16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

145. mál, stjórn fiskveiða

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. hefur lýst þetta mál upp nokkuð vel innan frá, eins og ég mundi vilja kalla það, og því verður varla neitað að hörð andstaða hans við frv. byggist á ýmsum mjög vel grunduðum hugmyndum og gagnrýni og ekki ástæða til þess að leiða slíkt hjá sér.

Mig langar til þess að skoða þetta mál meira utan frá en innan frá, einkum sér í lagi vegna þess að ég þori ekki að fara inn í einstakar greinar þessa frv. og vil það í raun og veru ekki af því að í heild sinni er ég andvígur því.

Ég vil byrja á því fyrst í mínu máli að lýsa því yfir að ég er andvígur því að gildistími þessa frv. verði tvö ár eins og lagt er til í frv. Ég tel að ef það verður að lögum nægi eins árs gildistími og höfða þá til þess hvernig þetta frv. er til komið í upphafi þegar menn töldu brýna nauðsyn krefja vegna ástands fiskistofna. Þá lá í loftinu hjá öllum þeim mönnum sem um þetta mál fjölluðu, hvort sem þeir studdu það með hálfum huga eða ekki, að þessi lög mundu aldrei gilda nema tímabundið. Við skulum vona að það verði ekki jafnlífseigt og sérstakt tímabundið vörugjald.

Í sambandi við síðustu orð hv. 4. þm. Vesturl. vil ég minna hann á að það atriði sem hann fjallaði um síðast í sinni ræðu var einmitt það atriði sem hæstv. sjútvrh. kallaði löglega mismunun samkeppnisaðila.

Er þetta frv. hvati? Felur þetta frv, í sér frelsi til athafna? Er það staðreynd, sem ráðherra fullyrðir, að ef ekki hefði verið gripið til þessara laga væru kjör okkar enn þá verri en þau eru núna? Er það rétt? Og er hún sönn sú fullyrðing hæstv. ráðh. að íslenskir útgerðarmenn séu þvílíkir óráðsíumenn í sínum rekstri og sínum athöfnum að þeir þurfi barnapössun eins og þessi lög raunverulega eru?

Í Bretlandi er mjög vinsæll leikur að etja hundum á eftir agni. Hundarnir hlaupa á sporbraut og eftir innri brún sporbrautarinnar er ekið agni sem ýmist er uppstoppaður refur eða héri. Síðan er hundunum sleppt og þeir látnir elta þetta agn hring eftir hring á vellinum. Ég verð að viðurkenna að þetta frv. minnir mig mjög á þennan leik. Athafnafrelsið felst í því að fá að velja á milli þess hvort maður eltir uppstoppaðan héra eða ref.

Það er mjög gott að segja við menn: Allt í lagi strákar. Þú færð 0,01% af heildaraflamagni, þú færð 0,02, þú færð 0,5% . Sumir fá jafnvel allt upp í 1%. Þetta hafið þið nú til umráða. Þetta eigið þið. - Það er í raun og veru verið að viðurkenna nokkurs konar eignarrétt manna á þessum afla í sjó. Nú getið þið skipulagt reksturinn ykkar og nú verðið þið duglegir við að afla góðs fiskjar, komið honum að landi í sem bestu ástandi til fiskvinnslunnar. Síðan er það fiskvinnslunnar að „eðla“ þennan fisk, gera úr honum einhverja þá vöru sem skilar miklu í erlendum gjaldeyri. Þetta lítur allt saman vel út þangað til að því stigi er komið. Þá fá mennirnir greitt fyrir þessa vöru. Þeir fá greitt fyrir hana í erlendum gjaldeyri. En þá allt í einu lyftist hin dauða hönd kerfisins: Þú, vinur minn, átt ekki þennan gjaldeyri sem þú ert búinn að hafa svo mikið fyrir að afla. Það erum við sem ráðum hvaða krónur þú færð fyrir þann gjaldeyri. Það erum við sem endanlega ráðum því hvað þú berð úr býtum. Og þegar litið er á það að ríkið er búið að vera aðili að verðákvörðunum á fiski upp úr sjó, að launasamningum, að olíuverðsákvörðunum, að millifærslum og í raun og veru að allri fjármögnun sjávarútvegsins, þá er ekkert að undra þó að menn eigi erfitt með að finna þess merki á s.l. tveim árum að það sé raunverulega eitthvert samhengi að finna milli kvótastjórnunarinnar annars vegar og einhvers árangurs sem hugsanlega er hægt að mæla í verðmætaaukningu eða lækkun kostnaðar.

Aftur á móti er búið að gera hæstv. sjútvrh. að Bogesen alls Íslands. Hann hefur orðið sama hlutverki að gegna og forstjóri í einkafyrirtæki ríkisins sem rekur nánast allan sjávarútveg á Íslandi - og þá ekki bara útgerðina heldur fiskvinnsluna líka.

Því hefur verið haldið fram um þetta frv. að í því felist hvati til samstillingar veiða og vinnslu. Aftur á móti er það greinilegt þegar lesnar eru skýrslur lærðra manna, eins og þeirra flibbaklæddu í Þjóðhagsstofnun, að þeir eiga afskaplega erfitt með að draga fram sönnunargögn í þessu máli. Þeir geta ætlað og þeir geta talið og þeir geta talað um að eitthvað sé líklegt, en fullyrt geta þeir afskaplega lítið í þessu máli. Það er öllu merkilegra, þegar til þess er hugsað að afskipti ríkisins af þessari skömmtun og í þessari tilraun til samstillingar eru jafnmikil og þau eru, að enginn maður skuli raunverulega hafa haft döngun í sér á þessum tveimur árum að elta þessa stjórnunarþætti uppi og reyna að finna í þeim eitthvert samhengi. Það má minna á aðra hliðstæðu þegar títtnefnd Framkvæmdastofnun gerði til þess tvær tilraunir fyrir nokkuð mörgum árum að finna eitthvert samhengi milli lánveitinga sinna til sjávarútvegs - bæði útgerðar og vinnslu - og einhvers árangurs sem hugsanlega hefði náðst í íslenskum sjávarútvegi. Tvisvar sinnum settu menn í það lærða menn á launum, sem gerðu til þess örvæntingarfullar tilraunir, að finna þarna eitthvert samhengi á milli og komust þeir í bæði skiptin að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert samhengi. Og það sem verra var: Þetta samhengisleysi var öllu ljósara fyrir þá sök að það var hægt að finna ákveðið samhengi milli starfa Framkvæmdastofnunar og ákveðinnar þróunar til jákvæðrar áttar í iðnaði en alls ekki í sjávarútvegi.

Nú er þar til að taka, sem aðrir menn geta lýst miklu betur en ég, þ.e. þeir sem fróðari eru, að afli annars vegar og sókn hins vegar geta tekið ýmiss konar breytingum vegna utanaðkomandi aðstæðna. Þegar sveiflur í afla og sókn geta numið mörgum prósentum og jafnvel tugum prósenta er auðvitað út í hött að stjórna með kerfi sem er jafnrígbundið og þetta er þar sem búið er að gera þetta nánast upp við ársbyrjun og litlir möguleikar til breytinga öðruvísi en með því að breyta heildaraflamagninu. Það má líka benda á að sú löglega mismunun, sem hæstv. ráðh. minntist á í máli sínu, er t.d. notuð til að leiðrétta mjög smásmuguleg og undarleg afskipti af veiðum þeirra aðila sem eru búnir að vera nánast óbreytanleg stærð í aflamagni í þó nokkuð mörg ár. Þar á ég við veiðar smábáta og þá sérstaklega línu- og handfæra sem farið er með nákvæmlega eins og botnvörpuskip og netabáta, þ.e. þá aðila sem veiða að jafnaði um 85% heildaraflans.

Í haust komu fram hjá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands hugmyndir um möguleika á öðruvísi stjórnun, þ.e. stjórnun sem miðaðist að því að ná þeim markmiðum sem allir menn eru nokkuð sammála um að sé nauðsynlegt að ná eða nauðsynlegt að halda. Það eru þau einföldu markmið að aflamagn í heild fari ekki yfir eitthvert ákveðið hámark og skipta þessu heildaraflamagni niður á tvö helstu veiðitímabilin, þ.e. sitt hvort hálfa árið, og eiga síðan möguleika á því að grípa inn í veiðar á þeim tiltölulega stuttu tímabilum, samtals fjórum mánuðum á ári, þ.e. annars vegar að vori og hins vegar að sumri, þegar veruleg hætta er á því að sókn verði það mikil að hún annars vegar bjóði hættunni heim að fara fram úr heildaraflamagninu og hins vegar yfirstígi getu fiskvinnslunnar og raski þannig því æskilega samspili veiða og vinnslu sem allir hafa áhuga á að ná en er oft erfitt að halda af mörgum ástæðum, sem þeim aðilum eru kunnar sem í þessu standa, þar sem alltaf verður ákveðið hagsmunamál þeirra sem fiskinn veiða að ná honum upp úr sjó á sem stystum tíma á meðan það eru hagsmunir fiskvinnslunnar að hafa sem jafnastan og lengstan vinnslutíma yfir árið.

Það er alveg öruggt mál að þetta frv. er ekki sókn til framfara eins og Framsfl. bauð sig til í síðustu kosningum. Þessi lög munu aldrei standa undir viðunandi lífskjörum á Íslandi þegar búið verður að fletja allan sjávarútveginn út í meðaltölum undir því yfirskini, eins og í frv. segir, að hvetja til lægri kostnaðar og samræmingar veiða og vinnslu, en án þess að hinn raunverulegi bati sé fyrir hendi, sá sem ég minntist á í upphafi máls míns. Þegar menn eru búnir að leggja sig fram í sveita síns andlits að skapa verðmæti er þeim neitað um eignarhald á þessum verðmætum og þeir verða að afsala sér þeim í hina dauðu hönd ríkisvaldsins sem endanlega kveður upp sinn dóm um hvaða verðmæti hafa verið sköpuð og þá oftast gersamlega án tillits til þess hvaða hagsmunir eru í veði, eins og sést best á ástandi sjávarútvegs í dag eftir að ríkisvaldið er búið að tröllríða sjávarútvegi í bráðum tvö ár í þeim eina tilgangi að láta útgerðina og fiskvinnsluna standa undir þeim brjálæðislegu offjárfestingum sem fóru fram í orkugeiranum. Við stjórnarskiptin var Landsvirkjun heimilað að hækka gjaldskrá sína gífurlega, gengið var fryst og í þeirri stöðu var sjávarútvegi skammtaður aflinn undir því yfirskini að þar væri verið að gæta hans hagsmuna, en aftur á móti gersamlega tekin af mönnum ráðin í því að fá þau verðmæti í staðinn sem þeir höfðu þegar skapað.