17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

167. mál, jarðhiti í heilsubótarskyni

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að halda hér langar ræður á þessum tíma þegar þunnskipaðir eru þingbekkir. En ég tel að hér hafi flm., hv. 2. þm. Reykn., hreyft hinu athyglisverðasta máli. Við höfum nýtt heita vatnið næstum eingöngu á einn veg. En ég er sannfærður um það - og er sammála honum um það - að þar eigum við ónotaða auðlind sem getur haft gífurlega þróunarmöguleika í för með sér sé rétt á málum haldið. En í þessum efnum dugar ekki að hugsa smátt.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar að ef hér væri ákveðið að verja svo sem eins og 500 millj. kr. til þess að byggja upp - sjálfsagt væri rétt að byrja hér á höfuðborgarsvæðinu, t.d. í Laugardalnum þar sem er hin ákjósanlegasta aðstaða og íþróttamiðstöð þegar - til að byggja þar upp aðstöðu sem væri á heimsmælikvarða og ef síðan væri varið kannske eins og 100 millj. af þessum 500 til að kynna þessa aðstöðu - það kann ýmsum að þykja þetta óraunhæfar tölur, en ég hygg að þetta gerist nú ekki öðruvísi - þá er ég alveg sannfærður um að það mætti skapa hingað ferðamannastraum allan ársins hring. Slík miðstöð gæti gefið okkur verulega mikið í aðra hönd og gæti hér orðið eins konar stóriðja í ferðamannamóttöku. Ég hygg að Laugardalurinn í Reykjavík hafi upp á að bjóða allt sem þarf í þessu sambandi. Það hafa líka ýmsir aðrir staðir úti um land. Og án þess að ég lengi þetta nokkuð frekar þá held ég að hér sé mál sem t.d. hið nýja Þróunarfélag gæti tekið að sér. Það hafa verið gerðar athuganir á þessu og þeir sem stunda laugar og böð vita, telja sig a.m.k. vita, um góð áhrif laugarvatnsins, heita vatnsins. Það er sannfæring mín að á þessu sviði eigum við mikla möguleika ónotaða. Við megum í rauninni ekkert tækifæri láta okkur úr greipum ganga til þess að skapa hér ný atvinnutækifæri og afla tekna og ég held að á þessu sviði sé ótvírætt um mjög mikla möguleika að ræða.