23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

Um þingsköp

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil minna á, þar sem hæstv. forseti upplýsir að taka eigi þetta dagskrármál til 3. umr., að ég beindi ákveðinni ósk til hæstv. forseta sem ég hef ekki enn fengið svar við.

Ég beindi þeirri ósk til hæstv. forseta að 3. umr. yrði frestað fram á föstudag í fyrsta lagi vegna þess að ég hef óskað eftir ákveðnum upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun, eins og fram kom í máli mínu við 2. umr. Í öðru lagi óskaði ég eftir frestun á 3. umr. fram á föstudag vegna þess dags sem er í dag, 24. október. Ég vil biðja hæstv. forseta að taka tillit til þess að níu þm. hér á Alþingi, konurnar sem hér eiga sæti, hafa skrifað undir áskorun til íslenskra kvenna um að leggja niður störf á þessum degi sem hafinn er. Ég bið hæstv. forseta að hlífa okkur konum á Alþingi við því að á sama tíma og við höfum beint áskorun til íslenskra kvenna um að leggja niður vinnu á þessum degi sé okkur gert að halda áfram störfum. Við leggjum mikla áherslu á þennan dag og þau mál sem í brennidepli verða á morgun.

Ég vil biðja hæstv. forseta lengstra orða að verða við ósk minni og fresta 3. umr. þessa máls.