17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. mun vera búinn að tala sig dauðan í þessari umræðu þannig að ekki er sanngjarnt að beina máli sínu sérstaklega til hans öllu lengur. En ég verð að benda hv. þm. á að það gengur ekki að stilla hlutunum þannig upp að þetta sé spurning um sekt eða sakleysi, um eitthvert saknæmt athæfi eða ekki saknæmt. Hver hefur talað um það? Við erum að tala um frammistöðu, hv. þm. Við erum að tala um frammistöðu, góða, lélega eða slæma eftir atvikum. Það er enginn að ásaka innflutningsverslunina um saknæmt athæfi. Við erum einfaldlega að skoða hvort hún standi sig nógu vel. Ég skildi hv. 2. þm. Reykv. þannig að hann teldi að innflutningsverslunin í landinu væri svo góð að ástæðulaust væri að hafa af því áhyggjur og kjósa nefnd til að athuga þau mál, það væri alveg út í hött vegna þess að hún stæði sig svo vel. Ég er ekkert viss um að hún geri það. Ég er ekki þar með að segja að þetta séu glæpamenn. Það er óravegur þar á milli. Það hlýtur alltaf að vera markmið okkar að standa okkur enn betur, hv. þm. Ég er alveg viss um að ef hv. þm. hugsar málið kemst hann að þeirri niðurstöðu að auðvitað stendur innflutningsverslun sig ekki nógu vel. Meðan hún gæti gert betur hljótum við að stefna þangað. Það liggur í hlutarins eðli. Við komumst aldrei í eitthvert eilíft „nirvana“ í þessum efnum. Auðvitað erum við alltaf að reyna að gera betur. Það er það sama og við í Alþb. erum alltaf að gera. Við sjáum um það sjálf að skoða okkar mál og betrumbæta okkar flokk. Þó að mér þyki vænt um umhyggjusemi hv. þm. held ég að við leysum ágætlega þau verkefni sjálf sem lúta að rekstri okkar flokks.

Innflutningsverslunin er hins vegar meira en bara mál Sjálfstfl. eða Alþb. Hún er mál allrar þjóðarinnar. Þess vegna er mjög eðlilegt að frammistaða hennar komi til skoðunar, meðferðar og umræðu á Alþingi. (Gripið fram í.) Það er greinilegt. Ég þakka ábendinguna. Það er einmitt þar sem hundurinn liggur grafinn. Hv. 2. þm. Reykv. er meinilla við að menn úr öðrum flokkum séu nokkuð að ræða um innflutningsverslunina. (Gripið fram í.) Hann vill líta á það sem flokkslegt verkefni Sjálfstfl. að ræða og skoða innflutningsverslunina og lítur á það sem afskiptasemi og framhleypni að menn úr öðrum flokkum séu að hafa skoðun á þeim málum og skipta sér af því. Þess vegna verður hann svo snakillur þegar þessi mál koma til umfjöllunar á Alþingi.

Það er ekki spurning um sekt eða sakleysi. Þetta er spurning um frammistöðu og við getum væntanlega báðir orðið sammála um að menn standi sig aldrei nógu vel í þessum efnum, þ.e. það hljóti alltaf að vera keppikefli okkar að gera enn betur. Ég er alveg viss um að það er hægt að gera betur í innflutningi á vörum til landsins. Það er hægt að gera hann ódýrari, hagkvæmari og betri. Það er einmitt í því augnamiði sem þessi till. er flutt. (FrS: Eigum við ekki að stofna heildsölu saman?) Það gæti vel farið svo, hv. þm., að við mundum grípa til þess ráðs einhvern tíma. Eins og ég hef áður sagt höfum við í Alþb., a.m.k. ég, áhyggjur af því hvað íhaldið er orðið ónýtt að styðja við bakið á einkaframtakinu í landinu. Það getur auðvitað ekki staðið til langframa að þeir komi óorði á það og láti það vera úti að svelta, en standi í því að verja allt aðra hagsmuni.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé óvíða ef nokkurs staðar jafnbrýnt fyrir lífskjörin í þessu landi að taka til höndum og einmitt í innflutningsversluninni. Íslenska þjóðin er svo gífurlega háð utanríkisviðskiptum, bæði í innflutningi og útflutningi, og innflutningur vöru er stór hluti af lífskjörum fólksins í landinu, þ.e. það vöruverð sem við búum við af innflutningnum. Þess vegna er það ekkert einkamál, hvorki Sjálfstfl. né annarra, hvernig þessum málum er háttað. Satt best að segja vekur það furðu manns hvað viðbrögð eru harkaleg og hvað tortryggnin er mikil gegn því að nokkrir þm. Alþb. leggja til könnun í þessum efnum. Það vekur satt best að segja furðu mína, herra forseti, hversu snakillir hv. þm. Sjálfstfl. verða þegar þessi mál ber hér á góma með þessum hætti.