16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

145. mál, stjórn fiskveiða

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að geta þess að það er bágt að Sjálfstfl. skuli svo lítið hlusta á forseta Alþingis að hann skuli einhenda sér á þetta frv. þrátt fyrir hans gildu röksemdir og einarða málflutning þar sem hann bendir á mjög skilmerkilega að íhaldið er samt við sig hvar sem það er og það er erfiðara að koma því út úr sínu eigin kerfi en að koma kerfinu yfir það.

Umræður um kvótakerfið hafa verið á ýmsa lund og hvers konar yfirlýsingar komið fram hjá mönnum. Skemmst er að minnast þess að forsrh. ríkisins lýsti því yfir að hann væri ekki kvótamaður, hann væri á móti kvóta, en nú nýskeð hefur hann greitt þessu kvótafrv. atkvæði. Það sýnir hvernig orð og athafnir fara saman eða hitt þó heldur.

Ég er einn þeirra sem telja nauðsynlegt að hafa stjórn á fiskveiðum. Við getum sjálfsagt rifist um það lengi hvernig fiskveiðunum skuli stjórnað og það eru menn búnir að gera viku eftir viku. Hitt er annað að sú umræða, sem átt hefur sér stað um kvótakerfið, hefur alveg drekkt meginvandamálinu, þ.e. afkomu útgerðarinnar, afkomu sjávarútvegsins, sem nú er í skötulíki þrátt fyrir mikinn afla, þrátt fyrir gott verð, þrátt fyrir góðar aðstæður.

Það fer ekki hjá því að þegar ég sem Reyknesingur og manneskja velti fyrir mér kvótamálum hugsi ég til þess að á Reykjanesi var afli að landsmeðaltali 1968-1983 27%. Aflinn var 1984 aðeins 19% þrátt fyrir að kvótaúthlutun hafi verið 25%. Það eru margar ástæður fyrir þessu, en sjálfsagt er gildasta ástæðan sú að flotinn hefur streymt af þessu svæði til annarra byggðarlaga, hvar menn hafa haft meiri efni á að kaupa þessi skip en þar syðra. Útvegur á því svæði hefur átt við ramman reip að draga og er nú svo komið að sjávarútvegur á þessu svæði, sem var vaxtarbroddur útgerðar í áratugi, er nú að því kominn að hverfa, ef svo mætti segja. Fyrirtækin þar eru, eins og ágætur maður sagði í Nd. fyrir skemmstu um aðra aðila, hvert á fætur öðru að fara í biðsal dauðans. Hvort þau komast þaðan aftur skal ósagt látið en hitt er annað að miklir erfiðleikar eru þar á ferðinni.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. á þessu stigi. Það er orðið áliðið. Margt mætti vissulega ræða og vera með hvers konar hugleiðingar. Ég er ósáttur við margt sem hér er fram sett. Það má vera að hægt væri að sníða þá agnúa af með reglugerðum, en það verður að skoðast frekar í nefnd.

Ég tek undir þá gagnrýni, sem kom fram hjá öðrum alþm., að samráð við sjávarútvegsnefndir var ekki eins og skyldi í sumar. Samráð við hagsmunaaðila var öllu betra og ég er ekkert að kvarta yfir því. En ég tel að það mætti breyta þessu. Það mætti hafa sjávarútvegsnefndir meira með í almennum undirbúningi og undirbúningi reglugerða. Ég held að það ætti ekkert að skemma fyrir heldur auðvelda gang mála. Ég er ekki að skammast út í sjútvrh. út af þessu. Ég tel að á margan hátt hafi samráðið verið meira en oft hefur verið áður. En ég vil finna að þessum þáttum. Okkur þótti það, sjávarútvegsnefndarmönnum, ansi biturt að fá frumvarpsdrögin í hendur frá hagsmunaaðilum. Þá höfðu þessi mál verið til umræðu í alllangan tíma, en við höfðum ekki fengið þau gögn sem við hefðum þurft að hafa.

Í umræðu hér hefur verið bryddað á ýmsu. Það hafa engar beinar tillögur komið fram um breytingar. Þó hefur hv. þm. Skúli Alexandersson gert tilraun til að meta málið öðruvísi en hér er fram sett. Hann hefur bent á það réttilega að öll umræðan hefur einmitt farið í þennan farveg, snúist um kvótann sem við köllum svo. Menn hafa ekki leyft sér aðrar hugleiðingar.

Það var mjög hressilegt að heyra ræðu Björns Dagbjartssonar áðan. Hann var ekki aldeilis í vafa um að þeir væru að gera rétt, hinir íslensku íhaldsmenn, þar sem hann sagði að það væri rétt að skammta og það væri nákvæmlega rétta leiðin sem hérna væri farin. Það væri enginn efi þar. Það er vissulega gott þegar menn eru sanntrúaðir á sinn málstað, en þetta var mjög táknrænt fyrir það hvernig sjálfstæðismenn tala um skömmtun og höft. En málflutningurinn var hressilegur. Ég vil ekki leyna því.

Ég mun á síðari stigum málsins, þegar nefnd hefur farið yfir frv., gera betur grein fyrir mínum skoðunum í þessu efni. En ég endurtek að í aðalatriðum er ég sammála því að það verði að stjórna fiskveiðum og heppilegast væri að sem allra best samstaða næðist um það. Hins vegar hefur býsna lítið samráð verið haft við okkur í stjórnarandstöðunni um ýmsa þætti og því er ekki séð hvernig við getum tekið þátt í því að samþykkja það sem hér er meiningin að samþykkja.