17.12.1985
Neðri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 291 hef ég gefið út nál. minni hl. iðnn. hv. Nd. um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Kröfluvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu. Nál. er á þessa leið:

„Frv. þetta fjallar um staðfestingu Alþingis á sölu mannvirkja Kröfluvirkjunar til Landsvirkjunar, en virkjunin hefur undanfarin ár verið rekin af Rafmagnsveitum ríkisins. Fulltrúar Landsvirkjunar og iðnrn. komu á fundi nefndarinnar og veittu upplýsingar.

Spurt var við meðferð málsins:

Í fyrsta lagi hvort RARIK hafi óskað eftir því að Landsvirkjun yfirtæki Kröfluvirkjun. Svarið var að RARIK hefði ekki óskað eftir þessu.

Í öðru lagi var spurt hvort Landsvirkjun hefði óskað eftir því að yfirtaka Kröfluvirkjun. Svarið var aftur neitandi.

Í þriðja lagi var spurt hvort Reykjavíkurborg hefði óskað eftir því að Landsvirkjun yfirtæki Kröfluvirkjun. Svarið var enn neikvætt.

Það liggur því ljóst fyrir að eini aðilinn, sem óskaði eftir breytingu á eignaryfirráðum Kröfluvirkjunar, er ríkið og forráðamenn þess sem hafa ákveðið að taka á ríkissjóð stóran hluta af lánum Kröfluvirkjunar.

Á nefndarfundi upplýsti Einar Tjörvi Elíasson, framkvæmdastjóri Kröfluvirkjunar, að hámarksafl annarrar vélar virkjunarinnar væri 35 mw. Því er unnt að reka þá vél með 30 mw. að jafnaði þannig að vélin dugi til spennujöfnunar og til að auka stöðugleika kerfisins. Með 30 mw. framleiðslu er fullkomlega raunhæft að önnur vélin skili 200-220 gwst. afköstum á ári. Tvær vélar gætu þá skilað yfir 400 gwst. þegar nægrar orku hefði verið aflað en til þess þyrfti væntanlega að bora 11-12 holur til viðbótar. Þess vegna var um það spurt hvert yrði útreiknað kaupverð virkjunarinnar ef reiknað væri með 170 gwst. orkusölu frá annarri vél Kröflu þegar frá næstu áramótum (framleiðslugeta vélarinnar gæti orðið 200-220 gwst.). Ráðuneytisstjóri iðnrn. reiknaði út að þessi eina breyting mundi hækka kaupverðið um 165 millj. kr. Í útreikningum á söluverði virkjunarinnar er hins vegar aðeins reiknað með 125 gwst. orkusölu frá Kröflu næstu tvö árin, 130-160 gwst. á árunum 1988-1991 og aldrei meiri orkusölu en 170 gwst. allt til ársins 2010.

Spurt var að því hvort eitthvert tillit hefði verið tekið til þess við ákvörðun kaupverðs að seinni vélin fylgir með í kaupunum. Þessu var svarað neitandi.

Spurt var hvert yrði kaupverð virkjunarinnar ef reiknað væri með fullri nýtingu fyrri vélar nú þegar og seinni vélar 1989. Þetta dæmi virðist ekki hafa verið reiknað út við samningsgerð og var vísað til óvissu um orkuöflun.

Miðað við að hver ný borhola kosti 40 millj. kr., holurnar yrðu 12 og tengikostnaður væri áætlaður 30 millj. kr. og þessi viðbótarorka kæmi í gagnið í þremur áföngum á árunum 1988-1990 taldi ráðuneytisstjóri iðnrn. að kaupverð Kröfuvirkjunar, reiknað á hliðstæðan hátt að öðru leyti eins og gert er í frv., mundi teljast 388 millj. kr. hærra.

Í ljósi þessara upplýsinga virðist ljóst að útreikningur á kaupverði virkjunarinnar er mjög umdeilanlegur. Auk þess sem að framan greinir er veruleg missmíð á frv. og samningunum sem óhjákvæmilegt er að laga. Kemur það glöggt fram í bréfi Orkustofnunar sem birt er sem fskj. með nál. þessu.

Að öllu þessu athuguðu treysti minni hl. nefndarinnar sér ekki til þess að mæla með samþykkt frv. þessa.“ Undir þetta ritar Svavar Gestsson.

Sem fskj. með nál. er birt bréf orkumálastjóra dags. 16. des. 1985. Í því bréfi segir, með leyfi hæstv. forseta: „Frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Kröfluvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í framhaldi af viðræðum undirritaðs við hv. iðnn. Nd. 16. des. s.l. vill Orkustofnun koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við nefndina:

Við 3. gr. samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um sölu á Kröfluvirkjun.

Í fyrri málsgr. þessarar greinar segir svo:

„Skal óheimilt án samþykkis Landsvirkjunar að stofna þar til annarrar vinnslu er haft geti áhrif á þessa nýtingu.“

Hér er í rauninni um mjög óvenjulegt ákvæði að ræða, eins og fram kom á fundum nefndarinnar, enda segir Orkustofnun síðan, með leyfi forseta:

„Að mati Orkustofnunar getur það varla talist við hæfi að ríkisstjórn þurfi að sækja til fyrirtækis úti í bæ um leyfi til að nýta auðlind í eigu ríkisins. Skiptir þar engu máli þótt um gott og gagnlegt fyrirtæki sé að ræða. Alþingi ætti því ekki að samþykkja samninginn með þessu ákvæði óbreyttu.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt og eðlilegt að hagsmunir Landsvirkjunar séu vel tryggðir í samningi þessum, en það er auðvelt að gera án þess að fá fyrirtækinu í hendur ákvörðunarvald sem eðli málsins samkvæmt á aðeins að vera í höndum ráðherra og/eða Alþingis.

Ekkert liggur fyrir um það nú hvort eða hvenær um verður að ræða nýtingu jarðhita á þeim hluta Kröflusvæðisins sem samningur þessi tekur til, umfram þá sem til þarf til að koma Kröfluvirkjun í 70 mw. afköst. Vel má þó hugsa sér að til slíks geti komið síðar meir og rétt að taka tillit til slíks möguleika í samningi þessum. Slík nýting kann að hafa áhrif á þá sem fyrir er því að alkunna er að borholur geta haft áhrif hver á aðra á sama jarðhitasvæði. Fer það þó eftir atvikum, svo sem stærð svæðisins, þéttleika borhola og mörgu öðru. Því er það að mati Orkustofnunar æskilegt að nýtingaraðilar jarðhita á Kröflusvæðinu, eins og öðrum jarðhitasvæðum, séu sem fæstir, en ekki er ávallt unnt að komast hjá að þeir séu fleiri en einn ef nýta á jarðhitasvæði að verulegu marki. Hliðstæður vandi er þekktur í olíuvinnslu.

Af þessum sökum telur Orkustofnun að marka eigi þá stefnu í samningi þessum að ríkið veiti Landsvirkjun forgangsrétt til jarðhitavinnslu umfram þarfir 70 mw. rafstöðvar á samningssvæðinu. Verði gerður sérstakur samningur um slíka umframvinnslu ef til hennar kemur. Aðeins ef Landsvirkjun óskar ekki að nýta slíkan forgangsrétt eða ekki takast samningar um hann veiti ríkið öðrum heimild til vinnslu eða annist hana sjálft. Í þessu síðast talda tilviki þarf að tryggja Landsvirkjun að hafi slík nýting annars aðila áhrif á vinnslu hennar skuli hann afhenda Landsvirkjun, henni að kostnaðarlausu, jafnmikla gufu með sama hita og þrýstingi og nemur rýrnun á vinnslu hennar af völdum þessa nýja vinnsluaðila ef um hana verður að ræða.“

Af þessum ástæðum er það sem Orkustofnun leggur til að þetta ákvæði verði fellt úr samningnum og í staðinn tekið upp nýtt ákvæði sem gerð er grein fyrir í nál. mínu, fskj. á bls. 2.

Ég vísa hv. þm. á þetta fskj. - ég hygg að það skýri málið nægilega vel - og bendi á að meiri hl. hv. iðnn. hefur komið til móts við sjónarmið orkumálastjóra í nál. meiri hl. á þskj. 288. En þar segir, eins og hv. frsm. rakti hér áðan:

„Nefndin leggur þann skilning í fyrri málsgr. 3. gr. samningsins að önnur vinnsla en sú, sem Landsvirkjun á rétt til skv. samningnum, sé háð samkomulagi aðila. Ekki ber að túlka greinina þannig að í henni felist afsal á eignarrétti ríkisins yfir jarðhitaréttindum á Kröflusvæðinu umfram jarðvarma sem svarar til 70 mw. í raforkuframleiðslu.“

Ég tel að með þessari yfirlýsingu nefndarinnar sé mjög komið til móts við sjónarmið orkumálastjóra en ég bendi á að þessi yfirlýsing er einhliða. Þetta er yfirlýsing sem gefin yrði af Alþingi eða þeim aðilum sem hafa með þetta mál að gera nú á Alþingi og það liggur ekki fyrir hver er afstaða annarra eignaraðila Landsvirkjunar, þ.e. Reykjavíkurborgar og Akureyrar, til þessara breytinga sem hér er lagt til að gerðar verði á samningnum. Af þeim ástæðum treysti ég mér ekki til að greiða þessu frv. atkvæði eins og það liggur hér fyrir.

Varðandi 7. gr. samningsins þá hlýtur hún einnig að vekja mikla athygli. Þar stendur á bls. 6, með leyfi forseta:

„Verði jarðhræringar, eldsumbrot eða aðrar náttúruhamfarir á Kröflusvæðinu, er valda verulegu tjóni á Kröfluvirkjun eða einstökum hlutum hennar, skuldbindur ríkið sig til að greiða Landsvirkjun allan kostnað sem leiðir af tjóninu og þeirri röskun á rekstri virkjunarinnar, sem því er samfara. Með tjóni er hér einnig átt við skemmdir á einstökum borholum, þar með talin minnkun eða stöðvun á gufustreymi úr þeim. Þessi greiðsluskylda ríkisins takmarkast við ógreiddar eftirstöðvar kaupverðs skv. 5. gr., eins og þær eru með verðbótum og vöxtum í gjalddaga á því ári, er tjónið verður, og fer greiðslan fram með greiðslujöfnuði við skuldabréfið.“

Hér er m.ö.o. gert ráð fyrir því að allt það tjón sem kann að verða vegna hvers konar jarðhræringa, eldsumbrota eða náttúruhamfara - allt það tjón sem kann að verða á virkjuninni verði greitt af ríkinu þrátt fyrir söluna. Landsvirkjun er m.ö.o. algerlega fríuð við að bera nokkra áhættu þau 25 ár sem hún er að greiða eftirstöðvar af virkjunarverðinu. Ég held að þetta sé algerlega óvenjulegt ákvæði í samningum eða lögum um virkjanir. Ég minnist þess ekki að það sé tekið fram í slíkum ákvæðum annars staðar að ríkið beri í rauninni alla ábyrgð og Landsvirkjun enga. Auðvitað er skilt skeggið hökunni í þessu efni og ríkið á mikilla hagsmuna að gæta í Landsvirkjun. Engu að síður hygg ég að þetta sé óvenjulegt ákvæði og ég hef ekki heyrt neina skýringu á því sem er fullnægjandi að mínu mati.

Með þessu frv. er auðvitað fyrst og fremst verið að taka ákvörðun um hverjir það eru sem eiga að greiða á næstu árum fjármagnskostnað af Kröfluvirkjun. Eru það skattgreiðendur í landinu eða eru það þeir sem kaupa raforku? Niðurstaðan hefur orðið sú að það eigi að vera skattgreiðendur að stærri hluta en áður hefur verið gert ráð fyrir. Hér er verið að færa til byrðar með ákveðnum hætti í þjóðfélaginu. En ég hygg að það sé sanngjarnt að láta það koma hér fram, af minni hálfu alla vega, að auðvitað varð að taka um þetta ákvarðanir til framtíðar. Hitt kann hins vegar að vera álitamál og er það í mínum huga hvort það var rétt að afhenda Landsvirkjun endilega þessa virkjun. Það er álitamál sem hefur verið fjallað um áður og niðurstaða ríkisstjórnarinnar hefur orðið sú að Landsvirkjun skuli taka þennan rekstur á sig. Það er samkomulag um það við eignaraðilana, ekki aðeins við ríkið heldur einnig við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ, og ég hygg að á báðum stöðunum hafi þessi mál verið samþykkt ágreiningslítið, bæði í borgarstjórn Reykjavíkur og í bæjarstjórn Akureyrar, þannig að mikil vinna hefur verið lögð í þetta mál og það er ljóst að fleiri en ríkisstjórnin hafa komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að Landsvirkjun yfirtaki virkjunina.

En með tilliti til þeirra meinbuga og galla sem ég hef rakið á þessu tel ég að það sé ekki mitt hlutverk að greiða fyrir því að þetta mál fari hér með þessum hætti í gegnum þingið. Og ég vil endurtaka að það er sérstaklega vegna fyrri málsgr. 3. gr. í samningnum og vegna þess ákvæðis sem ég vitnaði til í 7. gr. sem ég hygg að sé óvenjulegt.

Það er svo umhugsunarefni, ekki aðeins út af þessum samningi heldur ýmsum öðrum málum sem verið er að leggja hér fyrir háttvirt Alþingi, að það er komið með þessi mál svona í pakka fyrir þingið. Það er sagt: Þetta er uppgert mál, það er búið að semja um þetta við þennan og semja um þetta við hinn. Og iðulega eru það þannig að þingið verður svo að segja að stimpla þessi mál. Ég er ekki að kenna núverandi ríkisstjórn um það að hún hafi brotið upp á þessu og haft um það forustu að koma þessum, mér liggur við að segja, ósið á. Þetta hefur verið svona um mjög langt árabil. Það er mjög óþægilegt fyrir þingið að láta stilla sér svona upp við vegg. Þingið á engra annarra kosta völ í þessu máli en að segja annaðhvort já eða nei við öllu plagginu eins og það leggur sig. Ég hef þess vegna stundum velt því fyrir mér hvort það er ekki nauðsynlegt að íhuga einhverja aðild þingsins sjálfs að samningsgerð um eignir ríkisins og réttindi af því tagi sem hér eru tillögur um meðan málið er á undirbúningsstigi. Vissulega er ríkisstjórn þingræðisstjórn og sækir vald sitt til meiri hluta Alþingis. En þegar mál eins og þetta koma til þingsins þá kemur nærri alltaf í ljós að betur sjá augu en auga og það er eitt og annað sem betur hefði mátt fara. Þess vegna held ég að það væri verkefni fyrir þá, sem vilja taka störf Alþingis hátíðlega, að íhuga með hvaða hætti er unnt að tryggja þátttöku þingsins og þm. í undirbúningi mála af þessu tagi þannig að þingið skynji það ekki svo, með réttu eða röngu, að því sé stillt upp við vegg.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir áliti minni hl. iðnn.