17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Skelfing var hún dapurleg þessi ræða hjá hv. 2. þm. Reykv. áðan, en það er kannske ekki við öðru að búast frá honum eins og staðan er öll í kringum hans flokk um þessar mundir. Og auðvitað verður hann að reyna að gjalda þeim fósturlaunin sem hafa stutt hann með ráðum og dáð til forustu í Sjálfstfl.

Það er alveg sama hvað stjórnarandstaðan leggur til að rannsaka af fjárglæfrum, svínaríi og braski í þjóðfélaginu. Það má ekki. Það er bannað. Alþingi má alls ekki koma nálægt því. Það má ekki rannsaka okrið, alls ekki rannsaka okrið, og síst Alþingi. Alls ekki Alþingi eða þingnefnd. Kemur ekki til mála að rannsaka okrið. Hafskip? Útvegsbankann? Má Alþingi kjósa nefnd til að rannsaka Hafskip og Útvegsbankann? Nei, má ekki, bannað. Það er óeðlilegt, fullkomlega óeðlilegt. Innflutningsverslunina sem hefur velt okurlánum yfir á neytendur að undanförnu eins og hv. 10. landsk. þm. minnti á áðan? Má rannsaka hana? Nei, bannað, má ekki rannsaka hana, og síst Alþingi.

Ævinlega er það svo að þegar kemur að þessum aðilum í þjóðfélaginu rís Sjálfstfl. upp og segir: Bannað að rannsaka. - Og af hverju ætli það sé? Af hverju ætli það sé sem Sjálfstfl. vill aldrei láta þingið rannsaka slóðann eftir íhaldsmennina í fjármálakerfinu? Af hverju ætli það sé? Skyldi það vera vegna þess að þessir menn hafi eitthvað að fela eða hvað? Er verið að reyna að breiða yfir hlutina? Er verið að reyna að krafsa yfir óþverrann eða hvað? Af hverju eru þeir svona hræddir? Af hverju þarf alltaf að stökkva upp til handa og fóta eins og hv. þm. Friðrik Sophusson gerir ævinlega þegar lagðar eru til rannsóknir á þessu sukki íhaldsins? Af hverju er það sem hann leggur þá til að það megi alls ekki gerast? Auðvitað er það vegna þess að íhaldið hefur þarna eitt og annað að fela. Það vill ekki láta sjá slóðann sinn. Það vill ekki láta koma í ljós hverjir það eru sem í rauninni ráða og eiga Sjálfstfl. Það má ekki koma í ljós hið sanna í þeim efnum. Fyrirtækjatengslin mega ekki sjást, hvort sem þau heita Hafskip, Staðarstaður, Frjáls fjölmiðlun eða hvað það nú er sem þetta lið breiðir yfir sig og gengur svo fram fyrir fólkið og segir: Frelsi, frelsi. Hvers lags frelsi haldið þið að sé hjá almennum launamanni á Íslandi í dag sem er að undirbúa þá hátíð sem fram undan er með 15-20 þús. kr. á mánuði? Ætli það sé ekki unaðslegt frelsi sem þetta fólk á við að búa, einstæðar mæður og gamalt fólk? Þetta eru líka einstaklingar. Ætli það sé ekki hugsanlegt að peningarnir þessa fólks séu hjá þessum sjoppum sem aldrei má skoða af því að þá er komið við hjartað í íhaldinu, komið við þá sem eiga íhaldið í heilu lagi með holdi og blóði? Það er þess vegna sem aldrei má skoða þessa hluti.

Þess vegna er það eins og hvert annað ómerkilegt kjaftæði, með leyfi hæstv. forseta, þegar það gerist að þm. koma hér upp og segja að það megi ekki flytja tillögur um rannsókn á innflutningsversluninni vegna þess að það hafi ekki verið gert fyrir fjórum, fimm eða sex árum. Því skyldi ekki vera efni til að fara yfir þessa hluti nú? Lítið í kringum ykkur og skoðið aðstæðurnar. Enda kom í ljós að hv. 2. þm. Reykv., varaformaður Sjálfstfl., hafði ekkert á móti till. Hann var hins vegar á móti fylgiskjölunum. Hann var gersamlega á móti fylgiskjölunum, taldi þau í rauninni óbrúkleg að öllu leyti og taldi að þau væru hin mesta vitleysa og alveg ástæðulaust fyrir Alþingi að samþykkja fylgiskjölin. En það hef ég aldrei lagt til. Ég geri hér tillögu um að Alþingi samþykki að fram fari rannsókn á innflutningsversluninni. Það er ekki tillaga um fylgiskjölin, að þau verði samþykkt.

Tillaga er gerð um að það verði kosin níu manna nefnd hlutfallskosningu í Sþ. til að rannsaka málefni innflutningsverslunarinnar og gera tillögur til úrbóta. Af hverju má ekki gera tillögur til úrbóta? Er þetta fullkomið? Er hin endanlega fullkomnun komin í innflutningsverslunina á Íslandi? Er það kannske eina plássið í þjóðfélaginu sem er alveg 100% í lagi? Er ekkert þar sem er í ólagi? Það væri fróðlegt að hv. þm. Friðrik Sophusson gerði grein fyrir þessari vin, þessu eylandi fullkomnunarinnar í íslensku efnahagslífi sem innflutningsverslunin er. Það væri mikil gæfa fyrir hv. Alþingi á þessum skuggalegu og erfiðu tímum að fá upplýsingar um þessa vin, þetta eyland þar sem allt er gott og allt er fullkomið, rétt eins og í Paradís.

Hér er gerð tillaga um það í öðru lagi að kannað verði hvaða ráðstafanir er unnt að gera til að koma í veg fyrir misnotkun gjaldeyris í innflutningsversluninni. Það má kannske ekki. Er hv. þm. Friðrik Sophusson með upplýsingar um að þar sé engin misnotkun og það eigi ekki að kanna neitt slíkt á Íslandi? Af hverju er hann að setja sig á háan hest fyrir Verslunarráðið? Hann þarf þess ekki. Hann er það greindur maður að hann þarf þess ekki. Hann á að geta skoðað hlutina í víðara samhengi.

Hér spyr ég í þriðja lagi: Hvað má ætla að stór hluti þjóðartekna tapist vegna óhagkvæmrar innflutningsverslunar? Er bannað að kanna það mál? Hvað er á móti því? Meiðir það einhvern ef það kæmi nú í ljós að eitthvað tapast vegna óhagkvæmrar innflutningsverslunar?

Hvaða ráðstafanir er unnt að gera til að koma í veg fyrir að þeir sem brotið hafa reglur um innflutnings- og gjaldeyrismál fái verslunarleyfi á ný? Er ekki sjálfsagt að þetta verði athugað og annað í þessari till.? Hv. þm. Friðrik Sophusson mótmælti ekki einu einasta orði í till., en hann mótmælti fylgiskjölunum harðlega, enda var ég ekki að leggja til að hann samþykkti þau.

Ég held að það sé öllum ljóst að orðið hefur veruleg breyting í innflutnings-, verðlags- og gjaldeyrismálum, einkum verðlags- og gjaldeyrismálum, á síðustu árum. Ég hygg að það séu skiptar skoðanir um að hve miklu leyti þær breytingar hafi verið til bóta. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem samkeppni er næg geti verið réttlætanlegt að afnema verðlagsákvæði. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að það er engin samkeppni og ekkert sem heitir frelsi á stórum svæðum í landinu, segjum þar sem einstakar verslanir, einkaverslanir eða kaupfélög, ráða öllu verðlagi vöru og þjónustu í ákveðnu byggðarlagi. Það er ekkert þar sem heitir samkeppni. Þar er fólk neytt til þess að taka því vöruverði sem skammtað er af einokunaraðilum. Það eru engir burðir, engar tillögur uppi um það frá Sjálfstfl. að taka á slíkum einokunaraðilum.

Nú bendir t.d. ýmislegt til þess að Flugleiðir og Eimskip séu að öðlast hér einokunaraðstöðu í samgöngum í vaxandi mæli. Eru einhverjar tillögur um að það sé tekið á því, það sé hert einokunareftirlit? Eru tillögur um það t.d. í fjárlagafrv. að efla afskipti Verðlagsstofnunar af slíkum einokunaraðilum á markaði? Ég sé þær tillögur ekki. En menn hrópa: Frelsi, frelsi. Þetta er frelsi til að okra á fólki í mörgum tilvikum, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir rakti rækilega áðan.

Ég held að þessar hugmyndir, sem hér eru gerðar tillögur um, séu að öllu leyti eðlilegar og þannig að allir eigi að geta samþykkt þær. Það er svo dapurlegt þegar hv. þm. Friðrik Sophusson er ævinlega að reyna að þvo af sér sjálfstæðismennina sem studdu síðustu ríkisstjórn. Það er skrýtið að þessir menn skuli alltaf vera að skamma hv. þm. Friðjón og Pálma undir dulnefninu Svavar Gestsson. Þeir halda aldrei svo ræður um efnahagsmál að það skuli ekki vera ráðist á þessa ágætu menn undir þessu skuggalega dulnefni. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel út af fyrir sig eðlilegt að sjálfstæðismenn geri upp sínar sakir hver við annan. Ég er alveg sannfærður um að þeir hv. þm. Eyjólfur Konráð og Friðrik Sophusson hugsa sumum ónefndum þegjandi þörfina. En að vera ævinlega að bera þetta upp í ræðustól hér á Alþingi með þessum hætti er ekki lengur fyndið. Það er orðið átakanlegt satt best að segja.

Ég veit að vísu að síðasta ríkisstjórn var fleinn í holdi Sjálfstfl. af mörgum ástæðum, fyrst og fremst vegna þess að hún rak pólitík sem hann átti erfitt með að þola á ýmsum sviðum. En ég tel hins vegar að hérna sé um að ræða innanhúsvandamál hjá sjálfstæðismönnum sjálfum oft og tíðum sem þeir ættu að reyna að leysa á sínum vettvangi og bera harm sinn í hljóði en ekki vera að flækjast með þetta hér upp í ræðustól mörgum árum eftir að umrædd ríkisstjórn er hætt að vera til. Óskapleg vanlíðan er þetta. Óskapleg sárindi eru þetta. Ég ráðlegg þessum þm., eins og hv. þm. Friðrik Sophussyni, að reyna að bera harm sinn í hljóði og gera það sem unnt er til að leysa þessi mál innan sinna veggja, en ekki að vera að hjóla í þessa ágætu flokksfélaga sína undir dulnefninu Svavar Gestsson. Það er ekki viturleg bardagaaðferð, herra forseti.