16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

145. mál, stjórn fiskveiða

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er ekki gustuk að lengja þessar umræður mjög. Ég sé að sumir okkar eiga að mæta á nefndarfundum eftir 6-7 tíma í fyrramálið. Engu að síður er óhjákvæmilegt að leggja nokkur orð í belg við þessa umræðu um þetta mikilsverða mál. Það blæs ekki byrlega í sjávarútvegi okkar um þessar mundir, kannske ekki frekar en fyrri daginn mundu sumir segja. Þó að horfurnar séu slæmar hér innanlands eru kannske líka önnur áhyggjuefni sem ekki ber síður að huga að. Í pósthólf þm. hefur verið lagt núna í dag eða gær nýtt tölublað af tímariti Efnahags- og framfarastofnunarinnar. OECD Observer. Þar er fjallað um fiskviðskipti, þær breytingar sem verða á viðskiptum með fisk í veröldinni með tilkomu 200 mílnanna og þær breytingar sem menn telja sig sjá.

Þar segir höfundur þessarar greinar t.d. um þorsk að þær breytingar, sem 200 mílurnar hafi haft í för með sér, þýði að ýmsir markaðir séu nú ekki lengur opnir útflytjendum og menn verði að finna sér nýja markaði eða að mæta verði þessum vanda með því að lækka verðið.

Enn fremur segir að líklegt sé að afli muni aukast, meiri fiskur verði á markaðnum og samkeppnin harðari. Þetta gæti leitt til aukins þrýstings á ríkisstjórnir til að skerast í leikinn, annaðhvort með aukinni fjárhagsaðstoð við fiskiðnaðinn, sem sums staðar nemur allt að 25% af aflaverðmæti, eða verndaraðgerðum. Þá er sjálfsagt átt fremur við verndaraðgerðir á tollasviði en veiðisviði.

Ég skal reyna að stytta mál mitt. Það eru sjálfsagt ýmsir á mælendaskrá enn og klukkan orðin býsna margt.

Það eru afar skiptar skoðanir um það búmark til sjós, ef svo má segja, sem við erum að ræða hér. Mér sýnist að það kunni að verða nokkur áhöld um það hvort meiri hluti sé fyrir samþykkt þessa frv. hér í deildinni. Ég er hreint ekki alveg viss um það eftir þær ræður sem hér hafa verið haldnar í kvöld.

Mig langar til að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 4. þm. Vesturl. sem talaði hér áðan. Sjálfsagt verður ræða hans sú sem verður einna mest áberandi í fjölmiðlum á morgun vegna þeirrar yfirlýsingar sem hann gaf um að hann segði sig úr iðnn. vegna þess að hann væri ósáttur við hvernig flokkur hans stóð að afgreiðslu þessa máls. Mér kom þessi yfirlýsing hans nokkuð á óvart því að hv. þm. er sjálfsagt sá af þm. þessa flokks sem þekkir best til málefna sjávarútvegsins, hefur enda fengist við rekstur á því sviði býsna lengi og lifað og hrærst í því sem þar er að gerast. Þess vegna þótti mér þessi yfirlýsing hans merkileg. Ég veit ekki hvort hann er að segja sig úr flokknum í áföngum. Ég skil ekki heldur af hverju hann segir sig úr iðnn. vegna þess að ekki er tekið tillit til sjónarmiða hans í sjávarútvegsmálum. Var einhver að skamma Albani kannske?

Það er kannske ástæðulaust að hafa um þetta mjög mörg orð. Ég er honum sammála um mjög margt. En í upphafi ræðu sinnar gagnrýndi hann - ég heyrði ekki betur - hæstv. sjútvrh. fyrir hans ferðalög um landið. Ég get ekki tekið undir það. Ég held að það hafi verið rétt. Þar gafst mönnum í verstöðvunum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri milliliðalaust. Við sátum saman einn slíkan fund vestur í Ólafsvík fyrir nokkrum vikum. Það var góður fundur að mörgu leyti. Ég virði þetta framlag sjútvrh. og tel hafa verið rétt að verki staðið með því að gefa fólkinu, gefa sjómönnum og útvegsmönnum kost á að ræða þessi mál milliliðalaust við þann ráðherra sem með þau mál fer.

Hv. 4. þm. Vestf., forseti sameinaðs þings, var afar þungorður um þetta frv. og satt að segja óvenjulega. Ég segi ekki að hann hafi verið stórorður því það var hann ekki, en hann var þungorður og það með töluvert miklum rétti að ég held. Kerfi ríkisafskipta og ofstjórnar, hnapphelda ríkisafskipta og að Alþingi ætti ekki að vera handbendi misskilinna sérhagsmuna.

Það er kannske óþarfi, virðulegi forseti, að lengja þessa umræðu mjög. Það er ekki ágreiningur um að stjórnunaraðgerðir þarf. Ég get verið stuttorður og lýst því sem skoðun minni að ég held að þær tillögur, sem Farmanna- og fiskimannasambandið lagði fram, hafi verið sýnu betri en það kerfi sem hér er lagt til að taka upp. Fyrir því eru margar ástæður sem ég sé svo sem ekki sérstaka nauðsyn til að fara að rekja núna um miðja nótt. Til þess gefst væntanlega tækifæri þegar þetta mál kemur úr nefnd. Við þurfum að koma þessu máli til nefndar í nótt. Ég held sem sagt að þær tillögur séu betri og hafi ýmsa kosti fram yfir það kerfi sem hér er gert ráð fyrir.

Ein af höfuðástæðunum fyrir því að ég er andvígur þessu kerfi er sú að þetta kemur mjög misjafnt niður eftir landshlutum. Í öðru lagi finnst mér það siðferðilega rangt og mér finnst það rangt á allan hátt að útgerðarmaður, sem ekki notar kvóta sem þetta kerfi skammtar honum, skuli geta selt fisk í sjónum, sem ráðuneytið hefur skammtað honum, einhverjum öðrum aðila milliliðalaust fyrir stórar upphæðir. Þetta finnst mér vera siðferðilega rangt. Slíkt á ekki að geta átt sér stað. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hversu háum fjárhæðum kvótasölur í heild hafa numið. Það þarf ekki að draga í efa að sjálfsagt skilar þetta sér allt í réttum skýrslum og sköttum. En þarna eru miklir fjármunir í húfi. Mér finnst gjörsamlega óeðlilegt að þessi verðmæti, sem menn verðskulda ekki að geta selt, skuli geta skipt um eigendur með þessum hætti.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vestlendinga, að það hefur verið komið verulega til móts við sjónarmið smábátaeigendanna. Það ber að virða. En engu að síður er þetta frv. gallað að mínu mati. Eins og það liggur fyrir hér og nú er ég því andvígur. Og skal ég nú, virðulegi forseti, láta máli mínu lokið við þessa umræðu málsins.