17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég á bágt með að tengja ræðu hæstv. iðnrh. beint við þetta dagskrármál, en að svo miklu leyti sem innflutningur vara á vegum Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis eða á vegum samvinnuhreyfingarinnar snertir þetta dagskrármál er auðvitað ljóst að hann er til rannsóknar alveg eins og annar vöruinnflutningur inn í landið. Það er því ástæðulaust að hafa sérstakar áhyggjur af þeim félagsskap eða þeim aðilum í þessu sambandi.

Talandi um sjúkdóm í einstökum flokkum er auðvitað hægt að fara út í umræður um það hér, herra forseti, en ég get ekki gert það í stuttri athugasemd. Mér finnast þau sjúkdómseinkenni hjá Sjálfstfl. hve hann er viðkvæmur fyrir öllum umræðum um innflutningsverslunina miklu meira áberandi í dag en önnur sjúkdómseinkenni. Ég verð að segja það alveg eins og er. Þeir eru með hita.