17.12.1985
Neðri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er rangt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að með þessu frv., eins og það liggur fyrir, sé lagt til að verðjöfnunargjaldið verði áfram 16%. Eins og frv. liggur fyrir fellur verðjöfnunargjaldið niður og verður 0 frá og með 1. janúar n.k. Að vísu gerir tillaga iðnrh., sem meiri hl. nefndarinnar hefur mælt með, ráð fyrir því að lögin um verðjöfnunargjald verði framlengd út árið 1986. En í 2. gr. laganna, eins og þau nú standa, stendur að verðjöfnunargjald skuli vera 16% árið 1985. Ekkert verðjöfnunargjald annað er sem sagt í lögunum. Eins og ríkisstj. er nú að ganga frá þessu máli og Ed. hefur samþykkt það og öll iðnn. hefur nú mælt með mun því verðjöfnunargjaldið falla niður að öllu leyti hinn 1. janúar n.k. Þá skiptir auðvitað engu máli hvort lögin eru í gildi áfram einu árinu lengur eða skemur ef gjaldtaka skv. þeim á engin að vera.

Það kemur kannske úr hörðustu átt að ég skuli verða hér til að bjarga ríkisstj. í þessu máli. En þegar ég fór að skoða málið komst ég að því að hér voru miklir meinbugir á ferðinni hjá ríkisstj. Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður þess að verðjöfnunargjald væri hátt eða yfirleitt lagt á og reyndar tekið þátt í störfum nefndar, eins og hér hefur komið fram, sem hefur haft það markmið og hefur verið sett það fyrir af hálfu iðnrh. að finna leiðir til að afnema verðjöfnunargjald af raforku. Til þess að svo geti orðið þarf auðvitað fleira til að koma. Þar hafa verið reifaðar ýmsar leiðir eins og koma fram í nál. nefndar sem skipuð var til þessa verkefnis, nefndar til endurskoðunar á verðjöfnunargjaldi af raforku.

En nú virðist liggja ljóst fyrir að ekki sé hugmyndin af hálfu ríkisstj. að grípa til neinna þeirra aðgerða sem nefndin hefur bent á til að draga úr þörfinni fyrir verðjöfnunargjald eða afnema það. Þess vegna sýnist mér ekki stætt á því að láta það gerast, sem ríkisstj. virðist nú hafa ætlað sér að láta gerast, að vísu óviljandi, að verðjöfnunargjaldið félli með öllu niður. Þess vegna hef ég flutt hér brtt. sem, ef samþykktar yrðu, mundu fela það í sér að hér yrði þó eitthvert verðjöfnunargjald áfram. Hins vegar hef ég komist að þeirri niðurstöðu af starfi mínu í nefnd til endurskoðunar á verðjöfnunargjaldi af raforku að hægt sé að stíga eilítið skref til lækkunar á gjaldinu.

Þeir sem leggja það á sig að skoða álit nefndarinnar munu komast að því - og á það er bent í séráliti mínu sem nefndin var svo vinsamleg að prenta sem fskj. - að skv. fskj. 4 í áliti þessarar nefndar munu Rafmagnsveitur ríkisins geta komist af með verðjöfnunargjald sem er 14% skv. sínum eigin útreikningum og skv. þeim forsendum sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa sjálfar gefið, m.a. varðandi fjárfestingu. Það er því ekki ástæða til að vera með verðjöfnunargjaldið nema 14% skv. þeim útreikningum.

Afkoma Orkubús Vestfjarða getur ekki skipt sköpum í þessu sambandi vegna þess að hún kemst hvort eð er ekki af með 16%, það þarf eitthvað sérstakt til að koma að því er það fyrirtæki varðar. Það þarf að eiga sér stað skuldbreyting hvort heldur verðjöfnunargjaldið er 14% eða 16%.

Ég hef sem sagt gert till. um það að á árinu 1986 verði verðjöfnunargjaldið 14%. Ég tel það eðlilegt miðað við þá útreikninga sem liggja fyrir og á sama hátt þó að ég kysi að það væri unnt að lækka verðjöfnunargjaldið meira sé ég ekki forsendurnar til þess þó að það geti verið og eigi að vera framtíðarmarkmið.

Þetta bjargar þó allavega því að verðjöfnunargjaldið fellur ekki niður um áramótin eins og stjfrv. gerir ráð fyrir og eins og iðnn. þessarar deildar hefur mælt með og Ed. samþykkt.

Í annan stað leg ég til að á 8. gr. laganna eigi sér stað svolítil breyting. Í 8. gr. laganna stendur að ekki skuli greiða verðjöfnunargjald af raforku seldri til Áburðarverksmiðju ríkisins, Íslenska álfélagsins hf., Íslenska járnblendifélagsins hf. og til húshitunar. Það er þetta „og til húshitunar“ sem ég tel nauðsynlegt að verði breytt. Sannleikurinn er nefnilega sá að allar rafveitur á landinu og yfirstjórn raforkumála hafa á undanförnu ári og líklega undanförnum árum verið að brjóta lög vegna þess að þessu er ekki framfylgt með þeim hætti að það taki eingöngu til húshitunar heldur hefur því verið framfylgt þannig að það nái til allrar rafhitunar, til iðnaðar þó einkanlega, og eins hefur það verið framkvæmt þannig að varmadælur væru undanþegnar verðjöfnunargjaldi. Það er ástæðulaust að hafa ákvæðið í lögum öðruvísi en menn treysta sér til að framkvæma það. Það er skýringin á því að það hefur verið framkvæmt eins og ég hef gert grein fyrir. Þess vegna er nauðsynlegt og eðlilegt, svo ekki komi til árekstra vegna þess að framkvæmdin rekist á við lagabókstafinn, að breyta orðalagi þannig að í stað orðsins „húshitunar“ í 8. gr. laganna komi: rafhitunar eða varmadælna.

Í þriðja lagi legg ég til að við 8. gr. bætist svohljóðandi málsgrein:

„Þá skal ekki greiða verðjöfnunargjald af raforku seldri til hitaveitna vegna dælingar á heitu vatni, til skipa í höfnum eða til fiskeldisstöðva vegna vatnsdælingar.“

Tvö hin fyrri atriði, verðjöfnunargjald af dælingarkostnaði á heitu vatni hjá hitaveitum og til skipa, hafa mjög oft verið til umræðu. Sú nefnd sem ég vitnaði til, sem vann að endurskoðun á verðjöfnunargjaldi af raforku, lagði til að hvað sem öllu öðru liði teldi hún nauðsynlegt að þessar undantekningar yrðu gerðar og mælti eindregið með því og hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða. Þetta varðar jafnræði í hitunarkostnaði og við vitum reyndar að mjög margar rafveitur í landinu standa höllum fæti og getur munað um þessa fjármuni.

Í annan stað hefur verið oftlega um það rætt hér í þessum sölum og úti í þjóðfélaginu að til að spara olíukostnað ætti að hvetja til þess að skip notuðu innlenda orkugjafa þegar þau eru í höfn. Þróun í þá átt hefur verið ákaflega treg. Ein skýringin er að raforkan, sem verið er að biðja um að skipin kaupi, er skattlögð úr hófi. Hér má stuðla að skynsamlegri þróun með því að taka ekki verðjöfnunargjald af þessari raforkusölu. Hér er heldur ekki um neinar stórfjárhæðir að ræða, reyndar smáræði eitt. En það getur haft áhrif að því er þróunina varðar.

Ég hef svo bætt við 3. liðnum í þetta undantekningarákvæði þar sem eru fiskeldisstöðvar. Fiskeldi er nú mjög í uppbyggingu og ég held að það sé samdóma álit allra þm. að menn vilji stuðla að framförum í þeirri grein og að greinin geti fengið að njóta sín. Hún þarf helst á stuðningi að halda meðan hún er á bernskuskeiði og það er hún nú. Þess vegna getur skipt verulegu máli að ríkisvaldið komi eilítið til móts við þessa grein með því að skattleggja ekki með verðjöfnunargjaldi þá raforku sem þessar stöðvar nota til vatnsdælingar, en hér er um verulega raforku að ræða. Hér eru reyndar nýir viðskiptaaðilar á ferðinni sem ekki hafa verið tekjustofnar að undanförnu og þess vegna í rauninni ekki um skerðingu að ræða á þeim tekjum sem fengjust af verðjöfnunargjaldi miðað við það sem menn hafa haft að undanförnu, heldur mundi álagning verðjöfnunargjalds á raforkusölu til fiskeldisstöðva vegna vatnsdælingar vera hreinn viðbótarskattur í þjóðfélaginu, viðbótartekjur af verðjöfnunargjaldi.

Ég sagði að stöðvarnar gæti munað verulega um þetta. Sannleikurinn er sá að þrjár stærstu stöðvarnar á Reykjanesi munu að líkindum nota ekki bara nokkur kílówött heldur heilt megawatt af raforku,1/35 af afkastagetu Kröfluvirkjunar eða 1/30 eftir því hvernig menn vilja reikna það, sem sagt mjög verulegt raforkumagn. Ég legg hér til að þetta verði undanþegið.

Herra forseti. Í séráliti mínu, sem nefndin var svo vinsamleg að koma til skila sem fylgiskjali með nál. núna, er bent á ýmis önnur atriði, t.d. þau að nauðsynlegt sé að endurskoða og endurmeta þær gjaldskrár sem í gildi eru. Það vekur nefnilega athygli og kemur reyndar fram í áliti nefndarinnar að meðalverð raforku er mun hærra hjá ýmsum öðrum rafveitum en Rafmagnsveitum ríkisins. Þetta geta menn séð t.d. í fskj. 9. Þar kemur í ljós að mjög margar rafveitur eru með meðalraforkuverð sem er hærra en það sem Rafmagnsveitur ríkisins eru með til sinna notenda. Þessar rafveitur eru á Húsavík, í Hveragerði, á Selfossi, Eyrarbakka, Suðurnesjum, Sauðárkróki, Stokkseyri, Borgarnesi og í Hafnarfirði. Það hlýtur að vekja til umhugsunar um það hversu langt menn geti gengið í því að skattleggja þessar rafveitur til að greiða niður raforkuverð hjá rafveitu sem er með lægra meðalverð. Hluti af skýringunni liggur í því hversu þungt rafhitun vegur í orkusölu Rafmagnsveitna ríkisins, en það getur ekki verið nema hluti af skýringunni vegna þess að svonefndur marktaxti, sem lítillega er gerð grein fyrir í öðru fskj. með þessu frv., er líka þannig úr garði gerður að meðalverð samkvæmt reiknuðu dæmi í því tilviki er lægra en meðalverð á raforku seldri til iðnaðar til stórra véla. Hér er þess vegna nauðsyn sérstakrar athugunar og við það geri ég athugasemd í séráliti mínu.

Ég skal ekki fara út í önnur atriði sérálitsins né heldur þann ágreining sem var milli mín og meiri hl. þessarar sérstöku nefndar um endurskoðun á verðjöfnunargjaldi á raforku að því er varðaði þá tillögu sem hún mælti með til að afnema verðjöfnunargjaldið. Það skiptir ekki meginmáli í þessu sambandi, en þar taldi ég nefndina ganga of langt og skal það liggja á milli hluta.

Meginatriði þessa máls eru þá af minni hálfu þrjú. Ég legg til að verðjöfnunargjaldið haldi áfram, en verði ekki afnumið eins og ríkisstjórnin hefur gert tillögu um. Ég legg til að það verði 14% í stað þess að stjfrv. eins og það liggur nú fyrir gerir ráð fyrir að verðjöfnunargjaldið verði 0%. Ég legg til að í stað „húshitunar“ komi: rafhitunar eða varmadælna, þannig að lögin séu í samræmi við framkvæmdina. Og ég legg til í þriðja lagi að ekki verði gert að greiða verðjöfnunargjald af raforku sem er seld til dælingar hjá hitaveitum, dælingar á heitu vatni, af raforku sem seld er til skipa í höfnum eða til fiskeldisstöðva vegna vatnsdælna.

Vænti ég þess að þetta mál fái farsæla afgreiðslu og þær brtt. sem ég hef hér mælt fyrir fái góðan framgang.