16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

145. mál, stjórn fiskveiða

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. var að kveinka sér undan því sem að ég sagði og vildi heimfæra ákveðin ummæli upp á sig persónulega. Ég hafði sagt að breski íhaldsflokkurinn hefði ekki verið handbendi misskilinna sérhagsmuna og í framhaldi af því að Alþingi ætti ekki að vera handbendi misskilinna sérhagsmuna. Ég held að það sé nokkuð langsótt hjá hæstv. sjútvrh. að telja að þetta sé bein persónuleg árás á hann. Mér hefur ekki komið í hug að ræða þetta mál, þetta mikilvæga mál, á þeim grundvelli. Ég hef ekki gefið hæstv. ráðh. nokkurt tilefni til þess að ætla það. Ég hef m.a.s. sagt í þessum ræðustól að ég treysti þessum hæstv. sjútvrh. betur til þess að framkvæma kvótakerfið en flestum öðrum. Það kann að vera að ég hafi ofmælt í þessu efni. En þetta hef ég sagt og ég er ekki að taka það til baka núna.

Hæstv. ráðh. segist hafa svarað mínum málflutningi á þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Það er gaman að heyra þessar fréttir. Ekki vissi ég um þetta. Er ekki nær að hæstv. ráðh. svari mínum málflutningi á þeim vettvangi sem ég ræði þessi mál á og við báðir? Hæstv. ráðh. hefur ekki gert það, hvorki í hitteðfyrra, í fyrra né nú. Hvers vegna ekki? Ég hef lagt það þannig út að það væri vegna þess að naumast gæfist tími til þess. Eitt af því sem er óhæfa í sambandi við það mál sem við ræðum hér er hve seint það hefur alltaf verið á ferðinni og naumast tími til að ræða það sem vert væri og nauðsynlegt svo mikilvægt sem það er.

Ég er reiðubúinn að ræða þessi mál við hæstv. ráðh. En ég mun leitast við að gera það á efnislegan hátt en ekki flytja mál mitt sem persónulega árás á hæstv. ráðh. Það hefur mér aldrei komið til hugar. Og ég tel að hæstv. ráðh. hafi ekki gefist neitt tilefni til þess að mæla svo sem hann gerði áðan.