16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

145. mál, stjórn fiskveiða

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt, enda er orðið mjög framorðið nú þegar. Hv. síðasti ræðumaður sagði: Rök bíta ekki. - Ég held að það eigi mjög vel við í þessu máli. Ég held að það væri nákvæmlega sama hvað við, sem erum á móti þessum kvóta, héldum lengi áfram að tala, slík rök mundu ekki bíta, enda er ákveðið að þetta kerfi komist á og gildi næstu tvö árin hvað sem hver segir. Þetta er búið að fara í gegnum Nd. og er hér til 1. umr. aðeins örfáum dögum fyrir jól.

Það er sérkennilegt og vert að velta því fyrir sér hvers vegna þessi mál eru lögð svo seint fyrir Alþingi. Jú, það er talið mikilvægt að þetta sé samþykkt í öllum samtökum sjómanna, LÍÚ, fiskiþingi, Farmanna- og fiskimannasambandinu og Sjómannasambandinu, helst áður en það er lagt fyrir Alþingi. LÍÚ segir: Svona viljum við hafa þetta. Höfum gildistímann í tvö ár. Síðan er fiskiþingið og þar eru sömu mennirnir, alla vega sumir þeirra, að fjalla um þetta og líka sömu mennirnir og eru sumpart í ráðgjafarhóp ráðherrans sem semur frv. að mestu leyti. Ég er því sannfærð um að hvað sem við segðum hér mundum við engu breyta. Það er fyrir fram ákveðið og svona skal það vera.

Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að þær hugmyndir sem Farmanna- og fiskimannasambandið setti fram þrátt yfir ákvarðanir frá hinum samtökunum séu skynsamlegri. Að því takmarkaða leyti sem ég hef getað kynnt mér þær hugmyndir held ég að þær séu skynsamlegri. Sú takmörkun sem þeir setja á þorskaflann með því að setja tegundamark sem nemur 30% á annan afla sé jafnvel það stjórntæki sem við þurfum. Þá getum við beitt stjórnuninni þannig að takmarka í aflahrotum á vetrarvertíðinni og á sumrin en séum ekki að stjórna fiskveiðum í smáatriðum.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að verulegur sparnaður hefði komið fram í þessu kerfi. Það er vert að líta aðeins á það. Þjóðhagsstofnun setur fram ágætis plagg. „Telja má víst. . .," stendur í því ágæta plaggi. „Því miður liggja ekki enn fyrir reikningar fyrir útgerðina í heild á árunum 1984-1985 en í áætlun Þjóðhagsstofnunar er reiknað með því að í kjölfar nýju fiskveiðistjórnarinnar hafi fylgt 9-10% sparnaður.“ Svona er orðalagið á þessu plaggi. Það er engu slegið föstu, enda er það ekki hægt, í þessu máli. Ég ætla að vitna aðeins í annað plagg, með leyfi forseta. Það er Útvegurinn árið 1984. Þar er líka talað um þennan sparnað, ef svo má kalla, á sóknareiningu.

„Ekki er til staðar algildur mælikvarði á sókn," stendur hér. „Ef leggja á mat á breytingar á sókn verður að láta nægja vísbendingar. Það af fyrirliggjandi upplýsingum, sem helst gæti gefið vísbendingu um hver framvindan hefur verið, eru tölur um skipafjölda, stærð skipafjölda, róðra og fjölda úthaldsdaga.“

Svo er talað hér sérstaklega um togara: „Ef fyrst er litið á togarana gefur sóknarvísbending til kynna að sókn þeirra í botnfisk hafi minnkað u.þ.b. um 7%. Hins vegar minnkar aflinn einungis um 2%.“ Hér erum við að tala um togaraflotann, en aflinn hefur aðeins minnkað um 2%. Til hvers er öll þessi stjórnun? Jú, þá er komið að bátunum. Það hefur tekist að minnka aflann aðeins hjá línubátum eða um 6%. Í netasókn hefur aflinn minnkað um 20%, en hjá togbátum um 28%. (EgJ: Ekki 29?) Ég skal rétta þér, hv. þm. Egill Jónsson, plaggið á eftir. Þá geturðu séð þetta með eigin augum.

Hæstv. ráðh. nefndi áðan að stækkun kvótans hafi verið stöðvuð. Gott og vel. En í sömu ræðu boðaði hann að sex nýir togarar mundu bætast við á næsta ári. Hvað skyldi það segja okkur um stækkun flotans? Það eru 1500 tonn sem bætast við. Ef við tökum fjölda vélbáta á milli áranna 1983 og 1984, þá voru þeir 709 1983 en eru 705 1984. Þar er fækkun um fjóra, en meðalstærðin hefur ekki minnkað að sama skapi því að þeir voru að meðaltali 89 lestir en núna 92. Togararnir 1983 voru 104, 1984 107 og svo bætast sex við á næsta ári. Við getum því ekki talað um að stækkun flotans sé stöðvuð. Opnir vélbátar voru 1983 682 en 1984 825. Þessi fullyrðing á því ekki við rök að styðjast.

Það mun rétt vera að verðmætaaukning hefur orðið vegna rækjuveiða. 500-600 millj. hefur sú verðmætaaukning orðið vegna þess að fleiri skip hafa farið á rækjuveiðar og fundið ný rækjumið. En það mætti benda á að sú verðmætaaukning hefði jafnvel orðið meiri hefðu þessir sömu bátar fryst rækjuna um borð. Þá hefði þessi verðmætaaukning orðið 700-800 millj. En hvort þetta er beint kvótanum að þakka ætla ég ekki að dæma um hér. Ég hugsa að þrátt fyrir kvótann hefði einhverjum dottið í hug og jafnvel hefðu fiskifræðingar geta bent á að þarna væru ónýtt mið og ónýttir fiskstofnar.

Gæði afla hafa aukist. Það nefndi hæstv, ráðh. einnig. Gott og vel. Það mun kannske rétt vera. En þrátt fyrir að hv. síðasti ræðumaður drægi mjög í efa að afla væri hent í sjóinn veit ég dæmi þess. Meira að segja hafa skipstjórnarmenn beinlínis sagt að þeir telji að lélegur fiskur sé betur kominn í sjónum en að bera hann að landi og þar með rýra sinn kvóta. Þeir segja einfaldlega: Mér er skammtað, ég má ekki veiða nema 100 tonn af þorski, og því í ósköpunum skyldi ég þá vera að koma með mjög lélegan fisk að landi? Þetta eru þau verðmæti sem mér er skammtað og ég hika ekki við að nýta mér þau verðmæti til fulls.

Þetta vita þeir sem tala við sjómenn og útgerðarmenn. Hæstv. ráðherra veit að menn eru ekki að koma með hálfónýtan afla að landi. Það má t.d. nefna að selurinn er talinn hafa fjölgað sér mjög mikið. Það kemur fram í netafiski. Þar eru jafnvel tannaför eftir sel á fiskinum. Sá fiskur kemur ekki að landi. Honum er fleygt beint í sjóinn. Það þýðir ekkert að biðja um tölur um svona lagað. Menn koma ekki með tölur yfir þann fisk sem þeir henda í sjóinn.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson sagðist ekki mundu trúa slíku fyrr en menn gætu sýnt fram á tölur. En mér þætti gaman að vita hvort hann fengi einhvern skipstjórann til að gefa sér upp fjölda þeirra fiska sem hent er í sjóinn.

Einnig hefur verið rætt hér varðandi úthlutun kvóta hvað þetta þýði fyrir heildarstjórnun fiskveiða, hvort hægt sé að ná fremur því marki að halda heildaraflanum innan ákveðinna marka með því að stjórna eftir þessu umtalaða kvótakerfi. Við skulum líta aðeins á yfirstandandi ár. Úthlutun 1. janúar á þessu ári var 250 þús. tonn. Niðurstaðan er 317 þús. tonn.

Eins og hv. 4. þm. Vesturl. nefndi í ágætri ræðu áðan erum við ekki farin að sjá það hér og nú að svipuð niðurstaða verði ekki á næsta ári. Þar sem fiskifræðingar leggja til að veidd verði 300 þús. tonn gætum við reiknað með 380 þús. tonnum lauslega áætlað miðað við reynsluna á yfirstandandi ári.

Ég vil kalla það ofstjórnun þegar verið er að eltast við að stjórna línu- og handfæraveiðum. Það koma ekki að landi nema um 3% á handfæri, ef ég man rétt, og 6% á línu. Þegar verið er að eltast við að stjórna þessum veiðum erum við farin að stjórna um of.

Fleira má eflaust ræða í þessu sambandi. Frelsið innan þessa frv. vil ég aðeins minnast á varðandi sóknarkvótann. Þar er talað um í 7. gr. að menn geti nýtt sér sína reynslu og bætt við sig. 7. gr. kemur einna best út fyrir þá sem hafa mestan kvóta fyrir. Um leið og við erum farin að bæta við einhverri prósentutölu kemur alltaf hærri tala út eftir því sem grunntalan er hærri. Það leiðir af sjálfu sér að þeir sem eru með 100 tonna þorskafla í dag geta bætt við sig 20% og síðan fá þeir bónus ofan á það. Þeir sem eru með 300 tonna þorskafla þrefalda hér um bil bónusinn. Þetta er því best fyrir þá sem hafa hæstan kvótann fyrir.

Kannske munu mjög margir nýta sér 7. gr. og velja sóknarkvóta væntanlega með það til hliðsjónar, sem einn ágætur ræðumaður sagði hér, að þau lönd, sem hafa stjórnað fiskveiðum með þessum hætti, hafa aldrei fellt þá stjórnun niður. Ég vona svo sannarlega að við séum ekki að festa okkur til eilífðarnóns í þessu kerfi þrátt fyrir að það sé stórhætta á því að einmitt þessi sjónarmið hv. þm. Björns Dagbjartssonar séu ríkjandi hjá einstaka þm., að við séum hér með að festa okkur í ofstjórnunarkerfi til eilífðar.