16.12.1985
Neðri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var fróðleg ræða hv. 5. þm: Reykv. áðan, það sem ég heyrði af henni, m.a. hvað hv. þm. virðist vera vel lesinn í fræðum Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hygg ég að fáir menn hér í salnum séu betur að sér í því, enda hefur hann aftur og aftur tekið upp hanskann fyrir formann Sambands ungra sjálfstæðismanna. Mér flaug í hug undir umræðunni hvort hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ætti sérstaka aukaaðild að Sambandi ungra sjálfstæðismanna eða hverju það sætti að hann skyldi ævinlega taka upp hanskann fyrir það þegar um mál væri fjallað á hv. Alþingi. Vissulega er margt í hans skoðunum þannig, því miður, að ég geri ráð fyrir að Samband ungra sjálfstæðismanna, sem er einhver ofstækisfyllsti stjórnmálahópur sem til er í landinu, gæti tekið undir margt af því sem fram kemur hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni. Það er dapurlegt fyrir formann Alþfl. að standa uppi með forustu SUS sem aðalhugmyndafræðinga sína í ýmsum málum. Hitt hygg ég þó að sé kannske aðalatriðið í þessum efnum að margir mætir Alþýðuflokksmenn munu reyna sitt besta til að hafa vit fyrir formanninum í þessu máli eins og ýmsum öðrum þannig að það er ekki víst að þessi afstaða hans komi að sök.

Það sem var hins vegar athyglisvert í ræðunni líka var sú tilhneiging sem hv. þm. hefur til að galdra upp úr hatti sínum milljarða króna. Hann fer ákaflega létt með það. Hann stendur í ræðustólnum eins og galdramaður á sviði og tínir upp úr hatti sínum milljarð eftir milljarð eins og galdramennirnir kanínurnar og segir: Sjá, allt þetta mun ég gefa þér, bæði leysa húsnæðisvandann, erlendar lántökur, halla ríkissjóðs, viðskiptahallann og allt, því það eru nógir milljarðarnir. - Þetta á m.a. að gera með því að breyta söluskattinum og með ýmsum fleiri ágætum hugmyndum. Ég hygg þó að þeir milljarðar sem hann ætlar að færa þjóðinni liggi ekki allir á lausu. En sumir gera það. Ég hygg líka að hitt sé aðalatriðið að slíkir milljarðar fást ekki þannig að allir sleppi við að bera þær byrðar sem þeim milljörðum fylgja.

Ég held að það sé alveg ljóst að vandi íslensks efnahagslífs verður ekki leystur nema með því að flytja til milljarða króna í þjóðfélaginu. Það verður að flytja til frá þeim sem eiga mikla peninga, miklar eignir, til þeirra sem þurfa á þeim fjármunum að halda. Þetta verður að gerast með skattakerfi sem er brúklegt en ekki lekt eins og það skattakerfi sem við erum með nú og hv. þm. hefur oft lýst ágætlega.

M.ö.o.: Vandi efnahagslífsins verður ekki leystur öðruvísi en að forréttindastéttirnar finni til og kveinki sér. Ég hef enga trú á því að vandi efnahagslífsins verði leystur í friði við Verslunarráð Íslands, svo ég nefni dæmi, eða aðra slíka aðila. Ég hygg að þvert á móti þyrfti það að eiga sér stað að launamenn í þessu landi og framleiðslan nái höndum saman um efnahags- og atvinnumálastefnu sem ýtir undir aukna framleiðslu og verðmætasköpun þannig að menn hætti að verðlauna eyðsluna, refsa fyrir framleiðsluna eins og þetta er núna. Ég ætla ekki að fara hér, herra forseti, yfir einstök atriði í hinni almennu efnahagsmálastjórn. Ég ætla mér að fara yfir frv. sem hér er á dagskrá, nokkur atriði í því, og ætlast til þess af hæstv. fjmrh. að hann svari þeim fsp. sem ég ber fram.

Ég vil að vísu víkja aðeins að því að þegar hæstv. ráðh. settist í stólinn í haust, stólinn fræga, kom fram að ýmsir töldu, þar á meðal hv. 5. þm. Reykv., að það væri ástæða til að gera sér sérstakar vonir um að nýi fjmrh. leysti málin og tæki þau öðrum tökum en forveri hans gerði. Ég lét þá skoðun í ljós að ég teldi afar ólíklegt að hann mundi gera það og niðurstaðan er komin í ljós. Þetta er allt í sama farinu. Það hefur ekkert nýtt gerst í fjmrn. annað en að sá sem þar situr núna skrifar undir með öðru nafni en sá sem var þar á undan. Þetta er allt sama stefnan, sami grautur í sömu skál, sama sukkið og stjórnleysið á mörgum sviðum. Í rauninni er athyglisvert núna að rifja upp fyrir sér haustið 1983 þegar núv. ríkisstjórn settist á valdastóla og menn settu sér háleit markmið varðandi erlendar lántökur, viðskiptajöfnuð og verðbólgu átti auðvitað að afnema alveg. Steingrímur Hermannsson hæstv. forsrh. fór um landið og hélt fundi og spurði: Hvað hefur ríkisstjórnin gert fyrir þig? Og hann sagði þjóðinni þá að ríkisstjórnin hefði gert það fyrir fólk að afnema verðbólguna. Hún er einhver enn þá. Það er verið að tala um að hún sé 30-40% og kaupið sé jafnsvínslega lágt og raun ber vitni um. En í rauninni er það núna þannig, eftir 2-3 ár þessarar stjórnar, að það ríkir andleysi, doði, drungi, trúleysi í stjórnarliðinu sjálfu á að ríkisstjórnin sé að gera eitthvað af viti. Þingmenn stjórnarinnar, hvort sem þeir eru frá íhaldinu eða framsókn, nenna ekki einu sinni að vera viðstaddir í umræðum. Þeir afgreiða allt með hangandi hendi, ganga í þetta eins og hvert annað skítverk, liggur mér við að segja. Það er ekki hugurinn eða þrótturinn eða umbótaviðleitnin sem einkennir þessa menn. Það er þreytan og drunginn vegna þess að þeir sjá að í rauninni hefur ekkert tekist af því sem þeir lofuðu þjóðinni. Hins vegar hefur ýmislegt tekist af því sem þeir lofuðu Verslunarráðinu fyrir kosningarnar síðast, m.a. að gefa verðlag frjálst og vexti. Að öðru leyti er það kraftleysið og trúleysið sem einkennir tök þessara manna, máttleysið. Hæstv. núv. fjmrh. er alveg jafngrútmáttlaus í þessum efnum og aðrir í stjórnarliðinu. Það má segja að honum sé vorkunn að taka við þessu flaki sem pólitík ríkisstjórnarinnar er á mörgum sviðum. En það þýðir ekki fyrir hann að ganga fram sem heilagan mann, eins og hann gerði hérna fyrir ári, ganga fram sem heilagan mann og segja að hann beri enga ábyrgð á hlutunum lengur. Það séu vondir, gamlir, vitlausir ráðherrar og slakir sem ráði þessu. Hann getur ekki bæði leikið það núna að vera í stjórn og stjórnarandstöðu, eins og hann lék í hálft ár eða meira. Nú er hann í stjórn, Sjálfstfl. er í stjórn og staðan er þannig að trúleysið og slappleikinn einkenna íhaldið í þessum málum.

Ég vil þá víkja næst að einstökum atriðum í frv. Það er þá fyrst 3. gr. frv. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að Landsvirkjun fái 490 millj. kr. á næsta ári. Við munum spyrja Landsvirkjunarpostulana í fjh. og viðskn. hvernig á að nota þetta fé.

2. mgr. þessarar greinar gerir ráð fyrir að Landsvirkjun fái viðbótarheimild til að taka lán allt að 200 millj. kr. hérlendis eða andvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt semjist um stækkun álversins í Straumsvík á árinu 1986. Ég vil segja það fyrir mitt leyti og láta það koma fram hér fyrir hönd Alþb. að við hljótum að greiða atkvæði gegn þessari tillögu. Ég minni á að lánsfjárlög voru til meðferðar fyrir árið 1985 í júnímánuði s.l. og þar fluttum við tillögu um að þessi mgr. 3. gr. félli niður í lánsfjárlögum ársins 1985. Sú tillaga okkar var auðvitað felld af stjórnarliðinu. Það kom samt á daginn að hún var alveg út í hött og þarflaus á árinu 1985. Auðvitað er óþarfi að vera að setja þessa tölu inn á árinu 1986. Það liggur ekkert fyrir um að það semjist við álverið í Straumsvík og ég veit ekki til þess að það sé á döfinni. Hæstv. forseti deildarinnar er út um allar jarðir að reyna að selja rafmagn, jafnvel fyrir slikk, og enginn vill kaupa. Sá eini sem hefur sýnt viðleitni í þeim efnum er kínverski ríkiskommúnisminn. Það er nú haldreipið sem íhaldið hefur í þessum efnum, kínverski ríkiskommúnisminn. Þegar Morgunblaðið skrifaði um það forustugrein fyrir nokkru að kínverski ríkiskommúnisminn væri að vísu hættulegur var hnykkt á með því að segja að gagnvart honum nytu menn frekar fjarlægðarverndar en gagnvart Rússunum. En í rauninni er það þannig að íhaldið hefur ekkert fast í hendi í þessu efni og þess vegna er þessi tillaga óþarfi og sjálfsagt að fella 2. mgr. 3. gr.

Ég vil þá víkja næst aftur að fyrri mgr. og biðja hæstv. ráðh. að gera mér og þinginu grein fyrir hvaða framkvæmdir það eru í orkumálum sem Landsvirkjun ætlar að ráðast í á árinu 1986. Hvaða óhjákvæmilegu framkvæmdir eru það?

Á síðasta þingi flutti ég tillögu um að lækkað yrði framlag til Landsvirkjunar þannig að Blönduvirkjun yrði ekki tekin í notkun fyrr en árið 1990. Þessi tillaga var þá felld, henni var hafnað. Nú er spurning: Við hvað er þetta miðað? Er kannske miðað við árið 1990 eða árið 1991? Hefur ríkisstjórnin lært það síðan á síðasta þingi að sú tala sem þá var inni er allt of há?

Ég vil í annan stað, herra forseti, víkja að 4. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að Orkubúi Vestfjarða verði heimilt að taka lán á árinu 1986 að fjárhæð allt að 20 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til fjármögnunar á hitaveitu- og raforkuframkvæmdum. Nú mun það liggja fyrir að ríkisstj. ætlar að heimila hækkun á heimilistöxtum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða um 14% eða jafnmikið og er gert ráð fyrir hjá Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, reyndar að hækka 17% húshitunartaxtana.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir virðist málið standa þannig að með þessari taxtaákvörðun verði meiri halli og meiri vandi hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða en gert hafði verið ráð fyrir þegar frv. til lánsfjárlaga var upphaflega til meðferðar. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera til að koma til móts við þann vanda sem Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins verða þarna fyrir aukalega vegna þeirra ákvarðana sem ríkisstj. hefur sjálf tekið um taxtabreytingar þessara fyrirtækja í upphafi ársins 1986.

Þá vil ég í þriðja lagi, herra forseti, spyrja hæstv. fjmrh. út í Þróunarfélagið. Það er rósin í hnappagatinu, Þróunarfélagið. Það átti að leysa alla hluti. Nýsköpunin í atvinnulífinu átti að koma þar. Þessari undarlega skepna, sem gekk hér í gegnum þskj. í allan fyrravetur og menn vissu aldrei hvað átti að verða úr, var fyrir rest ákveðin í lögum. Nú er gert ráð fyrir því að heimila þessu þróunarfélagi 100 millj. kr. erlent lán á næsta ári. Hvað á að gera við þessa peninga? Hvað er þetta Þróunarfélag að gera? Hvaða nýsköpunar í atvinnulífinu hefur það efnt til? Hvar er það inni? Hvernig hefur það tekið á vandamálum framleiðsluatvinnuveganna? Ætlar það kannske að fara í frystihúsarekstur? Hvar er Þróunarfélagið á vegi statt? Ætlar það bara að vera í smjörlíkisgerð? Það væri fróðlegt ef hæstv. fjmrh. vildi upplýsa þingheim um til hvers á að brúka þetta þróunarfélag sem hefur hundruð millj. kr. af erlendu fé að leika sér með.

Ég vil þessu næst víkja að 8. gr. frv. sem fjallar um Byggðastofnun. Ég tel að nauðsynlegt sé að hafa Byggðastofnun í landinu. Ég er ósammála hv. 5. þm. Reykv. um að ekki þurfi að reka hér byggðastefnu. Spurningin er auðvitað hvernig með féð er farið. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því hvaða upplýsingar hann hafi um stöðu Byggðastofnunar nú í upphafi þegar hún er að hefja starf undir nýju nafni og nýrri stjórn.

Þessu næst vil ég víkja að 12. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að samanlögð fjárveiting og lántaka Lánasjóðs ísl. námsmanna á árinu 1986 nemi 1,1 milljarði kr. Ég get ekki sagt að ég sé þaulkunnugur tölum Lánasjóðs ísl. námsmanna, ég hef ekki farið yfir þær síðustu dagana, en ég hef séð grg. þar sem talið er að lánasjóðurinn þurfi á næsta ári að óbreyttum lánareglum upphæð sem er mörgum hundruðum millj. kr. hærri en hér er inni. Ég vil fara fram á það við hæstv. ráðh. að hann greini deildinni frá því hvernig ætlun ríkisstj. er að taka á málefnum Lánasjóðs ísl, námsmanna á árinu 1986 því það er bersýnilegt að þarna ber verulegar upphæðir á milli. Mér er tjáð að jafnvel Fjárlaga- og hagsýslustofnun viðurkenni að þessi vandi sé að vísu ekki eins stór og lánasjóðurinn segir, en að vandi lánasjóðsins sé á bilinu 200-300 millj. kr.

Ég vil þessu næst víkja að 18. gr. frv. og vekja athygli á því að þar er gert ráð fyrir verulegum niðurskurði í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Miðað við að Framkvæmdasjóður fatlaðra hækkaði eins og Framkvæmdasjóður aldraðra ætti talan hér ekki að vera 80 millj. heldur 125 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann kynnt sér hvaða verkefni það eru sem liggja fyrir að því er varðar málefni fattaðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra á árinu 1986?

Ég tel ástæðu til þess, herra forseti, að mótmæla alveg sérstaklega 27. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að skerða enn þá einu sinni greiðslur úr ríkissjóði í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Á fundi sem við áttum, þm. Reykv., með borgarstjóranum í Reykjavík og öðrum borgarfulltrúum fyrir nokkrum dögum kom fram að borgarstjórinn hafði talið, og vafalaust fengið þær upplýsingar frá þm. Sjálfstfl. og ráðherrum, að skerðingin á árinu 1985 á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga ætti einungis við það ár og það yrði ekki reynt að vega í sama knérunninn á ný. Nú er hér gert ráð fyrir að halda áfram og skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga enn.

Samkvæmt upplýsingum borgarstjórans í Reykjavík eru tekjur Reykjavíkurborgar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga núna um 6% af heildartekjum borgarinnar, en voru fyrir nokkrum árum 12%. Mér þykir þetta satt að segja ótrúlega hátt fall. Ég hygg að þrátt fyrir þessa skerðingu sé samdrátturinn ekki nærri því eins mikill og þessar tölur benda til frá borgarstjóranum í Reykjavík. En þarna er um að ræða verulegan samdrátt, eins og fram hefur komið í umræðum um þetta mál, m.a. á hv. Alþingi og í svari hæstv. félmrh. við fsp. frá mér um þessi mál. Þegar það bætist við að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var núna að taka á sig gífurlegan erlendan lántökukostnað í fyrsta sinn og verulegan nýjan kostnað vegna Innheimtustofnunar sveitarfélaga er ljóst að Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna verður veikari á næsta ári en hann hefur verið um margra ára skeið. Mér finnst þetta athyglisvert frá stjórnmálaflokki, Sjálfstfl., sem einu sinni hélt því fram að sveitarfélögin ættu að vera sjálfstæð. Það var meginkeppikefli Sjálfstfl. að sögn sumra sem hér hafa talað fyrir íhaldið á undanförnum árum, eins og hæstv. forseta þessarar deildar og fleiri. En þegar þeir fá að ráða og sýna hvað í rauninni býr á bak við orðin kemur í ljós að öll orðin og fyrirheitin voru markleysa í þessu eins og öðru. Það er bersýnilega enginn áhugi á því að standa við stóru orðin í sambandi við hag sveitarfélaganna, efla sveitarfélögin og styrkja fjárhagslegt sjálfstæði þeirra. Ég trúi því ekki að félmrh. hafi haft frumkvæðið að því að skera niður jöfnunarsjóðinn með þessum hætti. En það væri fróðlegt ef hann vildi upplýsa okkur um það. Hér er gerð einstök atlaga að sveitarfélögunum til viðbótar við þá atlögu að sveitarfélögunum sem þegar hefur verið ákveðin og liggur fyrir í fjárlagafrv. þar sem á að skera stórkostlega niður öll framlög til sveitarfélaganna, til skóla, til dagvistarstofnana, heilsugæslustöðva og annarra slíkra framkvæmda. En til viðbótar við þann niðurskurð í fjárlagafrv. sjálfu á að skera niður eina verðtryggða tekjustofn sveitarfélaganna í annað sinn í sögunni. Og það er undir forustu íhaldsins sem hefur haft uppi prédikanir um að það verði að stuðla að sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu. Í þessu efni eins og öðru, hvort sem það eru erlendar skuldir, verðbólga eða hvað það er, reyndust yfirlýsingar þeirra markleysa, hjóm, tilraun til að blekkja og ekkert annað, alvöruleysið uppmálað. Það er niðurstaðan þegar maður lítur yfir málið.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara ítarlegar yfir einstök ákvæði þessa frv. Ég tel að fjh.- og viðskn. hljóti að gera það. Mér finnst hart að hæstv. ráðh. skuli ætla sér að skammta nefndinni fjóra daga til að ræða um þetta mál. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur aldrei fengið aðrar eins trakteringar í sambandi við lánsfjárlög. Venjulega hafa fjmrh. lagt lánsfjárlögin fyrst fyrir Nd. En það breytir engu. Auðvitað hljótum við að njóta góðs af umfjöllun málsins í Ed. En það er ljóst að hér er margra spurninga að spyrja sem verða dregnar fram í meðferð málsins í nefnd.

Það kom fram hjá hæstv. fjmrh., sem er auðvitað hárrétt, að það er ekki hægt að ganga frá frv. til lánsfjárlaga fyrr en búið er að sjá lokatölur fjárlagafrv. Það þýðir að allur frágangur á þessu máli ætti með réttu að bíða fram yfir áramót. Alla vega held ég að ljóst sé að það er mjög knappt að hægt verði að ljúka þessu stóra máli á þeim fáu dögum sem eftir lifa af þinghaldinu fyrir jól.

Í lánsfjárlagafrv., eins og það kemur eftir 3. umr. í Ed., er gert ráð fyrir að taka inn svokölluð raðsmíðaskip. Mér finnst það satt að segja ekki vonum seinna að tekið sé á því máli. Ég get ekki verið að áfellast ríkisstj. fyrir að hún skuli loksins manna sig upp í að taka á því máli. Ég tek því ekki undir þá afstöðu sem síðasti ræðumaður hafði í þeim efnum. Hins vegar bið ég hæstv. fjmrh. að útskýra fyrir mér og þingheimi 2. málsgr. þessarar greinar, en þar segir:

„Ríkissjóði er jafnframt heimilt að yfirtaka hluta fjármagnskostnaðar af lánum, sem skipasmíðastöðvar hafa tekið með ríkisábyrgð vegna smíða skipanna, til að greiða fyrir sölu þeirra.“

Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að ríkissjóður eigi að gefa skipasmíðastöðvunum peninga, yfirtaka hluta fjármagnskostnaðar af lánum sem liggja núna á skipasmíðastöðvunum. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hvaða hugmyndir ríkisstj. hefur um að dreifa þessum peningum, sennilega tugum milljóna króna, til skipasmíðastöðvanna. Það stendur ekki orð um það í frv. eða þessari málsgrein hvaða reglum á að fylgja. Ég óska eftir því að upplýsingar um það fáist hér í umræðunni eftir hvaða reglum á að dreifa þessum peningum til skipasmíðastöðvanna. Það er ekki nóg fyrir okkur á hv. Alþingi að vita að Jón Sveinsson sé forstjóri í Stálvík og Jósef Þorgeirsson hjá Þorgeiri & Ellert en Gunnar Ragnars hjá skipasmíðastöðinni á Akureyri. Þó að þarna sé um að ræða valinkunna og gegna sjálfstæðismenn í öllum tilvikum er ekki nóg fyrir okkur að fá upplýsingar um það. Við þurfum að fá að vita eftir hvaða reglum á að dreifa þessu fé. Á að dreifa þessu fé eftir einhverjum geðþóttareglum í samræmi við innanflokksástandið hjá íhaldinu eða hvaða reglum á að fylgja í þessu efni? Það er óhjákvæmilegt að fá upplýsingar um það. En hitt vil ég taka undir með ríkisstj. og hæstv. fjmrh. að það er óhjákvæmilegt að tekið verði á þessum málefnum skipasmíðastöðvanna og raðsmíðaverkefna.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja örfáum orðum að framhaldsnál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. á þskj. 270. Þar er um að ræða yfirlit yfir innlendar og erlendar lántökur 1986. Þar er gert ráð fyrir að spariskírteini verði seld fyrir 1,8 milljarða kr. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hverju nemur sala spariskírteina núna? Telur hann rök fyrir því að þessi sala spariskírteina skili sér til ríkissjóðs á árinu 1986 að meðtöldu því sem innleyst yrði?

Og ég vil einnig víkja að Byggingarsjóði ríkisins. Það er komið fram að fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins sé talsvert mikið yfir 2 milljarða kr. á árinu 1986 og mér sýnist á fskj. II að það sé gert ráð fyrir að lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins á næsta ári verði 2 milljarðar 280 millj. kr. Ég spyr hæstv. félmrh. að því: Liggja fyrir útlánaáætlanir fyrir Byggingarsjóð ríkisins á árinu 1986? Er gert ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins láni eftir svipuðum eða sömu grundvallarreglum og á árinu 1985? Og ég vil líka spyrja að því: Hvaða ráðstafanir verða gerðar til að koma til móts við þá húsbyggjendur sem hafa orðið harkalegast úti vegna misgengis launa og lána, eins og það er kallað, á undanförnum árum? Þessi mál hafa ævinlega verið rædd við meðferð lánsfjárlaga og það er óhjákvæmilegt að húsnæðismálin séu einnig tekin á dagskrá hér. Þess vegna hef ég lagt þessar fyrirspurnir fyrir hæstv. félmrh.

Það er gert ráð fyrir í lánsfjáráætlun ársins 1986 að skyldusparnaðurinn í Húsnæðisstofnun ríkisins verði neikvæður um 50 millj. kr. Ég vil bæta þeirri spurningu við til hæstv. félmrh. hvort á döfinni séu einhverjar breytingar á lögum um byggingarsjóðina og skyldusparnaðinn vegna þess að það er auðvitað óbærilegt fyrir Byggingarsjóð ríkisins að bera þann halla sem hér er um að ræða.

Ég tel nauðsynlegt að þessar upplýsingar komi fram, herra forseti, og vænti þess að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að fara rækilega yfir þær hér á eftir.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mál fleiri orð að sinni. Til þess gefst tækifæri við 2. umr. málsins þegar það kemur fyrir á nýjan leik. Ég ætla aðeins að bæta við einu atriði.

Þegar við fjölluðum um lánsfjárlög á síðasta þingi lýsti þáv. fjmrh. og viðskrh. því yfir að að ætti að breyta meðferð erlendra lána einkaaðila. Ég man ekki hvort þessi umræða kom upp í sambandi við frv. til laga um viðskiptabanka eða við annað tækifæri. Mér er ekki kunnugt um að á þessu hafi verið gerðar neinar verulegar breytingar. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að einkafyrirtæki taki á næsta ári erlend lán að upphæð 2,5 milljarðar kr. Á þessu ári voru lántökur einkaaðila 1,8 milljarðar kr. og fóru þá 232 millj. kr. fram úr áætlun. Ég inni eftir því hvaða reglur verða notaðar á næsta ári. Verða það sömu reglur og við höfum haft hér í mörg undanfarin ár og hafa reynst mjög gallaðar, ég kannast við það, eða er ætlunin að grípa til strangari aðhaldsaðgerða varðandi erlend lán einkaaðila á næsta ári en verið hafa?

Þetta var það, hera forseti, sem ég vildi koma á framfæri að sinni.