16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

190. mál, gjaldþrotalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Það frv. á þskj. 232, sem hér er til umræðu, fjallar um breytingu á gjaldþrotalögum frá árinu 1978. Frv. felur í sér breytingu á nokkrum atriðum laganna og miðar að því að ráða bót á atriðum þar sem lögin taka nú ekki nægilegt tillit til aðstæðna við meðferð umfangsmikilla mála. Frv. er flutt samkvæmt ábendingu þeirra dómara í Reykjavík sem mesta reynslu hafa í meðferð þrotabúa.

Ákvæði frv. varða heimild fyrir skiptaráðanda til að lengja kröfulýsingarfrest á einstökum málum úr tveimur mánuðum, svo sem almennt er, í allt að sex mánuði í undantekningartilfellum. Er þetta gert einkum með tilliti til erlendra kröfuhafa.

Þá felst í frv. rýmri heimild fyrir skiptaráðanda til að taka skýrslur og afla gagna sem nauðsynlegt er að fá til að kanna eignir þrotabús og til að meta hvort ástæða er til að höfða riftunarmál. Samkvæmt gildandi lögum hefur þurft að koma til atbeini rannsóknarlögreglu þótt ekki hafi verið um að ræða verulegan grun um refsivert hátterni. Þykir rétt að skiptaráðanda verði veitt rýmri heimild að þessu leyti.

Loks er í frv. gert ráð fyrir því að við dómaraembætti þar sem starfandi eru fleiri en einn dómari megi fela tveimur eða fleiri dómurum að fara sameiginlega með skipti þrotabús samkvæmt ákvörðun forstöðumanns.

Ég vil geta þess sérstaklega hér vegna hins umfangsmikla gjaldþrotamáls Hafskips hf. að ég mun sem dómsmrh. beita mér fyrir því að embætti borgarfógeta verði gert kleift að vinna að þessu máli af sem mestum krafti. Viðræður hafa farið fram milli borgarfógetaembættisins og ráðuneytisins um ýmsar ráðstafanir til þess að auðvelda og flýta fyrir rannsókn þessa máls. Hér er um mjög viðamikið mál að ræða sem krefst bættrar aðstöðu borgarfógetaembættisins vegna umfangs málsins. Ráða þarf viðbótarmannafla tímabundið, einnig þarf aukið húsrými, og hefur þegar verið hafinn undirbúningur að því, og athugaðir hafa verið möguleikar á að tölvutaka ýmsar upplýsingar til að auðvelda rannsókn og meðferð þessa máls.

Hæstv. forseti. Frv. þessu er ætlað að ráða bót á atriðum er varða meðferð þrotabúa. Það er ekki mikið að vöxtum og vænti ég þess að það fái góðar undirtektir hér í hv. deild og vænti þess að unnt sé að afgreiða það fyrir jólaleyfi. En vegna umræðna sem hér hafa farið fram vil ég benda á að það eru augljósar ástæður fyrir því hvers vegna það er svo seint fram komið.

Ég legg til að frv. verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.