16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Nú verð ég að segja að ég er öldungis hlessa eftir þá yfirlýsingu sem hv. 4. þm. Vestf. gaf hér áðan, þ.e. að hæstv. iðnrh. skuli ekki hafa látið svo lítið að hafa samband við flokksbróður sinn, formann nefndarinnar sem fær þetta mál til umræðu, til að óska eftir að gata þess yrði greið í gegnum þessa hv. deild. Það er alveg rétt, sem hv. 4. þm. Vestf. sagði áðan, að það er mjög naumur tími. Enda þótt sagt hafi verið í fréttum sjónvarpsins í kvöld að við hér á Alþingi ætluðum að afgreiða 20 flókin stjfrv. eins og fiskflök á færibandi þessa daga sem lifa þings til jóla hygg ég að ekki verði með neinum rétti sagt um þessi stjfrv., sem verið er að afgreiða, að það séu nema kannske tvö, þrjú þeirra sem réttmætt er að nefna flókin. Mörg af þessum málum eru einföld framlengingarmál sem hér hafa komið ár eftir ár og ættu ekki að þurfa langan tíma.

Ég verð að segja það alveg eins og er að engin brýn nauðsyn er á að afgreiða þetta mál fyrir jól. Ég sé ekki betur en að það dugi fyllilega að afgreiða það þegar þing kemur saman bak jólum. Ég verð að lýsa eindreginni furðu á þeim vinnubrögðum hæstv. ráðh. að hafa ekki samband við formann þeirrar nefndar sem á að fjalla um málið eins og skýrt var frá hér áðan. Mér sýnist þetta segja sitt af hverju um sambúðina og samkomulagið á stjórnarheimilinu þó að þeir tveir ágætu menn sem hér um ræðir séu sessunautar í þessum virðulega sal. Mér finnst þetta alveg hreint með endemum. Ég sé ekki hvernig hæstv. ráðh. getur ætlast til þess að hv. iðnn. þessarar deildar afgreiði þetta mál á þeim hraða sem augljóslega verður að hafa á með öllum öðrum önnum sem eru hér í þinginu. Það á eftir að afgreiða fjárlög til 3. umr. Það mun taka sinn tíma. 2. umr. um fjárlög var óvenjuleg. Það komu engar brtt. fram frá stjórnarandstöðunni. Það er eins víst að þær geti orðið margar við 3. umr., hún geti orðið löng. Hér verður því meira en nóg að gera. Þess vegna sýnist mér að sé algjör óþarfi að vera að þrýsta málum hér fram núna sem ekki er brýn nauðsyn að afgreiða.

Það hefur verið gott samkomulag hér yfirleitt þegar unnið er undir þrýstingi tímans, eins og gert er jafnan þegar nær dregur jólum og nær dregur þinglokum, og hefur verið gott samkomulag um mál. En ég sé ekki að nauður reki til að afgreiða þetta mál endilega núna. Og enn minni sýnist mér ástæðan til þess þegar í ljós kemur að hæstv. iðnrh. hefur ekkert samband haft við formann iðnn. þessar hv. deildar. Þetta eru satt að segja vinnubrögð sem ég á ákaflega erfitt með að skilja.