16.12.1985
Neðri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að sýna mönnum aukaforsíðu á málgagni hæstv. forsrh. frá laugardeginum 14. desember. Þetta ætti að geymast í annálum stjórnmálasögu Íslands. Hér er fjórdálka mynd af ábyrgðarfullum en hamingjusömum manni sem er framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Hann sýnir dulitla ávísun upp á tæpan hálfan milljarð, 450 millj. kr. ávísun, sem honum var send um daginn af hæstv. fjmrh., 1. þm. Suðurl., einum helsta talsmanni frjálshyggjuarms Sjálfstfl. og þm. bænda á Suðurlandi. Þetta er tékki úr ríkissjóði upp á 450 millj. Þetta er fyrirframgreiðslan af fjárlagaliðum um niðurgreiðslur og útflutningsbætur sem eru á annan milljarð króna, fyrirframgreiðsla til að standa við lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem Alþingi samþykkti á s.l. vori. Þau lög voru sem kunnugt er keyrð í gegn að því er sagt var að frumkvæði þeirra sjálfstæðismanna, enda afurð nefndar þar sem hæstv. fjmrh. og formaður Sjálfstfl. gegndi nefndarstörfum um hríð, en var síðan leystur af hólmi af hæstv. forseta vorum um það er frá leið.

Ég rifja það upp að á sínum tíma á s.l. vori flutti sá sem hér stendur frávísunartillögu á þessi lög og lagði til að tekið yrði fyrir næsta mál á dagskrá, enda væru þessi lög af því tagi að ekki væri sæmandi að keyra slíkt í gegnum þing. En hér er sem sé niðurstaðan. Þegar gengið hafði verið frá samningum um ríkisábyrgð á heildarframleiðslunni á s.l. sumri milli hæstv. landbrh. og bændasamtakanna var tekið erlent lán. Ég tek fram að ég man ekki nákvæmlega upphæðina, hvort hún var 500-600 millj. kr. En hér er sem sagt komin fyrsta fyrirframgreiðslan til sláturleyfishafa, þ.e. til SÍS-kerfisins, upp í þetta sem niðurstaða og afleiðing af þessu kerfi. Ég segi fyrir mig að sú þjóð er ekki á flæðiskeri stödd og sá fjmrh. ekki í miklum vanda staddur sem hefur efni á því að skrifa slíka ávísun og beitir sér fyrir þeirri stefnu að þessu sé haldið áfram á sama tíma og ástand í þjóðarbúskap Íslendinga er þannig, þegar líður að lokum þessa árs, að hallarekstur á ríkissjóði, sjálfum A-hlutanum, er ekki 750 millj. sem ráð var fyrir gert í fjárlagafrv. heldur trúlega a.m.k. 2700 millj. kr., þegar nettóaukning erlendra skulda á þessu ári er áætluð 3325 millj. kr., þegar halli á viðskiptum við útlönd, einkum og sér í lagi vegna sívaxandi vaxtabyrðar hins opinbera vegna erlendra skulda, er áætlaður á þessu ári 5100 millj. kr., þ.e. hallarekstur á ríkisgeiranum, bæði ríkissjóði, A- hluta og á erlendum lánum og viðskiptahalli út á við er raunverulega á tólfta milljarð kr. Ef tekin væri síðan inn í dæmið aukning skammtímalána, sem að lokum safnast upp sem aukning erlendra langtímalána, sem er áættuð á árinu 4300 millj. kr., erum við að gera upp árið 1985, ríkisbúskapinn í heild, með halla upp á 15 500 millj. kr. En þetta er ekki meira kreppuástand en svo að það er allt í lagi að skrifa einn tékk með fyrirframgreiðslu upp á tæpan hálfan milljarð til að fjármagna offjárframleiðslu landbúnaðarafurða, og fjármagna hana með erlendum lánum því að allur er ríkissjóður rekinn seinni hluta ársins á erlendum lánum.

Sú þjóð er ekki á flæðiskeri stödd sem hefur efni á slíkri fjármálastjórn. Það er óþarfi fyrir hæstv. ráðherra og ráðamenn að setja á langar ræður um hversu illa er komið í íslenskum þjóðarbúskap ef þetta dæmi er engu að síður staðreynd og ef hæstv. fjmrh. telur sig hafa efni á slíku.

Það hefur lengi verið ósiður að hlíta ekki þeim lagafyrirmælum sem gilda um með hvaða hætti fjárreiður ríkisbúskaparins í heild skuli lagðar fyrir Alþingi. Skammt er að minnast þess að á s.l. vori; undir lok þings, voru menn að fjalla um lánsfjáráætlun og lánsfjárlög þannig að það var nærri því liðinn fyrri helmingur ársins áður en Alþingi gekk frá lánsfjárlögum. Lagafyrirmæli um ríkisbúskapinn og hvernig hann skuli lagður fyrir Alþingi er að finna í IV. kafla Ólafslaga þar sem svo segir í 14. gr., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skulu þær fylgja fjárlagafrv. Áætlununum skal fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrv. tekur til. Markmið áætlananna er að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum.“

Í 15. gr. segir einnig, með leyfi forseta: „Fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skal jafnframt fylgja mat á mannaflaþörf áætlaðra framkvæmda í heild og þar með mat á atvinnuástandi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð sérstaklega.“

Ég vek sérstaklega athygli á þessu vegna þess sem segir í grg. með fjárlagafrv. um samdrátt í mannvirkjagerð og í íbúðabyggingum. Af þeim sökum hefði einmitt verið sérstök ástæða til að framfylgja þessu lagaákvæði.

Með leyfi forseta vil ég einnig vitna í 16. gr., en þar segir:

„Lántökuheimildir eða ábyrgðarheimildir, sem veittar eru vegna opinberra framkvæmda eða fjárfestingarlánasjóða í lánsfjárlögum þessum, skulu skoðast sem hámarksákvæði á því fjárlagaári sem þær eiga við.“

Það er ástæða til að minna á að á yfirstandandi ári var farið fram úr hámarksákvæðum lánsfjárlaga sem samsvarar einhvers staðar á bilinu 600-700 millj. kr.

Með leyfi forseta segir svo að lokum um þetta efni í 21. gr. sömu laga:

„Einnig skal gæta þess að lánveitingar sjóðanna taki fyrst og fremst mið af sem hagkvæmastri nýtingu fjármagns til aukinnar framleiðni og framleiðslu og hver einstök lánveiting verði ákveðin eftir samræmdum reglum um arðsemismat.“

Þessar tilvitnanir ættu að nægja, herra forseti, til að rifja upp fyrir alþm. hvaða kröfur eru gerðar um framsetningu á áætlunum ríkisstj. að því er varðar ríkisfjármálin í heild.

Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að fjárlög og lánsfjárlög séu lögð fram samtímis og ríkisbúskapurinn verði skoðaður í heild, ekki bara A-hlutinn heldur líka B- og C-hlutinn, sem ein samstæð heild til þess að menn standi ekki frammi fyrir einhverjum afgangsstærðum en geti raunverulega mótað stefnuna vitandi vits.

Það er ástæða til að geta þess sem vel er gert og það er kannske það merkilegasta við lok fjármálaráðherraferils fyrrv. hæstv. fjmrh. að aldrei þessu vant gerðist það í fyrsta sinn frá því að Ólafslög voru samþykkt 1979 að fjárlög og lánsfjárlög voru lögð fram samtímis svo að segja. Þetta er til fyrirmyndar og þetta ber út af fyrir sig að viðurkenna og þakka. Þetta eru mikil og góð umskipti frá því sem tíðkast hefur á undanförnum árum.

En um leið og þetta er metið að verðleikum er ástæða til að minna á önnur ákvæði Ólafslaga. Það skortir nefnilega enn mikið á að þær greinargerðir fylgi sem lögin kveða á um að skuli fylgja.

Sérstaklega bendi ég á þau ákvæði þar sem talað er um að framfylgja ströngu arðsemismati og taka mið af sem hagkvæmastri nýtingu fjármagns til aukinnar framleiðslu og framleiðni og að hver einstök lánveiting verði ákveðin eftir samræmdum reglum um arðsemi. Mér sýnist þrátt fyrir allt að þessi ströngu lagaákvæði séu ekki virt enn og um leið og ég þakka að lánsfjárlög eru sett fram um leið og fjárlög, sem er mikil umbót, vil ég nota tækifærið til að minna á að þarna vantar mikið á að vinnubrögðin séu af því tagi að þau fullnægi ákvæðum laganna og reyndar eðlilegum og sjálfsögðum kröfum.

Við verðum að láta það liggja á milli hluta að svo stöddu, en ef við lítum á ríkisbúskapinn í heild á þessu ári, og þá erum við að tala um ekki aðeins A-hlutann, ekki aðeins B-hlutann, þ.e. ríkisfyrirtæki og sjóði á vegum ríkisins, heldur einnig C-hlutann, þ.e. hálfopinber fyrirtæki og sjóði, þá er ljóst að öll fjárlagagerðin, öll fjárlagasmíðin, öll vinnubrögð við fjárlög og framkvæmd fjárlaga, beiting fjárlaga sem hagstjórnartækis, allt er þetta í hinum versta lamasessi og hefur verið lengi hér á landi. Þá er ég ekki bara að vísa til þeirra talna sem ég rifjaði upp áðan um hallarekstur á A-hluta ríkissjóðs, um aukningu erlendra lána þvert ofan í yfirlýst markmið ríkisstjórnar, um dúndrandi viðskiptahalla og um aukningu skammtímalána sem allt í heild sinni felur í sér viðurkenningu og staðfestingu á hrikalegum mistökum núv. hæstv. ríkisstj. Það má segja að þetta staðfesti að vinnubrögðin eru úrelt. Það á við um tekjuhlið fjárlaga. Tekjuöflunarkerfið er hrunið. Tekjuskattskerfið er svo ranglátt að það hefði verið hin mesta nauðsyn að ríkisstj. stæði við yfirlýst markmið sín og samþykkt Alþingis um að hækka skattfrelsismörk í tekjuskatti í þeim áföngum sem samþykkt hafði verið. Við það var ekki staðið. Um söluskattskerfið þarf ekki að hafa mörg orð. Við höfum gert það svo oft. Það er staðfesting á því að þessi hái óbeini neysluskattur, sem kemst svo illa til skila, er ekki boðlegur út frá neinum mælikvörðum um eðlilegt skattakerfi.

Afleiðingarnar af þessu eru auðvitað þær sem við blasa. Verðbólgan á Íslandi er núna u.þ.b. hin sama og verið hefur að meðaltali á liðnum verðbólguáratug og fer trúlega vaxandi, m.a. vegna þess að gengisforsendur eru mjög ótraustar. Verðbólgan veður ekki lengur rakin til þeirra orsaka sem hæstv. ríkisstj. gerði þegar hún tók við 1983, þ.e. til sjálfvirks vísitölukerfis og til of hárra launa. Hvort tveggja hefur verið leiðrétt, launin keyrð niður, vísitölukerfið afnumið. Nú ber öllum, sem þessi mál ræða af alvöru, saman um að verðbólguna á Íslandi, þensluna, sólundina, megi fyrst og fremst rekja til einnar ástæðu, þ.e. til afleiðinganna af efnahagsstefnu ríkisstj. sjálfrar. Þetta er ríkisfjármögnuð verðbólga sem sýnir að ríkisstj. hefur gersamlega mistekist að beita fjárlögunum og ríkisbúskapnum sem hagstjórnartæki til viðnáms gegn verðbólgu.

Innstreymi erlends fjár, viðskiptahallinn, er fyrst og fremst undirrót þenslunnar, misgengisins milli atvinnuveganna. Það er af þessum orsökum sem þjónustugreinarnar hafa yfirboðið vinnuaflið og eyðilagt samkeppnishæfni undirstöðuatvinnuveganna. Um það þarf ekki út af fyrir sig mikið að deila. Þetta er um leið mælikvarði á heldur dapurleg endalok á fjármálaráðherraferli hæstv. fyrrv. fjmrh. Það má segja að honum hafi tekist að vinna það afrek á fjármálaráðherrastóli að afsanna mjög vinsæla kenningu, sem hann hefur reyndar oft haldið fram héðan úr þessum ræðustól, að það sé fyrst og fremst manna með reynslu úr atvinnulífinu, og látum liggja milli hluta hver sú reynsla hans er, að sýna að þeir kunni betur að stýra opinberum fjármálum, fjármálum ríkisins, vegna þess að ríkisfjármálin séu í eðli sínu hin sömu og að stjórna vel reknu fyrirtæki. Þetta er alkunn kenning, en ég held að hæstv. fjmrh. hafi afsannað hana mjög rækilega.

Þetta er meginskýringin á því að þeir sjálfstæðismenn samþykktu á frægum fundi sínum í Stykkishólmi að setja hæstv. fyrrv. fjmrh. af. Þeir gerðu þar samþykktir og bókanir undir forustu formannsins, sem nú hefur tekið við embætti fjmrh., um að þessi fjármálastefna stefndi öllu í voða. Hér þyrfti m.ö.o. heldur betur að snúa við kúrsinum. Það er alveg augljóst mál að sá málflutningur formanns Sjálfstfl. fékk verulegan stuðning á þessum fundi.

Hvað var það sem átti að gera? Í fyrsta lagi var því yfirlýst, eftir því sem ég best veit, að það yrði að sjá til þess að nýjar erlendar lántökur yrðu takmarkaðar við afborganir af erlendum lánum. Í annan stað skyldi stefnt að því sem næst hallalausum ríkisbúskap og þá fyrst og fremst á A-hluta. Og í þriðja lagi yrði að stefna að því að snúa við þeim hrikalega viðskiptahalla sem myndast hefur á þessu ári og reyndar öll árin á undanförnum rúmum áratug nema eitt.

Ef við lítum á fjárlögin og lánsfjárlögin í heild og spyrjum: Hvað hefur verið gert til að gera betur en hæstv. fyrrv. fjmrh.? Hvar eru þær nýjungar sem hæstv. fjmrh. hinn nýi hefur boðað eða lagt fyrir hið háa Alþingi? Hefur hann raunverulega sýnt og sannað í verki að Stykkishólmssamþykktin hafi verið gerð í alvöru? Það er fljótsagt að því er varðar takmörkun erlendra lána. Heildarlánveitingar ríkissjóðs, sjóða á vegum ríkisins og atvinnuvega eru sem kunnugt er núna ráðgerðar 11,2 milljarðar kr. Þar af eru ný erlend lán tæplega 8 milljarðar eða 7936 millj., en atborganir af eldri lánum eru ráðgerðar 5870 millj. þannig að nettóaukning erlendra lána á árinu 1986 er áætluð yfir 2 milljarðar. Á s.l. ári var samsvarandi tala rúmlega 3,2 milljarðar, núna rúmlega 2 milljarðar. Ekki virðist þetta markmið hafa náðst.

Um annað markmiðið, sem var að stefna að því sem næst hallalausum ríkisrekstri og þá væntanlega A-hluta, kveðum við ekki upp dóm að sinni. Þar vísum við til reynslunnar. Reynslan er sú á undanförnum árum að fjárlagafrv. hafa reynst marklaus, að áform fjárlaga og niðurstöðutölur ríkisreiknings þegar árið er liðið hafa sýnt að þessi áform hafa undir engum kringumstæðum staðist. Það liggur alveg ljóst fyrir af hverju það er. Það er vegna þess að fjárlagagerðin sjálf er kolúrelt, öll vinnubrögð við hana hafa gengið sér til húðar. Þetta er raunverulega sjálfvirkur verðbólguframreikningur að verulegu leyti. Það er um að ræða verulega vanáætlun frá ári til árs á fyrirsjáanlegum reglubundnum útgjöldum og tekjuöflunarkerfið er hrunið. Sá fjmrh., nýr í sæti, sem ætlar að breyta þessu getur að sjálfsögðu ekki notast við þetta gamla stagbætta fat. Hann verður raunverulega að taka upp ný vinnubrögð. Hann verður að breyta sjálfri fjárlagagerðinni ef það á að vera sannfærandi að hann nái betri árangri en fyrirrennari hans þannig að fjárlögin reynist marktæk eða nothæf sem hagstjórnartæki.

Ef þriðja markmiðið ætti að nást, að vinna bug á vaxandi viðskiptahalla, sem að vísu er áætlaður heldur minni á næsta ári en í ár, 4300 millj. kr., er algert frumskilyrði að vænta megi einhvers árangurs í því efni að ríkissjóður og ríkisbúskapurinn sjálfur hætti að kynda undir þenslu, innflutning, eyðslu um efni fram, eins og hann gerir óbreyttur. Ég spyr þess vegna, herra forseti: Hvar eru þær nýjungar, hvar eru þau nýju vinnubrögð í fjárlagagerðinni, hvar eru þær nýjungar í sjálfri stefnumótuninni sem eiga að leiða til þess að menn fáist til að leggja trúnað á að þessar áætlanir í fjárlagafrv. séu eitthvað raunsærri en verið hefur? Því miður er slíkum nýjungum ekki til að dreifa og í raun og veru má segja að að sumu leyti hafi hæstv. fjmrh. stigið skref til baka frá því sem þó var ráðgert í upphaflegu fjárlagafrv. Þá á ég t.d. við það að hæstv. ríkisstj. hefur guggnað á að taka ríkisspítalana af daggjöldum og taka þau á fjárlög. Og ég minni á að hún hefur guggnað á því að standa við yfirlýsingu Alþingis um lækkun tekjuskatts í áföngum án þess þó að leggja fram nokkrar nýstárlegar eða nothæfar tillögur um endurbætur eða uppstokkun á tekjuöflunarkerfi ríkisins þar á móti.

Herra forseti. Þann 4. desember s.l. birtist í aukaútgáfu Morgunblaðsins kálfur sem heitir „Ráðdeild í ríkisrekstri - leiðir til að auka kaupmátt heimilanna.“ Þetta er auglýsing. Útgefandi mun vera Samband ungra sjálfstæðismanna. Það er ástæða til að staldra aðeins við þennan kálf og skoða hann hleypidómalaust.

Ég skil það svo að ungir sjálfstæðismenn séu hér að reyna að standa við Stykkishólmssamþykktina. Þeir eru fyrir sitt leyti að leggja fram tillögur, hvort sem mönnum líka þær betur eða verr, til að standa við þá samþykkt, þ.e. sýna fram á þær leiðir sem að þeirra mati hefði þurft að fara til að stokka upp í ríkisbúskapnum í samræmi við grundvallarsjónarmið sjálfstæðismanna. Þeim markmiðum er svo lýst, með leyfi forseta:

„Hér birtast tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna um ráðdeild í ríkisrekstri. Þær miða að eftirfarandi:

1. Draga úr ríkisumsvifum.

2. Koma á skýrari verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

3. Auka kostnaðarhlutdeild notenda opinberrar þjónustu.

4. Minnka skattálögur og auka þar með kaupmátt heimilanna í landinu.“

Markmið af þessu tagi eru út af fyrir sig góðra gjalda verð. Við stöndum hér frammi fyrir þeirri staðreynd að ríkisbúskapurinn í heild hefur verið rekinn með þúsunda milljóna halla ár eftir ár. Þetta gengur ekki lengur. Tekjuöflunarkerfið er hrunið og útgjaldaaukningin er sjálfvirk. Auðvitað verðum við að staldra við og spyrja sjálfsagðra spurninga: Á þetta ástand að halda áfram að óbreyttu? Hvert á hlutverk ríkisins að vera? Hvar eru þau mörk þar sem við erum sammála um að í engu verði hvikað frá kröfum á hendur hinu opinbera um ríkisþjónustu? Hvaða þættir eru það sem eru hér af gömlum vana eða eru dæmi um mjög slæma nýtingu á almannafé, skattgreiðslum almennings, verkefni sem kannske væru af hagkvæmnisástæðum betur komin í höndum annarra? Þetta eru dæmi um sjálfsagðar spurningar. - Og hér er lögð fram áætlun í fimm liðum:

Í fyrsta lagi eru að því er varðar A-hluta fjárlaganna lagðar fram tillögur um framlög sem hreinlega verði felld niður af fjárlögum.

Í annan stað er um að ræða að færa verkefni frá ríkinu í hendur einstaklinga, samtaka eða fyrirtækja. Þetta er t.d. eitt af því sem við jafnaðarmenn höfum kallað velferðarkerfi fyrirtækjanna, t.d. framlög sem nema tugum milljóna til Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Bifreiðaeftirlits, Ferðamálaráðs, og er niðurskurður upp á 140 milljónir.

Í þriðja lagi leggja þeir fram tillögur um liði sem lækka megi verulega.

Í fjórða lagi eru hérna tillögur um auknar sértekjur, þ.e. að ríkisstofnanir sem veita ákveðna þjónustu afli tekna, selji þá þjónustu, þ.e. eitthvað nær því en að hún verði gefin. T.d. er hér bent á stofnanir eins og Háskóla Íslands eða tilrauna- og rannsóknastofnanir sem selja atvinnulífinu þjónustu.

Í fimmta lagi er hér um að ræða lista yfir ríkisfyrirtæki sem lagt er til að verði seld með þeim rökum að þar sé um að ræða starfsemi sem ekki sé í verkahring ríkisins og sem væri sennilega betur komin út frá hreinum hagkvæmnisástæðum en að reyna að halda henni uppi með framlögum af skattpeningum almennings. Þetta eru tillögur sem ég hafði satt að segja vænst að hæstv. fjmrh., til þess að framfylgja Stykkishólmssamþykktinni, eftir að búið var að setja af fyrirrennara hans með þeim rökum að hann hefði algerlega brugðist sem fjmrh., hefði við fyrstu fjárlagagerð sína sett fram.

Hér er ekkert ráðrúm að þessu sinni til að fara ítarlega í þessar tillögur og ég ætla ekki að nota tímann nú til að taka afstöðu til þeirra lið fyrir lið. Ég vil hins vegar segja: Tillögugerð af þessu tagi er það sem maður hefði vænst af formanni Sjálfstfl. þegar hann er búinn að beita sér fyrir því að fjmrh., sem ekkert tillit tók til yfirlýstrar stefnu Sjálfstfl., er settur af. Og spurningin er: Hvers vegna gerist það ekki? Er það eingöngu tímaskortur, hæstv. fjmrh., eða er það af einhverjum öðrum ástæðum?

Þessar tillögur, sem ég hef nú lýst, fela í sér samdrátt í ríkisútgjöldum upp á 2600 millj. kr., bæði á A- og B- hluta fjárlaga, og eru rökstuddar með því að þær muni gefa forsendur fyrir að standa við gefin fyrirheit um t.d. lækkun á tekjuskatti eða hækkun á skattfrelsismörkum almennings í tekjuskatti sem mundi þýða að tekjuskattur yrði lagður niður á öll venjuleg laun með þeim rökum að launum á Íslandi hefur verið þrýst niður. Ég vitna t.d. til ummæla Þorvalds Gylfasonar hagfræðings í því efni sem telur að meginvandamálið á Íslandi sé ekki lengur háir vextir heldur fyrst og fremst lág laun. Laununum er búið að þrýsta niður á það stig að þau eru raunverulega umbun eða ölmusa fremur en laun fyrir heiðarlegt vinnuframlag. Þetta eru laun af því tagi sem bera ekki þá skatta sem hér er gert ráð fyrir. Það eru auðvitað meiri háttar vonbrigði í sambandi við þessa pólitík að fjmrh., og því áttum við ekki von á, skuli hafa látið það verða eitt af sínum fyrstu verkum að efna ekki yfirlýsta samþykkt Sjálfstfl. og yfirlýsta samþykkt Alþingis um slíka stefnu.

Þessar tillögur um niðurskurð eru t.d. af því tagi að þær samsvara meira en 5% í söluskatti þannig að einnig mætti nálgast viðfangsefnið út frá því að lækka mætti hinn allt of háa söluskatt, sem þar að auki er stungið undan skilum til ríkissjóðs svo nemur mörgum milljörðum, og þar með lækka vöruverð eða auka kaupmátt og ráðstöfunartekjur heimila. Engar slíkar tillögur er að finna hjá hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. og mig fýsir að vita: Er það vegna þess að samstarfsflokkurinn hefur komið í veg fyrir að hæstv. fjmrh., þegar hann tekur við fjmrn., komi fram einhverjum markverðum stefnubreytandi nýmælum? Er þetta samstarfsflokkinum að kenna? Er þetta tímaskortur eða hefur hæstv. fjmrh. og formaður Sjálfstfl. einfaldlega fallið frá þessu? Hefur hann m.ö.o. í verki vísað á bug þeim tillögum sem ungir sjálfstæðismenn hafa lagt fram?

Ég verð að játa að mér urðu það vonbrigði að hinn nýi fjmrh. skuli leggja fram fárlög sem eru sami grauturinn í sömu skálinni, tekjuöflunarhliðin jafnómerk og ranglát og hún hefur verið á undanförnum árum, vanefndir að því er varðar lækkun tekjuskattsins, ekkert hróflað við hinu hripleka og svívirðilega söluskattskerfi, fjárlögin, vinnubrögðin að öðru leyti óbreytt, útgjaldahlið frv. gersamlega vanáætluð og meira að segja er við þriðja meginmarkmiðið, það að binda endi á aukningu erlendra skulda, ekki staðið heldur. Þetta veldur hrikalegum vonbrigðum. Það veldur sérstaklega miklum vonbrigðum vegna þess að við öðru var búist. Það er ástæða til að minna á að nettóskuld þjóðarinnar í erlendum langtímalánum er núna áætluð 66,8 milljarðar kr. Hún var 60 milljarðar á yfirstandandi ári, 1985. Hún er áætluð núna 66,8 milljarðar. Þetta er svipað hlutfall af landsframleiðslu og var á s.l. ári, en greiðslubyrðin sem hlutfall af gjaldeyristekjum fer vaxandi. Hún er talin vera 5800 millj., bara vaxtagreiðslurnar, í ár, áætluð 6000 millj. á næsta ári og ég vísa til rökstuðnings í grg. með fjárlagafrv. þar sem segir að vegna þess sem þegar er vitað um vaxtakjör og vaxtabyrði muni þessi greiðslubyrði fara vaxandi á næstu árum. Við þessar kringumstæður var lágmarksskilyrði að ætlast til þess af hæstv. fjmrh. og ríkisstj. að hann meinti það sem hann hefur verið að segja, meinti m.ö.o. það að hann mundi láta verða sitt fyrsta verk að hverfa frá helstefnunni sem ríkjandi hefur verið í ríkisfjármálum og sérstaklega lánsfjármálum með því að tryggja að ekki yrði um að ræða nettóaukningu erlendra skulda á langtímalánum, fyrir nú utan að skammtímaskuldir gegnum bankakerfið hafa aukist hrikalega á sama tíma. Þess vegna er ástæða til að spyrja, herra forseti, þegar við fjöllum um þessi lánsfjárlög: Er þeim ströngu arðsemismælikvörðum, sem reyndar er fyrir mælt um í Ólafslögum, beitt þegar verið er að gera tillögur um að við skulum taka ný og ný og aukin erlend lán til að fjármagna þá hluti sem þar eru settir á blað?

Við skulum líta á ríkisbúskapinn í heild. Hér er gert ráð fyrir í 1. gr. að fjmrh. fái heimild fyrir hönd ríkissjóðs til að taka á árinu 1986 lán að fjárhæð rúmlega 2,2 milljarðar kr. í erlendri mynt. Nú er margt í lausu lofti með fjárlagaafgreiðsluna sjálfa. Stjórnarandstaðan lýsti því yfir við 2. umr. að fjárlögin hvíldu á svo veikum stoðum og útgjaldaáform þeirra væru raunverulega langt umfram áætlaða tekjuöflun í formi skatta að hún lagði það til að fjárlagafrv. í heild yrði vísað til baka til nefndar þannig að við gætum fengið ráðrúm til að skoða þetta í heild. Alþfl. mun við fjárlagaafgreiðslu síðar í þessari viku leggja fram mikinn fjölda brtt. og ef við komumst að þeirri niðurstöðu að hér sé verið að leggja til erlenda lántöku til hluta sem sannarlega eru ekki arðbærar framkvæmdir kemur tvennt til: annaðhvort er að falla frá þessum framkvæmdum eða endurskoða fjármögnunina, m.ö.o. vísa því aftur til fjárlagaafgreiðslunnar að hve miklu leyti við treystum okkur til að fjármagna þetta að hluta til í auknum mæli með innlendri fjármögnun, t.d. með breytingu á tekjuöflunarhlið fjárlaga, með breytingu á skattakerfinu, með réttlátari skattinnheimtu eða auknum sköttum fremur en að vísa þessu á framtíðina eins og venjan hefur verið hjá óábyrgum stjórnmálamönnum.

Ef menn ætla að standa við stóru orðin um að auka ekki erlendar skuldir þjóðarinnar er mín niðurstaða sú að frv. til lánsfjárlaga sé ótækt. Það er gengið lengra en hægt er að líða í þá átt að auka skuldabyrðina. Þetta stefnir m.ö.o. í ranga átt. Ég minni á að í þjóðhagsáætlun stendur: Hagstæðasta fjárfesting þessarar skuldugu þjóðar er að byrja á því að greiða niður þessi hrikalega háu erlendu lán. Raunvextir af þessum lánum eru að jafnaði eitthvað um 10%. Það eru hærri raunvöxtunarkröfur fjármagns en íslenskt atvinnulíf fær undir risið. Það er bjarnargreiði við atvinnufyrirtæki í landinu, ég tala nú ekki um opinbera þjónustu, ákvörðun um að velta þessum hlutum yfir á komandi kynslóðir, ef við höldum áfram að taka lán á þessum kjörum til hluta sem sannanlega og fyrirsjáanlega munu ekki rísa undir slíkum ávöxtunarkröfum. Þess vegna er mín niðurstaða sú að það beri að spyrja grimmt um allar þessar hugsanlegu tillögur. Eru þetta arðbærar framkvæmdir? Höfum við efni á því, þessi skulduga þjóð, að fara út í það sem hér er stungið upp á að fjármagna með erlendum lánum? Og ég spyr: Ef við ætlum að hverfa af þessari braut, hvernig stendur þá á því að menn eru ekki tilbúnir að játa staðreyndum í sambandi við fjárlögin sjálf, þ.e. að þar er boginn spenntur allt of hátt. M.ö.o.: Eru menn ekki tilbúnir til þess að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og horfast í augu við þær staðreyndir að einu færu leiðirnar til að snúa við á þessari helstefnubraut erlendra lána er: ef við viljum lækka erlend lán verðum við að endurskoða tekjuöflunarkerfið, við verðum að leggja á hærri skatta í einu eða öðru formi fyrir þeim útgjöldum sem við erum sammála um að séu þess virði og skili arði og við verðum að líta raunsætt á hvað það er í núgildandi útgjaldasafni fjárlaganna sem má missa sig, sem hægt er að skera niður, sem hagkvæmnisrök mæla með að verði skorið niður. Hvers vegna á þetta að vera heilög kýr? Hvers vegna ætla menn að una því alla daga að þessi útgjaldaaukning sé sjálfvirk og hlíti engum mælikvörðum, það sé af því bara eða af því að einhverjir tiltölulega fámennir forréttindahópar eru svo ágengir á almannahagsmuni að krefjast þess að þeirra hlutur sé tryggður af veikum burðum og lágum tekjum skattgreiðenda í landinu?

Ég spyr t.d.: Er ástæða til að taka lán, ég tala nú ekki um ef menningin er að taka erlend lán, til að verja til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, tæplega 40 millj. kr. vegna skuldbindinga Lífeyrissjóðs bænda? Ég spyr enn: Er ástæða til að taka 350 millj. kr. lán erlendis frá til að leggja í sjóði stofnunar sem heitir Byggðastofnun núna en hét áður Byggðasjóður? Treysta menn þessari stofnun til þess að verja þessum fjármunum á þann veg að það sé tryggt að þeir skili arði og rísi undir þeim ávöxtunarkröfum sem gera verður? Ætla menn virkilega þriðja árið í röð að leggja það til að tekið sé 150 millj. kr. erlent lán til byggingarlánasjóðanna þó það sé til orkusparandi aðgerða? Hvernig dettur mönnum slíkt í hug? Ég man ekki betur en að hæstv. fjmrh. hafi tekið undir það með mér einhvern tíma að sú ráðstöfun á yfirstandandi ári og fyrra ári hafi verið dæmi um fjárhagslegt ábyrgðarleysi. Auðvitað eigum við ekki að gera þetta og auðvitað eigum við þá frekar að endurskoða tekjuöflunartillögur fjárlaganna sjálfra. Þetta eigum við að fjármagna með öðrum hætti.

Eigum við að taka erlent lán upp á 310 millj. kr. í Stofnlánadeild landbúnaðarins á sama tíma og við erum að borga 600 millj. í útflutningsbætur með offramleiðslu og milli 800 og 900 millj. kr. í niðurgreiðslur á offramleiðslu landbúnaðarafurða? Eigum við að taka 60 millj. kr. erlent lán út á Ferðamálasjóð? Mun hann rísa undir því? Dettur mönnum það í hug, þó að hæstv. fyrrv. fjmrh. Ragnari Arnalds hafi einhvern tíma dottið það í hug, að hægt sé að reka Lánasjóð ísl. námsmanna á erlendum lánum? Að sjálfsögðu getur ekki gengið að reka hann á erlendum lánum á þeim vaxtakjörum sem þar er um að ræða þegar álitamál er hver endurgreiðslukjör námsmanna á þessum lánum eru, ég skal ekki fullyrða hver talan er, þó að mönnum sé væntanlega kunnugt um að þessi næststærsti lánasjóður þjóðarinnar fyrir utan byggingarlánasjóðina er og var í gífurlegum vandræðum vegna þess athæfis fyrrv. ríkisstjórnar að fjármagna hann í mjög miklum mæli með erlendum lánum. Eru þeir menn uppi, á sama tíma og við erum að samþykkja kvóta og takmarkanir í sjávarútvegi, sem telja að við höfum efni á því að taka erlent lán til að fjármagna þetta raðsmíðaverkefni? Hvar eru þeir menn sem treysta sér til að taka þau lán ef þeir ættu að standa undir þeim sjálfir? Auðvitað er það ekki svo. Ríkissjóður á hér að yfirtaka fjárhagsskuldbindingarnar og taka erlend lán til að greiða niður þessi skip og koma þeim til annarra eigenda. Og hvar er kvótinn þeirra? Hvað á þetta að þýða?

Auðvitað er hið mesta nauðsynjamál að verja fjármunum til að binda endi á hið hrikalega mengunarvandamál í kjördæmi hæstv. fyrrv. iðnrh., þ.e. af loðnubræðslunum, en það er hins vegar fásinna að ætla að fjármagna það með erlendum lánum eins og statt er fyrir þessari þjóð. Við eigum að vera menn til að fjármagna það af eigin fé eða á innlendum markaði.

Það þarf auðvitað ekki að orða það að ætla sér að verja erlendu láni í grænfóðurverksmiðjuna sem þarna er nefnd og ég man ekki einu sinni hvað heitir. Það er tóm della og sem betur fer hefur meiri hl. fjvn. ekki einu sinni lagt það til.

Ég geri mér enn vonir um að fjárfesting í fiskeldi sé góð fjárfesting og hún geti risið undir arði og vil fyrir mitt leyti stuðla að því að varið sé peningum til þeirra hluta. Ég tel hins vegar að það sé rétt tillaga og skynsamlegt álit hjá fjh.- og viðskn. Ed. að ætlast til þess að Byggðasjóður fjármagni þann hluta af sinni fjárútvegun.

Ég hef þegar minnst á raðsmíðaverkefnið og spurning er um hinar innlendu skipaviðgerðir. Það getur verið álitamál hvort þetta eru arðbærar framkvæmdir. Í sumum tilvikum er það vafalaust og þá er hugsanlega réttlætanlegt að taka slík lán, þó innan þeirra marka að það er ekki líðanlegt að taka meiri erlend lán en sem samsvarar því að stöðva aukningu erlendra lána. Síðan er meginkrafan sú að ætlast til þess að hæstv. fjmrh. hafi forgöngu um slíka uppstokkun á ríkisbúskapnum að við getum gert okkur raunhæfa áætlun nokkur ár fram í tímann um að byrja að endurgreiða þessi lán. Það er besta fjárfesting þjóðarinnar.eins og nú er komið.

Herra forseti. Við Alþýðuflokksmenn munum við fjárlagaafgreiðslu leggja fram býsna viðamiklar tillögur sem m.a. fela í sér róttækar breytingar á tekjuöflunarkerfinu.

Við munum leggja fram tillögur um afnám á verulegum hluta af þeim fjölmörgu undanþágum sem núna eru frá álagningu söluskatts til þess að gera það skattkerfi, og það er hægt að gera það strax, skilvirkara til að uppræta söluskattsundandrátt og söluskattssvik. Við munum leggja til að þessi skattur verði lagður á innflutning, sem vegur geysilega þungt í okkar hagkerfi, strax við tollafgreiðslu. Það er kannske róttækasta aðgerðin til að koma í veg fyrir skattundandrátt á þessum stærsta tekjuöflunarlið ríkisins.

Við munum leggja til að lagður verði stigbreytilegur eignarskattsauki á þær skuldlausu stóreignir sem eru yfir 7 millj. kr. skuldlaus eign nettó. Mun það geta skilað ríkissjóði t.d. tæpum hálfum milljarði króna og felur þó í sér lækkun á greiðslubyrði a.m.k. 84-90% framteljenda að því er varðar eignarskatt.

Við munum leggja til að launaskattur verði hækkaður um 1 prósentustig og leggjum það til að launaskattinum sem mörkuðum tekjustofni verði skilað aftur til húsnæðislánakerfisins. Við höfum þar með svarað því fyrir okkar leyti að við tökum ekki í mál neinar erlendar lántökur í þeim hlutum.

Við teljum að hagnaður Seðlabankans sé vanáætlaður í fjárlagafrv. og teljum að hann eigi að meta á raunsærri máta. Við erum tilbúnir að velta fyrir okkur og leggja fram tillögur um aukna skattlagningu á banka og innlánsstofnanir og við minnum á að það væri verulegur tekjuauki fyrir ríkissjóð ef hér væri skynsamur meiri hluti á þingi sem samþykkti heimild til að leyfa framleiðslu og sölu á áfengu öli á Íslandi. Það mundi skila ríkissjóði í framleiðslugjaldi og vörugjaldi um hálfum milljarði á ári.

Við leggjum m.ö.o. fram tillögur um breytingar á tekjuöflunarhliðinni, á skattakerfinu og þar með munum við leggja fram tillögur um aukna fjáröflun til ríkissjóðs sem getur bæði fullnægt þessum skilyrðum: að koma í veg fyrir aukningu á nýjum erlendum lánum, að fjmrh. geti staðið við fyrirheit Alþingis um að lækka tekjuskatt í áföngum. Jafnframt væri sjálfsagður partur af þessum tillögum að stigið yrði fyrsta skrefið á þeirri leið að lækka söluskatt sem er orðinn óhæfilega hár. Í því efni nefni ég lækkun söluskattsprósentunnar og lækkun tekjuskattsins sem sjálfsagðan hlut fyrir ríkisstjórn að gera þegar hún horfir fram yfir áramótin til ástandsins á vinnumarkaðnum þar sem menn spyrja: Hvað er hægt að gera nú þegar af ríkisins hálfu til að greiða fyrir því að almenningur í landinu fái aukinn kaupmátt, fái meiri hluta af eigin aflafé í sínar hendur án þess hins vegar að það verði aftur tekið í formi aukinnar verðbólgu?

Jafnframt munum við að því er varðar gjaldahliðina leggja fram fjölmargar tillögur um niðurskurð á útgjöldum á A-hluta ríkissjóðs, þ.e. hvers kyns framlög sem við teljum öll rök hníga að að fella beinlínis niður. Þar er t.d. um að ræða stóran part í svokölluðu velferðarkerfi fyrirtækjanna, framlög af hálfu skattgreiðenda til að halda uppi hvers kyns stofnunum og samtökum í þágu atvinnuveganna, einnig tilfærslur innan A-hlutans frá gjaldaliðum sem við viljum að falli niður til gjaldaliða sem við teljum að æskilegt væri að verja meiri fjármunum til. Þá á ég einkum og sér í lagi við húsnæðismálin. Þetta verða einnig tillögur um B-hlutann, þ.e. framlög til sjóða og hvers kyns gælufyrirtækja og gjörgæslufyrirtækja hjá ríkissjóði og um 6. gr., heimildir fjmrh. til hvers kyns undanþága frá skattheimtum.

Herra forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að lýsa þeim tillögum sem gera þarf um breytingar á þessu frv. til lánsfjárlaga. Þær munum við væntanlega taka upp í fjh.- og viðskn. En ég held að ég hafi sagt nóg til að lýsa þeirri skoðun minni að frv. til lánsfjárlaga er óviðunandi. Þarna er gengið allt of langt í þá átt að gera ráð fyrir erlendum lántökum til hluta sem ekki á að fjármagna með erlendum lánum þegar þjóðin er sokkin í skuldir með þeim hætti sem hér er lýst.

Herra forseti. Mig langar til þess undir lokin, af því að ég hef beint máli mínu nokkuð til hins nýja og unga fjmrh., að rifja upp fyrir honum og þingheimi dulítinn bókarkafla sem birtist fyrir nokkrum árum, þ.e. árið 1979, undir heitinu „Uppreisn frjálshyggjunnar“, en þar á hæstv. fjmrh. dálítinn kafla sem við getum skoðað sem framsetningu á grundvallarsjónarmiðum í pólitískri heimspeki. Kaflinn heitir „Hvað vildum við? Hvað gerðum við?". Þar er að finna undirkafla, sem heitir „Sjödagaáætlun endurreisnar“. Þennan kafla tel ég alveg nauðsynlegt á þessu stigi málsins að rifja upp fyrir hæstv. fjmrh., með leyfi herra forseta, en þar segir:

„Niðurstaða þessa máls er sú, að sjálfstæðismenn þurfa að fara nýjar leiðir - í fyrsta lagi til þess að vernda einstaklingsfrelsið og í öðru lagi til þess að bæta lífskjörin með aukinni verðmætasköpun. Við þurfum að vinna til trausts á nýjan leik. Það er ekki nóg að samþykkja almennar frjálshyggjuyfirlýsingar í þessu skyni, meðan þingmenn flokksins aðhyllast stjórnlyndisstefnu í framkvæmd. Frjálshyggjuyfirlýsingu þarf að fylgja eftir með kjöri frjálshyggjumanna inn á Alþingi. Setja má bæði í gamni og alvöru fram sjödagaáætlun um frjálshyggjuendurreisn. Ef ég ætti að gera slíka áætlun yrði hún sennilega þessi:

Mánudagur: Skattar yrðu lækkaðir, þannig að opinberir aðilar tækju aðeins 35% af heildartekjum þjóðarinnar til ráðstöfunar.“ - Ég skýt inn í, herra forseti: Ætli þessi tala sé ekki á bilinu 45-50% svo það er ekki lítið skattalækkunarprógrammið sem hæstv. fjmrh. þyrfti að ráðast í ef hann ætlaði að standa við sjö daga áætlunina sællar minningar. - Ég held áfram, herra forseti, með leyfi:

„Þriðjudagur: Öllum opinberum rekstri, sem er í beinni samkeppni við frjálsan atvinnurekstur, yrði hætt. Jafnframt yrði lögð niður nefnd sem um árabil hefur unnið að athugun á þessum málum (vegna verkefnaskorts).“ - Af þessu tilefni er kannske sérstök ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. vegna yfirlýsingar um að leggja niður fyrirtæki sem eru í beinni samkeppni við frjálsan atvinnurekstur. Hér liggja fyrir tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna um sölu eftirfarandi ríkisfyrirtækja: Lyfjabúð Háskólans, Fríhöfnin Keflavík, sem yrði boðin út, Áburðarverksmiðja ríkisins, Fóður og fræ, Gunnarsholti, Stórólfsvallabúið, Fóðuriðjan Ólafsdal, Grænfóðurverksmiðjan, Flatey Austur-Skaftafellssýslu, Síldarverksmiðjur ríkisins, Lyfjaverslun ríkisins, Póstur og sími, símarekstur, Skipaútgerð ríkisins, Umferðarmiðstöðin, Ferðaskrifstofa ríkisins, Sementsverksmiðja ríkisins, Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, Rafmagnsveitur ríkisins, Jarðboranir ríkisins og Útvegsbanki Íslands, Landsbanki Íslands, Búnaðarbanki Íslands. Með leyfi að spyrja: Væri hæstv. fjmrh. tilbúinn að lýsa afstöðu sinni til þessara tillagna Sambands ungra sjálfstæðismanna sem mér sýnist vera mjög í anda sjö daga áætlunar um endurreisn?

Herra forseti. Ég held áfram:

„Miðvikudagur: Sett yrðu ný verðmyndunarlög þar sem frjáls verðmyndun yrði meginregla.“ - Frjáls verðmyndun meginregla. Lítum á verðmyndunina eins og hún er nú í landbúnaði, í sjávarútvegi. - „Jafnframt yrðu sett lög um eftirlit með verðmyndun og bann við samkeppnishömlum og hringamyndunum.“ - Stóri bróðir SÍS. Og ekki bara það: „Sama dag yrði því lýst yfir að hér eftir yrði hætt að telja einstakar greinar vinnumarkaðarins hópa með sérþarfir.“ - Kannske þessi ávísun hérna sé á hóp sem er skilgreindur með sérþarfir, mjög fyrirferðarmikill í kjördæmi hæstv. fjmrh.? Hópar með sérþarfir! Það var og.

„Fimmtudagur: Gjaldeyrisverslunin yrði gefin frjáls og gengi krónunnar yrði látið ráðast af markaðsaðstæðum“. - Þetta er hin nýja byggðastefna sem margir eru nú að taka undir, en ég man ekki betur en fyrir nokkrum vikum hafi hæstv. fjmrh. flutt erindi um að hann sæi öll tormerki á því að hægt væri að koma þessu í framkvæmd. Ég er hins vegar ekkert sannfærður um að svo sé. - „Sama regla yrði látin taka til vaxta og vaxtaniðurgreiðslur til sérþarfahópa yrðu um leið afnumdar.“ - Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. fjmrh. er reiðubúinn að undanskilja þarna nokkra, þ.e. ef hann væri fylgjandi félagslegu markaðskerfi, t.d. hvort húsnæðislánakerfið væri undanþegið þessari ströngu reglu.

„Föstudagur: Markmiðum núverandi menntastefnu yrði breytt úr miðstýringu í valddreifingu og úr hópmeðalmennsku í einstaklingsþroska.

Laugardagur: Atvinnurekendum og launþegum yrði tilkynnt að hér eftir yrðu þeir að taka kjaraákvarðanir í frjálsum samningum og á eigin ábyrgð.“

Og síðan koma hin fleygu lokaorð þessarar sjö daga áætlunar endurreisnar sællar minningar því að á sunnudegi „gæfist tími til að fara að dæmi skaparans og hvílast“.

Síðan eru liðin sex ár. Ég spyr, hæstv. fjmrh.: Hvað um sjö daga endurreisn sællar minningar?