23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Það er sennilega eitthvað svipað á komið með okkur báðum, að okkur rís lítt hár á höfði yfir þessari umræðu, en ég get svo sannarlega tekið undir með hv. síðasta ræðumanni að það er heldur nöturlegt að ræða þessi mál hér og nú með þessum hætti á þessum degi. Ég verð að segja, herra forseti, að nokkuð kemur mér það spánskt fyrir sjónir að menn skuli koma endurtekið hér í þennan virðulega ræðustól og halda því fram sem einhverjum sérstökum kosti þessarar umræðu að þm. þurfi ekki að vita um hvað hún snýst. Vegna þess að Alþingi ætli ekki að taka efnislega afstöðu til kjaradeilunnar sé óþarft fyrir þingheim að vera að hafa af því áhyggjur um hvað málið snýst. Þannig skil ég a.m.k. ræðuhöld þeirra hv. þm. sem með slíku tali eru að reyna að fá sér fjarvistarsönnun frá því að taka á málinu efnislega. Auðvitað snýst það fyrst og fremst um grundvallaratriði, eins og ég lét koma fram í upphafi míns máls áðan, en einnig hljóta þm. að þurfa að vita hvers eðlis deilan er, um hvað hún snýst og hvernig hún er vaxin þegar þeir ætla að taka afstöðu til jafnafdrifaríks máls og þess að grípa inn í vinnudeilu með lagasetningu. Og ég verð að segja það, herra forseti, að má ég þá biðja um svolítið rismeiri málflutning en þennan hér á hv. Alþingi.

Auðvitað er með lagasetningu hér og nú tekin ákveðin afstaða í málinu. Það er tilgangslaust að reyna að horfa fram hjá því, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Það er tekin ákveðin afstaða með stjórn Flugleiða þannig að það er tekið undir það sjónarmið að kröfur flugfreyja séu ósanngjarnar og óraunhæfar og ekki sé ástæða til að ganga að einhverju leyti til móts við þær. Það er gert með því að taka þessa vinnudeilu út úr þeim eðlilega farvegi sem þessar deilur eiga að vera í ef allt er með felldu.

Þetta var út af fyrir sig ágætis ræða hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. (GJG: Hún var fráleit.) En hún var um efni sem koma þessari deilu á þessari stundu harla lítið við. Ég vil taka það fram til að forða misskilningi og róa huga hv. 7. þm. Reykv. að ég er efnislega algerlega ósammála hv. þm., en ég skil að þetta hafi átt að vera hans skoðanir og hann kom þeim skammarlaust frá sér. Að því leyti til var ræðan sæmileg. En ég verð að segja það eins og er að einum tíu sinnum eða jafnvel oftar tókst honum að snúa út úr mínum orðum og rangtúlka það sem ég sagði. Til að mynda sagði ég aldrei, hv. þm., að það kæmi aldrei til greina og það ætti að vera undantekningalaus regla að aldrei mætti grípa inn í um samninga. Slíku hélt ég ekki fram. Ég vil hins vegar benda á að í hvert einasta sinn sem löggjafinn grípur inn í vinnudeilur er í raun tekist á um grundvallaratriði, það er komið inn á grundvallaratriði, og menn hljóta að þurfa að gera það vandlega upp við sig í hvert eitt skipti hvort slíkt sé réttlætanlegt. Ég vil benda hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni á að hann er ekki bara að taka afstöðu í þessu máli, hann er líka að taka afstöðu með vinnubrögðum ríkisstj. að þessu frv. Það er mjög ámælisvert að mínu mati og á það hefur flokkssystir hans, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, rækilega og vel bent að þau vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar.

Röksemdir Alþfl., herra forseti, þó e.t.v. sé ekki ástæða til að eyða mjög mörgum orðum að afstöðu meiri hluta þingflokks Alþfl., hafa blandast inn í umræðurnar. Einkum telst mér það vera tvennt sem Alþfl. sér við að standa svona að málum. Það er í fyrsta lagi að það ber svo mikið á milli í deilunni. Og eru það nú orðin rök allt í einu í kjaradeilum að ef á einhverjum punkti þeirra lítur illa út með samninga sé sjálfsagt að skipta sér af málum? Eru það orðin rök? Hefur það aldrei komið fyrir á Íslandi fyrr að einhvern tíma standi þannig á í vinnudeilum að ekki líti út fyrir samninga alveg á næstu dögum eða næstu klukkutímum?

Einnig voru það rök að vegna þess að samningar annarra aðila væri lausir um áramót væri sjálfsagt að grípa til lagasetningar í þessari vinnudeilu. Skyldi þá ekki einhvern tíma oftar, herra forseti, vera ástæða til þess á Íslandi að grípa inn í vinnudeilur með lagasetningu ef það eru orðin rök að af því að allir eru ekki samflota núna sé þetta sjálfsagt og eðlilegt? Þetta er furðulegur málflutningur, herra forseti, af þingmönnum flokks sem kennir sig við verkalýð og alþýðu landsins, stórfurðulegur skilningur á eðli vinnumarkaðarins á Íslandi, að lagasetning sé nú af þessum ástæðum eðlileg og sjálfsögð.

Það hlýtur að verða, herra forseti, að gera kröfu til þess að Alþingi skoði vandlega rökstuðning í málum sem þessum og hvort það sé óhjákvæmilegt og réttlætanlegt að grípa til aðgerða. Það er fullkomið ábyrgðarleysi, að mínu mati, af Alþingi að gluða slíku frv., sem fjallar um grundvallaratriði, í gegn án þess að skoða það meira en hér á að gera. Það er fullkomið ábyrgðarleysi, vil ég segja, af löggjafanum að fara þannig með vald sitt í þessum málum. Og ef mönnum koma ekki efnisatriði deilunnar við, til hvers erum við þá með augu og eyru hér á Alþingi? Af hverju göngum við þá ekki að verkum okkar með bundið fyrir augun og tappa í eyrunum ef við þurfum ekki að kynna okkur málin áður en við setjum um þau lög? Er það svo e.t.v., herra forseti, að Alþingi séu hætt að koma kjör vinnandi stétta í landinu við?

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hóf ræðu sína á því að segja að þingheimi kæmi í raun og veru ekki við efnisatriði þessarar deilu og prísaði sig sælan fyrir að því væri létt af sér að setja sig inn í það. En hann endaði ræðuna, eða svo gott sem, með nokkuð sérkennilegum hætti. Aftarlega í ræðu hans kom sú setning að í raun og veru væri ekkert gert hér á Alþingi sem ekki væri á einn eða annan hátt að grípa inn í skiptingu teknanna á Íslandi. Þá er hann kominn í dálaglegan hring, þessi nýlega kjörni formaður Alþfl., hring um sjálfan sig, og er það eftir öðru í röksemdafærslu flokksins í þessu máli.

Ég vil endurtaka það, herra forseti, að menn geta ekki fengið sér fjarvistarsönnun með því að segja í fyrsta lagi að það beri mikið á milli. Það hefur áður gerst í kjaradeilum á Íslandi. Og það hefur áður gerst að samið hafi verið með stuttum fyrirvara, jafnvel örfáum klukkutímum eftir að slitnar upp úr víðræðum, eftir að menn sjá ekki ástæðu til að halda þeim áfram. Þá allt í einu breytast aðstæður og innan tíðar liggja fyrir samningar. Þetta þekkja allir og það þarf ekki að rekja það hér. Þess vegna eiga menn ekki að vera með þann málflutning að vegna þess að það blási ekki byrlega í augnablikinu þýði ekkert nema setja lög, það sé allt vonlaust annað. Af því að menn hafi ekki getað lagt fram sáttatillögu sé þetta vonlaus róður. Endemis röksemdafærsla er þetta. Eða þá að það þurfi allir og alltaf að vera í samfloti og ef svo sé ekki sé sjálfsagt að setja lög á þá sem á undan eru og láta þá bíða eftir hinum. Hvernig er þá orðið ástandið á vinnumarkaðnum á Íslandi? Hvert er þá komið með samningsrétt hinna einstöku stétta? Hvenær eiga menn þá að ná fram sérkröfum sínum? Hvenær eiga einstakar stéttir, sem vinna við sérstakar aðstæður og eiga þar ekkert sameiginlegt með neinum öðrum hópi í landinu, að ná fram leiðréttingum sem tengjast þeim sérstöku vinnuaðstæðum? Við skulum gá að því að flugfreyjur eru ekki bara hér að fara fram á leiðréttingu á almennum kjörum sínum, heldur eru þær einnig með kröfur uppi um það sem varðar þeirra sérstöku vinnuaðstæður. Gleymi menn því ekki, ekki heldur Alþýðuflokkurinn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umræður því að nokkuð líður nú á kvöldið og það er einnig eftir 3. umr., en vegna þess að hv. formaður Alþfl. hafði uppi fullyrðingar um 14 kjaraskerðingar, sem einhvern tíma hafa heyrst áður í þessum þingsölum, ætla ég að vitna í, að vísu fjarstaddan heiðursmann, hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson, sem mun vera erlendis og er nokkuð óvíst um hvenær hann komist heim, en hann svaraði fyrirspurn á síðasta þingi, 2. apríl er það prentað í þingtíðindum, er hv. 3. þm. Vestf. spurði hann um aðgerðir af hálfu opinberra aðila í efnahagsmálum undanfarin 15 ár, hvorki meira né minna, og nær það nokkuð aftur í fyrri stjórnartíð Alþfl. þegar hann var í hjónabandi með Sjálfstfl. eins og hann er núna í þessu máli. Forsrh. svaraði þá, með leyfi forseta að sjálfsögðu:

„Ég hef beðið Þjóðhagsstofnun að taka saman slíkt yfirlit“ [þ.e. um aðgerðir opinberra aðila í efnahagsmálum] „og segir í bréfi Þjóðhagsstofnunar að yfirlitið nái yfir helstu aðgerðir eða þær sem máli skipta eins og þar segir“, og mun þetta vera stofnanamál, „og jafnframt að skv. yfirlitinu hafi stjórnvöld gripið tólf sinnum inn í launasamninga með beinum hætti á s.l. 15 árum.“

Hér er nú bæði vitnað í Þjóðhagsstofnun, herra forseti, og sjálfan hæstv. forsrh. lýðveldisins og þarf þá varla frekar vitnanna við.