16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. hefur jafnan þann hæfileika að koma mönnum á óvart. Þessi ræða hans kom mér töluvert á óvart. Það skiptir okkur í stjórnarandstöðunni engu hvað hann hefur skrifað stjórnarflokkunum. Stjórnarandstaðan hefur enn ekkert fengið að vita um þau mál sem ríkisstj. leggur sérstaka áherslu á að verði afgreidd fyrir jólaleyfi. Mér er það eitt hvað hann skrifar þingflokkum ríkisstjórnarinnar.

Ég verð líka að lýsa furðu á því sem hæstv. ráðh. segir hér og vitnar í langt og ítarlegt nál. sem fram kom frá einum minni hl. í iðnn. hv. Nd. Það gerir ekki það að verkum að iðnn. og Ed. geti bara sett stimpil á málið og sagt: Þetta hefur verið athugað í Nd. og þar með látum við þar við sitja. - Jafnþingvanur maður og hæstv. iðnrh. er á ekki að láta sér slík ummæli um munn fara í ræðustóli og segja síðan að það sé hætta á annarri afstöðu í Ed. Ed. tekur sína afstöðu til hvers máls, burtséð frá því sem gerist í Nd. Það hefur gerst ærið oft að menn hafa haft aðra afstöðu hér en í hv. Nd. Við því er ekkert að segja.

Mér sýnist einsýnt að ef viðhafa á eðlileg vinnubrögð í þessu máli og þetta mál á að fá eðlilega athugun sé best að leggja það til hliðar þessa daga og einbeita sér að þeim málum sem við vitum að verður að afgreiða fyrir jól. Mér sýnast það vera miklu skynsamlegri vinnubrögð, sérstaklega þegar þess er gætt að hæstv. iðnrh. lét ekki svo lítið að hafa samband við formann nefndarinnar. Mér er alveg sama hvað hann segir hér um það. Auðvitað hefðu það verið eðlileg vinnubrögð ráðherra að fylgja sínu máli eftir með samtali við formann þeirrar nefndar sem um á að fjalla.

Sem stjórnarandstæðingur var ég fyrir fáeinum árum formaður í a.m.k. einni eða tveimur nefndum hér. Auðvitað komu ráðherrar og spurðu um sín mál og ýttu á eftir þeim og óskuðu eftir framgangi þeirra. Við því var reynt að verða eftir því sem hægt var. Ég veit að það geta ýmsir ráðherrar hér vottað það. Þetta eru þau vinnubrögð sem ráðherra á að viðhafa. Ráðherra finnst kannske að hann sé að brjóta odd af oflæti sínu ef hann biður nefndarformenn, forseta Sþ. í þessu tilviki, að veita málum sérstaka fyrirgreiðslu. Mér kemur þetta allt afar einkennilega fyrir sjónir. Og ég held að við í stjórnarandstöðunni hljótum að líta svo á að þessu máli liggi ekki sérstaklega á núna, það liggi meira á öðrum málum sem sé brýnna að ræða á þessum kvöldfundi og koma til nefndar áður en fundi lýkur. Ég held að það séu ýmis mál sem brýnna sé að fái hér forgang en þetta. Ég held að þetta mál geti beðið.