ekki náðst fram, þau atriðin sem kannske skipta okkur mestu, en það er hækkun skattgreiðslna og það að lágmarksgjald verði verðtryggt.