16.12.1985
Neðri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það hefur e.t.v. farið fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að ég sagði frá því að gert er ráð fyrir í frv. sem kemur frá hv. Ed. að hækka fjármagn til Byggingarsjóðs ríkisins um 230 millj. með aukinni lántöku hjá lífeyrissjóðunum þannig að lán frá lífeyrissjóðunum hækka um 230 millj., en þetta stenst miðað við þá áætlun sem við höfum fengið. Eins kom fram í mínu máli áðan að gert er ráð fyrir að í staðinn fyrir 150 millj. til orkusparandi aðgerða, sem var í upprunalegu frv. til fjárlaga, var gert ráð fyrir að 100 milljónir af því færu í almenna lántöku. Húsnæðisstofnun telur að með þessu móti sé tryggt, og það er tryggt, að þessar 200 millj. eru til staðar.