17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

193. mál, stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þinginu 1980-1981 kom fram þáltill. hér um kjör þingmannanefndar er skyldi vinna að auknu samstarfi Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga. Flm. voru þáverandi fulltrúar Íslands hjá Norðurlandaráði, Árni Gunnarsson, Stefán Jónsson, Halldór Ásgrímsson, Sverrir Hermannsson, Matthías Á. Mathiesen og Páll Pétursson. Tillögugreinin hljóðaði þannig:

„Alþingi ályktar að kjósa fjóra þm. í nefnd, einn úr hverjum þingflokki, er hafi það hlutverk ásamt þingmannanefndum frá Færeyjum og Grænlandi að vinna að auknu samstarfi um sameiginleg hagsmunamál þjóðanna.“

Þessi till. var samþykkt á þinginu vorið 1981 og nefndin kjörin. Hliðstæð nefnd var einnig kjörin í Færeyjum, en Grænlendingar, sem þá voru að undirbúa úrsögn úr Efnahagsbandalaginu, frestuðu kjöri sinnar nefndar þangað til í fyrravor. Nokkrir óformlegir undirbúningsfundir höfðu þá verið haldnir með eða án þátttöku Grænlendinga. Í lok september í haust héldu svo þingmannanefndirnar sameiginlegan fund í Nuuk á Grænlandi og þar komum við okkur saman um skipulag samstarfsins og undirrituðum samstarfssamning með fyrirvara um samþykkt Alþingis, Lögþingsins og Landsþingsins.

Til fullnustu þessa samnings af Íslands hálfu flytjum við nefndarmenn í íslensku þingmannanefndinni till. til þál. á þskj. 256 um staðfestingu samkomulags um stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið. Flm. eru núverandi nefndarmenn, Páll Pétursson, Eiður Guðnason, Friðjón Þórðarson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Stefán Benediktsson og Steingrímur J. Sigfússon. Þess ber að geta að hv. þm. Pétur Sigurðsson, sem er kjörinn fulltrúi Sjálfstfl. í nefndinni, gat ekki farið til Grænlands, en varamann hans tilnefndi Sjálfstfl. Friðjón Þórðarson og er hann meðflm. að till. en ekki Pétur sem eins og menn vita er í leyfi frá þingstörfum um sinn.

Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að staðfesta fyrir Íslands hönd samkomulag, sem undirritað var í Nuuk 24. september 1985, um stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið. Samkomulagið er prentað sem fylgiskjal með ályktun þessari.“

Ég mun ekki fara að lesa þetta samkomulag allt. Það liggur hér fyrir á þskj. 256. Ég held að hér sé um merkilegt samstarf að ræða sem sjálfsagt sé fyrir okkur að taka þátt í og það séu miklir hagsmunir bæði Íslands, Færeyja og Grænlands að þetta samstarf þróist og það geti orðið okkur öllum til mikilla hagsbóta. Ég vonast eftir því að till. þessi geti haft greiða leið í gegnum þingið. Ég hef haft samband við formann utanrmn. og hann hefur lofað að greiða fyrir málinu fyrir sitt leyti. Þessi till. er flutt í góðu samkomulagi við utanrrh. og utanrrn. Ég óska sem sagt eftir því að þegar þessari umræðu lýkur hér í dag verði till. vísað, herra forseti, til utanrmn.